Að kunna jörð og berg að opna og aftur að lykja …

Náttúruminjasafnið hefur gengið til liðs við nýjan samstarfsaðila á sviði náttúrusögu og gert samkomulag við Viðar Hreinsson bókmenntafræðing og rithöfund um stuðning safnsins við rannsókn Viðars á náttúruskyni og náttúruskilningi 17.aldar manna. Vinnuheiti verkefnisins er Að kunna jörð og berg að opna og aftur að lykja. Jón Guðmundsson lærði og náttúrur náttúrunnar á 17. öld.

27v_28r_JS 401 XI a-e 4to

Úr handriti Jóns lærða Guðmundssonar Ein stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur (27v_28r_JS 401 XI a-e 4to.). Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

Viðar Hreinsson

Stefnt er að ritun 400–500 blaðsíðna bókar og verður hún fræðilega traust, nýstárleg og við hæfi almennings, eins og fyrri verk Viðars eru til vitnis um. Í bókinni birtist náttúruskyn 17. aldar í gegnum hugarheim hins sjálfmenntaða fræðimanns, skálds og málara Jóns Guðmundssonar lærða (1574–1658) en hann skrifaði fyrstu lýsingu á náttúru Íslands sem til er á íslensku. Ævi Jóns myndar söguþráð en grunntónn verksins verður samband hans og samtíðar við náttúruna í víðu hugmyndafræði-legu samhengi.

Viðar hefur unnið að verkinu frá árinu 2011 en stefnt er að útgáfu haustið 2016. Ráðgert er að þýða verkið á Norðurlandamálin og þýsku á næstu árum.

Mikill fengur er að þessu samstarfi fyrir Náttúruminjasafnið. Eitt og annað hefur verið ritað um náttúrusögu frá árdögum náttúrufræðinnar á Íslandi en hér að líkindum í fyrsta skipti tekist á við efnið með skipulegum hætti þar sem náttúrusýn landsmanna fyrr á öldum er rannsökuð á heildstæðan hátt og í víðu samhengi með samanburði milli landa.

(more…)

Smyrill

Smyrill

Smyrill 17

Sungu með mér svanur, örn,
smyrill, kría, haukur.
Keldusvín og krummabörn,
kjói og hrossagaukur.

Þjóðvísa

 

 

Útlit og lífshættir

Íslensk fuglafána er fátæk af ránfuglum. Aðeins þrír eiginlegir ránfuglar verpa hér, ein arnartegund og tvær fálkategundir. Smyrillinn er algengasti íslenski ránfuglinn, líkur fálka en miklu minni. Karlfuglinn er blágrár að ofan, með dekkri vængbrodda og dökkan stélsenda, ryðrauður að neðan og á hnakka, svartrákóttur á bringu og kviði, með ljósbrúna kverk og skálmar. Hann er minni en kvenfuglinn, eins og tíðkast hjá ránfuglum. Kvenfugl og ungfugl á fyrsta vetri eru dökkbrún að ofan, sterkrákótt að neðan en grunnliturinn er hvítur eða mógulur. Stélið er dökkbrúnt með mógulum rákum. Bæði kyn eru með óljósa skeggrák. Goggurinn er krókboginn, grár með gulri vaxhúð, fætur eru gulir, dauflitari á ungfugli en fullorðnum. Augu eru dökkbrún.

Smyrill 28

Smyrillinn er lipur og harðfylginn veiðifugl sem flýgur hratt yfir móa og grundir og þreytir oft bráð sína með því að elta hana. Vængjatökin eru hröð og flugið létt, hann svífur sjaldan og hnitar lítið. Ýmist sjást fuglarnir stakir eða í pörum. Síðsumars, þegar ungarnir eru nýfleygir og farnir að takast á við lífið uppá eigin spýtur, halda systkin stundum hópinn og æfa sig í að veiða saman. Þá leika þeir sér að bráðinni, fljúga með hana í loft upp, sleppa og æfa sig í að hremma hana á leið til jarðar. Smyrlar eru mest áberandi á þessum árstíma, síðsumars og á haustin.

Smyrill 30

Lífshættir

Fæðan er aðallega fuglar af ýmsum stærðum, frá þúfutittlingum og uppí dúfur, en þó aðallega smáfuglar, bæði fullorðnir og ungar. Fuglana slær hann oftast á flugi. Tekur einnig hagamýs.

Smyrill hreiður

Smyrillinn verpur á láglendi í klettum, svo sem giljum, gjáveggjum og gígum, stundum líka í bröttum brekkum. Hreiðurgerð er engin, heldur krafsar hann grunna hreiðurskál á gróna syllu eða klettabrún og notar stundum gömul hrafnshreiður. Hann verpur í hentugu búsvæði um land allt, þó ekki á hálendinu. Á veturna er smyrillinn helst við þéttbýli. Meirihluti stofnsins hefur vetursetu á Bretlandseyjum og í V-Evrópu, fáeinir fuglar hafa vetursetu hér og sjást víða um land. Íslenski stofninn er talinn vera 1000-1200 pör. Varpheimkynni smyrils eru um norðanverða N-Evrópu og N-Ameríku.

Smyrill 11

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú geymir ekki margt um smyrilinn. „Smyrillinn er rétt smámynd af fálka, svo er hann líkur honum að öllu útliti, grimmd, hörku og snarpleika. Hann er líka kallaðaur dvergfálki. Mikilsvert þótti töfra og galdramönnum að ná í smyrla til ýmissa töfragagna [tunga smyrils átti að hjálpa mönnum að skilja fuglamál]“. Íslenskar þjóðsögur og –sagnir IV, Sigfús Sigfússon.

Um tilurð heitis fuglsins eru ýmsar langsóttar kenningar, en það þekkist einnig í færeysku, sbr. skipafélagð Smyril-line, sem rekur Norrænu. Gamalt heiti á smyrli er litli skratti.

Smyrill 37

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.