Sindraskel – nýr landnemi af ætt hnífskelja

Sindraskel – nýr landnemi af ætt hnífskelja

Sindraskel – nýr landnemi af ætt hnífskelja

Á gamlársdag 2020 fundust nokkrar dauðar hnífskeljar (Ensis sp.) í fjöru í Hvalfirði og skömmu síðar fannst lifandi samloka í fjörunni við ósa Hafnarár í mynni Borgarfjarðar. Ljóst er að hér er um nýjan landnema að ræða, en áður höfðu tvö eintök, reyndar annarrar tegundar, fundist dauð í fjöru við Lónsfjörð 1957. Í millitíðinni hefur ekkert til slíkra samloka spurst hér á landi.

Sex tegundir hnífskelja hafa fundist í norðanverðu Atlantshafi. Samlokurnar eru langar og mjóar og skelbrúnirnarhnífbeittar. Þær líkjast helst gamaldags rakhnífum og þaðan er enska heitið „razor clams“ einmitt komið. Hnífskeljar geta orðið 20 cm langar, og þykja hnossgæti.

Með erfðagreiningu hefur nú verið staðfest að nýi landneminn tilheyrir tegundinni Ensis terranovensis, sem nefnd hefur verið sindraskel, en þeirri tegund hefur nýlega verið lýst í fyrsta sinn og hefur hún aðeins fundist við Nýfundnaland til þessa.

Flutningur sjávarlífvera af mannavöldum út fyrir náttúruleg heimkynni sín og inn á ný svæði verður sífellt algengari. Oftast berast þær með kjölvatni skipa, með eldisdýrum eða áfastar skipsskrokkum. Á Líffræðiráðstefnunni sem hófst í gær, 14. október, var sagt frá fundi sindraskeljanna á Íslandi, en rannsókn á þeim er samvinnuverkefni Náttúruminjasafns Íslands, Hafrannsóknastofnunar, kanadísku stofnunarinnar Anishinabek/Ontario Fisheries Resource Centre (A/OFRC), Matís og Náttúrustofu Suðvesturlands.

Höfundarnir, Hilmar J. Malmquist, Karl Gunnarsson, Davíð Gíslason, Sindri Gíslason, Joana Micael og Sæmundur Sveinsson leiða líkur að því  að sindraskeljar hafi borist til Íslands með kjölvatni flutningaskipa frá austurströnd Norður-Ameríku, líklega fyrir 5–10 árum. Nái framandi tegundir að festa sig í sessi á nýjum slóðum geta þær í sumum tilfellum valdið skaða á lífríkinu sem fyrir er. Vöktun sindraskeljar eru því mikilvæg.

Náttúrufræðingurinn kominn út!

Náttúrufræðingurinn kominn út!


Út er komið 1.–2. hefti Náttúrufræðingsins, 91. árgangs. Í heftinu er m.a. sagt frá fari þorsks við Íslandsstrendur og hvaða upplýsingar merkingar í hundrað ár hafa veitt um göngur, atferli og stofngerð íslenska þorsksins. Áfram er fjallað um ferðir yfir Vatnajökul fyrr og nú, sagt frá súlum sem leita á fornar varpslóðir á Hornströndum og lúsflugunni snípuluddu sem leggst á fiðurfé. Loks er fjallað um fuglakóleru sem drap æðarfugl í varpi á Hrauni á Skaga 2018 og 2019, um Gilsárskriðuna í Eyjafirði 2020 og grænþörunginn Ulothrix í ferskvatni á Íslandi.

Heftið er 92 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur.

Heimakærir þorskar

Þorskur er mikilvægasta tegund botnfiska á Íslandsmiðum. Mestur varð þorskaflinn 1954, tæp 550 þúsund tonn, en hefur verið um 260 þúsund tonn á síðustu árum. Þorskar eru merktir til að greina far, atferli og stofngerð en fyrsti þorskurinn var merktur hér við land 1904. Endurheimt merki sýna m.a. að eftir hrygningu við suðurströndina leitar þorskur aðallega á fæðusvæði norðvestur og austur af landinu og ennfremur að greina má þorskstofninn í tvær atferlisgerðir, grunnfarsþorska  sem halda sig á minna en 200 m dýpi allt árið, og djúpfarsþorska sem halda sig í hitskilum á fæðutíma. Þorskurinn sýnir tryggð við hrygningarsvæðin og þó egg og lirfur berist með straumum frá Íslandi til Grænlands leitar þorskurinn aftur til Íslands til að hrygna þegar kynþroska er náð. Höfundar greinarinnar eru Ingibjörg G. Jónsdóttir, Jón Sólmundsson, Einar Hjörleifsson, Magnús Thorlacius og Hjalti Karlsson.

Súlur sækja á gömul mið

Súlur verpa nú á níu stöðum við Ísland, aðallega við sunnan- og vestanvert landið. Vitað er um fimm aðra staði þar sem súlur hafa orpið en þau vörp eru nú horfin. Talið er að súlur hafi ekki orpið á Hornströndum í tvær aldir en sumarið 2016 sást súla á hreiðri á Langakambi undir Hælavíkurbjargi. Fylgst hefur verið með tilraunum súlna til varps á þessum fornu varpstöðvum frá 2016 og á hverju ári hefur fundist stakur hreiðurhraukur á sama stað. Við athugun á eldri ljósmyndum kom í ljós að súlur höfðu byggt sér hreiður á Langakambi 2014. Því er ljóst að súlur hafa lengi verið að huga að mögulegu varpi á þessum slóðum. Höfundar eru Ævar Petersen, Christian Gallo og Yann Kolbeinsson.

Súla á hreiðri á Langakambi undir Hælavíkurbjargi 2016. Ljósm: Klaus Kiesewetter. 

Yfir þveran Vatnajökul

Hjörleifur Guttormsson hefur ritað þrjár greinar í Náttúrufræðinginn um ferðir yfir Vatnajökul allt frá því land byggðist og fram undir okkar daga. Þriðja og síðasta greinin nefnist Vatnajökull og grennd í tímans rás – Endurvakin kynni en breytt erindi. Hér er fjallað um ástæður þess að ferðir yfir Vatnajökul lögðust af og að hálendið varð flestum lokuð bók í hátt í tvær aldir. Síðla á 18. öld beindust sjónir manna hins vegar á ný að hálendisleiðum, þar á meðal fram með Vatnajökli norðan- og austanverðum. Sérstaklega er fjallað um Grímsvötn fyrr og síðar, en þau eru að líkindum nafngjafi Vatnajökuls.

Kortið sýnir helstu ferðir útlendinga um og yfir Vatnajökul 1875–1956. Uppdráttur: Guðmundur Ó. Ingvarsson.

Fuglakólera í æðarvarpi

Fuglakólera leiddi til fjöldadauða í æðarvarpi á Hrauni á Skaga 2018 og 2019 og var það í fyrsta sinn sem veikin greindist hér á landi. Fuglakólera er bakteríusýking – alls óskyld þeirri sem veldur kóleru í mönnum ­– og er sjúkdómurinn einn af þeim skæðustu sem herjar á villta fugla. Oftast drepst allt að 30% fugla í varpi skyndilega án sýnilegra ytri einkenna og hefur pestin valdið dauðsföllum í æðarvörpum í N-Ameríku síðan um 1960 og í Evrópu síðan 1991. Oftast gengur sjúkdómurinn yfir á nokkrum árum.Þekktar mótvægisaðgerðir eru fáar en brýnast er að hindra að sýktir fuglar beri sjúkdóminn víðar. Höfundur greinarinnar er Jón Einar Jónsson.

Dauðar æðarkollur í varpi á Hrauni á Skaga vorið 2018. Ljósm. Merete Rabelle.

Snípuludda og farþegar hennar

Fiðurmítlar og naglýs eru algeng sníkjudýr á fuglum. Lífsferill þeirra er einfaldur og tíðast að smitleiðin sé á milli fugla sömu tegundar, en lúsflugur geta líka komið við sögu sem smitferjur. Svavar Ö. Guðmundsson, Karl Skírnisson og Ólafur K. Nielsen leituðu svara við því hvaða sníkjudýr nýta sér lúsflugur til dreifingar milli fugla á Íslandi. Niðurstöðurnar sýna að ein lúsflugutegund, snípuludda, er landlæg hér og er lífsferli hennar lýst. Flugunni var safnað á 13 fuglategundum og á henni fundust þrjár tegundir fiðurmítla. Engin tilvik fundust um að naglýs festu sig við snípuluddu.

Lúsmýið snípuludda – kvenfluga með nær fullþroska lirfu innvortis. Ljósm. Svavar Ö. Guðmundsson. 

Auk framangreinds er í 1.–2. hefti Náttúrufræðingsins sagt frá sífrera í Gilsárskriðunni sem féll í Eyjafirði 6. október 2020 – höfundur er Skafti Brynjólfsson; grænþörungnum ullþræði Ulothrix í ferskvatni á Íslandi – höfundur er Helgi Hallgrímsson; ennfremur leiðara sem Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor ritar um Þjóðargersemi á miðhálendi Íslands, eftirmæli um Jakob Jakobsson, fiskifræðing sem lést í október 2020 og ritdóm um stórvirki Örnólfs Thorlacius, Dýraríkið, sem út kom að honum látnum á síðasta ári. Þá er í heftinu skýrsla stjórnar HÍN fyrir árið 2020 og reikningar félagsins fyrir sama ár.

Skriðan féll úr um 850 m hæð niður í Gilsá í Eyjafirði um tveggja km leið. Hún var um 150–200 metrar þar sem hún var breiðust og stöðvaðist rétt ofan við bæjarhúsin á Gilsá. Ljósm. Skafti Brynjólfsson. 
Tvísetið hjá Bergsveini í Perlunni

Tvísetið hjá Bergsveini í Perlunni

Tvísetið hjá Bergsveini í Perlunni

Margir urðu frá að hverfa í Perlunni sunnudaginn 14. mars þegar Bergsveinn Birgisson flutti fyrirlestur á vegum Náttúruminjasafnsins um Geirmund heljarskinn og kenningar fræðimanna um hlut rostungsveiða í landnámi Íslands. Vegna sóttvarna er aðeins pláss fyrir 70-80 manns í Stjörnuveri Perlunnar hverju sinni og flutti Bergsveinn fyrirlestur sinn tvívegis, kl. 14 eins og auglýst var og aftur kl. 15.

Vegna sóttvarna var að jafnaði aðeins setið í öðru hvoru sæti í Stjörnuverinu. Hér flytur Bergsveinn fyrirlestur sinn fyrir seinni hópinn sem hafði beðið í rúman klukkutíma!

Sýning Náttúruminjasafnsins um Rostunginn var opnuð fyrir réttu ári, en lokað degi síðar vegna samkomutakmarkana í kjölfar Covid-19. Greinilegt er nú þegar sýningin er opin á nýjan leik, að áhugi á umfjöllunarefni hennar er mikill. Væntanlega vegur bók Bergsveins Leitin að svarta víkingnum þar þungt, en einnig ný rannsókn á beinaleifum rostunga við Ísland, sem staðfestir að hér lifði í árhundruð séríslenskur rostungastofn sem dó út á landnámsöld. Sú staðreynd gefur kenningum um að fyrstu landnámsmennirnir hafi í raun verið hér í veri, eða á rostungavertíð, byr undir báða vængi.  

Sigrún Helgadóttir, höfundur ævisögunnar í ræðustól. 

Sýningin Rostungurinn  er opin alla daga kl. 10-18 á 2. hæð Perlunnar. Þar er sagt frá líffræði rostunga, viðkomu þeirra  og vexti og samfélagi rostunga en þeir eru hópdýr. Þá er sagt frá heimsóknum flækingsdýra úr norðri og áðurnefndri rannsókn. Ennfremur er fjallað um rostungsafurðirnar sem menn voru að sækjast eftir en það var einkum húðin og lýsið, en einnig kjöt og loks skögultennurnar sem voru konungsgersemi. Á sýningunni má m.a. sjá lengstu rostungstönn sem fundist hefur hér á landi og eftirmynd Lewis-taflmannanna sem margir telja að hafi verið skornir í rostungstönn á Íslandi. Sýningin Vatnið í náttúru Íslands er einnig opin 10-18 alla daga.

Sunnudagsleiðsögn í Safnahúsinu

Sunnudagsleiðsögn í Safnahúsinu

Sunnudagsleiðsögn í Safnahúsinu

Sunnudaginn 14. febrúar klukkan 14 mun Skúli Skúlason, prófessor við Náttúruminjasafn Íslands og Háskólann á Hólum ganga með gestum um sýninguna Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Leiðsögn Skúla mun beinast að sérstöðu íslenskrar náttúru, með hvaða hætti hún birtist í myndheimi, og á hvern hátt viðhorf okkar til náttúrunnar og umgengni mótast af sýn okkar og hugmyndaheimi.
Leiðsögnin er ókeypis og allir velkomnir!

Sýningin Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim var opnuð 18. apríl 2015 og er grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi þjóðarinnar. Í sjö álmum hússins eru jafn mörg sjónarhorn sem tengja saman ólík listaverk og áhugaverða muni, þvert á efni og tímabil. Sýningin er sam­starfs­verk­efni sex stofnana: Þjóðminjasafnsins, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Þjóðskjalasafns Íslands, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum  um sjón­ræn­an menn­ing­ar­arf og skartar margvíslegum gripum úr safnkosti þeirra; forngripum, listaverkum, skjölum, handritum og náttúrugripum. Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson.

Þetta var fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafnið tók þátt í eftir stofnun 2007. Þar setti safnið m.a. upp kjörgripasýningu um uppstoppaða geirfuglinn sem keyptur var til landsins 1971 og tímabundna sýningu sem nefndist Aldauði tegundar í samvinnu við Ólöfu Nordal, myndlistarmann. Þar sagði frá síðustu geirfuglunum og sýndar voru ljósmyndir af leifum þeirra sem varðveittar eru í Kaupmannahöfn.

Safnahúsið til Listasafnsins

Ákveðið hefur  verið að Listasafn Íslands taki nú við Safnahúsinu við Hverfisgötu en Þjóðminjasafnið hefur veitt húsinu forstöðu frá 2013. Því fer hver að verða síðastur til að njóta sýningarinnar Sjónarhorn  – ferðlag um íslenskan myndheim – sem verður opin til 1. apríl n.k. Listasafn íslands mun opna nýja grunnsýningu í húsinu í sumar.

Fjölbreytt efni í nýjum Náttúrufræðingi

Fjölbreytt efni í nýjum Náttúrufræðingi

 Út er komið 4.–5. hefti Náttúrufræðingsins, 90. árgangs. 
Í heftinu er m.a. fjallað um gróður sem vex í miðjum Vatnajökli á skerjum sem komið hafa undan jöklinum vegna hlýnunar á undanförnum áratugum. Sagt er frá tveimur berghlaupum á Heimaey; Herjólfshaug og Mykitaksgrjóti. Áfram er fjallað um ferðir yfir Vatnajökul til forna og  sagt frá rannsóknum á viðhorfi ferðamanna til óspilltrar náttúru og víðerna. Í heftinu er einnig greint frá ummerkjum jarðskjálftanna á Reykjanesskaga í haust, samspili stara við hross og einstökum hraunhellum í Þeistareykjahrauni.

Nýja heftið er 88 bls. að stærð. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir.

Hér má sjá efnisyfirlit heftisins. 

 

Hálfdán Björnsson á Kvískerjum var frá upphafi lykilmaður við rannsóknir í skerjunum. Hér er hann að huga að skordýrum í Bræðraskeri 1985 eða 1988. Ljósm. Kristbjörn Egilsson.

Gróðurframvinda á miðjum Vatnajökli

Á árinu 1944 varð vart við nýtt jökulsker í Breiðamerkurjökli og gáfu Kvískerjabræður því nafnið Kárasker eftir Kára Sölmundarsyni þegar þeir heimsóttu það fyrstir manna 1957. Bræðasker, svo nefnt til heiðurs Kvískerjabræðrum, kom upp úr jöklinum 1961 og hefur gróðurframvinda í báðum skerjum verið rannsökuð frá árinu 1965. Athygli vekur að æðplöntur einkenna fyrstu stig framvindunnar, en mosar og fléttur  koma síðar. Höfundar eru: Bjarni D. Sigurðsson, Starri Heiðmarsson, †Hálfdán Björnsson og Eyþór Einarsson.

Forn berghlaup í Herjólfsdal

 

Herjólfsdalur á Heimaey í Vestmannaeyjum varð til þegar gjóska og hraun fylltu lítinn vog í eldsumbrotum fyrir um 6 þúsund árum. Eftir að hraunið rann urðu tvær meiriháttar skriður eða berghlaup í dalnum og hafa þau verið nefnd Mykitaksgrjót og Herjólfshaugur. Gjóskulög benda til að Mykitakshlaupið, sem er um 500.000 rúmmetrar að stærð hafi orðið nokkru fyrir landnám eða á árabilinu 700–750 e.Kr., en fátt er hægt að fullyrða um Herjólfshaug þar sem hann hvarf  vegna efnistöku og umsvifa í dalnum. Höfundar eru Árni Hjartarson og Jón Kristinn Helgason. 

Dalfjall og Blátindur í Herjólfsdal.

Ferðir yfir Vatnajökul til forna

Hjörleifur Guttormsson hefur ritað þrjár greinar fyrir Náttúrufræðinginn um ferðir yfir Vatnajökul til forna. Hér birtist 2. greinin sem nefnist Vatnajökull og grennd í tímans rás – Samskiptin yfir jökul í árdaga og þar eru raktar helstu heimildir um ferðir frá Fljótsdalshéraði og úr Norðurlandi yfir jökulinn og í grennd hans til sjóróðra og getið sagna um samskipti vermanna við heimafólk í Suðursveit. Sérstaklega er fjallað um tengsl Skriðuklausturs við Borgarhöfn og Hálsahöfn á 16. öld, og Skaftafells og Möðrudals yfir jökul fyrr á öldum.

Uppdráttur Sigurðar Þórarinssonar frá 1974 af fornum leiðum yfir Vatnajökul.

Hálendið í hugum Íslendinga

Rannveig Ólafsdóttir og Anna Dóra Sæþórsdóttir skrifa síðari grein gína um Hugmyndir og viðhorf Íslendinga til víðerna. Spurningakönnun var send á úrtak landsmanna og valdi hver þátttakandi milli mynda sem hann taldi passa best og síst við hugmynd sína um víðerni. Niðurstöður sýna að ummerki um mannvist í hvaða mynd sem er, fyrir utan fornminjar, draga úr víðernisupplifun Íslendinga. Í hugum þeirra felst gildi víðernis einkum í tækifæri til að upplifa kyrrð og ró á svæðum með fábrotna og einfalda innviði.

Dæmi um myndaspjald sem notað var við rannsóknina – hér má sjá myndir þar sem engin sýnileg mannvirki eru í landslaginu. 

Ummerki um jarðskjálfta á Reykjanesskaga

Mikil skjálftavirkni hófst á Reykjanesskaga í lok árs 2019 og hélst hún mest allt árið 2020. Esther Hlíðar Jensen segir frá og birtir myndir af ummerkjum skjálftans 20. október s.l. sem var Mw5,6. Skjálftans varð vart á höfuðborgarsvæðinu þar sem m.a. hrundi úr hillum stórmarkaða.

Nýjar og gamlar sprungur á bjargbrún Krýsuvíkurbjargs.
Ljósm. Dagur Jónsson 

 Hellarnir eru fagurlega skrýddir.
Ljósm. Hellarannsóknafélag Íslands.

Hraunhellar í Þeistareykjahrauni

Daníel Freyr Jónsson og Guðni Gunnarsson segja frá hraunhellum í Þeistareykjahrauni sem eru einstaklega ríkir af af dropsteinum, hraunstráum og öðru viðkvæmu hellaskrauti. Félagsmenn Hellarannsóknafélags Íslands fundu hellana 2016 og vinna að kortlagningu þeirra og könnun. Umhverfisstofnun lokaði tveimur hellum s.l. haust og bannaði umferð um aðra hella í hrauninu nokkru fyrr.

Samskipti stara og hesta

Starar eru félagslyndir fuglar og safnast í hópa undir kvöld með miklum tilþrifum. Hrefna Sigurjónsdóttir greinir frá athugun sinni á þeirri hegðun stara að sækjast eftir því að vera nálægt hrossum, en þeir sjást iðulega sitja á baki þeirra eða í fæðuleit í grasinu mjög nálægt höfði og fótum. Hún taldi allt að 15 fugla á baki sama hestsins og komst m.a. að þeirri niðurstöðu að þeir velja sér reiðskjóta eftir lit hestsins.

 

 

 

Starahópur á hestbaki í Leirvogstungu. Ljósm. Berglind Njálsdóttir.
Auk framangreinds er í 4.–5. hefti Náttúrufræðingsins grein um hálfrar aldar afmæli Náttúruverndarsamtaka Austurlands, NAUST, kortlagningu spendýra í Evrópu og leiðari sem  ritstjóri skrifar um árið 2020.