Margir kannast efalaust við Flóru Íslands, vatnslitamyndina sem Eggert Pétursson listmálari málaði að beiðni Hins íslenska náttúrufræðifélags og gefin var út á veggspjaldi 1985. Nú að  30 árum liðnum hefur Náttúruminjasafn Íslands haft forgöngu um að gefa veggspjaldið út í fjórða sinn, en frummyndin sem er í eigu HÍN, er í vörslu safnsins.

Flóra Íslands 70x50 cm, útgefandi CRYMOGEA / FOLDA.

Nýja veggspjaldið, Flóra Íslands er 70×50 cm að stærð, útgefandi er CRYMOGEA/FOLDA.

Veggspjaldið prýða 63 tegundir íslenskra háplantna sem lætur nærri að vera um 15% af öllum tegundum villtra háplantna sem vaxa á Íslandi. Tegundunum á myndfleti Flóru Íslands er skipt í fjóra hópa með hliðsjón af því við hvaða skilyrði þær lifa: 1) Holta- og melagróður (14 tegundir), 2) móa- og graslendisgróður (27 tegundir), 3) votlendisgróður (9 tegundir) og 4) blómlendisgróður (12 tegundir). Til hliðar við myndina eru íslensk, ensk og latnesk tegundarheiti.

Frumgerð Eggerts er nú sýnd opinberlega í fyrsta sinn á sýningunni Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu og er gerð skil í sýningarskrá á bls. 67. Í tilefni af Degi íslenskrar náttúru, miðvikudaginn 16. september verður kynning á spjaldinu í Lestrarsal Safnahússins kl. 12 á hádegi. Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur í sjötta sinn og er að vinna sér fastan sess í haustdagskrá landans, eins og sjá má af því að margir viðburðir eru í boði að þessu sinni.

Veggspjaldið er til sölu í Safnabúð Safnahússins, í verslunum Eymundssonar, Bókaverslun Máls og menningar og Minju og kostar 2.990 kr. Hægt er að panta veggspjaldið og fá það heimsent með því að senda póst á netfangið: crymogea@crymogea.is