Náttúruminjasafninu sleppt í fjármálaáætlun ríkisins

Fréttatilkynning frá Náttúruminjasafni Íslands 25. maí 2016.

Náttúruminjasafn Íslands hefur brugðist hart við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára en áætlunin er nú til umfjöllunar í fjárlaganefnd Alþingis. Í umsögn safnsins kemur fram að það valdi verulegum vonbrigðum og veki undrun að hvergi í fjármálaáætluninni er vikið að málefnum Náttúruminjasafnsins, hvorki um fjármögnun á sýningaraðstöðu né til almenns rekstrar. Er ríkisstjórnin hvött til þess að grípa tækifærið – nú þegar efnahagslegur uppgangur gerir kleift að ráðast í fjármögnun aðkallandi verkefna – og koma Náttúruminjasafninu á legg, en safnið er skv. lögum eitt þriggja höfuðsafna landsmanna auk Þjóðminjasafns og Listasafns Íslands.

Í umsögninni segir að svo líti út sem ríkisvaldið ætli enn að heykjast á þeirri skyldu sinni að koma fótunum undir þá stofnun sína sem lögum samkvæmt er ætlað miðlægt lykilhlutverk við upplýsingu og menntun um aðskiljanlegar náttúrur Íslands – náttúrusögu, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda. Þar er einnig bent á að fjárveitingar til reksturs safnsins hafa frá árinu 2008 numið um 25 milljónum króna á verðlagi hvers árs á sama tíma og allar vísitölur hafa hækkað um 55–70%.

Í umsögninni segir m.a.:

„Það er ekki einasta að beðið hafi verið í tíu ár, frá formlegri stofnun safnsins, eftir því að Náttúruminjasafnið njóti þess stuðnings frá Alþingi sem höfuðsafnið á skilið og þarf nauðsynlega á að halda til standa undir nafni, heldur er biðin orðin hartnær 130 ár, eða síðan 1889 þegar forveri safnsins, Hið íslenska náttúrufræðifélag, var stofnað. Eitt helsta markmið félagsins frá upphafi hefur verið „að koma upp sem fullkomnustu náttúrugripasafni á Íslandi, sem sé eign landsins og geymt í Reykjavík“ eins og segir samþykkt frá 16. júní 1889. Þetta markmið er enn í fullu gildi því ennþá hefur þjóðin ekki eignast viðunandi aðstöðu til sýningahalds um náttúru Íslands sem sæmir höfuðsafni á sviði náttúrufræða. Samkvæmt fjármálaáætluninni virðist stefnt að því að halda því ástandi óbreyttu í a.m.k. fimm ár til viðbótar.“

Umsögnina í heild má lesa hér.

HÍN krefst þess að ríkið standi við samninginn frá 1947

Hið íslenska náttúrufræðifélag hefur sent fjárlaganefnd umsögn um ríkisfjármálaáætlun 2017-2021. Þar segir að Náttúruminjasafnið búi við óviðunandi aðstæður og í árafjöld hafi ríkt algjör óvissa um aðstöðu safnsins til sýningarhalds. Málið sé félaginu skylt: Safnið sé afsprengi félagsins og hafi verið í eigu þess um langt skeið. Það valdi undrun og vonbrigðum að hvergi skuli vikið að safninu né fjárþörf þess í fjármálaáætluninni.

Félagið minnir á að á árinu 1947 voru ríkinu afhentar eignir HÍN, þ.á m. safneignin og álitlegur byggingasjóður í trausti þess að byggt yrði yfir safnið. Ríkið og menntamálaráðuneytið geti ekki skorast undan því að standa við þann samning nema með því að segja honum upp og skila til baka því eða jafnvirði þess sem það fékk í hendur þegar hann var undirritaður. Væntir félagið þess að ríkið standi við skuldbindingar sínar og skorar á fjárlaganefnd að leggja fram tillögur um fjárveitingar sem geri safninu kleift að sinna lögbundnum hlutverkum sínum.

Hér má lesa umsögn HÍN.

Náttúruminjasafnið á alþjóðlega safnadeginum 18. maí 2016

Capture

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn ár hvert þann 18. maí að frumkvæði Alþjóðaráðs safna (International Council of Museums, ICOM). Þemað í ár er „Söfn og menningarlandslag“ („Museums and Cultural Landscapes“) og eru söfn um víða veröld hvött til að líta út fyrir veggi safnanna og huga menningarlegu, sögulegu og náttúrulegu landslagi utan þeirra.

Í tilefni dagsins stendur Íslandsdeild ICOM fyrir hádegisviðburði í fyrirlestrarsal Safnahússins við Hverfisgötu. Formaður Íslandsdeildar ICOM, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir flytur ávarp, listgreinakennararinir Ásdís Spanó og Hugrún Þorsteinsdóttir fjalla um fræðsluefni um útilistaverk í Reykjavík og Ólöf Gerður Sigfúsdóttir kynnir tilnefningar til Íslensku Safnaverðlaunanna 2016. Dagskrána má kynna sér hér.

Náttúruminjasafnið í Safnahúsi

Geirfuglinn var kjörgripur sýningarinnar Sjónarhorn í Safnahúsinu og verður þungamiðja á nýrri sérsýningu þar í júní.

Geirfuglinn verður þungamiðja á nýrri sérsýningu í Safnahúsinu í samvinnu Náttúruminjasafnsins og Ólafar Nordal, myndlistarmanns.

Náttúruminjasafn Íslands fagnar alþjóðlega safnadeginum og vill rifja upp það sem hæst bar á vegum safnsins á liðnu ári. Þar ber fyrst að nefna þátttöku safnsins í sýningunni „Sjónarhorn“ í Safnahúsinu við Hverfisgötu, sem er fyrsta sýningin sem safnið tekur þátt í frá stofnun 2007. Sýningin á geirfuglinum sem fyrsta „kjörgrip“ sýningarinnar stóð í eitt ár og vakti mikla athygli. Í ljósi þess hefur nú verið ákveðið að Náttúruminjasafnið standi fyrir nýrri sérsýningu á geirfuglinum í Safnahúsinu. Þar verður hann settur á stall sem sá ómetanlegi gripur sem hann er, fjallað verður um fækkun tegunda af manna völdum og mun Ólöf Nordal myndlistarmaður vinna og sýna ný verk tengd útrýmingu geirfuglsins. Sýningin verður opnuð 16. júní n.k. á stofndegi Hins íslenska náttúrufræðifélags.

Skrifstofur safnsins festar í sessi 

Á árinu hefur aðstaða safnsins í gömlu Loftskeytastöðinni við Suðurgötu, Brynjólfsgötu 5, verið fest í sessi. Þar eru skrifstofur safnsins og ritstjóri Náttúrufræðingsins auk ágætrar fundaraðstöðu. Í Loftskeytastöðinni starfa nú ýmsir sérfræðingar á eigin vegum og í samvinnu við Náttúrminjasafnið og má þar nefna Viðar Hreinsson bókmenntafræðing og rithöfund, Sigrúnu Helgadóttur, líffræðing og rithöfund, Skúla Skúlason, prófessor, Stefán Óla Steingrímsson líffræðing og starfsmenn Rorum ehf., Þorleif Eiríksson og Sigmund Einarsson.

Samvinna um væntanlegt sýningarhald í Perlunni

Loks er þess að geta að á árinu gerði Náttúruminjasafnið samning við Perluvini ehf. um samvinnu um væntanlegt sýningarhald Perlu norðursins í Perlunni. Reykjavíkurborg hefur samið við Perlu norðursins um uppsetningu náttúrusýningar þar og er frekari aðkoma og stuðningur Náttúruminjasafnsins við sýninguna í undirbúningi.

Sömu fjárveitingar og 2007

Þrátt fyrir allt sem að framan er talið verður að viðurkennast að staða höfuðsafnsins hefi ekki verið jafn bág í hartnær tíu ára sögu safnsins hvað varðar fjárheimildir og annan stuðning frá ríkisvaldinu. Árlegt rekstrarfé frá upphafi starfseminnar árið 2007 hefur að jafnaði numið um 25 m.kr. – á verðlagi hvers árs, en á sama tíma hafa vísitölur hækkað um 45–52%! Aukið rekstrarfé hefur ekki fengist.

Steypireyðurin

Takmarkaðar fjárheimildir Náttúruminjasafnsins hafa m.a. í för með sér að safnið getur ekki sinnt lögboðnum og umsömdum verkefnum. Eitt skýrasta og alvarlegasta dæmið um þetta varðar steypireyðina sem rak á land við Ásbúðir á Skaga í ágúst 2010 og flutt var síðastliðið haust norður í Hvalasafnið á Húsavík en hefði átt að verða þungamiðja í fyrirhugaðri sýningu Náttúruminjasafnsins í Perlunni í Öskjuhlíð.

Náttúruminjasafnið var sniðgengið þegar kom að uppsetningu beinagrindarinnar og umsjón með gerð varðveislusamnings um gripinn. Var það þvert á yfirlýsingar mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi 3. nóvember 2014. Forstöðumaður Náttúruminjasafnsins hefur því séð sig knúinn til að drepa niður penna og fjalla sérstaklega um það mál, m.a. í ljósi umfjöllunar í ársriti Náttúrufræðistofnunar fyrir árið 2015 en Náttúruminjasafn Íslands hefur frá upphafi haft beina aðkomu að málefninu, jafnt faglega sem fjárhagslega.

Pistill forstöðumanns 18. maí 2016.

Óðinshani

Óðinshani

Óðinshani  (Phalaropus lobatus)

Óðinshani 12

Óðinshani, kvenfugl.                                                                       Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útlit og atferli

Óðinshani er með allra síðustu farfuglunum sem birtist hér á norðurhjara. Hann er smávaxinn og fínlegur fugl á stærð við lóuþræl. Óðinshaninn er gráleitur að ofan, fremur dökkur á sumrin en ljósari á vetrum og ljós að neðan. Í sumarbúningi hefur hann breiðan, rauðgulan kraga um hálsinn og hvítan blett í kverkinni. Höfuð, afturháls og bringa eru annars grá. Bakið er dökkt með gulleitum langrákum. Litur kvenfuglsins er skærari en karlfuglsins. Hann er hvítur að neðan og með ljós vængbelti, gumpurinn er hvítur með svartri miðrönd sem nær út á grátt stélið. Síðsumars og á veturna er fuglinn ljósblágrár að ofan en hvítur að neðan, með dökka augnrák. Ungfugl er svipaður en dekkri á kolli, hnakka og afturhálsi; á baki svipaður og fullorðinn fugl í sumarbúningi. Svartur goggurinn er grannur og fíngerður og augun dökk. Fætur eru dökkgráir með sundblöðkum.

Óðinshani í vetrarbúningi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Óðinshani í vetrarbúningi.

Óðinshaninn flýgur hratt og flöktir mikið. Oftast sést hann á sundi. Hann liggur hátt í vatninu og skoppar á vatnsborðinu. Óðinshani er spakur fugl og félagslyndur utan varptíma.

Óðinshani 20

Óðinshanahjón á góðri stundu.                                                    Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Í tilhugalífinu á kvenfuglinn frumkvæðið og það er karlfuglinn sem sér um álegu og ungauppeldi, en kerlan lætur sig hverfa strax eftir varpið og getur stundum verið í tygjum við fleiri en einn karl (fjölveri). Dömurnar safnast saman í hópa og frílista sig meðan karlarnir streða við uppeldið. Þessi femínismi er líka við lýði hjá hinum sundhönunum: þórshana og freyshana.

Nýklakinn óðinshanaungi.

Nýklakinn óðinshanaungi.                                                              Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Femínismi í framkvæmd: þrjár dömur elta einn herra.

Femínismi í framkvæmd: Þrjár dömur elta einn herra.            Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Óðinshani hringsnýst á sundi og þyrlar upp fæðu, dýfir gogginum ótt og títt í vatnið og tínir upp smádýr eins og rykmý, brunnklukkur, smákrabbadýr, tínir einnig rykmý af tjarnarbökkum og landi.  Úti á sjó etur hann svif.

Algengur um land allt, einkum á láglendi, en finnst einnig víða á hálendinu. Uppáhaldsbúsvæði hans eru lífrík votlendi, t.d. gulstararflóð með tjörnum og kílum, og er þéttbýli mikið, t.d. í Mývatnssveit. Hreiðrið er dæld í þúfu, mosa eða sinu, ávallt vel falið. Er utan varptíma einkum við ströndina á sjávarlónum og tjörnum, en stórir hópar sjást einnig á sjó við landið. Hann hefur hér skamma viðdvöl. Úthafsfugl á veturna.

Fugl með gagnarita (ljósrita). Hann er innan við gramm að þyngd, fuglinn ekki nema 40g.

Óðinshani með gagnarita (ljósrita). Ritinn er innan við gramm að þyngd og fuglinn um 40 grömm. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Vetrarstöðvar óðinshana voru hjúpaðar leynd þar til í fyrra, en þá endurheimtist fugl norður í Aðaldal, sem bar agnarlítinn gagnarita eða ljósrita. Hann gat sagt okkur að vetrarstöðvarnar væru útaf ströndum Perú og suðaustur af Galapagos eyjum. Ótrúlegt hvernig þessi litli fugl getur lagt slíkar vegalengdir að baki. Varpheimkynni hans eru víða um norðanvert norðurhvelið.

Þjóðtrú og sagnir

Lítil þjóðtrú virðist fylgja óðinshananum. Tvö önnur nöfn vekja athygli, hann er sums staðar kallaður skrifari vegna þess hvernig hann hringsnýst á pollum og tjörnum og virðist skrifa á vatnsborðið með goggnum. Nafnið torfgrafarálft er ögn langsóttara, þó hann hafi verið algengur á torfgröfum (mógröfum).

Óðinshanahópur á sjó.

Óðinshanahópur á sjó. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Óðinshaninn

Mín vegferð er vanrímað kvæði!
En í vatnsins spegilró
týnast óðar öll mín fræði,
svo ótt sem ég skrifa þó –
og þó – og þó?

Eftir Þorstein Valdimarsson


Og litlu neðar, einnig út við Sog,
býr Óðinshani, lítill heimsspekingur,
sem ég þarf helzt að hitta í góðu næði.

II

Hvað er að frétta, heillavinur minn?
—Hér hef ég komið forðum mörgu sinni,
og öll mín fyrstu óðinshanakynni
áttu sér stað við græna bakkann þinn.
 
Þá bjuggu hérna önnur heiðurshjón,
háttvís og prúð, og það er lítill vafi,
að hjónin voru amma þín og afi.
En hvað þið getið verið lík í sjón.
 
Já, gott er ungum fugli að festa tryggð
við feðra sinna vík og mega hlýða
bernskunnar söng, sem foss í fjarlægð þrumar.
 
Og megi gæfan blessa þína byggð
og börnum þínum helga vatnið fríða,
fugl eftir fugl og sumar eftir sumar.

Hluti af Þremur ljóðum um lítinn fugl eftir Tómas Guðmundsson.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.