Lífshættir
Aðalfæða krossnefs er grenifræ, en einnig furu- og lerkifræ, sem hann nær úr könglum með „sérhönnuðum“ goggnum. Einnig smádýr, t.d. skordýralirfur. Krossnefir koma stundum í fræ sérstaklega sólblómafræ, þar sem fuglum er gefið.
Kjörlendi krossnefs er greniskógar, en hann finnst einnig í furu- og lerkiskógum. Lítið er vitað um varphætti hans hér á landi. Varptími er sérstakur en hann fylgir þroska grenifræja og fuglarnir geta orpið árið um kring. Hérlendis virðist aðalvarptími krossnefs vera frá útmánuðum og fram á haust en jafnframt eitthvað yfir háveturinn. Hann gerir sér hreiður á grein í barrtré, venjulega í nokkurri hæð. Hreiðrið er karfa, gróf yst, og fóðruð með fínna efni. Eggin eru 3–5 og tekur útungun 14–15 daga. Ungarnir eru 20–25 daga í hreiðrinu áður en þeir verða fleygir. Krossnefur verpur nokkrum sinnum yfir árið.
Útbreiðsla og ferðir
Krossnefur er staðfugl hérlendis. Hann varp hér fyrst í desember 1994 og aftur sumarið 2006, stök pör í bæði skiptin. Næst er vitað um varp veturinn 2008 til 2009 en þá urpu mörg pör og víða um land (Hérað, Suðurland, Suðvesturland og Vesturland). Varpið hefur haldið áfram síðan og hefur Norðurland bæst við útbreiðslusvæðið. Stofninn er talinn vera 200–500 varppör og má telja að krossnefur hafi öðlast fullan þegnrétt í íslenskri náttúru.
Fuglarnir eiga það til að leggjast í flakk að loknu varpi og fara þá langt út fyrir heimkynni sín og m.a. til Íslands. Þeir koma stundum í stórum hópum og sjást víða um land. Þetta er kallað rásfar.
Uppruni krossnefs er í barrskógabelti Evrasíu og Norður-Ameríku, en hann hefur numið land í barrskógum víða um heim í kjölfar rásfars.
Þjóðtrú og sagnir
Þar sem krossnefurinn er einn af okkar yngstu landnemum finnst hann ekki í þjóðtrúnni og engin skáld hafa ort um hann – enn sem komið er.