Brandugla

Brandugla

Brandugla (Asio flammeus)

Brandugla í Tjarnarbyggð (Síberíu) í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Branduglan er eina uglan sem finnst hér á landi í einhverjum mæli. Tvær aðrar tegundir ugla verpa hér sennilega reglulega, en eru sjaldgæfar og tiltölulega lítið er vitað um lífshætti þeirra. Ástæðan fyrir fáum tegundum af ættbálki ugla (Strigiformes) miðað við grannlöndin er fábreytt nagdýrafána, en nagdýr eru alfæða flestra ugla.

Útlit og atferli

Brandugla er eina uglan sem verpur að staðaldri hér á landi. Hún er móbrún að ofan með ljósum dílum, þéttar langrákir eru á bringu og dreifðari rákir á kviði. Hún er með kringlótt, ljóst andlit, dökkar augnumgjarðir og lítil fjaðraeyru sem hún reisir stundum. Vængir eru langir, ljósari að neðan, með dökku mynstri á og við vængbrodda. Stélið er þverrákótt. Hún virðist ljós á flugi. Goggurinn er svartur, stuttur og krókboginn, fætur ljósir og fiðraðir með svörtum, beittum klóm. Augu eru skærgul.

Flug branduglu er nokkuð rykkjótt og vængjatökin silaleg, en þó er hún fimur flugfugl og getur verið snögg. Hún svífur oft með vængina lítið eitt fram- og uppsveigða. Hún er einfari sem sést helst í ljósaskiptunum, en getur þó sést á daginn, sérstaklega á ungatíma. Er venjulega þögul, en á varpstöðvum heyrist stundum hátt væl eða endurtekið, djúpt kurrandi stef. Einnig heyrast vængjasmellir.

Brandugla við Mývatn.

Brandugla með fjaðraeyrun sperrt að vetrarlagi á Stokkseyri.

Brandugla við Mývatn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Lífshættir

Aðalfæða branduglu eru hagamýs, hún flýgur hljóðlaust lágt yfir landi, skurðum eða kjarrlendi þar sem músa er að vænta. Veiðir einnig úr talsverðri hæð, t.d. yfir melgresi. Tekur einnig smáfugla, fullorðna og unga.

Branduglan verpur í lyngmóum, kjarri eða graslendi, oft þar sem blautt er. Hreiðrið er oftast falið í lyngi eða runna. Ungar klekjast ekki samtímis og geta verið mjög misstórir. Eggin eru 4‒8, útungunartíminn er um fjórar vikur og ungarnir verða fleygir á 4‒5 vikum. Branduglan heldur sig á veturna í skóglendi og görðum þar sem hagamýs er að finna.

Brandugla í Friðlandi Fuglaverndar í Flóa.

Branduglupar í Friðlandinu í Flóa. Annar fuglinn er með bráð, sem líklega er óðinshani. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Brandugla með húsamús í snjókomu á Stokkeyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Kjói ræðst á branduglu með bráð (óðinshana) í Friðlandinu í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Brandugluhreiður með þremur ungum og tveimur eggjum í Friðlandi Fuglaverndar í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Nýfleygur brandugluungi í Friðlandinu í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Útbreiðsla og stofnstærð

Branduglan hóf að verpa hér í upphafi síðustu aldar, að því talið er, og verpur nú dreift á láglendi í öllum landshlutum, síst þó á Vestfjörðum og Suðausturlandi. Hún er algengust frá Eyjafirði austur í Öxarfjörð, á vestanverðu Suðurlandsundirlendi og frá Innnesjum og upp í Borgarfjörð. Branduglu hefur fjölgað á síðustu áratugum og er það rakið til aukinnar kornræktar og fjölgunar hagamúsa, en mýsnar eru miklar kornætur. Þó sveiflast stofninn nokkuð. Á athugunarsvæði í Flóa og Ölfusi er fjöldinn frá fjórum og í átta pör. Varpstofninn er talinn vera um 500 pör.

Brandugla er að mestu farfugl. Vetrarstöðvar farfuglanna eru í Vestur-Evrópu, aðallega á Bretlandseyjum að því talið er. Brandugla er útbreidd og verpur víða um heim.
Eyrugla og snæugla

Eyrugla (Asio otus) er náskyld og mjög lík branduglu. Sérstaklega er erfitt að aðgreina þær á flugi, en þar koma til einkenni eins og litur fjaðra á undirvæng o.fl. Eyrugla hefur verið nær árviss hér á landi, aðallega að haust- og vetrarlagi. Hún er tíðust í nóvember‒desember, en hefur þó sést í öllum mánuðum og um land allt. Hreiður eyruglu fannst á Suðurlandi árið 2003, þar sem hún hafði líklega orpið áður og einnig síðar. Eitt og annað bendir því til að hún sé að nema hér land.

Hún er skógarfugl og mjög lík branduglu, auðgreind á löngum fjaðraeyrum sem sjást þegar fuglinn situr. Andlitið er kringlóttara en á branduglu, fjaðrakransar og augu eru appelsínugul, ekki gul eins og á branduglu. Rákóttir vængbroddar neðan á vængjum (svartir á branduglu) og rákóttur kviður aðgreinir fuglana á flugi. Hún er útbreiddur varpfugl um allt norðurhvel jarðar.

Eyrugla á varpstað á Suðurlandi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Snæugla (Bubo scandiacus) hefur orpið á miðhálendinu og öðrum afskekktum, hálendum landshlutum í áratugi. Flest bendir til að hún verpi eða reyni varp árlega hér á landi.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú geymir ekki margt um brandugluna. En uglur og þá aðallega skógaruglur, eru þekkt minni í margvíslegri þjóðtrú erlendis.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Snæugla

Snæugla

Snæugla(Bubo scandiacus) Uglur eru sérstakur ættbálkur, þær eru óskyldar ránfuglum. Hér á landi er branduglan algengust; eyruglan er að nema land og breiðast út og verpur orðið reglulega á vissum stöðum. Snæuglan er þeirra sjaldgæfust. Fábreytt nagdýrafána er ástæðan...
Eyrugla

Eyrugla

Eyrugla (Asio otus) Eyruglan er ánægjuleg viðbót við fátæklega íslenska uglufánu. Ástæðan fyrir fáum tegundum af ættbálki ugla (Strigiformes) hér á landi, miðað við grannlöndin, er fábreytt nagdýrafána, en nagdýr eru aðalfæða flestra ugla. Útlit og atferli Eyruglan er...