Spennandi þriðjudagar í júlí

Spennandi þriðjudagar í júlí

Alla þriðjudaga í júlí mun Náttúruminjasafnið standa fyrir viðburðum á sýningu safnsins, Vatnið í Náttúru Íslands í Perlunni. Viðburðirnir standa frá kl. 14 – 16 og er aðgangur ókeypis.

Engir tveir viðburðir verða eins og eru viðfangsefnin bæði úti og inni.

Tilvalið fyrir fjölskyldur til að fræðast og tengjast náttúrunni á óvenjulegan og skemmtilegan hátt.

Dagskráin í júlí er eftirfarandi:

2. júlí – Hvað býr í vatninu?

9. júlí – Ratleikur

16. júlí – Vaxa steinar úr vatni?

23. júlí – Hvað býr í vatninu?

30. júlí – Nærðu áttum?

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest!

 

Hvert er mikilvægi straumvatna fyrir lífríkið, fiska og menn? Árnar eru lífæðar landsins

Þriðjudaginn 4. júní nk. mun Kurt Fausch prófessor emeritus við Department of Fish, Wildlife, and Conservation Biology, Colorado State University halda fyrirlestur með titlinum:

What is essential about rivers for fish, and humans? Lessons on connectivity and connections from four decades.

Kurt er heimsþekktur vísindamaður sem hefur helgað líf sitt rannsóknum og miðlun þekkingar um vistfræði vatnakerfa, með sérstakri áherslu á ár og fiskana í þeim, þ.m.t. laxfiska. Hann er baráttumaður fyrir skynsamlegri umgengni og nýtingu straumvatna og bendir á að árnar eru lífæð mannkyns sem ber að varðveita og umgangast af virðingu. Hann er m.a. höfundur bókarinnar For the Love of Rivers: A Scientist’s Journey, sem kom út 2015.

Hérlendis er mikil umræða um umgengni og verndun vatna og áa og fiskistofna, sem m.a. tengist loftslagsbreytingum, virkjanamálum og fiskeldi. Fyrirlestur Kurts er kærkomið innlegg í þessa umræðu og til þess fallið að auka skilning okkar á mikilvægi rennandi vatns í lífkeðju landsins.

Fyrirlesturinn verður í sal 130 í Öskju Háskóla Íslands, og hefst kl. 12.30

Sjá nánar/ENGLISH

Heimsókn Kurt til Íslands er á vegum Háskólans á Hólum, Hafrannsóknastofnunar, Háskóla Íslands og Náttúruminjasafns Íslands

Allir velkomnir!

Að mennta börn í söfnum – barnamenning

Að mennta börn í söfnum – barnamenning

Höfuðsöfnin þrjú – Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands – boða til árlegs vorfundar mánudaginn 29. apríl n.k. Fundurinn verður haldinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu undir yfirskriftinni: Að mennta börn í söfnum – barnamenning.

Vorfundurinn hefst kl. 9 með ávarpi f.h. mennta- og menningarmálaráðherra og erindi dr. Christian Gether, safnstjóra Arken í Danmörku, sem nefnist: ARKEN, a Part of Society´s Enlighetenment Project towards its Citizens. Ideas and Practices. 

Síðan verður fjallað um verkefni á sviði barnamenningar hjá höfuðsöfnunum og rannsóknir og þekkingarsköpun í safnastarfi. Eftir hádegið verða sýningar og höfuðsöfn heimsótt. Við lok dagskrár kl. 16:30 heldur Safnaráð úthlutunarboð í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg.

Vissirðu að vatn getur líka flogið?

Vatnskötturinn er vinsælt myndefni. Ljósm. IRI.

Sýning Náttúruminjasafnsins í Perlunni er sniðin að börnum. Vatnskötturinn tekur á móti börnunum og leiðir þau um sýninguna, en vatnsköttur er þeirri náttúru gæddur að geta flogið á einu lífsstigi sínu, þegar hann er orðinn að fjallaklukku!

Sigrún Þórarinsdóttir, safnakennari við Náttúruminjasafnið segir frá sýningu Náttúruminjasafnsins á vorfundinum kl. 10:55. Erindi hennar nefnist: Vissirðu að vatn getur líka flogið? Börnin og vatnið í náttúru Íslands. Heimsókn með leiðsögn og kynningu á sýningunni verður svo kl. 14:30. Óskað er eftir að fólk skrái sig í heimsóknina.

Dagskrá vorfundar 2019

Skráning fer fram hér  og stendur til og með 23. apríl.

 

Sambúð manns og náttúru í Svartárkoti

Sambúð manns og náttúru í Svartárkoti

Umsóknarfrestur um þátttöku í námskeiði sumarsins í Svartárkoti hefur verið framlengdur til 15. apríl n.k. Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur og framkvæmdastjóri verkefnisins Svartárkot, menning náttúra segir að námskeiðið sem nefnist „Human Ecology and Culture at Lake Mývatn 1700–2000: Dimensions of Environmental and Cultural Change” verði sem fyrr haldið á grunni íslenskra og alþjóðlegra rannsóknaverkefna sem tengst hafa Svartárkoti á undanförnum árum.

Þátttakendur og hluti kennara á sumarnámskeiði í ágúst 2018 stilla sér upp við Hrafnabjargafossa.

Verkefninu Svartárkot – menning náttúra – var hleypt af stokkunum árið 2006 af ábúendum í Svartárkoti í Bárðardal og félögum í Reykjavíkur Akademíunni undir forystu Viðars til þess að byggja upp alþjóðlegt kennslusetur um íslenska menningu og náttúru sem kennt væri við Svartárkot.

Verkefnið komst á laggirnar og lifði af hrunið 2008. Á alþjóðlegum námskeiðum sem fram fara á ensku er menningarsögu sem drýpur af hverju strái í Þingeyjarsýslum fléttað við hrikalega náttúru allt um kring. Setrið tengir afskekkta byggð við alþjóðlegt háskólasamfélag og vinnur markvisst að samræðu hins staðbundna og hnattræna. Sambúð manns og náttúru er sérstakt rannsóknasvið en meginmarkmið verkefnisins eru að efla umhverfishugvísindi á Íslandi, auka atvinnusköpun í heimabyggð og leiða saman fræðimenn og heimamenn. Með rannsóknarverkefnum vex þekking á menningu og náttúrufari svæðisins sem rennir traustum stoðum undir menningartengda ferðaþjónustu og aðra atvinnustarfsemi.

Notuð er aðstaða samkomuhússins og ferðaþjónustunnar á Kiðagili en stefnt að því að með tímanum verði byggð upp nýstárleg aðstaða til fyrirlestra í Svartárkoti.

Handskrifað sveitarblað úr Mývatnssveit, varðveitt á Héraðsskjalasafni Þingeyinga á Húsavík.

Smám saman hafa mótast þrenns konar meginverkefni:

1. Hin eiginlegu akademísku Svartárkotsnámskeið, sem mótuð eru af félaginu sjálfu.

2. Þjónustunámskeið, þ.e. skipulagning og þjónusta við erlenda háskóla sem koma til landsins með stúdentahópa. Þá fer drjúgur hluti námskeiðanna fram í Bárðardal.

3. Unnið er að því að þróa menntaferðir, þ.e. 5–7 daga gönguferðir þar blandað er saman náttúruupplifunum, menningarsögu og þeirri þekkingu sem annars er miðlað á akademísku námskeiðunum.

Um námskeiðin og rannsóknaverkefnin má fræðast nánar á heimasíðu Svartárkots, menningar náttúru.

Fullt  hús á safnanótt

Fullt hús á safnanótt

Talið er að um sjö hundruð manns hafi heimsótt sýninguna Vatnið í náttúru Íslands á safnanótt s.l. föstudag. Starfsmenn Náttúruminjasafnsins tóku á móti gestum en ókeypis var inn á allar sýningar í Perlunni frá kl 18–23. 160 manns skiluðu lausnum í fjölskyldugetraun safnsins en spurningar og þrautir byggðust á sýningunni.

Vinningar voru þrír og fá vinningshafar gjafabréf fyrir 2 fullorðna og 2 börn á sýningar í Perlunni. Dregið var úr réttum lausnum og eru vinningshafar: Helga Skúladóttir, Karólína Guðjónsdóttir og Sæunn Lofn Jónasdóttir. Náttúruminjasafnið þakkar öllum komuna og þátttöku í leiknum.