„Stórtíðindi,“ segir forstöðumaður safnsins

Síðasta verk Alþingis fyrir kosningar var að samþykkja ályktun nr. 70/145 um aðgerðir í tilefni af aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018.  Þar er m.a. gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands og í greinargerð segir að mikilvægt sé að „koma á byggingu sem hýsi merkar náttúruminjar og tryggja Náttúruminjasafni með því aðstöðu til frambúðar.“

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands

„Þetta eru stórtíðindi fyrir alla sem unna náttúru landsins, náttúrufræðikennslu og vilja hag náttúrunnar og mannfólksins sem mestan og bestan. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrir liggur staðfestur vilji Alþingis og tilmæli til ríkisstjórnar um að gera skuli vel við þessa mikilvægu stofnun síðan hún var sett á laggirnar, en eins og kunnugt er hefur safnið barist í bökkum frá upphafi. Ég bind miklar vonir við þessa merku þingsályktun,“ segir dr. Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins.

Það vakti athygli þegar fyrsta fimm ára ríkisfjármálaáætlunin var kynnt s.l. vor að þar var ekki vikið orði að Náttúruminjasafni Íslands, höfuðsafns þjóðarinnar í náttúrufræðum, en í hartnær 130 ár, síðan forveri safnsins, Hið íslenska náttúrufræðifélags var stofnað hefur verið beðið eftir viðunandi aðstöðu til sýningarhalds og fræðslu sem sæmir landi og þjóð. Um þetta var m.a. fjallað hér á vefsíðu NMSÍ. En nú er öldin önnur: Í næstu fjármálaáætlun til fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi 2017 skal ríkisstjórnin skv. ákvörðun Alþingis tryggja að gert verði ráð fyrir uppbyggingu fyrir safnið, þ.e. á árunum 2018–2022.

Þau fluttu tillöguna á Alþingi sem 56 þingmenn samþykktu.

Þau fluttu tillöguna á Alþingi sem 57 þingmenn samþykktu.

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra mælti fyrir tillögunni sem hann flutti ásamt öllum formönnum flokka sem sæti eiga á Alþingi, Birgittu Jónsdóttur, Bjarna Benediktssyni, Katrínu Jakobsdóttur, Oddnýju G. Harðardóttur og Óttari Proppé, og var ályktunin samþykkt með 56 atkvæðum en sjö voru fjarstaddir.

Sem fyrr segir er það aldarafmæli fullveldisins 2018 sem er tilefni ályktunarinnar og mun Alþingi kjósa skuli nefnd til að afmælið, m.a. hátíðafund á Þingvöllum 18. júlí og önnur hátíðahöld 1. desember. Þá verður efnt til samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar, tekið saman rit um aðdraganda sambandslaganna og inntak fullveldisréttarins, efnt til sýningar á helstu handritum Árnastofnunar, stuðlað að heildarútgáfu Íslendingasagnanna og skólar hvattir til að beina sjónum að þeim tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum 1918.

Auk framangreinds skal ríkisstjórnin eins og fyrr segir sjá til þess að gert verði ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns í næstu fjármálaáætlun, undirbúa uppbyggingu innviða fyrir máltækni fyrir íslenska tungu og fimm ára áætlun um það efni og loks felur Alþingi Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar.