Årets julegave: 550 mio. kr. fra private fonde sikrer nyt naturhistorisk museum“ þannig hljóðar fyrirsögnin í nýlegri fréttatilkynningu á heimasíðu Náttúrufræðisafns Danmerkur, Statens Naturhistoriske Museum (tengill hér). Stjórnvöld í Danmörku hafa um hríð haft á stefnuskrá sinni að setja aukið fé í þetta höfuðsafn sitt á sviði náttúrufræða og styrkja sérstaklega stoðir þess varðandi sýningahald og miðlun fróðleiks og upplýsinga um náttúru. Með rausnarlegum framlögum nokkurra danskra sjóða í einkageiranum, m.a. frá Villumsjóðnum og Novo Nordisk, að upphæð 550 m. DKR., sem svarar til um 12 milljarða ÍSKR., hefur framkvæmd verkefnisins verið tryggð. Alls er áætlað að verkefnið muni kosta um 20 milljarða kr., um 950 m. DKR., og er stefnt að opnun fullbúins safns árið 2020.

indgang_nyt_naturhistorisk_museum_snm

Inngangurinn að nýju Náttúrufræðisafni Danmerkur á mótum Øster Voldgade og Sølvgade skammt frá Jónshúsi.

Nýja safnið er myndað með samruna þriggja safna sem eru Grasafræðisafnið (Botanisk Museum), Jarðfræðisafnið (Geologisk Museum) og Dýrafræðisafnið (Zoologisk Museum) og verður það staðsett á lóð Grasagarðsins (Botanisk Have) meðfram Gothersgade, Øster Farimagsgade, Sølvgade og Øster Voldgade. Þetta svæði er Íslendingum að góðu kunnugt en Jónshús er skammt frá við Sølvgade.

Einn stærsti sýningasalurinn og meginþema í sýninghaldinu verður tileinkað hvölum, en í fórum Dýrafræðisafnsins í Kaupmannahöfn er meðal annars að finna beinagrindur fágætra hvalategunda frá Íslandi. Hvalasýningin verður í stórri glerhvelfingu í húsnæðinu gegnt Ríkislistasafninu (Statens Museum for Kunst) á mótum Øster Voldgade og Sølvgade og er hugmyndin að vegfarendur geti séð hvalina frá götu jafnt að degi sem nóttu.

Dönum er óskað er til hamingju með þennan myndugleik á sviði menningar og fræðslu. Það er jafnframt óskandi að íslenskum stjórnvöldum auðnist að feta í fótspor Dana og geri vel við sitt höfuðsafn á sviði náttúrufræða, Náttúruminjasafn Íslands, þannig að sómi sé af.