Safnkostur

Safnkostur Náttúruminjasafns Íslands er ásamt vísindasöfnum Náttúrufræðistofnunar Íslands undirstaða fræðslu- og sýningarstarfsemi safnsins og rannsókna þess, en lögum samkvæmt er Náttúrufræðistofnun Íslands vísindalegur bakhjarl Náttúruminjasafnsins.

Safnkostur Náttúruminjasafns Íslands mun þegar fram líða stundir einnig byggjast á aðgangi Náttúruminjasafnsins að safneign og gagnagrunnum annarra vísinda- og rannsóknastofnana, jafnt á vegum ríkisins sem annarra, sem sýsla með náttúru landsins.

Safnkostur Náttúruminjasafnsins samanstendur af sýningagripum, vísindasýnum, teikningum og ljósmyndum, og rituðum heimildum, jafnt bókum, tímaritsgreinum og skýrslum, sem lúta með einum eða öðrum hætti að náttúru landsins. Safnkostinum er skipt þrjár megindeildir, þ.e. sýningasafn, vísindasafn og bóka- og ritsafn. Gjafir til Náttúruminjasafnsins mynda umtalsverðan og mikilvægan hluta safnkostsins.

Skráningastarf á vegum Náttúruminjasafnsins er í mótun. Gögn og gripir hafa verið skráð í Excel og Artedian sem byggir á Microsoft Acess-grunni. Til stendur að kanna fýsileika þess að skrá a.m.k. hluta af safnkosti Náttúruminjasafnsins í Sarp.

Ekkert samræmt skráningarkerfi er fyrir hendi í landinu á náttúrufræðilegum munum og gögnum líkt og er til staðar fyrir menningaminjar og skráðar eru í Sarpi. Mjög æskilegt er að koma á fót slíku skráningakerfi fyrir náttúrumuni, bæði í því skyni að fá haldgóða yfirsýn yfir þennan hluta mennningararfs í eigu þjóðarinnar og, ekki síður, að stuðla að betri nýtingu safnkosts með auknu samstarfi og samskiptum.