2016-03-14-fbl-geirfuglasafnFjallað er um Náttúruminjasafn Íslands í leiðara Fréttablaðsins í dag undir fyrirsögninni: Geirfuglasafn. Þar segir m.a. að staða safnsins hafi árum saman verið „óásættanlega með öllu og í raun okkur öllum sem þjóð til háborinnar skammar. Náttúruminjasafn gæti í reynd verið okkur ómetanlegt við menntun og fræðslu um náttúruna sem er okkur svo mikilvæg og svo kær á tyllidögum…“ Í leiðaranum er m.a. vísað til viðtals sem Fréttablaðið birti 11. mars s.l. við Hilmar J. Malmquist, forstöðumann safnsins.

Tilefni þessarar umfjöllunar Fréttablaðsins er m.a. fyrirhuguð náttúrusýning í Perlunni, en Hilmar segir að safnið sé í stórundarlegri stöðu nú þegar náttúrusýning einkaaðila í Perlunni er fyrirséð. Eins og frá stofnun þess sé safnið án eigin húsnæðis til sýningarhalds, og nú séu einkaaðilar að fara að rækja lögbundnar skyldur höfuðsafns þjóðarinnar. “Náttúruminjasafnið kemur vissulega óbeint að þessari vinnu með faglegri ráðgjöf, en samningur liggur fyrir um slíkt við Perluvini.” Hvað það þýðir í framhaldinu, telur Hilmar ekki ljóst.

2016-03-11-mbl-höfuðsafn_big
“Það eru gríðarleg vonbrigði að ríkisvaldið skuli ekki styðja einhverja aðkomu safnsins að þessu verkefni á þessum tímapunkti”, segir Hilmar enn fremur, en það sé svo sem í takt við áherslur ríkisstjórnarinnar varðandi einkavæðingu samfélagslegrar þjónustu. „Alla vega hefur ráðherra hafnað þeirri leið að ríkið annist þetta, en líka að safnið komi að verkefninu með öðrum. Ráðherra verður að gefa upp hvert hann er að stefna með þetta safn. Ég hef óskað eftir fundum með honum um málefnið en hefur lítið orðið ágengt,“ segir Hilmar.