Hettumáfur

Hettumáfur

Hettumáfur (Larus ridibundus)

Hettumáfshjón í varpi á Stokkseyri.

Fullorðinn hettumáfur á flugi í Borgarfirði.

Máfar, kjóar og þernur eru af sama ættbálki og vaðfuglar og svartfuglar og teljast til strandfugla (Charadriiformes). Fuglarnir hafa sundfit, flestir máfar og kjóar eru með sterklegan gogg sem er krókboginn í endann. Þeir eru leiknir flugfuglar. Kynin eru eins útlits, en karlfuglinn er oftast heldur stærri. Máfar, kjóar og þernur verpa yfirleitt í byggðum. Ungar þeirra eru bráðgerir. Máfum er oft skipt í tvo hópa til hægðarauka, stóra máfa (svartbakur, hvítmáfur, sílamáfur o.fl.) og litla (t.d. hettumáfur, rita og stormmáfur).

Hettumáfar kljást. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Hettumáfur í júlí á Stokkseyri, aðeins byrjaður að fella hettuna.

Útlit og atferli

Hettumáfur er algengur votlendisfugl og minnsti máfurinn sem verpur hér á landi að staðaldri. Hann er oftast auðþekktur, ljósari, minni og léttari á flugi en rita og stormmáfur. Í sumarbúningi er fullorðinn fugl ljósgrár á baki og vængjum en annars hvítur að mestu. Dökkbrún hetta nær niður á háls, vængbroddar eru svartir. Hettumáfur er hettulaus í vetrarbúningi, frá ágúst og fram í mars, með svartar kámur aftan augna. Nýfleygir ungar eru brúnflikróttir að ofan en lýsast á haustin. Fugl á fyrsta vetri er hvítur á höfði, hálsi og að neðan, vængir brún- og svartflikróttir að ofan, stéljaðar svartur. Fær fullan búning á öðru hausti. Mjósleginn goggur og fætur eru hárauðir á fullorðnum hettumáfi, en ungfugl er með bleiklita fætur og gogg með dökkum broddi. Augu eru dökk og augnhringur er hvítur.

Hettumáfur er ekki eins mikill sjófugl og rita. Hann sést oft við fæðuleit í fjörum, á leirum og við skólpræsi. Er félagslyndur og fremur spakur. Gefur frá sér hávært garg, sérstaklega um varptímann.

Hettumáfur með hreiðurefni í varpi í tjarnarstör á Stokkseyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Hettumáfshreiður. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Hettumáfsungi á Stokkseyri.

Hettumáfur með þrjá fullvaxna unga á við Þrísteinaflóð, Stokkseyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Nýfleygur hettumáfsungi á Akureyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Ársgamall hettumáfur í vetrarbúningi við Reykjavíkurtjörn.

Lífshættir

Aðalfæða hettumáfs er úr dýraríkinu, svo sem skordýr, sniglar, ormar og aðrir hryggleysingjar. Hann sækir einnig í smáfisk, ber og úrgang og leitar ætis fljúgandi, syndandi og gangandi. Stundum eltir hann sláttuvélar eða plóga og hremmir smádýr sem koma í ljós í slægjunni eða plógfarinu.

Verpur í byggðum í margs konar kjörlendi á láglendi, bæði blautu og þurru, en er hændastur að votlendi, við strendur, á söndum, í mýrlendi og við vötn og tjarnir girtar ljósastör, stundum í nábýli við kríu. Hreiðrið er dyngja úr þurrum gróðri, getur orðið stórt um sig í votlendi. Eggin eru oftast þrjú, álegan tekur 23-26 daga, og ungarnir verða fleygir á um fimm vikum. Hettumáfur nam hér land á 20. öld. Líkt og krían er hann harðfylginn og ver vörp sín gegn óboðnum gestum og sækjast endur og vaðfuglar eftir því að verpa innan um hettumáfa. Hann er því lykiltegund.

Hettumáfshjón í varpi á Stokkseyri.

Útbreiðsla og stofnstærð

Hettumáfur er að mestu farfugl, þó fáein þúsund hafi hér vetursetu, aðallega á Suðvesturlandi, en í minna mæli á norðanverðu landinu. Hann er útbreiddur um land allt, en stærstu byggðirnar eru á Suðurlandi, við sunnanverðan Faxaflóa og um miðbik Norðurlands. Byggðirnar geta verið óstöðugar og eru dæmi þess að stærstu vörp hafa flutt sig um set, stundum tímabundið. Vetursetufuglar halda til í höfnum og við þéttbýli, en farfuglar fara til Vestur-Evrópu en einnig til SV-Grænlands, Nýfundnalands og víðar um Norður-Ameríku, þar sem hann er nýfarinn að verpa. Er annars varpfugl um mestalla Evrópu og austur um norðanverða Asíu. Varpstofninn hér er talinn vera 25.000-30.000 pör.

Skildar tegundir

Litli frændi hettumáfsins, dvergmáfur, hefur verið að þreifa fyrir sér með landnám hér á síðustu árum, hreiður hans hafa fundist í hettumáfsvörpum á Norðurlandi. Trjámáfur er systurtegund hettumáfs í Norður-Ameríku, og hefur hann einu sinni orpið hérlendis.

Dvergmáfur við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Trjámáfur á Rauðasandi.

Þjóðtrú, sagnir og kvæði

Þar sem hettumáfurinn er svo nýr borgari í náttúru Íslands er ekkert um hann að finna í íslenskri þjóðtrú. Enginn virðist hafa fundið sig knúinn til að yrkja um hann. Hettumáfur er stundum nefndur dagblaðskría, en það gerðist ítrekað hér á árum áður, að blöðin birtu mynd af hettumáfi á forsíðu og sögðu að krían væri komin. Blöðin í dag hafa tekið sig á í fuglagreiningu.

 

Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson.