Miðvikudaginn 17. maí síðastliðinn afhentu 16 félagasamtök á sviði náttúrufræða, útivistar og umhverfismála Kristjáni Þór Júlíussyni mennta- og menningarmálaráðherra áskorun þess efnis að Alþingi og ráðherra tryggi uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands, eins og lofað var á Alþingi á síðasta þingi með samþykkt ályktunar í tengslum við 100 ára fullveldisafmælið árið 2018. Um þessa þingsályktun hefur verið fjallað áður á heimasíðu Náttúruminjasafnsins. Það voru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd sem fóru fyrir áskoruninni og hana má lesa hér: Ályktun samtaka um eflingu natturugripasafns16.5.2017.

Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra tekur við áskorun frá 16 félagasamtökum úr hendi Árna Hjartarsonar formanns Hins íslenska náttúrufræðifélags sem fór fyrir áskoruninni ásamt Landvernd.

 

 

 

 

Ráðherra tók vel á móti hópnum, liðlega tíu manns, og fjölmiðlar sýndu málinu töluverðan áhuga. RÚV gerði málinu m.a. skil í aðalfréttatíma sínum um kvöldið og Fréttablaðið greindi frá atburðinum degi síðar.

Tilefni áskorunar samtakanna er ekki ánægjulegt en í ríksfjármálaáætluninni til næstu fimm ára, 2018-2022, er ekki að finna stafkrók um Náttúruminjasafnið eins og lofað var á Alþingi. Ráðherra lét þó þau orð falla að hann væri …„ekkert úrkula vonar um það að við getum komið málum til betri vegar og hyggst vinna með þeim hætti og svo sjáum við hvað setur.“ Þá greindi ráðherra frá þeim ánægjulegum tíðindum að verið væri að skoða þann möguleika að Náttúruminjasafnið taki þátt í sýningahaldi með Perlu Norðursins ehf. í Perlunni, en það félag hefur gert ríkinu nokkur tilboð um þátttöku Náttúruminjasafnsins. Nú virðist samstarf þessara aðila ætla að verða að veruleika, sem er mjög ánægjulegt, og er vinna þegar hafin að framgangi verkefnisins.

Hvatning samtakanna um uppbyggingu Náttúruminjasafnsins er bæði ánægjuleg og dýrmæt í baráttunni fyrir bættum hag safnsins og er stuðningurinn kærlega þakkaður. Samtakamáttur félaganna sem koma úr öllum áttum lýsir vel málefninu sem áskorunin snýst um – starfsemi Náttúruminjasafnsins snertir alla þjóðina og aðra gesti landsins – sem er fræðsla og kynning á undrum náttúrunnar, landsins gögnum og nauðsynjum og upplýsing um hvernig sjálfbær umgengni við auðlindirnar skilar okkur áfram veginn á vistvænan hátt.

Það eru vissulega vonbrigði að Náttúruminjasafnsins skuli ekki vera getið í ríkisfjármálaáætluninni, einkanlega vegna þess að fyrir liggur samþykkt Alþingis frá síðasta þingi um að tryggja skuli uppbyggingu safnsins í áætluninni. En það er ekki öll von út enn, eins og Kristján Þór Júlíusson ráðherra nefnir sjálfur. Enn er tími til stefnu. Ekki verður öðru trúað upp á þingmenn en að þeir standi við gefin loforð og sjái sóma sinn í því að leiðrétta stöðu Náttúruminjasafnsins.

Samstarf við háskólasamfélagið og hugsanleg bygging safnahúss á svokölluðum G-reit í Vatnsmýri, eins og nefnt er í áskorun samtakanna, kann að vera mikilvæg lausn til frambúðar fyrir Náttúruminjasafnið. Sú hugmynd er ekki ný af nálinni og nýlega hefur rykinu verið dustað af henni og hún rædd við Háskóla Íslands. Það mál er í skoðun.

Perlan í Öskjuhlíð. Varða kjörgripir þjóðarinnar þar til sýnis á vegum Náttúruminjasafns Íslands?

En uppbygging á aðstöðu Náttúruminjasafns sem hæfir og sæmir einu þriggja höfuðsafna þjóðarinnar er langtímaverkefni og fleira þarf að koma til og fyrr. Þar á meðal er möguleg þátttaka safnsins í sýningahaldi í Perlunni með Perlu norðursins ehf., sem mennta- og menningamálaráðherra hefur nýlega ákveðið að láta kanna nánar og getið er hér að framan.

Samtökin 16 sem stóðu að áskoruninni eru eftirfarandi: Hið íslenska náttúrufræðifélag, Bandalag Íslenskra skáta, Eldvötn – Samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi, Félag íslenskra safnafræðinga, FÍSOS – Félag íslenskra safna og safnmanna, Fjöregg í Mývatnssveit, Fuglavernd, Landvernd, Líffræðifélag Íslands, Náttúruverndarsamtök Austurlands, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Samlíf, samtök líffræðikennara, Skógræktarfélag Ísland, Ungir umhverfissinnar.