Hekla

Hekla

Hekla

Hekla

Hekla er eitt virkasta og þekktasta eldfjall á Íslandi. Fyrr á tímum var Hekla talin dyrnar að helvíti og jafnvel að þar væri helvíti sjálft að finna. Hekla er um 1.500 metra há megineldstöð í samnefndu eldstöðvakerfi. Megineldstöðin sjálf er um 20 km löng og 10 km breið, en eldstöðvakerfi Heklu er mun umfangsmeira og um 60 km langt.

Hekla er svokallaður eldhryggur og er auðþekkjanleg í landslaginu þar sem hún er í laginu eins og bátur á hvolfi. Hekla hefur orðið til í síendurteknum eldgosum í Heklugjá, en svo nefnist gossprungan sem liggur eftir hryggnum endilöngum.

 Íslandskort Guðbrands biskups Þorlákssonar frá árinu 1590, þar sem Hekla er teiknuð eins og dyr að helvíti. (Sótt á vef Íslandskorts).

 Íslandskort Guðbrands biskups Þorlákssonar frá árinu 1590, þar sem Hekla er teiknuð eins og dyr að helvíti. (Sótt á vef Íslandskorts). 

 Hekla í Rangárvallasýslu er merkt með rauðum punkti á kortið.

Hekla í Rangárvallasýslu er merkt með rauðum punkti á kortið (kortagrunnur frá Landmælingum Íslands). 

 Hekla. Úr lofti sést hryggjarlag fjallsins vel og liggur það með sömu stefnu og sprungur á svæðinu. (Gervitunglamynd frá NASA og USGS).

 Hekla. Úr lofti sést hryggjarlag fjallsins vel og liggur það með sömu stefnu og sprungur á svæðinu. (Gervitunglamynd frá NASA og USGS). 

Hekla séð úr Þjórsárdal. Frá þessu sjónarhorni er hún eins og bátur á hvolfi.

Hekla séð úr Þjórsárdal. Frá þessu sjónarhorni er hún eins og bátur á hvolfi. 

Eldgos í Heklu eru nokkuð tíð og eru oftast svokölluð blandgos en þá hefst gos á sprengigosi með öskufalli og endar í flæðigosi með hraunflæði. Blandgos og sprengigos koma aðallega úr megineldstöð Heklu en flæðigosin úr Heklukerfinu sem er sprungurein eldstöðvakerfisins. Efnasamsetning gosefna í Heklugosum er allt frá því að vera basísk til súr.
Í stórum, súrum sprengigosum í Heklu hefur orðið til mikið magn af gjósku sem leiddi til þess að þykk gjóskulög lögðust yfir landið með tilheyrandi gróðureyðingu. Sem dæmi má nefna að Hekla-3 gjóskan var um 12 km3 að rúmmáli og er gosið talið eitt af þeim stærstu á síðastliðnum 10.000 árum. Til samanburðar var rúmmál gjóskunnar frá Eyjafjallajökli 2010 einungis 0,27 km³.

Gossaga Heklu frá árinu 1104. Mörg eldri gos eru þekkt.

Ár Gerð eldgoss   Ár Gerð eldgoss
2000 Blandgos   1636 Blandgos
1991 Blandgos   1597 Blandgos
1980-1981 Blandgos   1554 Flæðigos*
1970 Blandgos   1510 Blandgos
1947-1948 Blandgos   1389 Blandgos
1913 Flæðigos*   1341 Blandgos
1878 Flæðigos*   1300 Blandgos
1845 Blandgos   1222 Blandgos
1766-1768 Blandgos   1206 Blandgos
1725 Flæðigos*   1158 Blandgos
1693 Blandgos   1104 Sprengigos

*Úr Heklukerfi

Jarðvegssnið þar sem sjá má fjögur algeng leiðarlög. Ljósu gjóskulögin eru Hekla-4 og Hekla-3, þau dökku og yngri eru Katla (1.150 ára gamalt) og Landnámslagið úr Bárðarbungu-Veiðivatnakerfinu (1.079 ára).

Jarðvegssnið þar sem sjá má fjögur algeng leiðarlög. Ljósu gjóskulögin eru Hekla-4 og Hekla-3, þau dökku og yngri eru Katla (1.150 ára gamalt) og Landnámslagið úr Bárðarbungu-Veiðivatnakerfinu (1.079 ára). 

Í sprengigosum framleiðir Hekla mikið af gjósku. Víða um land má finna gjóskulög frá nútíma, þ.e. frá síðustu ~10.000 árum, sem komið hafa frá Heklu og er meirihluti súrra gjóskulaga hér á landi úr Heklugosum. Gjóskulögin eru mikilvæg í gjóskulagafræði eða gjóskutímatali þar sem skilgreind eru svokölluð leiðarlög eða gjóskulög sem finnast víða um land og eru auðþekkjanleg. Dæmi um mikilvæg leiðarlög frá Heklu eru gjóskulögin Hekla-5 (7.000 ára gamalt), Hekla-4 (4.260 ára) og Hekla-3 (3.000 ára) en þessi gjóskulög finnast í jarðvegi víða um land og eru súr og því ljós að lit. Út frá leiðarlögunum eru jarðlagasnið og atburðir eins og eldgos tímasettir. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur (1912–1983) var frumkvöðull í gjóskulagafræði og sýndi fram á mikilvægi hennar við vísindalegar rannsóknir. Í dag er gjóskulagafræði notuð í ýmsum fræðigreinum, t.d. jarðfræði, loftslagsfræði og fornleifafræði.

 Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur á Heklutindi árið 1948.

Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur á Heklutindi árið 1948. 

Aukin þekking og vöktun á virkum eldfjöllum auðveldar vísindamönnum að segja til um upphaf eldgosa með einhverjum fyrirvara. Heklugosið árið 2000 var með fyrstu gosum sem spáð var fyrir um. Ríkisútvarpið tilkynnti í fréttum kl. 18 þann 29. febrúar 2000 að Heklugos væri yfirvofandi og rúmlega fimmtán mínútum síðar hófst gosÞessi atburður leiddi í ljós hve mikilvægt það er að vakta virk eldfjöll í því skyni að koma skilaboðum fljótt áleiðis til almennings, en um það sjá Veðurstofa Íslands og Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. 

Hekla séð frá Búrfelli. Algengt er að toppurinn á Heklu sé hulin skýjum.

Hekla séð frá Búrfelli. Algengt er að toppurinn á Heklu sé hulin skýjum. 

Ítarefni

Guðrún Larsen & Jón Eiríksson 2008. Holocene tephra archives and tephrochronology in Iceland – a brief overview. Jökull 58. 229–250.

Guðrún Larsen & Sigurður Þórarinsson 1977. H4 and other acid Hekla layers. Jökull 27. 29–46.

Guðrún Larsen & Þorvaldur Þórðarson 2019. Hekla. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 1.4.2020 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=HEK#.

Morgunblaðið 2000. Viðvörun um Heklugos. Sótt 1.4.2020 af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/521461/

Sigurður Þórarinsson 1971. Aldur ljósu gjóskulaganna úr Heklu samkvæmt leiðréttu geislakolstímatali. Náttúrufræðingurinn 41. 99–105.

Sigurður Þórarinsson 1968. Heklueldar. Prentsmiðja Jóns Helgasonar, Reykjavík.

 

Vetrarsteinbrjótur

Vetrarsteinbrjótur

Vetrarsteinbrjótur

Vissir þú að vetrarsteinbrjótur, öðru nafni vetrarblóm, blómgast fyrst allra plantna í apríl eða byrjun maí? Blómin eru lítil en áberandi rauðfjólublá. Vetrarsteinbrjótur er mjög harðgerð planta sem vex um allt land og hefur fundist í ríflega 1600 m hæð.

Náttúruminjasafnið tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2020

Náttúruminjasafnið tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2020

Sýning Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru Íslands, hefur hlotið tilnefningu til Íslensku safnaverðlaunanna 2020. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun afhenda verðlaunin 18. maí n.k. í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Athöfninni verður streymt á samfélagsmiðlum.

Fimm sýningar og/eða verkefni keppa um verðlaunin að þessu sinni og bárust valnefnd 47 ábendingar um 34 verðug verkefni. Það eru Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) sem standa saman að Íslensku safnaverðlaununum sem veitt eru annað hvert ár fyrir framúrskarandi starfsemi.

Forvitnileg og fagleg miðlun

Í umsögn segir:

Mat valnefndar er að sýning Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands höfði til fjölbreytts hóps gesta á ólíkum aldri þar sem mikilvægri þekkingu á sviði safnsins er miðlað til þeirra á forvitnilegan, faglegan og gagnvirkan hátt. Það er mikilvægt að höfuðsafn á sviði náttúruminja sé sýnilegt almenningi. Grunnsýningin er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Opið á ný í Perlunni

Sýning Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru Íslands, var opnuð 1. desember 2018. Sýningar í Perlunni hafa verið lokaðar í samkomubanninu undanfarnar vikur, en nú eru þær aftur opnar alla daga vikunnar frá kl. 12 – 18. Minnt er á tímabundna sýningu safnsins á sama stað um Rostunga, en hún var opnuð rétt áður en samkomubannið skall á.

Aðrir keppendur

Auk Náttúruminjasafnsins hlutu tilnefingu sýningin Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi á Egilsstöðum sem þrjú austfirsk söfn standa að; ný grunnsýning Sjóminjasafnsins, Fiskur og fólk – sjósókn í 150 ár; sýningar Listasafns Reykjavíkur, 2019 – ár listar í almannarými og loks Varðveislu- og rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafnsins ásamt Handbók um varðveislu safnkosts.

.

Sýningar safnsins í Perlunni opna á ný 4. maí

Sýningar safnsins í Perlunni opna á ný 4. maí

Náttúruminjasafn Íslands mun opna að nýju sýningar sínar VATNIÐ í náttúru Íslands og ROSTUNGAR í Perlunni 4. maí n.k. Til að byrja með verður opnunartími frá 12–18 alla daga vikunnar en mögulegt er að bóka skólaheimsóknir frá kl. 9 á virkum dögum og eru skólahópar boðnir sérstaklega velkomnir.

Viðfangsefni skólahópanna verður með venjubundnum hætti: VATNIÐ sem auðlind, ár og árgerðir, veður og loftslag, myndun og mótun lands, líffræðilegur fjölbreytileiki, þróun lífvera og margbreytileiki votlendis. Hér má fá frekari upplýsingar og bóka skólahópa (linkur)

Við vekjum sérstaka athygli á glænýrri og áhugaverðri sérsýningu safnsins um ROSTUNGA en hún er á sömu hæð og sýningin VATNIÐ í náttúru Íslands.

Nýleg rannsókn, sem Náttúruminjasafn Íslands átti frumkvæði að og vann með fleiri vísindastofnunum, varpar alveg nýju ljósi á tilvist rostunga til forna við Ísland. Rannsóknin staðfestir að á Íslandi lifði séríslenskur rostungsstofn í árþúsundir en hann dó út á landnámsöld, 800–1200 e.Kr.

Á sýningunni er þessum merkilegu niðurstöðum gerð skil og fléttað saman við umfjöllun um líffræði rostunga almennt og útbreiðslu þeirra í dag, sem og við nytjar af rostungum til forna og hugsanlegum þætti þeirra í landnámi Íslands.

 

Hornsíli

Hornsíli

Hornsíli

Vissir þú að hornsíli eru algengustu fiskar í fersku vatni á Íslandi? Þau er nær alls staðar að finna, í tjörnum, ám en líka í sjó. Hornsílin eru aðeins 4–6 sm löng. Bak- og kviðuggar hafa umbreyst í gadda og í stað hreisturs eru hornsíli með brynplötur til varnar. Hornsíli hrygna á vorin og fram á sumar. Þá breyta hængarnir um lit og verða skærrauðir á kviði. Þeir helga sér óðul og gera sér kúlulaga hreiður sem er opið í báða enda. Hængurinn lokkar til sín hrygnur sem hrygna í hreiðrið, hann sprautar sæði yfir eggin og frjógvar þau. Hrygnan kemur ekki nálægt umönnun hrogna eða seiða en hængurinn ver hreiðrið og reynir að laða þangað fleiri hrygnur