Alþjóðadagur vatnsins

Alþjóðlegur dagur vatnsins er haldinn hátíðlegur 22. mars ár hvert. Í ár býður Íslenska vatnafræðinefndin og Íslenska UNESCO-nefndin til morgunverðarfundar á Veðurstofu Íslands fimmtudaginn 31. mars og hefst fundurinn kl. 08. Þemað að þessu sinni er vatn og vinna og hér er dagskrá morguverðarfundarins. Meira má lesa um vatnadag Sameinuðu þjóðanna á heimasíðu samtakanna.

Öskjuvatn í ágúst 2007. Ljósmynd: Kristján Jónasson.

Öskjuvatn í ágúst 2007. Ljósmynd: Kristján Jónasson.

Ísland er afar vatnsríkt land og þjóðin býr að einstaklega dýrmætri auðlind sem felst í hreinu og heilnæmu neysluvatni, jafnt heitu sem köldu, ótölulegu úrvali fallvatna og fossa og aragrúa stöðuvatna. Afrennsli af landi er með því mesta sem þekkist í Evrópu, um 55 l/s/ferkm, og óvíða á jörðinni er að finna jafn stór lindasvæði og á Íslandi. Um 20% afrennslisins er lindavatn, 60% eru dragár og 20% koma frá jöklum.

Á alþjóðavísu eru lindavötn á yngri móbergsmyndun Íslands mjög athyglisverð. Lindavötn á Íslandi og hraunumhverfi þeirra eiga vart sinn líka í Evrópu hvað varðar umfang og eðlis- og efnaeiginleika, sem grundvallast á berggerðinni, hinu unga, hripleka basalthrauni. Vatnafræðilegir eiginleikar lindavatna einkennast m.a. af hreinleika, steinefnaríku innihaldi og stöðugleika í hitastigi og rennsli.

Mývatn og Þingvallavatn eru bæði af gerð lindavatna og teljast til helstu náttúruperla landsins vegna vatnafræðilegra eiginleika og lífríkisins. Um bæði vötnin gilda sérlög sem ætlað er að vernda vistkerfin á heildstæðan hátt. Um Mývatn gilda lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og um Þingvallavatn lög nr. 85/2005 um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

(more…)

„Safninu nær ómögulegt að sinna lögbundnu hlutverki sínu …“


2016-03-14-fbl-geirfuglasafnFjallað er um Náttúruminjasafn Íslands í leiðara Fréttablaðsins í dag undir fyrirsögninni: Geirfuglasafn. Þar segir m.a. að staða safnsins hafi árum saman verið „óásættanlega með öllu og í raun okkur öllum sem þjóð til háborinnar skammar. Náttúruminjasafn gæti í reynd verið okkur ómetanlegt við menntun og fræðslu um náttúruna sem er okkur svo mikilvæg og svo kær á tyllidögum…“ Í leiðaranum er m.a. vísað til viðtals sem Fréttablaðið birti 11. mars s.l. við Hilmar J. Malmquist, forstöðumann safnsins.

Tilefni þessarar umfjöllunar Fréttablaðsins er m.a. fyrirhuguð náttúrusýning í Perlunni, en Hilmar segir að safnið sé í stórundarlegri stöðu nú þegar náttúrusýning einkaaðila í Perlunni er fyrirséð. Eins og frá stofnun þess sé safnið án eigin húsnæðis til sýningarhalds, og nú séu einkaaðilar að fara að rækja lögbundnar skyldur höfuðsafns þjóðarinnar. “Náttúruminjasafnið kemur vissulega óbeint að þessari vinnu með faglegri ráðgjöf, en samningur liggur fyrir um slíkt við Perluvini.” Hvað það þýðir í framhaldinu, telur Hilmar ekki ljóst.

2016-03-11-mbl-höfuðsafn_big
“Það eru gríðarleg vonbrigði að ríkisvaldið skuli ekki styðja einhverja aðkomu safnsins að þessu verkefni á þessum tímapunkti”, segir Hilmar enn fremur, en það sé svo sem í takt við áherslur ríkisstjórnarinnar varðandi einkavæðingu samfélagslegrar þjónustu. „Alla vega hefur ráðherra hafnað þeirri leið að ríkið annist þetta, en líka að safnið komi að verkefninu með öðrum. Ráðherra verður að gefa upp hvert hann er að stefna með þetta safn. Ég hef óskað eftir fundum með honum um málefnið en hefur lítið orðið ágengt,“ segir Hilmar.

 

 

Merkileg rótarhnyðja á Náttúruminjasafninu

Rauðviðarhnyðjan er talin 8–10 milljón ára gömul.

Rauðviðarhnyðjan er talin 8–10 milljón ára gömul.

Náttúruminjasafni Íslands hefur borist myndarleg gjöf – steingerður trjáhnullungur, um 200 kg þungur, 60 cm hár og nær tveir metrar að ummáli. Gefandinn er Bryndís Þorsteinsdóttir, öldungur á tíræðisaldri, búsett í Reykjavík.  Steingervingurinn er með stærri steingerðum trjáleifum sem fundist hafa á Íslandi og bendir flest til að hann sé úr Loðmundarfirði eða Borgarfirði eystra. Ef þetta er tilfellið má leiða að því líkum að steingervingurinn sé 8–10 milljón ára gamall.

Hnullungurinn var stofustáss á heimili Bryndísar Þorsteinsdóttur og manns hennar Þorsteins Helgasonar.

Hnullungurinn var um árabil stofustáss á heimili Bryndísar Þorsteinsdóttur og manns hennar Helga H. Árnasonar. Myndin er tekin rétt fyrir 1988 eða 1989.

Það voru börn Bryndísar, Guðrún Helgadóttir jarðfræðingur og Þorsteinn Helgason arkitekt, sem höfðu milligöngu um gjöfina. Steingervinginn eignuðust Bryndís og maður hennar heitinn, Helgi H. Árnason verkfræðingur, árið 1984, þegar systir Helga, Hólmfríður Árnadóttir tannsmiður, færði þeim hann að gjöf. Hólmfríður mun aftur hafa eignast steinninn úr hendi vinar sem talið er að hún hafi kynnst í strætó, leið nr. 5. Nafn vinarins og gefandans er ekki þekkt en sú saga fylgir að hnullungurinn hafi komið frá Austfjörðum, jafnvel að gefandinn hafi með einhverjum hætti tengst Náttúrugripasafninu á Neskaupsstað.

Þeir sem þekkja til uppruna steingervingsins eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Náttúruminjasafnið.

Leifur Á. Símonarson, steingervingafræðingur og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður NMSÍ skoða steininn góða. Ljósm. ÁI.

Leifur Á. Símonarson, steingervingafræðingur og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður NMSÍ skoða steininn góða.

Steingervingurinn er með þeim stærri af þessari gerð á Íslandi. Nokkuð víst er að um rótarhnyðju er að ræða. Ekki er vitað með vissu um fundarstað en að mati sérfróðra sem skoðað hafa steingervinginn, þeirra Leifs Á. Símonarsonar prófessors í steingervingafræðum og Hjörleifs Guttormssonar náttúrufræðings, bendir flest til að hann sé frá svæðinu kringum Loðmundarfjörð/Borgarfjörð eystra, eins og fleiri steingervingar álíka að stærð, lit og annarri gerð.

Ef þetta er tilfellið má leiða að því líkum að steingervingurinn sé á bilinu 8–10 milljón ára gamall.

Rauðviðartré í Kaliforníu.

Rauðviðartré í Kaliforníu.

Mjög erfitt er að greina hið steingerða tré til tegundar, en sennilega er um að ræða tegund af ættkvísl rauðviðar (lat. Sequoia), stórvaxinna furutrjáa sem uxu hér á landi fyrir milljónum ára þegar loftslag var mun hlýrra.

Mikill fengur að þessari gjöf og er Bryndísi og aðstandendum hennar færðar bestu þakkir fyrir.

Steingervingurinn er varðveittur í skrifstofuhúsnæði Náttúruminjasafnsins, gömlu Loftskeytastöðinni á Brynjólfsgötu 5, en safnið og systurstofnunin, Náttúrufræðistofnun Íslands, hafa hvorki yfir að ráða sýningarrými né viðunandi geymslustað fyrir grip af þessu tagi.

Stundvís vorboði mættur!

Sílamáfur í ölduróti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sílamáfur í ölduróti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Fugl mánaðarins er sílamáfur, Larus fuscus, en hann er venjulega fyrstur farfugla til landsins. Hann brást ekki þetta árið og var mættur suður í Helguvík 25. febrúar s.l. Á næstu vikum má búast við að hann fari að sækja í brauð á Tjörninni eins og hans er siður.

Sílamáfurinn fór að verpa á Íslandi uppúr 1920 og finnst nú um allt land. Honum fer fjölgandi og oft á kostnað svartbaks, Larus marinus.

Sílamáfurinn er alger farfugl og dvelur við strendur Pýreneaskaga og NV-Afríku á veturna. Stofnstærðin er talin 20-35 þúsund fuglar.

Sjá meira um þennan hrjúfa vorboða hér. 

Sílamáfur

Sílamáfur

Sílamáfur (Larus fuscus)

Silamafur17a

Fullorðinn sílamáfur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útliti og atferli

Sílamáfur líkist svartbaki en er allmiklu minni og nettari, enda var hann kallaður litli-svartbakur fyrr á árum. Fullorðinn sílamáfur er dökkgrár á baki og yfirvængjum, með áberandi dekkri vængbrodda, svarta með hvítum doppum. Er að öðru leyti hvítur á fiður. Ungfugl á fyrsta hausti er allur dökkflikróttur, dekkstur stóru máfanna, líkist silfurmáfi en handflugfjaðrir og stórþökur eru dekkri (enginn „spegill“ eins og á silfurmáfi), stélbandið er breiðara og gumpurinn hlutfallslega ljósari en á silfurmáfi. Búningaskipti á öðru og þriðja ári eru svipuð og hjá silfurmáfi og svartbaki, þeir lýsast að neðan og dökkna að ofan og fá fullan búning á fjórða ári. Kynin eru eins útlits, en karlfuglinn er oftast heldur stærri.

Sílamáfur á 2. sumri.

Sílamáfur á öðru sumri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Fætur fullorðins sílamáfs eru gulir en ekki bleikir eins og á svartbaki. Goggur er gulur með rauðum bletti, augu ljósgul með rauðum augnhring. Ungfuglar á fyrsta ári eru með dökkbrúnan gogg og bleiklita fætur, á þriðja ári eru fætur ljósgulir.

Búningaskipti máfa, frá því að þeir skrýðast fyrsta ungfuglabúning og uns kynþroska er náð, eru afar flókin og er greining ungra máfa eitt erfiðasta verkefnið sem fuglaskoðarar standa frammi fyrir. Grámáfur er samheiti yfir unga, stóra máfa, en á ekki við neina eina tegund. Máfar skipta að hluta um fjaðurham á fyrsta hausti. Þá fella þeir höfuð- og bolfjaðrir. Eftir það skipta þeir um fjaðrir tvisvar á ári, á haustin (ágúst−október) fella þeir allt fiður, en höfuð- og bolfiður síðla vetrar (febrúar−apríl).

Fullorðinn sílamáfur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Fullorðinn sílamáfur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Vængir sílamáfs eru mjórri og odddregnari en svartbaks og ná lengra aftur fyrir stélið þegar hann fellir þá að búknum. Hann er léttur á sundi. Sílamáfur er félagslyndur og algengur í þéttbýli, hann er spakari en svartbakur. Hann sækir meira í skordýr en aðrir stórir máfar. Röddin er hærri en svartbaks, en dýpri en silfurmáfs.

Lífshættir

Sílamáfur er með fjölbreyttan matseðil, en sandsíli og annar smáfiskur er þar ofarlega á lista. Leitar meira ætis á landi en aðrir stórir máfar, tekur þá m.a. skordýr og orma og fer í berjamó á haustin. Önnur fæða er t.d. hræ, úrgangur, egg og fuglsungar.

Hann verpur í mólendi og graslendi, á áreyrum, holtum, söndum og uppi á fjöllum, oftast við ströndina, en einnig inn til landsins, stundum í félagsskap við svartbak og silfurmáf. Hreiðrið er gert úr mosa, sinu og öðrum gróðri, oft staðsett milli steina eða þúfna.

Varpland sílamáfs. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Varpland sílamáfs. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sílamáfapar. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sílamáfapar. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Hreiður sílamáfs. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Hreiður sílamáfs. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Nýfleygur sílamáfsungi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Nýfleygur sílamáfsungi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Varp sílamáfs hefst hérlendis í maí og verpur hann yfirleitt þremur eggjum. Ungarnir eru nokkuð sjálfbjarga þegar þeir klekjast og yfirgefa hreiðrið innan nokkurra daga en halda sig yfirleitt í grennd við það. Þeir verða fleygir á 30-40 dögum. Sílamáfar hefja varp að meðaltali fjögurra ára gamlir en geta orpið þriggja ára.

Heimkynni og ferðir

Sílamáfur er nýr landnemi á Íslandi Talið er að hann hafi fyrst orpið hér á landi á árunum upp úr 1920, en varp við sunnanverðan Faxaflóa hófst upp úr 1950. Nú finnst sílamáfur um allt land og fer honum fjölgandi, sums staðar á kostnað svartbaks að því er virðist. Stærsta varpið er á Miðnesheiði á Rosmhvalanesi, aðallega innan girðingar Keflavíkurflugvallar. Það náði 36.600 pörum árið 2004, en hefur væntanlega minnkað síðan vegna ætisskorts. Afkoma sílamáfs, eins og flestra annarra sjófugla á Suður- og Vesturlandi, hefur verið léleg undanfarinn áratug vegna skorts á sandsíli.

Sílamáfur er eini máfurinn sem er alger farfugl. Hann dvelur við strendur Pýreneaskaga og NV-Afríku á veturna. Heimkynni hans eru annars í V- og N-Evrópu, austur til Síberíu.

Sílamáfur í ætisleit. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sílamáfur í ætisleit. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Vorboðinn hrjúfi

Sílamáfurinn er venjulega fyrstur farfugla til að koma til landsins og er það oftast nær á góunni, meðalkomutími fyrstu fugla 1998-2013 var 25. febrúar. Hann er því fyrsti fleygi vorboðinn og hefur fengið viðurnefið vorboðinn hrjúfi. Þegar þessi orð voru sett á blað, 25. febrúar 2016, bárust fregnir af fyrsta sílamáfinum frá Helguvík á Suðurnesjum! Þetta sýnir hversu stundvísir og vanafastir fuglar geta verið.

Þjóðtrú og kveðskapur

Sílamáfurinn er svo nýr landnemi, að engin sérstök þjóðtrú hefur myndast um hann, ef undan er skilin sú óbeit sem margir hafa á þessum fallega fugli, vegna nálægðar hans við manninn. Sílamáfar eiga það til að ná í auðfengna fæðu, sem ekki er beint ætluð þeim: kjöt af grillum, brauð á Tjörninni, sorp á víðavangi, hangandi fisk … Hungrið gerir ekki „mannamun“.

Sílamáfur í ölduróti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sílamáfur í ölduróti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Fuglinn í fjörunni

Fuglinn í fjörunni
hann heitir már.
Silkibleik er húfan hans
og gult undir hár.
Er sá fuglinn ekki smár,
bæði digur og fótahár,
á bakinu svartur, á bringunni grár.
Bröltir hann oft í snörunni,
fuglinn í fjörunni.

Theódóra Thoroddsen.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.