Tvísetið hjá Bergsveini í Perlunni

Tvísetið hjá Bergsveini í Perlunni

Tvísetið hjá Bergsveini í Perlunni

Margir urðu frá að hverfa í Perlunni sunnudaginn 14. mars þegar Bergsveinn Birgisson flutti fyrirlestur á vegum Náttúruminjasafnsins um Geirmund heljarskinn og kenningar fræðimanna um hlut rostungsveiða í landnámi Íslands. Vegna sóttvarna er aðeins pláss fyrir 70-80 manns í Stjörnuveri Perlunnar hverju sinni og flutti Bergsveinn fyrirlestur sinn tvívegis, kl. 14 eins og auglýst var og aftur kl. 15.

Vegna sóttvarna var að jafnaði aðeins setið í öðru hvoru sæti í Stjörnuverinu. Hér flytur Bergsveinn fyrirlestur sinn fyrir seinni hópinn sem hafði beðið í rúman klukkutíma!

Sýning Náttúruminjasafnsins um Rostunginn var opnuð fyrir réttu ári, en lokað degi síðar vegna samkomutakmarkana í kjölfar Covid-19. Greinilegt er nú þegar sýningin er opin á nýjan leik, að áhugi á umfjöllunarefni hennar er mikill. Væntanlega vegur bók Bergsveins Leitin að svarta víkingnum þar þungt, en einnig ný rannsókn á beinaleifum rostunga við Ísland, sem staðfestir að hér lifði í árhundruð séríslenskur rostungastofn sem dó út á landnámsöld. Sú staðreynd gefur kenningum um að fyrstu landnámsmennirnir hafi í raun verið hér í veri, eða á rostungavertíð, byr undir báða vængi.  

Á rostungasýningunni: Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins og Bergsveinn Birgisson, rithöfundur og sagnfræðingur. 

Sýningin Rostungurinn  er opin alla daga kl. 10-18 á 2. hæð Perlunnar. Þar er sagt frá líffræði rostunga, viðkomu þeirra  og vexti og samfélagi rostunga en þeir eru hópdýr. Þá er sagt frá heimsóknum flækingsdýra úr norðri og áðurnefndri rannsókn. Ennfremur er fjallað um rostungsafurðirnar sem menn voru að sækjast eftir en það var einkum húðin og lýsið, en einnig kjöt og loks skögultennurnar sem voru konungsgersemi. Á sýningunni má m.a. sjá lengstu rostungstönn sem fundist hefur hér á landi og eftirmynd Lewis-taflmannanna sem margir telja að hafi verið skornir í rostungstönn á Íslandi. Sýningin Vatnið í náttúru Íslands er einnig opin 10-18 alla daga.

Sunnudagsleiðsögn í Safnahúsinu

Sunnudagsleiðsögn í Safnahúsinu

Sunnudagsleiðsögn í Safnahúsinu

Sunnudaginn 14. febrúar klukkan 14 mun Skúli Skúlason, prófessor við Náttúruminjasafn Íslands og Háskólann á Hólum ganga með gestum um sýninguna Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Leiðsögn Skúla mun beinast að sérstöðu íslenskrar náttúru, með hvaða hætti hún birtist í myndheimi, og á hvern hátt viðhorf okkar til náttúrunnar og umgengni mótast af sýn okkar og hugmyndaheimi.
Leiðsögnin er ókeypis og allir velkomnir!

Sýningin Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim var opnuð 18. apríl 2015 og er grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi þjóðarinnar. Í sjö álmum hússins eru jafn mörg sjónarhorn sem tengja saman ólík listaverk og áhugaverða muni, þvert á efni og tímabil. Sýningin er sam­starfs­verk­efni sex stofnana: Þjóðminjasafnsins, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Þjóðskjalasafns Íslands, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum  um sjón­ræn­an menn­ing­ar­arf og skartar margvíslegum gripum úr safnkosti þeirra; forngripum, listaverkum, skjölum, handritum og náttúrugripum. Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson.

Þetta var fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafnið tók þátt í eftir stofnun 2007. Þar setti safnið m.a. upp kjörgripasýningu um uppstoppaða geirfuglinn sem keyptur var til landsins 1971 og tímabundna sýningu sem nefndist Aldauði tegundar í samvinnu við Ólöfu Nordal, myndlistarmann. Þar sagði frá síðustu geirfuglunum og sýndar voru ljósmyndir af leifum þeirra sem varðveittar eru í Kaupmannahöfn.

Safnahúsið til Listasafnsins

Ákveðið hefur  verið að Listasafn Íslands taki nú við Safnahúsinu við Hverfisgötu en Þjóðminjasafnið hefur veitt húsinu forstöðu frá 2013. Því fer hver að verða síðastur til að njóta sýningarinnar Sjónarhorn  – ferðlag um íslenskan myndheim – sem verður opin til 1. apríl n.k. Listasafn íslands mun opna nýja grunnsýningu í húsinu í sumar.

Fjölbreytt efni í nýjum Náttúrufræðingi

Fjölbreytt efni í nýjum Náttúrufræðingi

 Út er komið 4.–5. hefti Náttúrufræðingsins, 90. árgangs. 
Í heftinu er m.a. fjallað um gróður sem vex í miðjum Vatnajökli á skerjum sem komið hafa undan jöklinum vegna hlýnunar á undanförnum áratugum. Sagt er frá tveimur berghlaupum á Heimaey; Herjólfshaug og Mykitaksgrjóti. Áfram er fjallað um ferðir yfir Vatnajökul til forna og  sagt frá rannsóknum á viðhorfi ferðamanna til óspilltrar náttúru og víðerna. Í heftinu er einnig greint frá ummerkjum jarðskjálftanna á Reykjanesskaga í haust, samspili stara við hross og einstökum hraunhellum í Þeistareykjahrauni.

Nýja heftið er 88 bls. að stærð. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir.

Hér má sjá efnisyfirlit heftisins. 

 

Hálfdán Björnsson á Kvískerjum var frá upphafi lykilmaður við rannsóknir í skerjunum. Hér er hann að huga að skordýrum í Bræðraskeri 1985 eða 1988. Ljósm. Kristbjörn Egilsson.

Gróðurframvinda á miðjum Vatnajökli

Á árinu 1944 varð vart við nýtt jökulsker í Breiðamerkurjökli og gáfu Kvískerjabræður því nafnið Kárasker eftir Kára Sölmundarsyni þegar þeir heimsóttu það fyrstir manna 1957. Bræðasker, svo nefnt til heiðurs Kvískerjabræðrum, kom upp úr jöklinum 1961 og hefur gróðurframvinda í báðum skerjum verið rannsökuð frá árinu 1965. Athygli vekur að æðplöntur einkenna fyrstu stig framvindunnar, en mosar og fléttur  koma síðar. Höfundar eru: Bjarni D. Sigurðsson, Starri Heiðmarsson, †Hálfdán Björnsson og Eyþór Einarsson.

Forn berghlaup í Herjólfsdal

 

Herjólfsdalur á Heimaey í Vestmannaeyjum varð til þegar gjóska og hraun fylltu lítinn vog í eldsumbrotum fyrir um 6 þúsund árum. Eftir að hraunið rann urðu tvær meiriháttar skriður eða berghlaup í dalnum og hafa þau verið nefnd Mykitaksgrjót og Herjólfshaugur. Gjóskulög benda til að Mykitakshlaupið, sem er um 500.000 rúmmetrar að stærð hafi orðið nokkru fyrir landnám eða á árabilinu 700–750 e.Kr., en fátt er hægt að fullyrða um Herjólfshaug þar sem hann hvarf  vegna efnistöku og umsvifa í dalnum. Höfundar eru Árni Hjartarson og Jón Kristinn Helgason. 

Dalfjall og Blátindur í Herjólfsdal.

Ferðir yfir Vatnajökul til forna

Hjörleifur Guttormsson hefur ritað þrjár greinar fyrir Náttúrufræðinginn um ferðir yfir Vatnajökul til forna. Hér birtist 2. greinin sem nefnist Vatnajökull og grennd í tímans rás – Samskiptin yfir jökul í árdaga og þar eru raktar helstu heimildir um ferðir frá Fljótsdalshéraði og úr Norðurlandi yfir jökulinn og í grennd hans til sjóróðra og getið sagna um samskipti vermanna við heimafólk í Suðursveit. Sérstaklega er fjallað um tengsl Skriðuklausturs við Borgarhöfn og Hálsahöfn á 16. öld, og Skaftafells og Möðrudals yfir jökul fyrr á öldum.

Uppdráttur Sigurðar Þórarinssonar frá 1974 af fornum leiðum yfir Vatnajökul.

Hálendið í hugum Íslendinga

Rannveig Ólafsdóttir og Anna Dóra Sæþórsdóttir skrifa síðari grein gína um Hugmyndir og viðhorf Íslendinga til víðerna. Spurningakönnun var send á úrtak landsmanna og valdi hver þátttakandi milli mynda sem hann taldi passa best og síst við hugmynd sína um víðerni. Niðurstöður sýna að ummerki um mannvist í hvaða mynd sem er, fyrir utan fornminjar, draga úr víðernisupplifun Íslendinga. Í hugum þeirra felst gildi víðernis einkum í tækifæri til að upplifa kyrrð og ró á svæðum með fábrotna og einfalda innviði.

Dæmi um myndaspjald sem notað var við rannsóknina – hér má sjá myndir þar sem engin sýnileg mannvirki eru í landslaginu. 

Ummerki um jarðskjálfta á Reykjanesskaga

Mikil skjálftavirkni hófst á Reykjanesskaga í lok árs 2019 og hélst hún mest allt árið 2020. Esther Hlíðar Jensen segir frá og birtir myndir af ummerkjum skjálftans 20. október s.l. sem var Mw5,6. Skjálftans varð vart á höfuðborgarsvæðinu þar sem m.a. hrundi úr hillum stórmarkaða.

Nýjar og gamlar sprungur á bjargbrún Krýsuvíkurbjargs.
Ljósm. Dagur Jónsson 

 Hellarnir eru fagurlega skrýddir.
Ljósm. Hellarannsóknafélag Íslands.

Hraunhellar í Þeistareykjahrauni

Daníel Freyr Jónsson og Guðni Gunnarsson segja frá hraunhellum í Þeistareykjahrauni sem eru einstaklega ríkir af af dropsteinum, hraunstráum og öðru viðkvæmu hellaskrauti. Félagsmenn Hellarannsóknafélags Íslands fundu hellana 2016 og vinna að kortlagningu þeirra og könnun. Umhverfisstofnun lokaði tveimur hellum s.l. haust og bannaði umferð um aðra hella í hrauninu nokkru fyrr.

Samskipti stara og hesta

Starar eru félagslyndir fuglar og safnast í hópa undir kvöld með miklum tilþrifum. Hrefna Sigurjónsdóttir greinir frá athugun sinni á þeirri hegðun stara að sækjast eftir því að vera nálægt hrossum, en þeir sjást iðulega sitja á baki þeirra eða í fæðuleit í grasinu mjög nálægt höfði og fótum. Hún taldi allt að 15 fugla á baki sama hestsins og komst m.a. að þeirri niðurstöðu að þeir velja sér reiðskjóta eftir lit hestsins.

 

 

 

Starahópur á hestbaki í Leirvogstungu. Ljósm. Berglind Njálsdóttir.
Auk framangreinds er í 4.–5. hefti Náttúrufræðingsins grein um hálfrar aldar afmæli Náttúruverndarsamtaka Austurlands, NAUST, kortlagningu spendýra í Evrópu og leiðari sem  ritstjóri skrifar um árið 2020.
Ársskýrsla NMSÍ 2019

Ársskýrsla NMSÍ 2019

Ársskýrsla Náttúruminjasafnsins 2019

Ársskýrsla Náttúruminjasafnsins fyrir árið 2019 er komin út. Þar má glögglega sjá í myndum og máli þann mikla viðsnúning sem varð í starfsemi safnsins á því herrans ári. Hann má rekja til stóraukinna fjárveitinga 2018 sem gerðu safninu kleift að að opna glæsilega sýningu, hefja öfluga safnkennslu og stórefla rannsóknir. Skýrslan er eingöngu á rafrænu formi og hana er hægt að nálgast hér.

Örn við Öxará

Örn við Öxará

Haförninn var áður við Þingvallavatn eins og örnefnið Arnarfell við austurhluta vatnsins vitnar um. Þó örnum hafi fjölgað verulega þá eru þeir enn sjaldséð sjón á Lögbergi. Ljósm. TSJ.

Örn við Öxará

 Örn á öðru ári gerði sig heimakominn við Öxará 30. október s.l. en ernir (1 til 4 ára) sjást reglulega við Sog, Þingvallavatn og í Ölfusi.  Á þessu svæði eru þekkt 5 gömul arnarsetur sem fóru öll í eyði á fyrri hluta 20. aldar. Fullorðnir ernir hafa heimsótt þau reglulega á síðustu árum og orpið einu sinni, en varpið misfórst. Í ljósi útbreiðsluaukningar á Vestur- og  Norðurlandi á síðustu árum og áratugum, má gera ráð fyrir ernir hefji varp að á þessu slóðum innan skamms. 
Örninn sveimaði yfir og reyndi fyrir sér á grynningunum þangað sem urriðinn leitar til hrygningar sem áin rennur út í Þingvallavatn. Örninn sást ekki taka fisk en skorti þó ekki áhugann eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Torfi Stefán Jónsson og Snorri Þór Tryggvason tóku. Haförn getur náð allt að 5 kg þyngd og vænghafið verið 2–2,4 metrar. Þrátt fyrir það gætu stórvaxnir þingvallaurriðarnir reynst honum erfiðir viðfangs en þeir stærstu verða jafnvel yfir einn metri á lengd og 10–13 kg á þyngd. Meira um haförn hér. 

Haförninn settist beggja vegna árinnar og skoðaði aðstæður á riðunum. Ljósm. TSJ.
Örninn settist í klettana í Almannagjá en ernir sitja löngum stundum grafkyrrir og stara fránum augum yfir veiðilendur sínar. Ljósm. SÞT.
Í Almannagjá eru a.m.k. tveir hrafnslaupar og lét krummi sig ekki muna um að hjóla í þennan óvelkomna og óvænta gest sem er miklu öflugri en krummi verður þyngstur rúmt kíló og vænghafið mest 1,5 m.

Eins og við skýrðum frá í síðustu viku hefur árbotninn verið þéttsetinn urriðum í leit að heppilegasta makanum allan októbermánuð. Meira um þingvallaurriðan og hrygninguna í Öxarárstofninum hér.

Á rostungasýningunni: Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins og Bergsveinn Birgisson, rithöfundur og sagnfræðingur.