…að á Íslandi eru þekktir yfir 1200 fossar. Margir bera ekkert nafn og nokkuð er um að fossar beri sömu nöfn, t.d. eru sjö Gullfossar á landinu. Selfoss er algengasta fossanafnið. Þeir eru 13 talsins.

Náttúrufræðingurinn mættur!

Náttúrufræðingurinn mættur!


Hestar í haga, síldin sem hvarf, talningar mófugla, rykmyndun og gervigígar. Allt þetta og meira til er umfjöllunarefni í nýjum Náttúrufræðingi, 3.–4. hefti 89. árgangs sem kominn er út. 

Hestar eru félagslyndar skepnur og mynda mismikil tengsl við aðra og óskylda hesta. Þeir kljást og þeir slást – en af hverju? Hrefna Sigurjónsdóttir og Sandra Granquist hafa tekið saman niðurstöður 15 ára rannsókna á félagshegðun 426 hesta í 20 hópum. Niðurstöður sýna að samsetning hópsins hefur mikil áhrif á það hversu árásargjörn hrossin eru.

Silfur hafsins.

50 ár eru liðin frá því ofveiði leiddi til hruns í þremur síldarstofnum við landið í lok 7. áratugar síðustu aldar. Sumargotssíldin tók við sér nokkrum árum síðar og norsk-íslenski vorgotssíldarstofninn tók að vaxa tæpum tveimur áratugum eftir hrunið. Íslenski vorgotssíldarstofninn hefur hins vegar enn ekki náð sér á strik. Guðmundur J. Óskarsson greinir frá rannsóknum á stöðu og afdrifum þessa áður mikilvæga stofns á árunum 1962–2016.

Hljóðaklettar og Rauðhólar í Jökulsárgljúfrum hafa til þessa verið taldir leifar af gossprungu frá nútíma. Ásta Rut Hjartardóttir og Páll Einarsson telja ýmislegt benda til þess að svo sé ekki, heldur séu þessar myndanir gervigígar og hraunstrúktúrar sem myndast hafi við samspil vatns og flæðandi hrauns skömmu eftir að ísaldarjökla leysti á svæðinu.

Þröstur minn góði …

Skógarþresti virtist fjölga nokkuð samkvæmt vöktun á mófuglum í Rangárvallasýslu 2011–2018 en þar hafa fuglarnir verið taldir árlega á 63 stöðum. Aðrar breytingar voru óverulegar á þessu tímabili. Tómas Grétar Gunnarsson og Böðvar Þórisson greina frá rannsóknunum en Íslendingar bera sérstaka ábyrgð á nokkrum stofnum mófugla, sem eru einkennisdýr hérlendis og af heimsstofni sem verpur á Íslandi að stórum hluta.

Uppfok frá Dyngjusandi barst í Loðmundarfjörð í ágúst 2012.

Rykmyndun á Íslandi er með því mesta sem þekkist í heiminum og nemur milljónum eða tugmilljónum tonna ár hvert. Rykið mótar öll vistkerfi á Íslandi og leggur til áfokið sem er móðurefni jarðvegs á Íslandi. Rykið hindrar endurkast sólarljóss og getur aukið bráðnun á yfirborði snævar, sem hvort tveggja hraðar loftslagsbreytingum á norðurslóðum. Ólafur Arnalds, Pavla Dagsson-Waldhauserová og Sigmundur Helgi Brink fjalla um sandfok, ryk og áfok á Íslandi í síðari grein af tveimur um Sandauðnir, sandfok og ryk á Íslandi.

Af öðru efni í ritinu má nefna ritrýni um tvær bækur. Þær eru: Hvítabirnir á Íslandi eftir Rósu Rut Þórisdóttur og Mosar á Íslandi eftir Ágúst H. Bjarnason. Þá eru birt eftirmæli um Pál Hersteinsson dýrafræðing sem lést fyrir aldur fram á árinu 2011 auk greina Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúrufræðinginn. Félagið er 130 ára á árinu 2019 og tímaritið nírætt 2020 og eru með elstu félagasamtökum og tímaritum á landinu.

Þetta er 3.–4. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 92 bls. að stærð. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir líffræðingur. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.

Efnisyfirlit 3.–4. heftis Náttúrufræðingsins, 89. árgangs.

 

 

Vel heppnaður afmælisdagur

Vel heppnaður afmælisdagur

Það var vel mætt á eins árs afmæli sýningarinnar Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni sunnudaginn 1. desember. Ný stuttmynd frá BBC um uppruna vatnsins var sýnd í Stjörnuverinu og Sævar Helgi Bragason, Stjörnu Sævar og Vísindasmiðja Háskóla Íslands með Ara Ólafsson eðlisfræðing í farabroddi buðu gestum upp á fróðlega vatnagaldra. Áhuginn skein úr andlitum gesta og ekki vantaði viljann til að taka þátt í verklegum þáttum atriðanna sem í boði voru. Frábær og vel heppnaður dagur í alla staði.
Sagnalistin vistrýnd í Reykholti

Sagnalistin vistrýnd í Reykholti

Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur flytur erindi í Bókhlöðu Snorrstofu í Reykholti n.k.þriðjudag 1. október kl. 20. Fyrirlesturinn nefnist: Náttúrulaus sagnalist eða lifandi gróður og lífrænir ávextir? 

Umhverfishugvísindi og vistrýni er fræðasvið sem vaxið hefur ásmegin samfara vaxandi umhverfisvá. Umhverfisváin kallar á djúpstæðar breytingar á sambúð manna við umhverfið og á svipaðan hátt hafa ofangreind fræðasvið rutt nýjar leiðir í greiningu og túlkun bókmennta.

Viðar sem er sérfræðingur við Náttúruminjasafn Íslands og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar mun í erindi sínu viðra leiðir til að kanna fornsögur sem lífrænar menningarafurðir með stuðningi vistrýni, fornrar náttúrusýnar og nýrrar textafræði.

Kaffiveitingar og almennar umræður. Aðgangur kr. 1000.

 

 

 

 

 

 

Kaffiveitingar og umræður aðgangur kr. 1000.

Beinin heim!

Beinin heim!

 

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur í dag, 16. september, tileinkaður náttúru Íslands og mikilvægi þess að vernda hana og umgangast á skynsamlegan hátt.

Hér má sjá hryggjarliði dýranna í kjallara Dýrafræðisafns Danmerkur í Kaupamannahöfn. Ljósm.: HJM

Fátt hefur mótað íslenska þjóð og menningu í jafn miklum mæli og náttúran. Lífsviðurværi þjóðarinnar er að verulegu leyti undir ríkulegum gjöfum náttúrunnar komið. Fáar þjóðir reiða sig í sama mæli á beina nýtingu auðæfa náttúrunnar – einkum veiðar á villtum fiskistofnum, virkjun vatnsafls og jarðvarma, sauðfjárbeit á afréttum og náttúrutengda ferðaþjónustu. Skynsamleg nýting  náttúruauðlinda hlýtur að grundvallast á langtímasýn, þekkingu og skilningi á náttúrunni, ella er hætt við að illa fari. Menntun og fræðsla eru hér lykilatriði og einn þátturinn snýr að náttúrusögu landsins.

Í kjallara Dýrafræðisafns Danmerkur (Zoologisk Museum) í Kaupmannahöfn leynast tvær beinagrindur íslandssléttbaka (Eubalaena glacialis) sem veiddir voru við Ísland 1891 og 1904. Íslandssléttbakurinn var algengur í norðanverðu Atlantshafi á öldum áður en vegna veiða gekk hratt á stofninn og strax á 18. öld var tegundin orðin fágæt. Íslandssléttbakarnir tveir í Kaupmannahöfn eru líklega meðal síðustu dýra af þessari tegund sem voru veidd. Þrátt fyrir friðun tegundarinnar um og upp úr 1930 eru sléttbakar í útrýmingarhættu í dag og telur stofninn aðeins um 500 dýr hið mesta. Þeir hafast ekki lengur við hér við land en eitt og eitt dýr flækist hingað örsjaldan, líklega frá austurströnd Ameríku þar sem þeir eru flestir. Framtíðarhorfur sléttbakanna eru því miður fremur dökkar, aðallega vegna affalla í kjölfar ásiglinga, ánetjunar og breytinga í sjávarlífríkinu vegna hlýnunar.

Danskir samstarfsmenn Náttúruminjasafns Íslands virða fyrir sér rifbein hvalsins. Ljósm.: HJM

Íslandssléttbakarnir í Kaupmannahöfn eru mikið fágæti. Afar fá söfn eiga heil eintök af beinagrind tegundarinnar og hér á landi er ekki til neitt eintak. Það er miður því íslandssléttbakar eru sannarlega hluti af íslenskum náttúru- og menningararfi. Íslandssléttbakar, sem um tíma gegndu fræðiheitinu Balaena islandica, höfðust við hér við land og voru veiddir einkum af Böskum framan af öldum og síðar Norðmönnum. Jón lærði Guðmundsson (1574–1658) var einna fyrstur manna í Evrópu til að gera náttúru sléttbakanna skil í máli og myndum og nýlegar rannsóknir á fornleifum benda til að sléttbakar hafi verið veiddir og unnir í meira mæli við Ísland en áður hefur verið talið.

Mikill akkur væri í því að fá hingað heim aðra beinagrind íslandssléttbaksins sem hvílt hefur í kjallarageymslu í Kaupmannahöfn í rúm 100 ár. Náttúruminjasafn Íslands hefur bent á að tilkall Íslendinga til þessara merku náttúruminja er sterkt. Langtímalán á gripnum og varðveisla hans á Íslandi gegnir margvíslegum tilgangi, vísindalegum, kennslufræðilegum og menningarsögulegum. Nútímatækni býður auðveldlega upp á að varðveita gripinn og vernda hann samtímis því að hafa hann til sýnis og aðgengilegan fyrir almenning. Kjöraðstæður eru fyrir hendi til þessa verkefnis hér á landi. Beinin heim!

 

Hilmar J. Malmquist

Höfundur er forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands