Berghlaupið við Öskjuvatn

Náttúran minnir stöðugt á sig – blíð sem stríð. Bergið sem hljóp úr barmi Öskju út í Öskjuvatn síðla kvölds mánudaginn 21. júlí síðastliðinn telst til hamfara og er meðal stærstu berghlaupa hér á landi í seinni tíð.

Askja eftir aurskriðuna 22. júlí 2014. Mynd af vef RÚV/Jara Fatima.

Sitthvað hefur verið ritað um berghlaup og fleira af því tagi á Íslandi. Í Náttúrufræðingnum, sem nú er gefinn út af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og Náttúruminjasafni Íslands, er að finna nokkrar greinar þar sem fjallað er um þessi náttúrufyrirbrigði. Greinarnar má leita flestar uppi á vefslóðinni tímarit.is. Hér eru þær helstu upp taldar:

Berghlaup við Morsárjökul. Jón Viðar Sigurðsson. 2013. Náttúrufræðingurinn 83: 24-38.

Bergflóðið sem féll á Morsárjökul 20. mars 2007. Þorsteinn Sæmundsson, Ingvar A. Sigurðsson, Halldór G. Pétursson, Helgi Páll Jónsson, Armelle Decaulne, Matthew J. Roberts og Esther Hlíðar Jensen. 2011. Náttúrufræðingurinn 81: 131–141.

Flóðbylgjur (tsunami) af völdum berghlaupa og skriðna – Eru þær algengar á Íslandi. Árni Hjartarson. 2006.Náttúrufræðingurinn 74: 11–15.

Myndaði berghlaup vatnsdalshóla? Höskuldur Búi Jónsson, Hreggviður Norðdahl og Halldór G. Pétursson. 2004. Náttúrufræðingurinn 72: 129–138.

Vatnsdalshólar. Ágúst Guðmundsson. 1997. Náttúrufræðingurinn 67: 53–62.

Loðmundarskriður. Árni Hjartarson. 1997. Náttúrufræðingurinn 67: 97–103.

Möðrufellshraun, berghlaup eða jökulruðningur? Oddur Sigurðsson. 1990. Náttúrufræðingurinn 60: 107–112.

„Þá hljóp ofan fjallið allt“. Framhlaup í Skriðdal á landnámsöld. Árni Hjartarson. 1990. Náttúrufræðingurinn 60: 81-91.

Skalf þá og nötraði bærinn. Haukur Jóhannesson. 1984. Náttúrufræðingurinn 53: 1-4.

Steinsholtshlaupið 15. janúar 1967. Guðmundur Kjartansson. 1968. Náttúrufræðingurinn 37: 120-169.

Loðmundarskriður. Tómas Tryggvason. 1955. Náttúrufræðingurinn 25: 187–193.

Séð frá þjóðvegi III. Þar sem háir hólar…. Sigurður Þórarinsson. 1954. Náttúrfræðingurinn 24: 7–15.

Hvernig eru Vatnsdalshólar til orðnir? Jakob H. Líndal. 1936. Náttúrufræðingurinn: 65–75.

Safnadagurinn 2014 – sunnudaginn 13. júlí

Íslenski safnadagurinn í ár verður haldinn hátíðlegur víða um land sunnudaginn 13. júlí 2014. Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) heldur utan um dagskrá safna þennan dag og hér má lesa dagskrána eins og hún lítur út í dag (7. júlí 2014).

Náttúruminjasafn Íslands stendur ekki að sýningahaldi enn sem komið er, en í undirbúningi er grunnsýning á náttúru Íslands á vegum safnsins og samstarfsaðila í Perlunni. Vonir standa til að sýningahald i Perlunni verði hafið innan tveggja ára. Þá er í burðarliðnum samsýning með fimm öðrum menningarstofnunum í Safnahúsinu þar sem fjallað verður um íslenska listasögu og sjónrænan menningararf. Sú sýning gengur undir heitinu Sjónarhorn og verður að vonum opnuð nú síðsumars.

Íslenski safnadagurinn var fyrst haldinn árið 1997 að frumkvæði safnmanna sjálfra. Markmiðið með deginum er að benda á mikilvægi faglegrar varðveislu og miðlunar sameiginlegra verðmæta þjóðarinnar og þá einstöku leið til lifandi þekkingaröflunar og skemmtunar sem finna má á söfnum.

Sarpur hlýtur Íslensku safnaverðlaunin 2014

Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti Íslensku safnaverðlaunin 2014 við hátíðlega athöfn og margmenni á Bessastöðum í gær, sunnudaginn 6. júlí. Það var rekstrarfélag Sarps sem hlaut verðlaunin fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps (www.sarpur.is) og 1.000.000 kr. að auki.

Þrjú söfn voru tilnefnd til Íslensku safnsverðlaunanna árið 2014 – Hafnarborg, menningar og listamiðstöð Hafnarfjarðar fyrir metnaðarfulla sýningardagskrá og samfélagslega virkni, Þjóðminjasafn Íslands fyrir dagskrá í tilefni 150 ára afmælis safnsins og Rekstrarfélag Sarps, sem hreppti verðlaunin, fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps.

Sarpur er heiti á upplýsingakerfi sem nær yfir forrit og gagnasafn þess. Sameignaraðilar Rekstrarfélags Sarps eiga hugbúnaðinn og hvert og eitt aðildarsafn gögnin sem það skráir í gagnasafnið.

Núverandi útgáfa Sarps, Sarpur 3.0, er sú þriðja í röðinni og var smíðuð í samvinnu við Ráðgjafar- og sérlausnasvið Þekkingar hf. Fyrsta útgáfa kerfisins, Sarpur 1.0, var  tekin í notkun 1998 og önnur útgáfan, Sarpur 2.0, árið 2002. Í framhaldi af því var stofnað félag um rekstur Sarps. Þjóðminjasafn Íslands smíðaði fyrstu og aðra útgáfuna í samvinnu við hugbúnaðarfyrirtækið Hugvit hf. með styrk frá Rannís úr Markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál.

Í umsögn valnefndar um verðlaunahafann segir:

„Rekstrarfélag Sarps er tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2014 fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps. Á árinu 2013 urðu þau tímamót í Íslensku safnastarfi að safnkostur þeirra safna sem eiga aðild að menningarsögulega gagnasafninu Sarpi varð aðgengilegur almenningi í gegnum veraldarvefinn. Þá var opnaður svo kallaður ytri vefur Sarps sem býður upp á leit í safnkosti 44 safna af ýmsum stærðum og gerðum.

Ytri vefurinn er gátt inn í skráningarkerfi safnanna þar sem upplýsingar um safnkost þeirra er að finna. Fjársjóður sá, sem söfnin varðveita, er einstaklega fjölbreyttur; þar má finna margskonar brúkshluti, ljósmyndir, myndlistarverk af ýmsu tagi, lýsingu á þjóðháttum fyrr og nú ásamt upplýsingum um hús og margt fleira. Ytri vefur Sarps er bylting í aðgengi almennings að upplýsingum um menningararfinn og skapar tækifæri fyrir alla sem áhuga hafa á safnkosti íslenskra safna til að finna upplýsingar, skoða, bera saman og deila.

Vefurinn nýtist nemendum á öllum skólastigum og eykur möguleika á rannsóknum á menningararfinum. Vefurinn gefur almenningi tækifæri til að bæta við þekkingarbrunninn í gegnum sérstakt athugasemdakerfi. Gagnasafnið er því lifandi og kvikt, tekur sífellt við nýjum upplýsingum, stækkar og batnar meðal annars með myndvæðingu þess. Ytri vefur Sarps er mikilvægur til þess að söfnin í landinu séu virkir þátttakendur í upplýsingasamfélaginu og opnar gátt milli almennings og safna.“

Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FISOS) standa saman að Íslensku safnaverðlaununum sem er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi.

 

 

Tilnefningar íslensku Safnaverðlaunanna 2014

Tilkynnt hefur verið um tilnefningar til Safnaverðlaunanna 2014 sem veitt eru annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi starfsemi. Sem fyrr gat almenningur, stofnanir og félagasamtök sent inn ábendingar um safn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja til eftirbreytni og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Valnefnd hefur tilnefnt þrjá aðila, tvö söfn og eitt félag, til Safnaverðlaunanna árið 2014 og hlýtur einn aðilinn viðurkenninguna Safnaverðlaun 2014 og 1.000.000 króna að auki. Tilnefningarnar eru eftirfarandi í starfrófsröð:

HAFNARBORG, MENNINGAR OG LISTAMIÐSTÖÐ HAFNARFJARÐAR er tilnefnd til íslensku safnaverðlaunanna 2014 fyrir metnaðarfulla sýningardagskrá og samfélagslega virkni þar sem þátttaka almennings er lykilatriði.

REKSTRARFÉLAG SARPS – er tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna 2014 fyrir ytri vef menningarsögulega gagnasafnsins Sarps.

ÞJÓÐMINJASAFN ÍSLANDS – er tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna 2014 fyrir dagskrá í tilefni 150 ára afmælis safnsins.

Safnaverðlaunin 2014 verða veitt við hátíðlega athöfn sunnudaginn þann 6. júlí á Bessastöðum. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhendir verðlaunin.

Valnefnd skipuðu Haraldur Þór Egilsson, formaður, Hilmar J. Malmquist, Valgerður Guðmundsdóttir, Ágústa Kristófersdóttir og Sif Jóhannesdóttir.

FRÉTTATILKYNNING – Tilnefningar til Safnaverðlaunanna 2014.