Mikilvægi náttúrunnar í forgrunni

Náttúruminjasafn Íslands vinnur nú að undirbúningi og frumhönnun á náttúrusýningu í um 350 m2 rými á milligólfi á nýrri 2. hæð í aðalrými Perlunnar. Verkefnið er fyrri áfangi af tveimur og er skv. samkomulagi sem undirritað var 27. júní s.l. milli fulltrúa Perlu norðursins ehf. og Náttúruminjasafns Íslands.

Fyrsta fundinn sátu (frá vinstri): Droplaug Ólafsdóttir, Margrét Hugadóttir, Sólrún Harðardóttir, Bryndís Sverrisdóttir, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Skúli Skúlason, Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir, Hilmar J. Malmquist, Snorri Sigurðsson og Sigrún Helgadóttir. Ljósm. ÁI.

Í gær boðaði Náttúruminjasafnið til fyrsta fundar til undirbúnings sýningahaldinu en á fundinum voru fulltrúar í sýningarstjórn ásamt fræðslu- og fagráði, en nokkrir voru utan bæjar eða í sumarfríi. „Þetta var góður fundur, hópurinn samtaka og margar fínar hugmyndir á lofti“, sagði Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður safnsins. „Markmiðið er að gestir sýningarinnar upplifi aðdáun og væntumþykju um náttúru landsins og fræðist um mikilvægi náttúrunnar og náttúrulegra ferla sem undirstöðu lífs og forsendu fyrir farsælli búsetu í landinu.“

Fyrri áfanginn felst í skilgreiningu á innihaldi og efnistökum sýningarinnar, frumhönn­un á framsetningu sýningaratriða, kostnaðaráætlun um framleiðslu og uppsetningu, lýsingu á að­gangs­­stýringu og gestaflæði um rýmið ásamt framkvæmdaáætlun fram að opnun sýningarinnar sem er fyrirhuguð 1. maí 2018. Þessum áfanga skal vera lokið eigi síðar en 15. október 2017. Fáist verk­efnið fjármagnað í meðförum Alþingis á haustdögum tekur við annar áfangi sem felst í fullnaðar­hönnun sýningarinnar, framleiðslu og í kjölfarið uppsetningu.

Sýningarstjórn

Sýningarstjórn í fyrri áfanganum skipa Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir sýningahönnuður og sýningar­stjóri verkefnisins, Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, Skúli Skúlason pró­fessor, Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor, Bryndís Sverrisdóttir safnfræðingur og Álfheiður Ingadóttir líffræðingur ritstjóri verkefnisins. Sýningarstjóri fer fyrir sýningarstjórn.

Fag- og fræðsluráð

Hlutverk fag- og fræðsluráðs er að vera sýningarstjórn til ráðgjafar í fyrri áfanga um efnistök og inni­hald sýningarinnar á vegum safnsins. Fag- og fræðsluráð skipa: Árni Hjartarson jarðfræðingur, Bryndís Marteinsdóttir líffræðingur, Droplaug Ólafsdóttir líffræðingur, Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur, Margrét Hugadóttir kennari, Sigrún Helgadóttir líffræðingur og kennari, Sólrún Harðardóttir námsefnishöfundur, Snorri Sigurðsson líffræðingur og Snorri Baldursson líffræðingur.

Náttúrufræðingurinn er kominn út

Út er komið 1.–2. hefti 87. árgangs Náttúrufræðingsins, félagsrits Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Í heftinu, sem er 88 bls., er að venju fjölbreytt efni um náttúru landsins og spennandi rannsóknir á hinum ýmsu þáttum hennar.

Forsíða nýja heftisins.

Forsíðugreinin er að þessu sinni um Viðhorf ferðamanna til raflína í náttúru Íslands. Höfundarnir, Þorkell Stefánsson og Anna Dóra Sæþórsdóttir, könnuðu viðhorf ferðamanna á sjö stöðum á landinu þar sem virkjanir eru til skoðunar. Almennt eru ferðamenn neikvæðir gagnvart raflínum skv. niðurstöðum þeirra, sérstaklega á hálendinu. Þá kom fram töluverður munur á viðhorfum eftir þjóðerni og er andstaðan við raflínur mest meðal íslenskra ferðamanna.

Ferðamenn eru einnig til umfjöllunar í leiðara sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson ritar og nefnist: Ferðaþjónusta og náttúruvernd. Guðmundur Ingi hvetur til þess að brugðist verði við vaxandi ferðamannastraumi með uppbyggingu innviða, ítölu á viðkvæmum svæðum, uppbyggingu ferðaþjónustu utan verndarsvæða og að friðlýsingum verði beitt sem stjórntæki í ferðaþjónustu.

Aðrir höfundar greina eru: Ásta Rut Hjartardóttir og Páll Einarsson, Ólafur S. Ástþórsson, Haraldur Ólafsson, Jón Einar Jónsson, Jóhann Örlygsson og Sean Michael Scully, Helgi Hallgrímsson og Bergþóra Sigurðardóttir.

Ritstjóri Náttúrufræðingsins er Álfheiður Ingadóttir.

Hér má sjá efnisyfirlit heftisins.

Og hér eru ítarlegri upplýsingar um efnið og eldri hefti.

Vistgerðir á Íslandi

Náttúrufræðistofnun Íslands og samstarfsaðilar hennar hafa kortlagt og gert aðgengilega í kortasjá flokkun þurrlendis, ferskvatns og fjöru í 105 vistgerðir sem ná til 64 vistgerða á landi, 17 í ám og vötnum og 24 í fjörum. Í verkefninu, Natura Ísland, eru vistgerðirnar skilgreindar, þeim lýst og þær flokkaðar auk þess sem útbreiðsla þeirra á landinu og stærð er birt á vistgerðakorti.

33 nýjar íslenskar vistgerðir

Gulstararfitjavist við Kirkjuból í Korpudal fyrir botni Önundarfjarðar. Hávaxin gulstör er ríkjandi en með henni vaxa m.a. hrafnaklukka, skriðlíngresi og skriðstör. Ljósmynd: Sigmar Metúsalemsson.

Flokkun í vistgerðir byggir að mestu á evrópska EUNIS-flokkunarkerfinu, en þar sem náttúra Íslands er um margt ólík náttúrufari annars staðar í Evrópu þurfti að skilgreina 33 nýjar vistgerðir sem eru einstakar fyrir Ísland, þar af 10 í ferskvatni, t.d. jökulvötn, tegundarík kransþörungsvötn og súr vötn, sem eru gígvötn með hveravirkni í botni. Aðeins eru þekkt tvö súr vötn á Íslandi, Grænavatn og Víti. Sérstæðasta vistgerðin á þurrlendi er gulstararfitjavist sem finnst á sléttum flæðilöndum við sjó. Hún er mjög fágæt.

Blávatn í gíg Oksins, jökulvatn sem fannst árið 2007. Horft er í suður af norðanverðum gígbarminum efst á Okinu. Ljósmynd: Hilmar J. Malmquist.

Sandmaðksleira í Hvalfirði. Hraukar sandmaðksins sjást yfirleitt vel á yfirborði. Ljósmynd: Sigríður Kristinsdóttir.

Kortasjá með vistgerðum

Þetta er í fyrsta skipti sem heildarflokkun vistgerða byggð á samræmdri og viðurkenndri flokkun vistgerða í Evrópu fer fram á Íslandi og birtast niðurstöðurnar í sérstakri vefsjá á vef NÍ en einnig í ritinu Vistgerðir á Íslandi. Á vefnum og í ritinu er að finna lýsingu á hverri vistgerð, ljósmyndir og útbreiðslukort á staðreyndasíðum.

Nýr grunnur fyrir umhverfismat og landnýtingu

Mikil vettvangsvinna og stórir gagnagrunnar liggja að baki niðurstöðunum og ljóst að verkefnið er ekki aðeins grunnur að frekari kortlagningu á náttúru Íslands og vöktun heldur felst einnig í afurðinni mikilvægur og nýr grundvöllur að ákvarðanatöku um skipulag, mati á umhverfisáhrifum verklegra framkvæmda, svo sem orkuvinnslu og vegagerð sem og landnýtingu almennt; náttúruvernd, skógrækt og landgræðslu.

Grunnur að lýsingu og kortlagningu vistgerða á Íslandi á vegum Náttúrufræðistofnunar var lagður um aldamótin með rannsóknunum á miðhálendinu og síðan hafa bæst við önnur svæði á hálendi, láglendi, ferskvatni og fjöru. Verkefnið er unnið í samstarfi við fjölda einstaklinga og stofnanir á sviði náttúrufræða en samstarfsstofnanir voru Náttúrufræðistofa Kópavogs, Náttúrustofur, Skógrækt ríkisins og Landmælingar Íslands.

Útbreiðslukort og verndargildi vistgerða

Alaskalúpína eru allútbreidd en hún er skráð í 30% landsreita. Heildarflatarmál lúpínusvæða reiknast um 300 km2, óvissa nokkur.

Kort sýna útbreiðslu vistgerðar á landsvísu. Ferningar á kortinu tákna 10×10 ferkm reiti og er samanlögð þekja vistgerðarinnar innan rammans reiknuð.

Hér til hægri má sjá útbreiðslu alaskalúpínu sem finnst á landgræðslu- og skógræktarsvæðum og beitarfriðuðu landi á láglendi í öllum landshlutum. Hún finnst í þriðjungi allra landsreita og er algengust á Suður- og Suðvesturlandi og á Norðausturlandi.

Grashólavist er mjög fágæt en hún finnst í 1% landsreita. Flatarmál hennar reiknast um 50 km2, óvissa nokkur, óglögg skil við líkar vistgerðir.

Hér er stigið fyrsta skref í á meta verndargildi einstakra vistgerða á landsvísu. Verndarviðmiðin eru m.a. fágæti, tegundaauðgi, gróska og kolefnisforði og er mat á verndargildi vistgerðar er flokkað í fjóra flokka: lágt, miðlungs, hátt eða mjög hátt.  Hér er aðeins um frummat að ræða en síðar á þessu ári verður lokið við að velja svæði skv. framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár og ákvæðum náttúruverndarlaga um sérstaka verndun tiltekinna jarðminja og vistkerfa.

Hér að ofan má sjá útbreiðslu grashólavistar sem finnst á strandsvæðum þar sem sandhólar hafa gróið upp. Hún er algengust á sunnanverðu snæfellsnesi. Verndargildi er hátt og er vistgerðin á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Hvað er vistgerð?
„Vistgerð er landeining sem býr yfir ákveðnum eiginleikum
hvað varðar gróður, dýralíf, jarðveg og loftslag. Innan sömu
vistgerðar eru aðstæður með þeim hætti að þar þrífast
svipuð samfélög plantna og dýra“     
(Náttúrufræðistofnun Íslands).

„Svæði sem einkennist af ákveðnum samfélögum plantna og dýra
þar sem umhverfisþættir, svo sem loftslag,
jarðvegur og raki, eru svipaðir“      (European Environment Agensy).

„Staðir eða svæði með ákveðnum einkennum,t.d. hvað varðar gróður
og dýralíf, jarðveg og loftslag“     (Lög nr. 60/2013 um náttúruvernd 5.gr.).

Meira um vistgerðir
Á vef Náttúrufræðistofnunar segir um staðreyndasíðurnar: „Þær eru eru lykill fyrir leika og lærða að vistgerðunum, einkennum þeirra, útbreiðslu og verndargildi. Jafnframt eru staðreyndasíðurnar mikilvægt hjálpartæki þegar kemur að greiningu vistgerða og kortlagningu á vettvangi. Vistgerðakortin veita hagnýtar upplýsingar um náttúru landsins sem nýtast stjórnvöldum, sveitarfélögum, atvinnulífi og almenningi. Þau leggja mikilvægan grunn fyrir upplýstar ákvarðanir um alla landnotkun og áætlanagerð, s.s. vegna náttúruverndar, skipulagsmála, mats á umhverfisáhrifum framkvæmda og náttúruvöktunar. Þau gera Íslandi jafnframt kleift að sinna betur alþjóðlegum skyldum sínum á sviði náttúruverndarmála.“

14:2

Um Jón lærða – athugasemdir og svör höfundar

Viðar Hreinsson

Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur og höfundur bókarinnar Jón lærði og náttúrur náttúrunnar vísar harkalegri gagnrýni Einars G. Péturssonar, sem titlar sig rannsóknarprófessor á Árnastofnun, á bók sína á bug í grein í Morgunblaðinu í dag, 23. febrúar. Viðar nefnir grein sína 14:2 – Um athugsemdir við bók um Jón lærða og vísar þar til þess að af 16 athugasemdum Einars eigi aðeins tvær við og þá aðeins að hluta.

Svargrein Viðars rúmaðist ekki öll innan ramma Morgunblaðsins fyrir aðsendar greinar og eru því birtar hér á vefnum bæði styttri greinin í Morgunblaðinu og sú lengri frá hendi Viðars. Málið er skylt Náttúruminjasafninu sem m.a. kemur að útgáfu verksins ásamt Lesstofunni.

Tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Viðurkenningar Hagþenkis

Fræðimenn sem tilnefndir eru til viðurkenningar Hagþenkis. Afhending fer fram í ráðstefnusal Þjóðarbókhlöðunnar á annrri hæð, miðvikudaginn 1. mars og hefst kl. 17.

Hið mikla bókmenntaverk Viðars Hreinssonar, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar hefur hlotið einkar góðar viðtökur og lofsamlega umfjöllun meðal gagnrýnenda á samfélagsmiðlum og í Kiljunni, enda vandað til verksins í hvívetna eins og tilnefningar á bókinni til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2016 og til Viðurkenningar Hagþenkis 2016 eru til vitnis um.

Harkaleg gagnrýni á fræðimannsheiður Viðars

Í gagnrýni sinni vegur Einar að fræðimannsheiðri Viðars og dregur í efa að verkið standist kröfur til að hafa verið tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita. Í svari sínu fer Viðar lið fyrir lið yfir gagnrýni Einars. Í Morgunblaðinu var heldur þröngur stakkur skorinn sem fyrr segir og hefur Viðar því einnig birt svar sitt í heild, bæði hér á heimasíðu Náttúruminjasafnsins og fésbókarsíðu sinni.

Grein Einars G. Péturssonar í Mbl. 17.02.2017:
Athugasemdir um bók Viðars Hreinssonar, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar.

Grein Viðars Hreinssonar í Mbl. 23.02.2017:
14:2 – Um athugasemdir við bók um Jón lærða

Svargrein Viðars Hreinssonar í heild  14:2. Um athugasemdir við bók um Jón lærða.

Nánari umfjöllun um bókverkið Jón lærða og náttúrur náttúrunnar er á heimasíðu Náttúruminjasafnsins – og um samvinnu Viðars og NMSÍ hér.

Náttúrufræðingurinn er kominn út

Út er komið 3.-4, hefti Náttúrufræðingsins, 86. árgangs með fjölda áhugaverðra greina eftir leika og lærða um náttúru Íslands.

Austurveggur Jökulsárgljúfurs, skammt norðan við Hafragilsfoss prýðir forsíðu heftisins.

Í forsíðugreininni, Eldar í Öskjukerfi fyrir um 11 þúsund árum, segir frá rannsókn Magnúsar Á. Sigurgeirssonar, jarðfræðings, á lengstu gígaröð landsins, Sveina- og Randarhólagígaröðinni í norðanverðu Öskjukerfinu, en nýverið tókst með hjálp gjóskulaga að tímasetja hraunið og fá fram áreiðanlega tímasetningu gossins.

Ný úttekt á útbreiðslu birkis og ástandi þess fór fram 2010–2014, sú þriðja í röðinni, og leiðir í ljós að náttúrulegt birki á Íslandi hefur verið í töluverðri sókn á síðustu áratugum eftir margra alda hnignunarskeið.

Hraunhellar hafa mikið aðdráttarafl en vaxandi ágangur, sem m.a. má rekja til nákvæmra upplýsinga um hvar spennandi hella er að finna, hefur orðið til þess að sumir þekktustu hellar landsins eru nú rúnir öllu skrauti sínu og fegurð. Í greininni, Surtshellir í Hallmundarhrauni, er sagt frá könnun Surtshellis fyrr á öldum, en einnig frá rannsókn á brotstöðum dropsteina í Stefánshelli og Víðgelmi en dropsteinar og dropstrá voru friðlýst 1958 og 1974.

Af öðru efni má nefna grein um samlífi sæfífils og rækju sem neðansjávarljósmyndir varpa ljósi á og aðra um rannsóknir á radoni í hveragasi og bergi. Sagt er frá mælingu á fjarlægð fastastjörnunnar 61 Cygni frá Íslandi, sérkennilegum fyrirbærum í íslenskri náttúru sem nefnast stallabrekkur eða paldrar.

Loks má nefna ritrýni um stórvirkið Lífríki Íslands. Vistkerfi lands og sjávar eftir Snorra Baldursson og leiðarann sem fjallar um viðbrögð við PISA könnuninni 2015.

Hér má nálgast efnisyfirlit nýja heftisins

Meira um efnið hér!