Handagangur í Öskjuhlíð!

Handagangur í Öskjuhlíð!

Mælt fyrir fyrsta veggnum á sýningarsvæði safnsins í Perlunni.
Ljósm. AKG.

Viðgerðum í kjölfar bruna sem varð í Perlunni 26. apríl s.l. er að ljúka nú og uppsetning á sýningu Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru Íslands, hófst í morgun á gólfrými Perlunnar.

Markmiðið er að opna sýninguna 1. desember n.k. þannig að ljóst er að mikið verk er framundan. Undirbúningur miðaðist í upphafi við að safnið fengi svæðið afhent í byrjun júní, en skemmdir vegna brunans voru mun umfangsmeiri en fyrst var talið og því var það núna fyrst undir lok september að rýmið, um 350 fm á 2. hæð, var afhent safninu.

Þannig var umhorfs eftir brunann 26. apríl s.l. í sýningarrými Náttúruminjasafnsins.

Búið er að klæða einn tank af þremur sem snúa inn í rými safnsins. Hér má sjá á tankinn sem kviknaði í.  Ljósm. AKG.

Margir leggja hönd á plóginn og koma við sögu við hönnun, framleiðslu og uppsetningu sýningarinnar, ríflega 100 manns, þegar allt er talið. Það verður því handagangur í Öskjuhlíðinni á næstunni. Verkefnið er ærið en viðfangsefnið er líka afar heillandi og mikilvægt – dýrmæta vatnið í náttúrunni okkar og veröldin í vatninu, allt lífríkið smátt sem stórt með sínum undrum og furðum.