Spegilslétt Þingvallavatn á fallegum degi.

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands flytur n.k. mánudag,  29. janúar, fræðsluerindi í fundaröð HÍN.

Erindið nefnist Hlýnun Þingvalla-vatns og hitaferlar í vatninu. Það hefst kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju.

Allir eru velkomnir.

Hitamælingar frá 1962

Í erindinu mun Hilmar fjalla um langtímamælingar á vatnshita í útfalli Þingvallavatns frá upphafi reglulegra mælinga á vegum Landsvirkjunar árið 1962 og fram til 2017 og athuga þær mæliniðurstöður í tengslum við veðurfarsbreytur á vatnasviðinu. Hann spáir einnig í langtímaþróun ísalagna í vatninu og gerir grein fyrir vatnshitamælingum úti í vatnsbol Þingvallavatns sem hófust árið 2007 og varpa ljósi á lóðrétta hitaferla í vatninu.

Umtalsverð hlýnun á 30 árum

Ís og skæni á Þingvallavatni.

Rannsóknirnar staðfesta að Þingvallavatn hefur hlýnað umtalsvert á síðastliðnum 30 árum eða svo, frá lokum kuldaskeiðs sem varði milli 1965 og 1985‒86, og fellur hlýnun vatnsins vel að þróun hækkandi lofthita á vatnasviðinu. Ársmeðalhiti í vatninu hefur hækkað að jafnaði um 0,15°C á áratug sem sem er á svipuðu róli og í öðrum stórum, djúpum vötnum á norðlægum slóðum. Mest er hlýnunin að sumri til (júní‒ágúst) með 1,3–1,6°C hækkun á meðalhita mánaðar á árabilinu 1962–2016. Fast á hælana fylgja haust- og vetrarmánuðirnir (september‒janúar) með hækkun á meðalhita mánaðar á bilinu 0,7–1,1°C. Vegna hlýnunarinnar leggur Þingvallavatn bæði sjaldnar og seinna en áður og ís brotnar fyrr upp. Hlýnun vatnsins virðist einnig hafa eflt hitaskil og lagskiptingu úti í vatnsbolnum.

Hverju breytir þetta?

Spáð er í afleiðingar hlýnunarinnar fyrir lífríki vatnsins sem sumar hverjar virðast þegar vera mælanlegar, t.a.m. aukin frumframleiðsla, og sverja þær sig í ætt við breytingar í vistkerfum í vötnum annars staðar á norðurslóð. Þá hafa fordæmalausar breytingar átt sér stað nýlega í svifþörungaflóru vatnsins m.t.t. tegundasamsetningar og vaxtarferils á ársgrunni og kunna þær breytingar að stafa af samverkandi áhrifum hlýnunar og aukinnar ákomu næringarefna í vatnið.

Dr. Hilmar J. Malmquist er líffræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands. Hilmar hefur um áratugaskeið sinnt margvíslegum vatnalíffræðirannsóknum, þ. á m. vöktunarrannsóknum í Þingvallavatni. Hilmar lauk sveinsprófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1983, meistaraprófi í vatnavistfræði frá Hafnarháskóla 1985 og doktorsprófi í sömu grein frá sama skóla 1992.