Útlit og atferli
Stokköndin er algeng, stór buslönd sem flestir kannast við. Steggurinn, grænhöfðinn, er með glansandi dökkgrænt höfuð og háls, neðst á hálsi er hvítur hálshringur og neðan hans tekur við rauðbrún bringan. Búkur og vængir eru gráleit, dekkri og brúnleitari að ofan en neðan. Undirstél og undirgumpur eru svört, stélið hvítt og gumpurinn svartur með tveimur krókfjöðrum fyrir miðju. Í felubúningi er hann dekkri en kolla, sérstaklega á höfði, og goggur gulleitari. Ungfuglar taka á sig lit fullorðinna fugla strax á fyrsta hausti. Kollan er öll brúnflikrótt, með ljósara höfuð og bringu. Höfuð og háls eru fínlega rákótt, með dekkri koll og augnrák. Bæði kyn hafa dökkbláa vængspegla með hvítum og svörtum bryddingum. Goggur steggs er gulgrænn með svartri nögl, goggur kollu daufgulrauður eða ólífubrúnn, oft með flekkjum. Fætur beggja kynja eru rauðgulir og augu dökk.
Stokkönd er stærst og þéttvöxnust buslandanna og oftast auðgreind. Hún flýgur hratt með grunnum vængjatökum og flýgur snöggt upp af vatni með bröttu uppflugi. Hún á auðvelt með gang og gengur í láréttri stöðu. Hún leitar sér ætis með því að hálfkafa með bakhlutann upp í loft, aðeins með haus og háls undir yfirborði, eða hún tínir æti úr vatnsborði. Steggurinn yfirgefur kolluna meðan hún liggur á og safnast steggirnir í hópa til að fella flugfjaðrir. Pörun stendur síðan yfir allan veturinn fram á vor.
Er venjulega hávær, garg kollunnar er rámt „bra-bra“ en steggurinn er hljóðlátari, flautar í biðilsleikjum.
Lífshættir
Stokkönd er bæði plöntu- og dýraæta. Hálfkafar eða buslar eftir smádýrum, fræjum, rótum og sprotum á grunnu vatni, leitar einnig ætis á þurru landi. Kollur um varptímann og ungar lifa aðallega á dýrafæðu (t.d. rykmýslirfum og -flugum) fyrstu vikurnar. Kafar stundum.
Verpur í margs konar kjörlendi, þó aðallega í og við votlendi á láglendi, oft nærri mannabústöðum. Hreiðrið er venjulega vel falið í gróðri, milli steina eða þúfna, í drasli o.s.frv., gert úr grasi og fóðrað með dúni. Urptin er 6–12 egg, álegan tekur um 4 vikur og ungarnir verða fleygir á 7–9 vikum. Stokkendur fella flugfjaðrir á vötnum og tjörnum girtum stör. Eru á veturna við strendur en einnig á íslausu ferskvatni.