Nýtt náttúrufræðisafn í Danmörku – 12 milljarða króna jólagjöf úr einkasjóðum

Årets julegave: 550 mio. kr. fra private fonde sikrer nyt naturhistorisk museum“ þannig hljóðar fyrirsögnin í nýlegri fréttatilkynningu á heimasíðu Náttúrufræðisafns Danmerkur, Statens Naturhistoriske Museum (tengill hér). Stjórnvöld í Danmörku hafa um hríð haft á stefnuskrá sinni að setja aukið fé í þetta höfuðsafn sitt á sviði náttúrufræða og styrkja sérstaklega stoðir þess varðandi sýningahald og miðlun fróðleiks og upplýsinga um náttúru. Með rausnarlegum framlögum nokkurra danskra sjóða í einkageiranum, m.a. frá Villumsjóðnum og Novo Nordisk, að upphæð 550 m. DKR., sem svarar til um 12 milljarða ÍSKR., hefur framkvæmd verkefnisins verið tryggð. Alls er áætlað að verkefnið muni kosta um 20 milljarða kr., um 950 m. DKR., og er stefnt að opnun fullbúins safns árið 2020.

indgang_nyt_naturhistorisk_museum_snm

Inngangurinn að nýju Náttúrufræðisafni Danmerkur á mótum Øster Voldgade og Sølvgade skammt frá Jónshúsi.

Nýja safnið er myndað með samruna þriggja safna sem eru Grasafræðisafnið (Botanisk Museum), Jarðfræðisafnið (Geologisk Museum) og Dýrafræðisafnið (Zoologisk Museum) og verður það staðsett á lóð Grasagarðsins (Botanisk Have) meðfram Gothersgade, Øster Farimagsgade, Sølvgade og Øster Voldgade. Þetta svæði er Íslendingum að góðu kunnugt en Jónshús er skammt frá við Sølvgade.

Einn stærsti sýningasalurinn og meginþema í sýninghaldinu verður tileinkað hvölum, en í fórum Dýrafræðisafnsins í Kaupmannahöfn er meðal annars að finna beinagrindur fágætra hvalategunda frá Íslandi. Hvalasýningin verður í stórri glerhvelfingu í húsnæðinu gegnt Ríkislistasafninu (Statens Museum for Kunst) á mótum Øster Voldgade og Sølvgade og er hugmyndin að vegfarendur geti séð hvalina frá götu jafnt að degi sem nóttu.

Dönum er óskað er til hamingju með þennan myndugleik á sviði menningar og fræðslu. Það er jafnframt óskandi að íslenskum stjórnvöldum auðnist að feta í fótspor Dana og geri vel við sitt höfuðsafn á sviði náttúrufræða, Náttúruminjasafn Íslands, þannig að sómi sé af.

 

Málstofa um söfn og háskólastarf

Rannsóknasetur í safnafræðum við Háskóla Íslands boðar til málstofu um þýðingu safna fyrir háskólastarf á Íslandi þann 5. desember 2014 milli klukkan 15 og 17. Málstofan fer fram í Þjóðminjasafni Íslands.

Söfn og háskólar

Hvaða þýðingu hafa söfn fyrir háskóla landsins við upphaf 21. aldar að mati sex safnstjóra? Um þetta munu fjalla í pallborðsumræðum sex safnstjórar, þau Hafþór Ingvason Listasafni Reykjavíkur, Ólöf K. Sigurðardóttir í Hafnarborg, Bjarni Guðmundsson Landbúnaðarsafni Íslands, Unnur Birna Karlsdóttir Minjasafni Austurlands, Hilmar J. Malmquist Náttúruminjasafni Íslands og Anna Lísa Rúnarsdóttir Þjóðminjasafni Íslands.

Megin spurningar sem leitað verður svara við í málstofunni eru meðal annars; með hvaða hætti hafa söfn og háskólastofnanir átt í samstarfi á undanförnum árum og áratugum, hvaða áskoranir standa söfn frammi fyrir í vaxandi háskólastarfi á sviðum þeirra, hvaða þýðingu hefur samvinna þeirra við háskóla fyrir íslenskt samfélag og með hvaða hætti sjá þeir samstarfið þróast á næstu árum.

Málstofan er öllum opin og eru nemendur og kennarar háskólanna í landinu hvattir sérstaklega til að mæta.

Gert við Loftskeytastöðina

Að undanförnu hafa iðnaðarmenn unnið að viðgerðum á gluggabúnaði í kjallara Loftskeytastöðvarinnar. Gluggabúnaður á 1. hæð hússins verður einnig tekinn fyrir og eru verklok áætluð um næstu áramót. Verkið er á könnu Þjóðminjasafns Íslands sem leigir Náttúruminjasafninu Loftskeytastöðina.

2014-12-03 15.03.35

Smiðirnir Björn Þór Baldursson og Guðlaugur Jón Gunnarsson sinna viðhaldi á gluggabúnaði Loftskeytastöðvarinnar. Desember 2014.

Viðhald á Loftskeytastöðinni hefur ekki verið sem skyldi og stefndi í óefni vegna leka og rakavandamála. Tréverk í mörgum gluggum hefur fúnað og morknað og steypuskemmdir eru hér og þar. Framtak Þjóðminjasafnsins er því fagnaðarefni.

Bágt ástand sæmir ekki jafn gömlu og virðulegu húsi sem Loftskeytastöðin er. Húsið er hartnær 100 ára, var vígt 17. júní 1918, og teiknað af Einari Erlendssyni trésmiði, byggingarfræðingi, byggingafulltrúa Reykjavíkur og aðstoðarmanni húsameistara ríkisins þeirra Rögnvaldar Ólafssonar og Guðjóns Samúelssonar. Sjálfur gegndi Einar starfi húsameistara ríkisins á árunum 1950-54.

Byggingarlag og útlit Loftskeytastöðvarinnar er kennt við reykvíska steinsteypuklassík eins og fræðast má um í Morgunblaðsgrein frá 17. júlí 2006 um Einar og hans verk.