Fjölbreytt efni í nýjum Náttúrufræðingi

Fjölbreytt efni í nýjum Náttúrufræðingi

 Út er komið 4.–5. hefti Náttúrufræðingsins, 90. árgangs. 
Í heftinu er m.a. fjallað um gróður sem vex í miðjum Vatnajökli á skerjum sem komið hafa undan jöklinum vegna hlýnunar á undanförnum áratugum. Sagt er frá tveimur berghlaupum á Heimaey; Herjólfshaug og Mykitaksgrjóti. Áfram er fjallað um ferðir yfir Vatnajökul til forna og  sagt frá rannsóknum á viðhorfi ferðamanna til óspilltrar náttúru og víðerna. Í heftinu er einnig greint frá ummerkjum jarðskjálftanna á Reykjanesskaga í haust, samspili stara við hross og einstökum hraunhellum í Þeistareykjahrauni.

Nýja heftið er 88 bls. að stærð. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir.

Hér má sjá efnisyfirlit heftisins. 

 

Hálfdán Björnsson á Kvískerjum var frá upphafi lykilmaður við rannsóknir í skerjunum. Hér er hann að huga að skordýrum í Bræðraskeri 1985 eða 1988. Ljósm. Kristbjörn Egilsson.

Gróðurframvinda á miðjum Vatnajökli

Á árinu 1944 varð vart við nýtt jökulsker í Breiðamerkurjökli og gáfu Kvískerjabræður því nafnið Kárasker eftir Kára Sölmundarsyni þegar þeir heimsóttu það fyrstir manna 1957. Bræðasker, svo nefnt til heiðurs Kvískerjabræðrum, kom upp úr jöklinum 1961 og hefur gróðurframvinda í báðum skerjum verið rannsökuð frá árinu 1965. Athygli vekur að æðplöntur einkenna fyrstu stig framvindunnar, en mosar og fléttur  koma síðar. Höfundar eru: Bjarni D. Sigurðsson, Starri Heiðmarsson, †Hálfdán Björnsson og Eyþór Einarsson.

Forn berghlaup í Herjólfsdal

 

Herjólfsdalur á Heimaey í Vestmannaeyjum varð til þegar gjóska og hraun fylltu lítinn vog í eldsumbrotum fyrir um 6 þúsund árum. Eftir að hraunið rann urðu tvær meiriháttar skriður eða berghlaup í dalnum og hafa þau verið nefnd Mykitaksgrjót og Herjólfshaugur. Gjóskulög benda til að Mykitakshlaupið, sem er um 500.000 rúmmetrar að stærð hafi orðið nokkru fyrir landnám eða á árabilinu 700–750 e.Kr., en fátt er hægt að fullyrða um Herjólfshaug þar sem hann hvarf  vegna efnistöku og umsvifa í dalnum. Höfundar eru Árni Hjartarson og Jón Kristinn Helgason. 

Dalfjall og Blátindur í Herjólfsdal.

Ferðir yfir Vatnajökul til forna

Hjörleifur Guttormsson hefur ritað þrjár greinar fyrir Náttúrufræðinginn um ferðir yfir Vatnajökul til forna. Hér birtist 2. greinin sem nefnist Vatnajökull og grennd í tímans rás – Samskiptin yfir jökul í árdaga og þar eru raktar helstu heimildir um ferðir frá Fljótsdalshéraði og úr Norðurlandi yfir jökulinn og í grennd hans til sjóróðra og getið sagna um samskipti vermanna við heimafólk í Suðursveit. Sérstaklega er fjallað um tengsl Skriðuklausturs við Borgarhöfn og Hálsahöfn á 16. öld, og Skaftafells og Möðrudals yfir jökul fyrr á öldum.

Uppdráttur Sigurðar Þórarinssonar frá 1974 af fornum leiðum yfir Vatnajökul.

Hálendið í hugum Íslendinga

Rannveig Ólafsdóttir og Anna Dóra Sæþórsdóttir skrifa síðari grein gína um Hugmyndir og viðhorf Íslendinga til víðerna. Spurningakönnun var send á úrtak landsmanna og valdi hver þátttakandi milli mynda sem hann taldi passa best og síst við hugmynd sína um víðerni. Niðurstöður sýna að ummerki um mannvist í hvaða mynd sem er, fyrir utan fornminjar, draga úr víðernisupplifun Íslendinga. Í hugum þeirra felst gildi víðernis einkum í tækifæri til að upplifa kyrrð og ró á svæðum með fábrotna og einfalda innviði.

Dæmi um myndaspjald sem notað var við rannsóknina – hér má sjá myndir þar sem engin sýnileg mannvirki eru í landslaginu. 

Ummerki um jarðskjálfta á Reykjanesskaga

Mikil skjálftavirkni hófst á Reykjanesskaga í lok árs 2019 og hélst hún mest allt árið 2020. Esther Hlíðar Jensen segir frá og birtir myndir af ummerkjum skjálftans 20. október s.l. sem var Mw5,6. Skjálftans varð vart á höfuðborgarsvæðinu þar sem m.a. hrundi úr hillum stórmarkaða.

Nýjar og gamlar sprungur á bjargbrún Krýsuvíkurbjargs.
Ljósm. Dagur Jónsson 

 Hellarnir eru fagurlega skrýddir.
Ljósm. Hellarannsóknafélag Íslands.

Hraunhellar í Þeistareykjahrauni

Daníel Freyr Jónsson og Guðni Gunnarsson segja frá hraunhellum í Þeistareykjahrauni sem eru einstaklega ríkir af af dropsteinum, hraunstráum og öðru viðkvæmu hellaskrauti. Félagsmenn Hellarannsóknafélags Íslands fundu hellana 2016 og vinna að kortlagningu þeirra og könnun. Umhverfisstofnun lokaði tveimur hellum s.l. haust og bannaði umferð um aðra hella í hrauninu nokkru fyrr.

Samskipti stara og hesta

Starar eru félagslyndir fuglar og safnast í hópa undir kvöld með miklum tilþrifum. Hrefna Sigurjónsdóttir greinir frá athugun sinni á þeirri hegðun stara að sækjast eftir því að vera nálægt hrossum, en þeir sjást iðulega sitja á baki þeirra eða í fæðuleit í grasinu mjög nálægt höfði og fótum. Hún taldi allt að 15 fugla á baki sama hestsins og komst m.a. að þeirri niðurstöðu að þeir velja sér reiðskjóta eftir lit hestsins.

 

 

 

Starahópur á hestbaki í Leirvogstungu. Ljósm. Berglind Njálsdóttir.
Auk framangreinds er í 4.–5. hefti Náttúrufræðingsins grein um hálfrar aldar afmæli Náttúruverndarsamtaka Austurlands, NAUST, kortlagningu spendýra í Evrópu og leiðari sem  ritstjóri skrifar um árið 2020.
Ársskýrsla NMSÍ 2019

Ársskýrsla NMSÍ 2019

Ársskýrsla Náttúruminjasafnsins 2019

Ársskýrsla Náttúruminjasafnsins fyrir árið 2019 er komin út. Þar má glögglega sjá í myndum og máli þann mikla viðsnúning sem varð í starfsemi safnsins á því herrans ári. Hann má rekja til stóraukinna fjárveitinga 2018 sem gerðu safninu kleift að að opna glæsilega sýningu, hefja öfluga safnkennslu og stórefla rannsóknir. Skýrslan er eingöngu á rafrænu formi og hana er hægt að nálgast hér.

Örn við Öxará

Örn við Öxará

Haförninn var áður við Þingvallavatn eins og örnefnið Arnarfell við austurhluta vatnsins vitnar um. Þó örnum hafi fjölgað verulega þá eru þeir enn sjaldséð sjón á Lögbergi. Ljósm. TSJ.

Örn við Öxará

 Örn á öðru ári gerði sig heimakominn við Öxará 30. október s.l. en ernir (1 til 4 ára) sjást reglulega við Sog, Þingvallavatn og í Ölfusi.  Á þessu svæði eru þekkt 5 gömul arnarsetur sem fóru öll í eyði á fyrri hluta 20. aldar. Fullorðnir ernir hafa heimsótt þau reglulega á síðustu árum og orpið einu sinni, en varpið misfórst. Í ljósi útbreiðsluaukningar á Vestur- og  Norðurlandi á síðustu árum og áratugum, má gera ráð fyrir ernir hefji varp að á þessu slóðum innan skamms. 
Örninn sveimaði yfir og reyndi fyrir sér á grynningunum þangað sem urriðinn leitar til hrygningar sem áin rennur út í Þingvallavatn. Örninn sást ekki taka fisk en skorti þó ekki áhugann eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Torfi Stefán Jónsson og Snorri Þór Tryggvason tóku. Haförn getur náð allt að 5 kg þyngd og vænghafið verið 2–2,4 metrar. Þrátt fyrir það gætu stórvaxnir þingvallaurriðarnir reynst honum erfiðir viðfangs en þeir stærstu verða jafnvel yfir einn metri á lengd og 10–13 kg á þyngd. Meira um haförn hér. 

Haförninn settist beggja vegna árinnar og skoðaði aðstæður á riðunum. Ljósm. TSJ.
Örninn settist í klettana í Almannagjá en ernir sitja löngum stundum grafkyrrir og stara fránum augum yfir veiðilendur sínar. Ljósm. SÞT.
Í Almannagjá eru a.m.k. tveir hrafnslaupar og lét krummi sig ekki muna um að hjóla í þennan óvelkomna og óvænta gest sem er miklu öflugri en krummi verður þyngstur rúmt kíló og vænghafið mest 1,5 m.

Eins og við skýrðum frá í síðustu viku hefur árbotninn verið þéttsetinn urriðum í leit að heppilegasta makanum allan októbermánuð. Meira um þingvallaurriðan og hrygninguna í Öxarárstofninum hér.

©Jón Baldur Hlíðberg, fauna.is

Náttúrufræðingurinn er kominn út

Náttúrufræðingurinn er kominn út

Nýr Náttúrufræðingur kominn út

Út er komið 2.-3. hefti Náttúrufræðingsins, 90. árgangs. Í heftinu er m.a. fjallað um nýlegar rannsóknir og kenningar á viðhofum ferðamanna til óspilltrar náttúru og víðerna en einnig um ferðir yfir Vatnajökul til forna. Þá er fjallað um friðrildi og tunglfisk en forsíðugreinin er um búsvæði og vernd vaðfugla á Íslandi. Nýja heftið er 80 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir.

Vaðfuglalandið Ísland

Tómas Grétar Gunnarsson skrifar um Búsvæði og vernd íslenskra vaðfugla. Ísland er einstakt vaðfuglaland en þeir eiga margir í vök að verjast vegna hnignandi búsvæða. Skýringarinnar er að leita í hlýnandi loftslagi en einnig í breyttum búskaparháttum og aukinni skógrækt. Nokkrir vaðfuglar, t.d. heiðlóa og hrossagaukur, eru svokallaðar ábyrgðartegundir á Íslandi, sem þýðir að hátt hlutfall Evrópustofns tegundarinnar verpir hér eða fer um landið í miklum mæli á fartíma. Í greininni tekur Tómas Grétar saman niðurstöðu rannsókna á búsvæðum vaðfugla á Íslandi og setur fram tillögur um vernd þeirra, sem byggjast á núverandi þekkingu á búsvæðavali fuglanna.

Ferðir yfir Vatnajökul til forna

Umferð um óbyggðir virðist hafa verið almennari á fyrstu öldum eftir landnám en síðar varð, bæði til Alþingis og til verstöðva landshluta á milli. Þar á meðal voru ferðir yfir Vatnajökul, en kólandi veðurfar 1300–1900, framgangur skriðjökla ásamt vaxandi beyg af útilegumönnum varð til þess að slíkar ferðir lögðust af og dró þá fljótt úr þekkingu manna á hálendinu. Hjörleifur Guttormsson hefur ritað þrjár greinar fyrir Náttúrufræðinginn um ferðir yfir Vatnajökul til forna. Sú fyrsta nefnist Vatnajökull og grennd í tímans rás – minni jökull í grænna umhverfi.

Daniel Bruun ríður hér úr Maríutungum upp á Brúarjökul 3. ágúst 1901 í fylgd Elíasar Jónssonar á Aðalbóli. Teikning Daniel Bruun.

Ferðamennska um víðerni og óbyggðir

Ferðamennska á mannöld – Jarðsambönd ferðafólks við virkjanir nefnist grein eftir Edward H. Huijbens og fjallar um samband ferðafólks við virkjanir og víðerni. Edward greinir frá könnun meðal ferðafólks á Hengilssvæðinu sumarið 2017 og fjallar um þá þversögn að þrátt fyrir að gestir verði varir við ýmis ummerki mannvistar og virkjanaframkvæmda upplifa þeir svæðið sem víðerni og ósnortna náttúru.

Rannveig Ólafsdóttir og Anna Dóra Sæþórsdóttir skrifa um merkingu hugtakanna víðerni, óbyggðir og miðhálendi í fyrri grein sinni um Hálendið í hugum Íslendinga. Þær beina sjónum að uppruna þessara hugtaka og greina frá niðurstöðum spurningakönnunar sem gerð var meðal Íslendinga á afstöðu til þeirra. Niðurstöðurnar sýna að Íslndingar eru mun umburðarlyndari gagnvart mannvirkjum á víðernum en á miðhálendinu og í óbyggðum.

Á fjöllum. Ljósm. Anna Dóra Sæþórsdóttir.

Tunglfiskur, 32 cm langur. Ljósm. Jónbjörn Pálsson.

Tunglfiskar við Ísland

Ólafur S. Ástþórsson og Jónbjörn Pálsson hafa tekið saman gögn um fund tunglfiska við Ísland. Greinin nefnist Tunglfiskur (Mola mola) á Íslandsmiðum í ljósi veðurfarsbreytinga.

Tunglfiskar geta orðið yfir þrír metrar á lengd og tvö tonn að þyngd. Tunglfiskurinn lifir í hitabeltinu og í tempruðum hafsvæðum, en skráð hafa verið 32 tilfelli þar sem þennan sérkennilega fisk hefur rekið á fjörur, hann sést eða veiðst við Ísland allt frá 1845. Komunum fjölgaði verulega í upphafi 21. aldar og sérstaklega árið 2012 þegar 7 tilfelli voru skráð. Rímar það við hækkandi yfirborðshita í Norður-Atlantshafi en flesta tunglfiskana hefur rekið á fjörur á suður- og vesturströndinni þar sem aðflæði hlýs Atlantshafssjávar er mest.

Nokkrir  fiskar yfir 2 metrar á lengd hafa fundist við Ísland, t.a.m. rak einn á land 1. ágúst 2012 sem var 202 cm á lengd.

Rauðvínssólgin fiðrildi

Næturfiðrildi virðast sólgin í rauðvín ef marka má tilraun Björns Hjaltasonar, sem safnaði auðveldlega 8 tegundum þeirra á bönd sem legið höfðu í rauðvíni. Markmiðið var að ljósmynda fiðrildin og greina til tegunda. Grein Björns nefnist Fiðrildi næturinnar fönguð og í henni má fræðast betur um veiðiaðferðina.

Auk framangreinds er í 2.–3. hefti Náttúrufræðingsins skýrsla stjórnar og reikningar Hins íslenska náttúrufræðifélags fyrir árið 2019, ritdómur um bók Helga Hallgrímssonar, Vallarstjörnur, einkennisplöntur Austurlands og leiðari sem ritstjóri skrifar í tilefni af 90. árgangi Náttúrufræðingsins.

Aðmíráll sem settist á rauðvínsband í september 2019. Ljósm. Björn Hjaltason.
Náttúruhús á Nesinu?

Náttúruhús á Nesinu?

Náttúruhús á Nesinu?

Starfshópur sem Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra skipaði, hefur komist að þeirri niðurstöðu að Nes á Seltjarnarnesi sé kjörinn framtíðarstaður fyrir Náttúruminjasafn Íslands m.t.t. nálægðar við hafið, fjölbreyttrar náttúru svæðisins og menningarsögulegs gildis þess. Er hús Lækningaminjasafnsins sem þar stendur hálfbyggt, talið henta að mörgu leyti vel fyrir starfsemi Náttúruminjasafnsins.

 

Miklir möguleikar

„Rísi Náttúruhús á Nesinu sér fyrir endann á langri og strangri baráttu fyrir viðunandi aðstöðu fyrir höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum,“ segir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður safnsins. Kjarni nýs Náttúruhúss yrði bygging sem kennd er við Lækningaminjasafnið. Hún er um 1360 m2 að gólffleti, jarðhæð og kjallari, hálfbyggð og því auðvelt að laga hana að þörfum safnsins til næstu ára. Til að svara þörfum safnsins til lengri tíma eru áhugaverðir möguleikar fyrir hendi til að stækka húsið. Þá eru fyrir hendi möguleikar á nýtingu á Nesstofu í samráði við Þjóðminjasafn Íslands og samnýtingu á Ráðagerði og fræðasetrinu í Gróttu í eigu Seltjarnarnesbæjar, sem léttir á framtíðarþörf nýbygginga fyrir Náttúruminjasafnið.

Starfshópurinn mælir með því að samið verði við Seltjarnarnesbæ um að ríkið eignist húsnæði Lækningaminjasafnsins og að það verði fullbyggt í samræmi við þarfir Náttúruminjasafnsins. Aðlögun húsnæðisins að þörfum Náttúruminjasafnsins tæki tiltölulega skamman tíma og yrði hagkvæmara en hönnun og bygging nýs húss. Áætlað er að gera megi húsnæðið tilbúið undir starfsemi Náttúruminjasafnsins og fullgera þar sýningu á um tveimur árum.

 

Áætlaður kostnaður við að ljúka byggingu hússins miðað við núverandi teikningar er 650 m.kr. með -10% til +15% vikmörkum. Viðbótarkostnaður vegna aukningar á sýningarými á aðalhæð og í kjallara er áætlaður um 100 m.kr.

 

Sýningahald

Áætlaður kostnaður við fullgerða sýningu Náttúruminjasafnsins í allt að 500 m2 sýningarými er um 400 m.kr. (0,8 m.kr./m2).  Árlegur rekstrarkostnaður miðað við allt að 18 ársverk, sem sum hver samnýtast starfsemi Náttúruminjasafnsins í Perlunni og á fleiri stöðum, er áætlaður um 300 m.kr. Tekjur af sýningahaldi eru áætlaðar 150–400 m.kr. á ári og helgast aðallega af fjölda erlendra gesta á sýningar safnsins.

Húsin í Nesi: Lækningaminjasafnið, Lyfjafræðisafnið, hvítt hús fyrir miðri mynd, og Nesstofa, sem er hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Nesstofa var reist sem embættisbústaður fyrsta landlæknsins og er eitt af elstu steinhúsum landsins, byggt á árunum 1761–1767. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Merkur áfangi

 

„Þetta er vafalítið einn merkasti áfanginn í langri og strangri baráttu fyrir viðunandi aðbúnaði fyrir þetta höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum“ segir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins. „Ég vænti þess að þetta brýna verkefni, sem snýr að fræðslu í náttúruvísindum, rannsóknum og verndun á náttúruarfi landsins, muni njóta almenns stuðnings og brautargengis á alþingi. Ríkisstjórnin og sér í lagi mennta- og menningarmálaráðherra á hrós skilið fyrir að höggva á ríflega 100 ára gamlan hnút í húsnæðismálum og rekstri safnsins. Það er nú eða aldrei.“

 

Hér má lesa GREINARGERÐ starfshópsins

Nes er ysta jörðin á Seltjarnarnesi og þekkt fyrir fjölbreytt náttúrufar. Horft til vesturs. Gróttuviti til hægri í friðlandinu Gróttu og  friðlandið Bakkatjörn til vinstri. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

FYLGISKJÖL með greinargerðinni:

Fskj. nr. 1. Minnisblað safnstjóra höfuðsafnanna þriggja, afhent mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 1. maí 2019.

Fskj. nr 2. Skipunarbréf mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 18. september 2019.

Fskj. nr. 3. NÁTTÚRUHÚS. Náttúruminjasafn Íslands – höfuðsafn í náttúrufræðum. – Lýsing á þörfum Náttúruminjasafns Íslands fyrir húsnæði, starfsemi og mannafla með hliðsjón af þingsályktun nr. 70/145. Drög nr. 1, 8. mars 2017. 7 bls.

 

Fskj. nr. 4. Bréf bæjarráðs Seltjarnarness, dags. 12. desember 2019. 

Fskj. nr. 5. Framkvæmdasýsla ríkisins. minnisblað. Lækningaminjasafn Seltjarnarnesi – athugun fyrir Náttúruminjasafn Íslands, dags. 13. desember 2019. 

Fskj. nr. 6. Yrki Arkitektar – V001 Safn//Náttúruhús, dags. 8. nóvember 2019.

 

This site is protected by wp-copyrightpro.com