Ársskýrsla NMSÍ 2021

Ársskýrsla NMSÍ 2021

Ársskýrsla Náttúruminjasafnsins 2021   

Árið 2021 var viðburðarríkt í starfsemi Náttúruminjasafns Íslands. Þrátt fyrir samkomutakmarkanir voru haldnir margir spennandi viðburðir á sýningu safnsins í Perlunni og einnig í Alviðru í samvinnu við Landvernd. Þá má nefna útgáfu ævisögu Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, Mynd af manni I-II og málþing og sýningu um Þorvald Thoroddsen í Þjóðarbókhlöðu. Skýrslan er eingöngu á rafrænu formi og hana er hægt að nálgast hér og hlaða niður sem pdf skjal fyrir þá sem vilja.

“Mikill er máttur safna”

“Mikill er máttur safna”

„Mikill er máttur safna“

Í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum 18. maí fjallar Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins um söfn og safnastarf.
Hér má sjá kynningarmyndband Náttúruminjasafnsins sem gert var í tilefni af tilnefningu til evrópsku safnaverðlaunanna.  

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn hátíðlegur 18. maí ár hvert að frumkvæði Alþjóðaráðs safna (International Council of Museums, ICOM). Í ár er safnadagurinn haldinn undir yfirskriftinni „Mikill er máttur safna“ (e. The Power of Museums).

Megintilgangur safnadagsins er að vekja athygli á menningar- og samfélagslegu mikilvægi safna og starfsemi þeirra. Máttur safna felst einkum í faglegri starfsemi þeirra á sviði gagnaöflunar, varðveislu, rannsóknum og opnu, lýðræðislegu aðgengi að menningar- og náttúruarfinum með miðlun á þekkingu á honum til samfélagsins. Viðfangsefni safna tekur til fortíðar, nútíðar og framtíðar og hlutverk safna felst þ.a.l. í að tengja og byggja brýr milli tímaskeiða, stuðla að samfellu, styrkja rætur og búa í haginn fyrir komandi tíma og kynslóðir – að treysta og efla grundvöllinn fyrir sjálfbært, farsælt og hamingjuríkt líf.

Askja í Dyngjufjöllum í Ódáðahrauni er merkt með rauðum punkti á kortið.
Náttúruvísindi og tækni – Hvert er erindi þeirra og áhrif í samfélaginu?
Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá NASA).
Um 300 gestir sátu ráðstefnuna, fylgdust með kynningu á starfsemi 60 tilnefndra safna. Hér má sjá fulltrúa Náttúruminjasafnsins í salnum.

Leiðarljós safnsins

Náttúruminjasafn Íslands hefur framangreind atriði að leiðarljósi í starfsemi sinni. Máttur safnsins, líkt og allra safna, byggir á starfsfólkinu, mannauðnum. Sýningahald, jafnt gerð þess, uppsetning og rekstur, er ein birtingarmynd af vinnu og afrakstri starfsfólksins. Vatnið í náttúru Íslands, sýning Náttúruminjasafnsins í Perlunni er ljómandi gott dæmi um mátt safnsins. Þar hefur tekist afar vel til. Aðsókn hefur verið með miklum ágætum þrátt fyrir áhrif COVID-19, og verið á bilinu 50 þúsund til nær 200 þúsund á ári, með flesta gesti árið 2019, á fyrsta heila starfsárinu fyrir COVID-19. Langflestir gestir eru erlendir ferðamenn en sérlega ánægjulegt er að sjá hve vel fjölskyldur með ung börn sækja sýninguna, einkum á sérstaka viðburði um helgar sem tileinkaðir eru fjölskyldufólki og safnkennarar og sérfræðingar safnsins sjá um. Þá er afar gaman að segja frá því að grunnskólar nýta sér mjög vel þjónustu safnkennaranna enda er vel vandað til móttöku barnanna og boðið upp á fjölbreytta fræðslu og verkefni.

 

Horft í suður yfir Öskjuvatn.
Tilnefning Náttúruminjasafnsins til EMYA22 var staðfest með sérstöku heiðursskjali. Hér má sjá þau Álfheiði Ingadóttur og Hilmar J. Malmquist sem tóku við skjalinu.

Mikill heiður og viðurkenning

Sýningin Vatnið í Náttúru Íslands hefur hlotið verðlaun og tilnefningar fyrir jafnt einstök sýningaratriði sem sýninguna í heild, starfsemi safnsins og framtíðarsýn þess. Hér má nefna hin eftirsóttu, alþjóðlegu Best of the Best-Red Dot hönnunarverðlaun sem safnið hlaut árið 2019 ásamt margmiðlunarfyrirtækinu Gagarín fyrir þrjár gagnvirkar margmiðlunarstöðvar í sýningunni og árið 2020 þegar Vatnið í náttúru Íslands var tilnefnt til Íslensku safnaverðlauna.
Stærsta viðurkenningin verður þó að teljast tilnefning Náttúruminjasafns Íslands til Evrópsku safnaverðlaunanna 2022 (EMYA22). Tilnefningin byggði jafnt á sýningu safnsins í Perlunni, Vatnið í náttúru Íslands, á grunnstarfsemi safnsins á sviði rannsókna og miðlunar almennt og á framtíðarsýn og áformum um nýjar höfuðstöðvar á Seltjarnarnesi, Náttúruhúsinu í Nesi, sem væntanlega verða opnaðar eftir 2–3 ár. Það var mikill heiður og viðurkenning fyrir Náttúruminjasafnið að komast í úrslit og vera á meðal 60 annarra safna af margvíslegu tagi í þessari stærstu keppni meðal safna, en söfn af hvaðeina tagi munu vera hátt á fjórða tug þúsunda í Evrópu.

Tilnefning Náttúruminjasafns Íslands til Evrópsku safnaverðlaunanna er sú fjórða meðal íslenskra safna. Síldarminjasafnið á Siglufirði vann Evrópuverðlaun safna 2004 sem besta nýja iðnaðarsafn álfunnar; Þjóðminjasafn Íslands hlaut sérstaka viðurkenningu 2006 fyrir endurnýjaða grunnsýningu safnsins og á árinu 2008 var Minjasafn Reykjavíkur tilnefnt fyrir Landnámssýninguna Reykjavík 871±2 í Aðalstræti.

 

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.
Þjóðminjasafn Eista í Tartu er byggt í framhaldi af flugbraut á herflugvelli sem Rússar reistu á sínum tíma. Til vinstri á myndinni má sjá leifar af gamla safninu sem var sprengt í loft upp í síðari heimsstyrjöldinni.

EMYA22

Verðlaunahátíð Evrópsku safnaverðlaunanna og ráðstefna fór fram í Þjóðminjasafni Eista í Tartu, Eistlandi, dagana 4.–7. maí s.l.  Um 300 ráðstefnugestir voru mætti til leiks, þar á meðal undirritaður og ritstjóri safnsins Álfheiður Ingadóttir fyrir hönd Náttúruminjasafns Íslands. Þéttskipuð dagskrá hófst kl. 9 hvern dag með erindum frummælenda, örerindum og pallborðsumræðum og lauk með verðlaunaafhendingu og kvöldverði. Náttúruminjasafninu var skipað ásamt fjórum öðrum söfnum í málstofu um náttúruvísindi og samfélagslegt hlutverk í staðbundu og hnattrænu samhengi. Til hliðsjónar voru lagðar fram spurningar um hvernig náttúrusöfn geta stuðlað að vernd náttúru og aukinni meðvitund um umhverfið og hins vegar hvaða leiðir söfn geta farið til að auka aðgengi og þátttöku mismunandi hópa og gesta í sýningum og starfsemi safna.

Jarðlagaopna eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.
Forseti Eista, Alar Karis, sem er fyrrverandi þjóðminjavörður í Eistlandi, ávarpaði gesti við verðlaunaafhendinguna.
Sethólar eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.
Museum of the Mind – hollenskt safn í Amsterdam og Harlem sem fjallar um geðheilsu manna hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar – Safn Evrópu 2022.

Þríþætt erindi Náttúruminjasafnsins

Í erindi mínu kynnti ég stuttlega gerð, eðli og inntak sýningarinnar Vatnið í náttúru Íslands og lagði áherslu einkum á þrennt. Í fyrsta lagi á margvísleg náttúrufræðileg sérkenni vatnsauðlindarinnar á Íslandi og vistfræðileg tengsl bæði á staðbundna og hnattræna vísu, sem og að vatnsauðlindin væri ekki eins og hver önnur verslunarvara eða gæði sem hægt væri að fara óvarlega með. Í annan stað lagði ég áherslu á mikilvægi safnkennara og sérfræðinga varðandi fræðslu og þjónustu við skólakerfið, auk þess að beita nýstárlegri margmiðlunartækni við miðlunina, sér í lagi gagnvart ungum gestum sem iðulega eru nýjungagjarnir og fúsir og fljótir að læra og beita nýjustu tækni. Í þriðja lagi lagði ég áherslu á mikilvægi vísindalegrar þekkingar og rannsókna sem grundvöll að vandaðri og áhugaverðri frásögn og miðlun. Hér tæpti ég á helstu rannsóknum Náttúruminjasafnsins og samstarfsaðila sem eru aðallega á sviði líffræðilegrar fjölbreytni, fornlíffræði og náttúrusögu og náttúruspeki.

Líffræðileg fjölbreytni er lykilstef í starfsemi Náttúruminjasafnsins. Hilmar J. Malmquist kynnir safnið á ráðstefnu Evrópskra safna.

Varðandi líffræðilega fjölbreytni hvatti ég ráðstefnugesti sérstaklega til að huga vel að skilgreiningu hugtaksins, s.s. að tengja það ekki einvörðungu við fjölda tegunda heldur líta ekki síður til tengsla og víxlverkana milli lífvera, ólífrænna þátta og umhverfisins. Þá minnti ég á brýningu António Guterres aðalritara SÞ í skýrslunni „Semjum frið við náttúruna“ (e. „Making peace with nature“) sem kom út í febrúar 2021 þess efnis að mannkyn verði að taka líffræðilega fjölbreytni sömu tökum og koma málefninu á sama stall og gert hefur verið varðandi loftslagsmálin, ella blasi við hrun líf- og efnahagskerfa og fótunum verði kippt undan tilvist mannsins.

Máttur safna er sannarlega mikill svo framarlega sem þeim er búinn umgjörð til að starfa faglega og í þágu almennings og samfélagsins í heild. Þannig tryggjum við menningar- og náttúruarfinn og aðgengi að honum á besta hátt og þar með grundvöllinn að tilveru okkar og farsælli framtíð.

 

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður

Náttúrufræðingurinn mættur!

Náttúrufræðingurinn mættur!

Náttúrufræðingurinn mættur!   

Út er komið 3.–4. hefti Náttúrufræðingsins, 91. árgangs. Í heftinu er m.a. sagt frá brislingi sem er nýfundinn nytjafiskur við Ísland, mítlum sem húkka sér far með drottningarhumlum og sauðfé sem étur kríuegg og -unga. Forsíðuna prýðir hvít tófa í fjöru, en í heftinu er fyrsta grein af þremur um íslenska melrakkann og fjallar um stofnbreytingar, veiðar og verndun refastofnsins. Loks er gerð grein fyrir lifnaðarháttum og útbreiðslu skötuorms á Íslandi, stærsta íslenska hryggleysingjans sem þrífst í vötnum á hálendinu.

Heftið er 84 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur.

Refastofninn réttir úr kútnum

Sagt er að uppáhaldsbörn eigi sér mörg nöfn. Sama á við um refinn sem kallast m.a. tófa, melrakki, lágfóta og skolli. Melrakki er elsta heitið, komið úr norsku, en melrakkinn var eina landspendýrið sem fyrir var þegar landnámsmenn komu til Íslands. Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur, hefur ritað þrjár yfirlitsgreinar fyrir Náttúrufræðinginn um íslenska refinn. Í þeirri fyrstu fjallar hún um rannsóknir á íslenska refastofninum, stofnbreytingar, veiðar og verndun. Refir voru réttdræpir og feldur þeirra var verðmætur gjaldmiðill strax á þjóðveldisöld. Þeir voru loks friðaðir með lögum 1994 en veiðar þó áfram stundaðar í skjóli undanþáguákvæða. Á árinu 2015 var talið að stofninn væri stöðugur og teldi um 7 þúsund dýr. Nýjasta stofnmatið sýnir að stofninn hefur rétt úr kútnum og að haustið 2018 hafi hann talið um 8.700 dýr. Tvö litaafbrigði eru af íslenska refnum, hvítt og mórautt. Stór hluti stofnsins lifir á strandsvæðum og eru flestir mórauðir. Umtalsverður hluti stofnsins lifir hins vegar inn til landsins og þar er litarfar nokkuð jafnskipt milli hvítra og mórauðra refa. Ljósmyndina á forsíðu tók Einar Guðmann.

 

Laumufarþegar á humlum

Á vorin og haustin eru humludrottningar (Bombus-tegundir) oft þaktar gulleitum doppum sem í reynd eru lifandi mítlar (Acari). Guðný Rut Pálsdóttir og Karl Skírnisson sníkjudýra-fræðingar hafa rannsakað mítlana, kannað lífsferil þeirra og möguleg áhrif á humlur og bú. Skoðaðar voru 53 drottningar af þremur algengum humlutegundum. Allar báru þær mítla, allt uppí fjórar tegundir hver, en mítlarnir voru af fimm tegundum, og voru þrjár áður óþekktar hér á landi. Mítlarnir festa sig á drottningarnar og taka sér þannig far milli búa. Ein tegundin stundar hreinan nytjastuld í búunum þar sem hún lifir á frjókornum og blómasafa. Hinar tegundirnar fjórar þakka fyrir verðmætt fóður í búunum með því að þrífa, éta myglu og drepa og éta smádýr sem sækja í búið.

Hér má sjá með berum augum ásætumítillinn Parasitellus fucorum á móhumludrottningu (Bombus jonellus). Ljósm. Páll B. Pálsson.

Brislingur (Sprattus sprattus) 15 cm langur og brislingskvarnir. Ljósm: Svanhildur Egilsdóttir og Guðrún Finnbogadóttir.

Brislingur veiðist við Ísland

Með auknu innflæði hlýs sjávar á Íslandsmið frá 1996 hafa nýjar tegundir veiðst við Ísland. Ein þeirra er brislingur (Sprattus sprattus) sem veiddist í fyrsta sinn á Íslandsmiðum 2017 svo vitað sé. Á næstu árum fjölgaði brislingum og í tveimur leiðöngrum 2021 fengust nær 700 brislingar, flestir fyrir Suður- og Vesturlandi, en einnig í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi. Brislingur er smávaxinn uppsjávarfiskur af síldaætt, honum svipar til síldar en er þó hærri um sig miðjan, 11,5–15 cm. Brislingur er mjög algengur við strendur meginlands Evrópu allt suður til Afríku. Hann þykir góður matfiskur, ársaflinn í Eystrasalti og Norðursjó hefur verið 600–700 þúsund tonn og eru Danir stórtækastir.

Staðfest er að brislingur hrygndi við Ísland sumarið 2021 og það kann að auka líkurnar á því að þessi smávaxna fisktegund sé komin til að vera. Jónbjörn Pálsson, fimm starfsmenn Hafrannsóknastofnunar og einn starfsmaður Háskólaseturs Vestfjarða eru höfundar greinarinnar um þennan nýjasta nytjafisk við Íslandsstrendur.

Kind með tvö lömb á kafi í kríuvarpinu í Flatey. Ljósm. Kane Brides.

Kindur sem éta egg og unga!

Kindur eru grasbítar – eða hvað? Sumarið 2019 sást til kinda í Flatey á Breiðafirði sem ýttu kríu (Sterna paradisaea) af hreiðri sínu og átu síðan egg hennar. Sama sumar fundust bæði lifandi og dauðir kríuungar með hluta vængjar eða allan vænginn afstýfðan, svo og dauðir hauslausir ungar. Þetta endurtók sig sumrin 2020 og 2021 og voru ummerkin eins og vængur eða haus hefðu verið rifnir frá búknum. Engar líkur eru á að fuglarnir hafi misst væng eða haus við það að fljúga á rafmagnsvíra eða girðingar enda ungarnir enn ófleygir. Þetta er ekki einsdæmi – a.m.k. fjögur tilvik önnur eru tilgreind um unga- og eggjaát sauðkinda annars staðar á landinu: frá Bárðardal og Suðurlandi, þar sem um var að ræða lóu- og spóaunga, og frá Flatey á Skjálfanda og Mjóafirði þar sem um kríuunga var að ræða.

Höfundar greinarinnar eru Ævar Petersen, Sverrir Thorstensen, Scott Petrek og Kane Brides og segja þeir óljóst hversu víðtæk þessi hegðun er eða af hverju sauðfé gerist kjötætur. Sú skýring hefur verið nefnd að kindurnar vanti steinefni, en það er ekki staðfest.

Lifandi steingervingar

Skötuormur (Lepidurus arcticus) er langstærsti hryggleysingi í ferskvatni á Íslandi, í útliti er hann eins og aftan úr fornöld og má kallast einkennisdýr í vötnum og tjörnum á hálendinu. Þóra Hrafnsdóttir og Þorgerður Þorleifsdóttir, líffræðingar, gerðu sér ferð í ferð í Veiðivötn á Landmannaafrétti sumarið 2019 ásamt hollenska listamanninum og ljósmyndaranum Wim van Egmond. Ferðin var farin á vegum Náttúruminjasafns Íslands í því skyni að taka ljósmyndir og kvikmyndir til fræðslu um þetta vatnadýr sem fáir hafa augum litið. Grein þeirra er e.k. ferðasaga og þar má finna lýsingar á útliti og lífsferli skötuormsins og frábærar ljósmyndir af þessu huldudýri.

Skötuormur (Lepidurus arcticus) á botni Skálanefstjarnar í Veiðivötnum. Ljósm. Wim van Egmond.

Skötuormar eru rándýr og éta allt sem að kjafti kemur, bæði lifandi og dautt, svo sem þörunga, vatnaflær og rykmýslirfur. Þeir eru jafnframt eftirsótt fæða silungs og vatnafugla. Myndin hér að ofan sýnir lóuþræl (Calidris alpina) tína upp í sig skötuorm í Gæsavötnum síðsumars 2017. Ljósm. Þórður Halldórsson.

Huldudýr á heiðum uppi

Þó fáir hafi heyrt um skötuorminn og enn færri séð þetta sérkennilega krabbadýr hefur skötuormur verið þekktur í landinu um aldir. Jón lærði Guðmundsson (1574–1658) nefnir hann trúlega fyrstur í riti sínu um Íslands aðskiljanlegar náttúrur (1640–1644) og kallar hann „vatnslúður“. Útbreiðslan hefur hins vegar verið á huldu þar til nú að Þorleifur Eiríksson, Þorgerður Þorleifsdóttir, Hrefna Sigurjónsdóttir og Hilmar J. Malmquist líffræðingar hafa tekið saman tiltæk gögn um hana frá tímabilinu 1780–2020. Alls voru skráðir 237 fundarstaðir skötuorma og staðfestir rannsóknin að skötuormur er fyrst og fremst hálendisdýr á Íslandi (yfir 90% í 200 m h.y.s., eða meira), og algengastur í tjörnum og grunnum vötnum í um 400 m hæð yfir sjávarmáli eða meira. Dýrið hefur fundist í öllum landshlutum, mest á norðan- og sunnanverðu miðhálendinu en síst á Vesturlandi.

Auk framangreinds er í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins leiðari sem Droplaug Ólafsdóttir, formaður ritstjórnar Náttúrufræðingsins og starfsmaður vinnuhóps Norðurskautsráðsins um lífríkisvernd (CAFF) ritar um Að ná settu marki, eftirmæli um Svanhildi Jónsdóttur Svane, fléttufræðing sem lést 1916, og ritdómur um stórvirki Kristjáns Leóssonar og Leós Kristjánssonar, Silfurberg – Íslenski kristallinn sem breytti heiminum, sem út kom að Leó látnum á árinu 2020.

Verkamenn í silfurbergsnámunni við Helgustaði, vopnaðir haka, skóflu og fötu. Ljósm. Þjóðminjasafn Íslands.

Náttúruminjasafn Íslands tilnefnt til Evrópsku safnaverðlaunanna 2022!

Náttúruminjasafn Íslands tilnefnt til Evrópsku safnaverðlaunanna 2022!

Náttúruminjasafn Íslands tilnefnt til Evrópsku safnaverðlaunanna 2022!

Náttúruminjasafnið er komið í úrslit í keppninni um Evrópsku safnaverðlaunin 2022, EMYA-2022!

Þetta er í fjórða sinn sem íslensku safni hlotnast þessi heiður Síldarminjasafnið á Siglufirði vann Evrópuverðlaun safna 2004 sem besta nýja iðnaðarsafn álfunnar; Þjóðminjasafn Íslands hlaut sérstaka viðurkenningu 2006 fyrir endurnýjaða grunnsýningu safnsins og á árinu 2008 var Minjasafn Reykjavíkur tilnefnt fyrir Landnámssýninguna Reykjavík 871±2 í Aðalstræti.

Vatnið í náttúru Íslands er sýning Náttúruminjasafnsins í Perlunni sem var opnuð 1. desember 2018. Ljósm. Vigfús Birgisson.

Í ár keppa 60 evrópsk söfn til úrslita í ýmsum flokkum sem verða kunngjörð í byrjun maí 2022. Evrópuráðið hefur þegar valið eitt safnanna Nano Nagle Place í Cork á Írlandi til verðlauna sem veitt eru safni sem sem leggur sérstaka áherslu á evrópsk sjónarmið og samspil staðbundinnar og evrópskrar sjálfsmyndar.  Það er menningarnefnd þingmannaráðsins (PACE) sem velur safn í þessum flokki en safnið er í 250 ára gömlu klaustri umgirt fallegum görðum. 

 

Sigurvegarar 2022 í öðrum flokkum verða tilkynntir á síðasta degi EMYA2022 hátíðarinnar sem fram fer í Tartu, Eistlandi 4. til 7. maí 2022. Náttúruminjasafnið er tilnefnt fyrir sýningu sína Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni en einnig fyrir framtíðarsýn safnsins.

„Allt við þetta mikla ritverk hrífur…“

„Allt við þetta mikla ritverk hrífur…“

„Allt við þetta mikla ritverk hrífur...“

Bók Sigrúnar Helgadóttur, Mynd af manni – ævisaga Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, sem Náttúruminjasafnið gefur út, hlaut í gær tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna, ein fimm verka sem tilnefnd eru til verðlauna í flokki rita almenns efnis og fræðibóka.

 

Í lofsamlegri umsögn dómnefndar segir: Allt við þetta mikla ritverk hrífur, efnistök við ritun sögu Sigurðar Þórarinssonar og sjálft bókverkið, sem er markvisst og fagurlega myndskreytt. Rannsóknir vítt og breitt um landið, eldgos, jöklar, jarðlög, náttúruvernd, söngtextar og önnur áhugamál vísindamannsins sindra á hverri blaðsíðu.

Við óskum Sigrúnu Helgadóttur innilega til hamingju með þessa verðskulduðu tilnefningu. Mynd af manni er mikið verk – 802 blaðsíður og 700 ljósmyndirnar – í tveimur bindum í fallegri öskju. Bókin kostar 15900 kr. í póstverslun papyr.com og fæst í öllum bestu bókaverslunum landsins!