Missir Náttúruminjasafnið af Perlunni?

Skömmu fyrir síðastliðin jól var greint frá því í fjölmiðlum að stofnað hefði verið einkahlutafélag, Perluvinir ehf., í þeim tilgangi að setja upp náttúrusýningu í Perlunni. Þetta kom fram í viðtali við framkvæmdastjóra Perluvina, Helgu Viðarsdóttur, í Fréttablaðinu miðvikudaginn 16. desember 2015. Í umfjöllun Fréttablaðsins sagði að viðræður milli Náttúruminjasafns Íslands og Reykjavíkurborgar um slíkt sýningarhald í Perlunni hafi „siglt í strand“. Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins brást við þessari fregn með grein í Fréttablaðinu á Þorláksmessu. Hilmar benti m.a. á að viðræður safnsins og borgarinnar hafi beinst að ráðuneyti Náttúruminjasafnsins, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, og að þær hafi verið að frumkvæði safnsins. Einnig að ákvörðun um að hætta viðræðunum hafi verið tekin af hálfu Reykjavíkurborgar.

Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að hætta viðræðum við ráðherra og ráðuneyti hefur nú verið formlega staðfest en fimmtudaginn 7. janúar 2016 birti Reykavíkurborg auglýsingu þar sem óskað er eftir tilboðum frá áhugasömum aðilum um að sjá um rekstur og þjónustu á náttúrusýningu í Perlunni. Í kynningarefni auglýsingarinnar er ekki gert ráð fyrir neinni aðkomu Náttúruminjasafns Íslands.

Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að hætta viðræðunum er hörmuð en óskandi að ráðherra og ráðuneytið gaumgæfi vel alla möguleika sem enn eru fyrir hendi á aðkomu Náttúruminjasafnsins að þessu brýna verkefni.
Haftyrðill

Haftyrðill

Haftyrðill (Alle alle)

Haftyrðill í vetrarbúningi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Haftyrðill í vetrarbúningi.

Útlit og atferli

Haftyrðill er smæstur svartfugla og einn af minnstu sjófuglunum. Hann er þybbinn, hálsstuttur og mjög kubbslegur, á stærð við stara. Vængirnir eru stuttir. Á sumrin er hann svartur að ofan, niður á bringu, og hvítur að neðan. Hvítar rákir eru um axlir. Á veturna verður hann hvítur á bringu, kverk og upp á vanga. Stuttur, keilulaga goggurinn er svartur eins og fæturnir, augu eru dökk.

Haftyrdill10

Haftyrðlar á varpstöðvum á Svalbarða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Haftyrðillinn flýgur með hröðum vængjatökum eins og lundi og er ekki ósvipaður honum á flugi. Þó eru vængir hans styttri og undirvængir dökkir. Fuglinn virðist hálslaus á sundi og flugi. Hann er venjulega fremur djúpsyndur, með stélið lítið eitt uppsveigt og kafar ótt og títt en flýtur hátt í hvíld. Kvikari í hreyfingum en aðrir svartfuglar. Á varpstöðvunum fljúga fuglarnir um í hópum og kalla mikið. Utan varptíma er hann þögull.

Haftyrdill13a

Haftyrðlar á varpstöðvum við Svalbarða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Haftyrðill kafar eftir æti eins og aðrir svartfuglar, aðalfæðan eru svifdýr og smákrabbadýr: ljósáta, marflær og þanglýs.

Hann verpur í urðum og skriðum undir klettum og sjávarbjörgum eða í klettasprungum og rifum. Dvelur á veturna aðallega við hafísröndina og leitar lítið að landi nema á varptíma.

Haftyrdill14a

Haftyrðlar á flugi að sumri til. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Heimkynni og útbreiðsla

Haftyrðill er heimskautafugl sem varp áður á nokkrum stöðum við norðanvert landið. Um aldamótin 1900 urpu nokkur hundruð pör í Grímsey, á Langanesi og e.t.v. í Kolbeinsey, honum fækkaði síðan mjög, vegna hlýnandi veðurfars að því talið er. Hann er því fyrsti fuglinn sem við missum af völdum gróðurhúsaáhrifa, en væntanlega ekki sá síðasti.

Til skamms tíma urpu fáein pör í Grímsey, þar sem fuglinn var stranglega friðaður, en hann er nú alveg horfinn þaðan. Haftyrðill er mjög algengur í löndum norðan við okkur, t.d. á Grænlandi, Jan Mayen og Svalbarða, austur til Franz-Jósefslands. Árlega sést talsvert af honum hér á veturna, sérstaklega eftir norðanáttir og hann fylgir oft hafís. Þá getur haftyrðla hrakið langt inn á land í stórviðrum.

Haftyrðill 06

Haftyrðill í vetrarbúningi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú og sagnir

Fyrrum vakti það furðu þegar haftyrðlar fundust á veturna, dauðir eða lifandi, og vissu menn ekki hvaðan þessi furðufugl var kominn. Talið var að þetta væri þjóðsagnafuglinn halkíon. Hann átti samkvæmt grískum þjóðsögum að verpa úti á rúmsjó:

Einn fugl, sem heitir halkíon

Einn fugl, sem heitir halkíon
á hafinu blá,
búinn af Drottni
bústað á.

Um hávetur sér hreiður
úti á hafinu býr,
þá drjúg er nótt
en dagur rýr.

Haftyrðill var sagður fyrirboði um illviðri, en annars er lítið í þjóðtrúnni um fuglinn, fyrir utan söguna um halkíon. Litlar sagnir eru af nýtingu haftyrðils hér á landi, aftur á móti kæsa grænlendingar fuglinn og þykir herramannsmatur.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.