Straumvötn

Straumvötn

Vissir þú að lindár, dragár og jökulár hafa hver sín ólíku einkenni. Lindár renna jafnt allt árið, rennsli dragáa fylgir úrkomu og lofthita og jökulárnar bólgna í takt við jökulleysingu á sumrin og hlaupa sumar reglulega vegna eldsumbrota undir jökli.

Opnun nýrrar sérsýningar

Opnun nýrrar sérsýningar

Opnun nýrrar sérsýningar

Náttúruminjasafn Íslands opnar sérsýninguna Rostungurinn 14. mars n.k. í Perlunni. Vegna COVID-19 faraldursins verður ekki boðið til opnunar sýningarinnar sem er opin alla daga milli kl. 9 og 22 og stendur til 8. nóvember 2020.

Nýleg rannsókn, sem Náttúruminjasafn Íslands átti frumkvæði að og vann með Háskóla Íslands, Fornleifafræðistofunni, Ævari Petersen, Háskólanum í Kaupmannahöfn og Háskólanum í Groningen, varpar alveg nýju ljósi á tilvist rostunga til forna við Ísland. Með C-14 aldursgreiningu og erfðagreiningu á beinaleifum rostunga frá Íslandi hefur í fyrsta skipti verið staðfest að hér á landi lifði sérstakur íslenskur rostungsstofn í nokkur þúsund ár, allt fram til 800–1200 e.Kr., þegar hann leið undir lok. Á sýningunni er þessum merkilegu niðurstöðum gerð skil og fléttað saman við umfjöllun um líffræði rostunga almennt og útbreiðslu í dag, sem og við nytjar af rostungum til forna og hugsanlegum þætti þeirra í landnámi Íslands.

Sýningin er unnin í samstarfi við m.a. Bjarna F. Einarsson fornleifafræðing, Bergsvein Birgisson bókmennta- og norrænufræðing og Snæbjörn Pálsson, prófessor og stofnerfðafræðing.  Sýningarhönnun: Visionis, Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir og Ingibjörg Jara Sigurðardóttir. Grafísk hönnun: Ingi Kristján Sigurmarsson.

Gulönd

Gulönd

Gulönd (Mergus merganser)


Gulönd telst til andfuglaættbálksins, auk anda tilheyra honum svanir og gæsir. Þessir fuglar tilheyra síðan allir sömu ættinni, andaætt. Gulönd telst til fiskianda. Karlfuglinn er ávallt stærri en kvenfuglinn hjá andfuglum, og hjá öndum er hann yfirleitt mun skrautlegri. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá þá svonefndan felubúning, sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi um haustið, eftir að þeir verða fleygir að nýju.

 

Gulandarsteggur á Elliðaám.

Gulandarkolla á Elliðaám.

Gulandarsteggir á Elliðaám.

Útlit og atferli

Gulöndin er stundum nefnd stóra systir toppandarinnar og er stærsta íslenska ferskvatnsöndin. Fullorðinn steggur virðist í fjarska svartur að ofan en hvítur að neðan. Aðallitur er hvítur með rjómagulum eða laxableikum blæ. Höfuðið er dökkgrængljáandi með úfnar hnakkafjaðrir í stað topps. Bakið er svart og afturendi grár. Í felubúningi líkist hann kollu en er dekkri að ofan og ljósari á síðum. Kollan er með gráan búk og rauðbrúnt höfuð. Einfaldur, stríður hnakkatoppur, hvít kverk og skörp skil á hálsi milli brúna og gráa litarins greina hana frá toppandarkollu, auk stærðarinnar, blágrárri búks og rauðleitara höfuðs. Bæði kyn eru með stóra hvíta vængreiti sem þó eru stærri á steggnum og ekki skiptir eins og á toppönd. Goggur beggja kynja er langur, mjór og rauðlitaður með svarta nögl. Fætur eru einnig rauðleitir og augu brún.

 

 

 

Gulandarpar á flugi við Ölfusá.

Gulandarsteggur á Elliðaám.

Gulandarpar á flugi við Elliðavatn.

Lífshættir

Gulönd er fiskiæta, kafar eftir smásilungi, laxaseiðum og hornsíli. Á sjó tekur hún m.a. marhnút og annan smáfisk. Tekur dýfur þegar hún kafar.

Kjörlendi er við stöðuvötn og straumvötn þar sem fisk er að finna. Hreiðrið er í gjótu eða skúta í klettum eða bökkum, einnig í runnum og lyngi eða jafnvel í gömlum húsum og hrafnshreiðrum. Urptin er 8–11 egg, álegan er 30–35 dagar og ungarnir verða fleygir á nærri 10 vikum. Hún er aðallega inn til landsins á ferskvatni á veturna, þar sem ekki leggur, en einnig á sjó, sérstaklega í frosthörkum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Gulönd verpur um land allt, þar sem búsvæði hennar er að finna og er talin staðfugl. Helstu vetrarstöðvar eru m.a. á opnu vatni á Innnesjum, Suðurlandsundirlendinu, Meðallandi, Landbroti og á Norðausturlandi. Stærsti hópur vetursetufugla er á Mývatni. Meira en helmingur allra gulandarsteggja í Evrópu fella flugfjaðrir í Finnmörku í N-Noregi og er talið að íslenskir steggir eða hluti þeirra felli þar. Íslenski stofninn er talinn vera um 300 pör. Varpheimkynni gulandar er á breiðu belti um allt norðurhvel jarðar.

Gulandarkolla með hálfstálpaðan unga á Mývatni.

Friðun og veiðar

Gulönd er alfriðuð og hefur verið lengi. Hún er samt með alstyggustu fuglum og er auðséð á hegðun hennar, að þar er ekki öllum reglum fylgt. Talið er að hagsmunaðilar í fiskeldi eða ræktun í ám líti á gulöndina sem keppinaut og stuggi við henni. Stofninn er lítill og hæpið að hún geri mikinn skaða.

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og um flestar aðrar endur, fjallar íslensk þjóðtrú ekki mikið um gulöndina. Víða eru endur taldar veðurvitar og hér hefur borið við, að þær finni á sér eldsumbrot eða jarðhræringar.

„Styggar“ gulendur á Ölfusá.

Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson

Náttúruminjasafnið tekur þátt í Safnanótt

Náttúruminjasafnið tekur þátt í Safnanótt

Safnanótt verður haldin föstudaginn 7. febrúar frá kl. 18 – 23 og er hluti af Vetrarhátíð. Náttúruminjasafnið tekur að sjálfsögðu þátt í viðburðinum og munu vísindamenn og safnkennarar taka á móti gestum á sýningu okkar Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni.  Sýningin fjallar um vatn í öllum sínum myndum, um fjölbreytileik vatnsauðlindarinnar, lífríkið sem í vatninu býr, vistþjónustu vatns og hlutverk þess við mótun lands og myndun. Miðlun efnis er sérstaklega sniðin að yngri kynslóðinni. Safnkennarar og vísindamenn taka á móti gestum og miðla fræðslu og spjalla um þessa dásamlegu auðlind. Hægt verður að sulla í vatnsborði, skoða vatnabjöllur, uppgötva hvernig vatnsþrýstingur virkar og margt fleira.

Krossnefur

Krossnefur

Krossnefur (Loxia curvirostra)


Spörfuglar (Passeriformes) eru langstærsti ættbálkur fugla. Um 60% hinna rúmlega 9700 fuglategunda sem þekktar eru í heiminum tilheyra honum. Af þeim eru þó aðeins 12 tegundir spörfugla sem verpa hér á landi að staðaldri og fáeinar til viðbótar eru sjaldgæfir eða óreglulegir varpfuglar. Einangrun landsins, skógleysi og vætusöm veðrátta eru taldar helstu ástæður fyrir þessum rýra hlut spörfugla í íslenskri fuglafánu.

Með aukinni skógrækt hefur þeim fuglum fjölgað sem reyna hér varp. Hin torsótta farleið til og frá landinu, 800 km yfir opið haf, veldur því m.a. að litlir stofnar farfugla eiga erfitt uppdráttar. Það eru vafalaust mikil afföll í hafi af þeim fuglum sem ekki geta sest á sjó til að hvíla sig, eins og spörfuglum og smávöxnum vaðfuglum. Stofnar gamalgróinna íslenskra farfugla í smærri kantinum eru stórir og sterkir og þola því nokkur afföll. Þeir fuglar sem hafa numið hér land undanfarin hundrað ár eða svo og eru jafnframt farfuglar, eru aðallega sundfuglar og geta sest á sjó. Smærri landnemar, eins og stari, glókollur, svartþröstur og krossnefur, eru að hluta til eða öllu leyti staðfuglar.

Krossnefskarl á Selfossi.

Krossnefskerla tekur flugið í Heiðmörk.

Ungur krossnefur, líklega kvenfugl, á Selfossi.

Útlit og atferli

Krossnefur er sérkennileg, stór finka með stóran gogg, skoltarnir ganga á misvíxl og ber fuglinn nafn sitt af því. Goggurinn er sérhæfður til að ná fræjum úr könglum. Karlfuglinn er oftast hárauður með dekkri vængi, en getur einnig verið appelsínugulur eða jafnvel grænn. Kvenfuglinn er grágrænn með gulgrænan gump og ungfugl er sterkrákóttur, grábrúnn eða mógrænn. Augu eru svört, fætur gráir eða grábrúnir og goggur eru dökk, en neðri skolturinn er oft ljósari.

Krossnefur er félagslyndur utan varptíma. Hóparnir fljúga milli könglabúnta í trjátoppum og hafa hátt á flugi, en eru hljóðlátir þegar þeir eta. Flugið er bylgjótt.

Krossnefskarl með gulu ívafi í Grímsnesi.

Krossnefskarl með gulu ívafi í Grímsnesi.

Nýfleygur krossnefsungi nartar í birkifetalirfur á Hofi í Öræfum.

Krossnefskerling í Grímsnesi.

Krossnefsungi etur sólblómafræ í Grímsnesi. Hann er aðeins farinn að taka lit.

Lífshættir

Aðalfæða krossnefs er grenifræ, en einnig furu- og lerkifræ, sem hann nær úr könglum með „sérhönnuðum“ goggnum. Einnig smádýr, t.d. skordýralirfur. Krossnefir koma stundum í fræ sérstaklega sólblómafræ, þar sem fuglum er gefið.

Kjörlendi krossnefs er greniskógar, en hann finnst einnig í furu- og lerkiskógum. Lítið er vitað um varphætti hans hér á landi. Varptími er sérstakur en hann fylgir þroska grenifræja og fuglarnir geta orpið árið um kring. Hérlendis virðist aðalvarptími krossnefs vera frá útmánuðum og fram á haust en jafnframt eitthvað yfir háveturinn. Hann gerir sér hreiður á grein í barrtré, venjulega í nokkurri hæð. Hreiðrið er karfa, gróf yst, og fóðruð með fínna efni. Eggin eru 3–5 og tekur útungun 14–15 daga. Ungarnir eru 20–25 daga í hreiðrinu áður en þeir verða fleygir. Krossnefur verpur nokkrum sinnum yfir árið.

Útbreiðsla og ferðir

Krossnefur er staðfugl hérlendis. Hann varp hér fyrst í desember 1994 og aftur sumarið 2006, stök pör í bæði skiptin. Næst er vitað um varp veturinn 2008 til 2009 en þá urpu mörg pör og víða um land (Hérað, Suðurland, Suðvesturland og Vesturland). Varpið hefur haldið áfram síðan og hefur Norðurland bæst við útbreiðslusvæðið. Stofninn er talinn vera 200–500 varppör og má telja að krossnefur hafi öðlast fullan þegnrétt í íslenskri náttúru.

Fuglarnir eiga það til að leggjast í flakk að loknu varpi og fara þá langt út fyrir heimkynni sín og m.a. til Íslands. Þeir koma stundum í stórum hópum og sjást víða um land. Þetta er kallað rásfar.

Uppruni krossnefs er í barrskógabelti Evrasíu og Norður-Ameríku, en hann hefur numið land í barrskógum víða um heim í kjölfar rásfars.

Þjóðtrú og sagnir

Þar sem krossnefurinn er einn af okkar yngstu landnemum finnst hann ekki í þjóðtrúnni og engin skáld hafa ort um hann – enn sem komið er.

Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson