– Vona að skýrslan marki nýtt upphaf fyrir Náttúruminjasafnið

“Þessi niðurstaða kemur í sjálfu sér ekki á óvart og ég vona að skýrslan verði til þess að stjórnvöld taki nú af skarið og marki framtíðarstefnu fyrir safnið. Þannig gæti hún markað nýtt upphaf fyrir Náttúruminjasafn Íslands,” segir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins um skýrslu Ríkisendurskoðunar sem birt var í gær. “Það er margt sem er jákvætt í starfseminni – í fyrsta sinn tekur safnið nú þátt í samsýningu sex safna þar sem m.a. geirfuglinn er til sýnis í Safnahúsinu og gerður hefur verið samstarfssamningur milli Náttúrufræðistofnunar og safnsins um útlán og eftirlit með safnmunum. Ég hef enn von um að samstarf megi takast um myndarlega náttúrufræðisýningu í Perlunni, en klukkan tifar og það má ekki dragast mikið lengur að taka ákvörðun um það. Eins er skrifstofuaðstaða safnsins í óvissu hér í Loftskeytastöðinni, húsaleigusamningnun hefur verið sagt upp og aðeins 2 mánuðir til stefnu,“ segir Hilmar.

Ríkisendurskoðun2

Eftirfylgniskýrsla Ríkisendurskoðunar um Náttúruminjasafn Íslands var birt í gær, en þrjú ár eru liðin frá því stofnunin gerði úttekt á stöðu safnsins. Þá var niðurstaðan sú að svo illa væri að safninu búið að það næði ekki að uppfylla skyldur sínar sem höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Í eftirfylgniskýrslunni segir að staðan hafi lítið breyst: Starfsemin hafi glæðst, en eftir sem áður sé safnið rekið af vanefnum og án formlegrar stefnu af hálfu stjórnvalda. Þá séu húsnæðismálin í mikilli óvissu; engin aðstaða til sýningarhalds og skrifstofuhúsnæði safnsins í Loftskeytastöðinni hefur verið sagt upp.

Niðurstaða eftirfylgniskýrslunnar er þessi: ”Ríkisendurskoðun hvetur til þess að safninu verði sett skýr framtíðarstefna sem bæði mennta- og menningarmálaráðuneyti og Alþingi styðji í verki. Að öðrum kosti hljóti að koma til álita að leggja safnið niður sem sérstaka stofnun og koma starfseminni fyrir með öðrum hætti.”

Þá telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að lög kveði skýrar á um hlutverk og skyldur Náttúruminjasafns og Náttúrufræðistofnunar Íslands en í skýrslunni kemur fram að “enn séu hnökrar” á samstarfi stofnananna.

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ

“Í fyrri skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2012 vour tíundaðir þrír megin vankantar í starfsemi höfuðsafnsins”, segir Hilmar. “Aðallega var fundið að því að hve fjárveitingar ríkisvaldsins til Náttúruminjasafnsins væru takmarkaðar, að safnið starfaði ekki samkvæmt formlegri stefnu og að miklir samskiptaerfiðleikar væru milli safnsins og Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem lögum samkvæmt á að vera vísinda- og faglegur bakhjarl Náttúruminjasafnsins.

Úr síðastnefnda atriðinu hefur verið bætt að miklu leyti og m.a. undirritaðir þrír samstarfssamningar milli stofnananna. Varðandi stefnuna var tekin sú ákvörðun haustið 2013 að bíða með að fullvinna hana þar til fyrir lægi niðurstaða um hugsanlegt sýningahald Náttúruminjasafnsins, Reykjavíkurborgar og fjárfestisins Landsbréf ITF I í Perlunni. Niðurstaða varðandi Perluna liggur ekki endanlega fyrir. Eftir stendur að aðalvandi Náttúruminjasafnsins, takmarkaðar fjárveitingar, er óleystur. Árlegar fjárheimildir safnsins undanfarin þrjú ár hafa verið aðeins um 24 m.kr. sem dugar engan veginn til að safnið geti sinnt lögbundnum hlutverkum sínum með viðunandi hætti.

Staða Náttúruminjasafnsins er vissulega ekki glæsileg en það er voanandi að eftirfylgniskýrsla Ríkisendurskoðunar verði til þess að brýna menn til dáða. Þjóðin og gestir landsins eiga ekki annað skilið en að eignast safn þar sem staðið er að sýningahaldi og miðlun upplýsinga og fróðleiks um einstaka náttúru landsins, náttúrusögu, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda. Við reiðum okkur í svo miklum mæli á auðlindir náttúrunnar að fræðsla um hana er grundavallaratriði ef við ætlum að tryggja komandi kynslóðum heilnæma, gefandi og fagra framtíð.”

 

Krían

Krían

Fuglinn í fjörunniKría 72
hann heitir kría,
svo skal og kveða
og barninu mínu bía.

Fuglinn í fjörunni, þjóðvísa.

 

Útlit og atferli

Kría (Sterna paradisaea) er eini íslenski fulltrúi þernuættarinnar. Hún er spengilegur og tígulegur fugl, nokkru minni en hettumáfur og mun mjóslegnari og rennilegri. Á sumrin er kría með svarta hettu frá goggrótum og aftur á hnakka. Að öðru leyti er hún blágrá, nema hvít rák er undir kollhettunni og hún er hvít á stéli með svartyddar handflugfjaðrir. Stélið er djúpklofið og vængir langir og hvassyddir. Ungfugl (nýfleygur ungi) er með hvítt enni og bringu, brún- og gráflikrótt bak og yfirvængi, lítið eitt klofið eða sýlt stél. Ársgamlir fuglar (og í vetrarbúningi) eru hvítir á enni, bringu og kviði, frambrún vængja er dökk og jaðarfjaðrir stélsins styttri. Oddhvass goggur og fætur eru hárauðir á fullorðnum fugli, á ársgömlum er hvort tveggja svart og á ungfugli er goggur bleikur en dökknar þegar líður á haustið og fætur eru bleikir. Augu eru alltaf svört.

Krían er afbragðs flugfugl, hún andæfir yfir vatni og steypir sér síðan eldsnöggt niður eftir síli. Hún er þekkt fyrir öflugan lofthernað í varplandi sínu og ver ekki aðeins eigin afkvæmi fyrir ræningjum, heldur njóta aðrir fuglar einnig góðs af að verpa í nágrenni hennar. Krían er mjög félagslynd og á sífelldu iði.

Kria42a

Lífshættir

Sandsíli er aðalfæða kríunnar við sjávarsíðuna, en hornsíli inn til landsins. Hún stingur sér eftir fiskinum á flugi. Fangar einnig seyði hrognkelsis og marhnúts, tekur skordýr, smá krabbadýr og burstaorma.

Kría 75

Kría 53

Krían verpur í margs konar kjörlendi, bæði grónu og gróðursnauðu. Stærstu byggðirnar eru á láglendum strandsvæðum og eyjum. Dæmi um stór vörp fyrr og nú eru Reykjanes, Hjörsey, Rif, Hrísey, Núpskatla, Jökulsárlón og Vík. Kría finnst einnig inn til landsins við ár og vötn, jafnvel á miðhálendinu eða við tjarnir í þéttbýli. Hreiðrið er oftast lítilfjörleg dæld, stundum fóðrað með smásteinum og gróðri. Það sem einkennir samdrátt fuglanna á varpstöðvunum er sílisburður karlsins. Hann þarf að sýna og sanna fyrir frúnni að hann sé góður skaffari með því að færa henni síli.

Kria25a

Ferðalangurinn

Varpheimkynnin kríunnar eru allt í kringum Norðurheimskautið, norður til Svalbarða og Grænlands og í Evrópu ná þau suður til Bretlandseyja og Hollands. Krían er langförulust allra fugla, vetrarstöðvarnar eru í S-Atlantshafi (við S-Afríku) og S-Íshafi við Suðurskautslandið og allt austur til Ástralíu. Á haustin fara þær annaðhvort suður með Vestur-Evrópu og Vestur-Afríku suður til Suður-Íshafsins eða þær fljúga yfir Atlantshafið sunnan miðbaugs og halda síðan suður með austurströnd S-Ameríku uns þær koma í S-Íshafið. Á vorin fljúga þær í stóru essi (S) norður eftir Atlantshafinu. Krían fylgir því ætisríkum hafsvæðum á farfluginu og nýtir jafnfram staðvinda til að létta undir með langfluginu. Hún velur sér líka lífrík hafsvæði á veturna og vill helst verpa í nánd við gjöful fiskimið.

Á farfluginu fljúga þær á 45–60 km hraða á klukkustund í 6–7 tíma daglega og fara þannig um 300 km á hverjum degi. Allt ferðalagið aðra leiðina tekur því um einn og hálfan mánuð, hreint ótrúlegt afrek fyrir fugl sem ekki vegur nema rúm 100 g.

Farflug kríunnar er eitt af undrum veraldar. Enginn annar fugl leggur að baki eins langt farflug. Reiknað hefur verið út að elstu fuglar fljúgi sem svarar þrisvar sinnum til tunglsins á ævinni, bara í farflugi. Á varp- og vetrarstöðvum er krían á sífelldu iði, svo heildarflugvegalengdin er talsvert meiri.

Kría 62

 Hrakfarir kríunnar

Árið 2005 fór að verða vart við ætisskort hjá kríum á sunnan og vestanverðu landinu. Þetta átti reyndar við allan þann fjölda sjófugla, sem byggir afkomu sína á sandsíli, eins og lunda, langvíu, ritu og sílamáf. Nýliðun sandsílis hefur meira og minna brugðist síðan þá og sér ekki fram á að það rétti úr kútnum í bráð. Eftir því sem lengra líður milli góðra árganga verður erfiðara fyrir sílið að rétta úr kútnum. Það þarf að koma til góð nýliðun i nokkur ár til að nái sér á strik. Ekkert bendir til að það sé að gerast nú. Þessi óáran er ríkjandi um sunnanvert landið, um línu dregna frá Arnarfirði í Stöðvarfjörð eða þar um bil. Norðan línunnar gengur varp sjófugla mun betur, bæði er meira af sandsíli og svo eru fleiri fæðutegundir fyrir fuglana að gæða sér á.

Kria59a

 

Þjóðtrú og nafnið

Þjóðtrú fylgir komutíma kríuannar, ein þeirra sagði hana birtast á krossmessu á vori og hverfa á krossmessu á hausti. Jafnframt fylgir þjóðtrú því að krían er aldrei kyrr.

Hún var áður nefnd þerna. Það nafn hefur nú færst á ættina og aðrar tegundir hennar. Kríunafnið er hljóðlíking eða hljóðnefni, krían segir nafnið sitt kríí-a.
Kría loksins kom úr hnattferð sinni,
flogið hafði um hálfa jörð,
hérna fann svo þennan fjörð.

Skúli Pálsson.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.