Heiðagæs (Anser brachyrhynchus)

Heiðagæsahjón að vori í Möðrudal. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Til andfugla (Anseriformes) teljast svanir, gæsir og endur, sem öll tilheyra sömu ættinni, andaætt (Anatidae). Íslensku gæsirnar eru fimm, þar af eru tvær eingöngu fargestir, margæs og blesgæs; tvær eru reglulegir varpfuglar, heiðagæs og grágæs; þriðji fargesturinn er jafnframt nýr varpfugl (helsingi). Nákvæmlega er fylgst með stofnstærðum gæsa og álftar á vetrarstöðvum þeirra á Bretlandseyjum og hérlendis, eftir því sem við á.

Álftir, gæsir og gásendur parast til langframa. Kvenfuglinn ungar út eggjunum, karlinn stendur vakt og hjónin sjá saman um að ala önn fyrir ungunum. Hjá öndum sér kollan ein um útungun og ungauppeldi, en steggirnir safnast í hópa til að fella flugfjaðrir. Ungar andfugla eru bráðgerir. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Flugfjaðrir í vexti (líka nefndar blóðfjaðrir) eru mjög blóðríkar og blæðir úr þeim ef fuglarnir verða fyrir einhverju hnjaski. Því er talað um að fuglarnir séu í sárum eða særist á þessum tíma. Fullorðnu fuglarnir verða oft fleygir að nýju um svipað leyti og ungarnir verða fleygir.

Heiðagæsir í sárum í Þjórsárverum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Heiðagæsahjón á hreiðri í Þúfuveri, einu Þjórsárvera.

Heiðagæsahreiður í Þúfuveri. Arnarfell og Arnarfellsjökull fjær. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Heiðagæsahjón með unga í Herðubreiðarlindum.

Heiðagæsahjón með ungahóp við Héraðsvötn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Útlit og atferli

Heiðagæs er einn af einkennisfuglum miðhálendisins. Hún er nokkru minni en grágæs og hálsinn hlutfallslega styttri. Höfuð og háls eru kaffibrún og skera sig frá blágráum búknum. Hún er ljósari, með fölbleikum blæ á neðanverðum hálsi og bringu, niður á kvið. Undirstél og undirgumpur eru hvít, síður dökkflikróttar. Framvængur er blágrár, dekkri en á grágæs. Fullorðinn fugl og ungfugl eru svipaðir, ungfugl þó dekkri. Gassinn, karlinn, er sjónarmun stærri en gæsin. Goggur er stuttur með breytilegu svörtu og bleiku mynstri. Fætur eru bleikir og augu brún. Gefur frá sér hvellt, gaggandi skvaldurhljóð, gassinn er skrækari en gæsin.

Heiðagæs er félagslynd á öllum tímum árs. Hún flýgur með hröðum vængjatökum og í þéttum hópum, byltir sér meira og er léttari á flugi en grágæs. Lítið höfuð og stuttur háls eru einkennandi á flugi.

Lífshættir

Heiðagæsin er grasbítur eins og aðrar gæsir, sækir nokkuð í ræktarland á vorin, en bítur annars einkum mýragróður: starir, svo sem hálmgresi og fífu, einnig elftingar og kornsúru. Síðsumars leggst hún í berjamó og kornsúrurætur.

Varpstöðvarnar eru í votlendum hálendisvinjum, meðfram ám og lækjum, oft í gljúfrum. Heiðagæs gerir sér hreiður á þúfnakolli eða annarri mishæð, eða á klettasyllu, og klæðir að innan með stráum og dúni. Sami hreiðurstaður er oft notaður ár eftir ár. Urptin er 4-5 egg, álegan um fjórar vikur og ungarnir verða fleygir á um átta vikum.

Hluti gæsanna hefur viðdvöl á láglendi á fartíma, aðallega á vorin og þá oftast í ræktuðu landi. Ef snjóalög leyfa, flýgur stór hluti þó rakleitt inn á hálendið á vorin og tekur sig þaðan upp á haustin.

Útbreiðsla og stofnstærð

Heiðagæs er farfugl. Aðalvarpstöðvarnar eru á hálendinu en heiðagæs hefur verið að breiðast út niður með helstu stórám og víðar og verpur nú sum staðar á láglendi, allt niður undir sjávarmál. Henni hefur fækkað í Þjórsárverum, sem voru lengi stærsta heiðagæsavarp í heimi og hafa gæsirnar flutt sig norður fyrir Hofsjökul, í Guðlaugstungur. Þar er nú langstærsta heiðagæsavarp í heimi, rúmlega 23.000 pör. Stærstu fjaðrafellistöðvarnar eru á Eyjabökkum, við norðaustanverðan Vatnajökul.

Vetrarstöðvar heiðagæsar eru í Skotlandi og Norður-Englandi. Meirihluti íslenskra geldfugla fer til Grænlands í lok júní til að fella flugfjaðrir og grænlenskir varpfuglar fara um Ísland vor og haust. Íslensk-grænlenski stofninn hefur stækkað mjög á undanförnum áratugum, úr 23.000 fuglum árið 1952 í 390.000 fugla haustið 2014. Annar stofn er á Svalbarða.

Það má merkja loftslagsbreytingar á komutíma heiðagæsa, þær koma nú þremur vikum fyrr en fyrir 25-30 árum. Það stafar samt líklega meira af breyttum aðstæðum á vetrarstöðvum, heldur en hér á landi.

Heiðagæsahjón á Vopnafjarðarheiði í vorhreti. Gæsirnar þurfa stundum að bíða eftir að hláni og vorið komi af alvöru, áður en þær geta hafið varp. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sagan

Í Þjórsárverum má víða finna gæsaréttir á hæðum og öldum, sem eru taldar vera frá 17. öld eða eldri. Þá var gæsunum smalað ófleygum, eða meðan þær voru í sárum og áður en ungarnir urðu fleygir, í réttir og þær drepnar. Á þessum tíma leita gæsirnar uppá miðshæðir, verði þær fyrir styggð og hafa vísindamenn notfært sér þessa hegðun gæsanna til að fanga þær til merkinga á undanförnum árum. Gísli Oddsson Skálholtsbiskup (1593-1638) lýsir þessum veiðum í riti sínu Undur Íslands, en elstu heimildir eru sennilega úr Hrafnkelssögu Freysgoða.

Eftir að gæsaveiðunum var hætt, er eins og vitneskjan um gæsirnar týnist og þær hverfa af sjónarsviðinu í um 250 ár. Það er fyrst árið1929 sem heiðagæsir finnast á hreiðrum í Krossárgljúfri innaf Bárðardal og varpið í Þjórsárverum er ekki kannað fyrr en 1951, í frægum leiðangri sem Peter Scott og James Fisher rituðu um í bókinni A Thousand Geese. Bókin er tileinkuð Finni Guðmundssyni, fuglafræðingi, sem var einn leiðangursmanna.

Heiðagæsahópur að vorlagi í Lóni. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrúin

Það eru því lítið um heiðagæsina í íslenskri þjóðtrú, helst eitthvað sem tengt er gæsum almennt, eins og að þær viti óveður í rassinn á sér og hvæs gæsa sé skaðlegt og jafnvel banvænt.

Kveðskapur

Morgunn

Tvær heiðagæsir út í frelsið fljúga,
— í fjöðrum þeirra súgur vorsins dynur,
og önnur segir: Sjáðu, kæri vinur!
Við silfurtæran læk er mosahrúga.

Þar fjórir ungar blunda og brosa í draumi.
Ó, börnin okkar! gæsahjónin kvaka
og skreppa burt og skunda svo til baka,
og skuggar þeirra kvika á möl og straumi.

Og nakin fjöllin ljóma á ýmsar lundir
og lauga sig í tærri vestankælu.
Og gæsamamma gargar hátt af sælu
og gæsapabbi tekur hrifinn undir.

Nú setjast þau við hreiðrið hjá þeim fjórum
og horfa þarna í morgunfriðnum bláa
á dúnhnoðra, veika og vængjasmáa,
— loks vakna þeir og depla augum stórum.

Og sólin vakir öræfunum yfir
og áfram rennur glaðvær lækjarsprænan.
Og ástin litar mosann gráa grænan
og gefur tóninn öllu því, sem lifir.

Eftir Jóhannes úr Kötlum.

Ljósmyndir og texti eru Jóhanns Óla Hilmarssonar.