Náttúruminjasafn Íslands
á kortið 2018–2022

„Stórtíðindi,“ segir forstöðumaður safnsins

Síðasta verk Alþingis fyrir kosningar var að samþykkja ályktun nr. 70/145 um aðgerðir í tilefni af aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018.  Þar er m.a. gert ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands og í greinargerð segir að mikilvægt sé að „koma á byggingu sem hýsi merkar náttúruminjar og tryggja Náttúruminjasafni með því aðstöðu til frambúðar.“

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands

„Þetta eru stórtíðindi fyrir alla sem unna náttúru landsins, náttúrufræðikennslu og vilja hag náttúrunnar og mannfólksins sem mestan og bestan. Þetta er í fyrsta sinn sem fyrir liggur staðfestur vilji Alþingis og tilmæli til ríkisstjórnar um að gera skuli vel við þessa mikilvægu stofnun síðan hún var sett á laggirnar, en eins og kunnugt er hefur safnið barist í bökkum frá upphafi. Ég bind miklar vonir við þessa merku þingsályktun,“ segir dr. Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins.

Það vakti athygli þegar fyrsta fimm ára ríkisfjármálaáætlunin var kynnt s.l. vor að þar var ekki vikið orði að Náttúruminjasafni Íslands, höfuðsafns þjóðarinnar í náttúrufræðum, en í hartnær 130 ár, síðan forveri safnsins, Hið íslenska náttúrufræðifélags var stofnað hefur verið beðið eftir viðunandi aðstöðu til sýningarhalds og fræðslu sem sæmir landi og þjóð. Um þetta var m.a. fjallað hér á vefsíðu NMSÍ. En nú er öldin önnur: Í næstu fjármálaáætlun til fimm ára, sem lögð verður fyrir Alþingi 2017 skal ríkisstjórnin skv. ákvörðun Alþingis tryggja að gert verði ráð fyrir uppbyggingu fyrir safnið, þ.e. á árunum 2018–2022.

Þau fluttu tillöguna á Alþingi sem 56 þingmenn samþykktu.

Þau fluttu tillöguna á Alþingi sem 57 þingmenn samþykktu.

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra mælti fyrir tillögunni sem hann flutti ásamt öllum formönnum flokka sem sæti eiga á Alþingi, Birgittu Jónsdóttur, Bjarna Benediktssyni, Katrínu Jakobsdóttur, Oddnýju G. Harðardóttur og Óttari Proppé, og var ályktunin samþykkt með 56 atkvæðum en sjö voru fjarstaddir.

Sem fyrr segir er það aldarafmæli fullveldisins 2018 sem er tilefni ályktunarinnar og mun Alþingi kjósa skuli nefnd til að afmælið, m.a. hátíðafund á Þingvöllum 18. júlí og önnur hátíðahöld 1. desember. Þá verður efnt til samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar, tekið saman rit um aðdraganda sambandslaganna og inntak fullveldisréttarins, efnt til sýningar á helstu handritum Árnastofnunar, stuðlað að heildarútgáfu Íslendingasagnanna og skólar hvattir til að beina sjónum að þeim tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum 1918.

Auk framangreinds skal ríkisstjórnin eins og fyrr segir sjá til þess að gert verði ráð fyrir uppbyggingu Náttúruminjasafns í næstu fjármálaáætlun, undirbúa uppbyggingu innviða fyrir máltækni fyrir íslenska tungu og fimm ára áætlun um það efni og loks felur Alþingi Þingvallanefnd að ljúka stefnumörkun fyrir framtíðaruppbyggingu þjóðgarðsins á Þingvöllum og efna til sýningar um sögu Þingvalla og náttúrufar.

Himbrimi

Himbrimi

Himbrimi (Gavia immer)

Himbrimi á hreiðri.

Himbrimi á hreiðri.

Himbrimi er af ættbálki brúsa (Gaviiformes) en þeim ættbálki tilheyra aðeins fimm tegundir og tvær þeirra lifa hér á landi. Lómurinn er hinn brúsinn sem hér á heima.

Himbrimi gólar!

Himbrimi gólar!

Útlit og atferli

Himbrimi er stór, sterklegur og rennilegur vatnafugl, einn af einkennisfuglum íslenskra heiðavatna. Á sumrin er hann með gljásvart höfuð og háls, á hálsi er ljós kragi með svörtum langrákum og sama litamynstur á bringuhliðum. Hann er svartur að ofan, alsettur hvítum tíglum eða dílum sem eru mest áberandi á axlafjöðrum. Bringa og kviður eru hvít, vængir dökkir að ofan en hvítir að neðan. Á veturna er hann grábrúnn að ofan, með dekkri koll og afturháls, hvítur á vöngum, framhálsi og að neðan. Ungfugl er svipaður en ljósari fjaðrajaðrar mynda daufa tígla að ofan. Kynin eru eins. Goggurinn er svartur og gildur og minnir á rýting. Hann lýsist á vetrum. Fætur eru dökkbrúnir og augu dökkrauð.

Himbrimi er svipaður lómi á veturna en dekkri, stærri og þreknari en hann, með breiðari gogg sem veit beint fram; þeir frændur minna jafnframt nokkuð á skarfa og fiskiendur á sundi.

Hljóð himbrimans eru langdregin vein og köll. Hann er hávær á varptíma, sérstaklega á nóttunni, en þögull ella.

Himbrimi á flugi.

Himbrimi á flugi.

Himbrimi magalendir.

Himbrimi magalendir.

Himbriminn flýgur með kraftmiklum vængjatökum. Á flugi er hálsinn niðursveigður og fæturnir skaga aftur fyrir stélið. Hann er fimur sundfugl, mikill kafari og fremur djúpsyndur, þungur til flugs og lendir á maganum en ber ekki fæturna fyrir sig eins og flestir fuglar. Brúsar geta ekki gengið vegna þess hve fæturnir eru aftarlega á búknum. Þeir koma ekki á land nema til að verpa og skríða þá á maganum til og frá hreiðrinu. Eru venjulega stakir, í pörum eða litlum hópum.

Lífshættir

Himbrimi er fiskiæta. Á ferskvatni er silungur aðalfæðan en litlir ungar fá hornsíli. Á sjó veiðir hann m.a. marhnút, ufsa, þorsk, skera og trjónukrabba.

Hann verpur við vötn og tjarnir með silungi, frá sjávarmáli upp í 600 m hæð. Hreiðrið er stór en grunn laut á vatnsbakka eða í litlum hólma og myndast vel troðin slóð milli hreiðurs og vatns. Ungarnir fara á vatn um leið og þeir verða þurrir. Foreldrarnir fæða þá þangað til þeir geta farið að veiða sjálfir. Himbrimi er mjög heimaríkur og líður ekki önnur himbrimahreiður nærri sínu. Það er aðeins á stærstu vötnum, sem finna má fleira en eitt par. Á Þingvallavatni eru oftast 4-5 pör og 1-2 á Úlfljótsvatni.

Himbrimapar með nýklakinn unga.

Himbrimapar með nýklakinn unga.

Nýklakinn ungir mataður.

Nýklakinn ungir mataður.

Himbrimi með unga á baki.

Himbrimi með unga á baki.

Himbrimapar með hálfstálpaða unga.

Himbrimapar með hálfstálpaða unga.

Á haustin safnast þeir stundum í hópa og er hópurinn á Þingvallavatni þekktastur, þar hafa sést yfir 200 himbrimar í október. Fuglar geta dvalið fram yfir áramót, en vatnið leggur venjulega í janúar.

Himbrimar dvelja annars á veturna við strendur og geldfugl er aðallega á sjó á sumrin.

Útbreiðsla og ferðir

Himbriminn er að nokkru farfugl. Staðfuglar hafa vetursetu við ströndina en farfuglar eru við Bretlandseyjar og Vestur-Evrópu. Ísland er eini varpstaður þessa vesturheimsfugls í Evrópu en hann er algengur á meginlandi Norður-Ameríku og á Grænlandi.

Himbrimi í vertrarklæðum.

Himbrimi í vertrarklæðum.

Þjóðtrú og sagnir

Himbrimans er helst getið í þjóðtrúnni sem veðurspáfugls:
„Brúsinn eða himbriminn, er einhver með allra fegurstu og stærstu sundfuglum hér og hefur þótt góður spáfugl. Hann hefur og fagra rödd og mikla. Þegar hann gólar á vatni segja menn, að hann „taki í löppina“, og þyki það vita á vætu. En fljúgi hann um loftið með miklum gólum, veit hann veður og vind í stél sér. “
Íslenskar þjóðsögur og –sagnir. Sigfús Sigfússon.

Sömuleiðis nefnir Jónas Jónasson frá Hrafnagili himbrimann sem veðurspáfugl.

Kveðskapur

Himbrimi
á djúpu
vatni
fjallsins
bláa
fjarlægur
söngur
dimmur
fagur
sumar
nætur
hljóðar
lofar
lífið
góða
snertir
landið
hreina
eina

Eftir Ferdinand Jónsson, úr ljóðabókinni Innsævi.

Himbrimi stígur dans á Kaldbakstjörn við Húsavík.

Himbrimi stígur dans á Kaldbakstjörn við Húsavík.


Himbriminn kallast
á við kyrrðina og kveðst
á við sólina

Úr ljóðinu Myndir af Melrakkasléttu eftir Andra Snæ Magnason.


Og vinur minn himbrimi af vatninu til mín kallar:
Velkominn hingað í bláheima, drengur minn!
Ég svara af bragði: Ég veit hvar frúsla þín verpir,
og vandlega skal ég þegja um bústað þinn!

Úr ljóðinu Að Skálabrekku eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.