Náttúruhús á Nesinu?

Náttúruhús á Nesinu?

Náttúruhús á Nesinu?

Starfshópur sem Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra skipaði, hefur komist að þeirri niðurstöðu að Nes á Seltjarnarnesi sé kjörinn framtíðarstaður fyrir Náttúruminjasafn Íslands m.t.t. nálægðar við hafið, fjölbreyttrar náttúru svæðisins og menningarsögulegs gildis þess. Er hús Lækningaminjasafnsins sem þar stendur hálfbyggt, talið henta að mörgu leyti vel fyrir starfsemi Náttúruminjasafnsins.

 

Miklir möguleikar

„Rísi Náttúruhús á Nesinu sér fyrir endann á langri og strangri baráttu fyrir viðunandi aðstöðu fyrir höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum,“ segir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður safnsins. Kjarni nýs Náttúruhúss yrði bygging sem kennd er við Lækningaminjasafnið. Hún er um 1360 m2 að gólffleti, jarðhæð og kjallari, hálfbyggð og því auðvelt að laga hana að þörfum safnsins til næstu ára. Til að svara þörfum safnsins til lengri tíma eru áhugaverðir möguleikar fyrir hendi til að stækka húsið. Þá eru fyrir hendi möguleikar á nýtingu á Nesstofu í samráði við Þjóðminjasafn Íslands og samnýtingu á Ráðagerði og fræðasetrinu í Gróttu í eigu Seltjarnarnesbæjar, sem léttir á framtíðarþörf nýbygginga fyrir Náttúruminjasafnið.

Starfshópurinn mælir með því að samið verði við Seltjarnarnesbæ um að ríkið eignist húsnæði Lækningaminjasafnsins og að það verði fullbyggt í samræmi við þarfir Náttúruminjasafnsins. Aðlögun húsnæðisins að þörfum Náttúruminjasafnsins tæki tiltölulega skamman tíma og yrði hagkvæmara en hönnun og bygging nýs húss. Áætlað er að gera megi húsnæðið tilbúið undir starfsemi Náttúruminjasafnsins og fullgera þar sýningu á um tveimur árum.

 

Áætlaður kostnaður við að ljúka byggingu hússins miðað við núverandi teikningar er 650 m.kr. með -10% til +15% vikmörkum. Viðbótarkostnaður vegna aukningar á sýningarými á aðalhæð og í kjallara er áætlaður um 100 m.kr.

 

Sýningahald

Áætlaður kostnaður við fullgerða sýningu Náttúruminjasafnsins í allt að 500 m2 sýningarými er um 400 m.kr. (0,8 m.kr./m2).  Árlegur rekstrarkostnaður miðað við allt að 18 ársverk, sem sum hver samnýtast starfsemi Náttúruminjasafnsins í Perlunni og á fleiri stöðum, er áætlaður um 300 m.kr. Tekjur af sýningahaldi eru áætlaðar 150–400 m.kr. á ári og helgast aðallega af fjölda erlendra gesta á sýningar safnsins.

Húsin í Nesi: Lækningaminjasafnið, Lyfjafræðisafnið, hvítt hús fyrir miðri mynd, og Nesstofa, sem er hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Nesstofa var reist sem embættisbústaður fyrsta landlæknsins og er eitt af elstu steinhúsum landsins, byggt á árunum 1761–1767. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Merkur áfangi

 

„Þetta er vafalítið einn merkasti áfanginn í langri og strangri baráttu fyrir viðunandi aðbúnaði fyrir þetta höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum“ segir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins. „Ég vænti þess að þetta brýna verkefni, sem snýr að fræðslu í náttúruvísindum, rannsóknum og verndun á náttúruarfi landsins, muni njóta almenns stuðnings og brautargengis á alþingi. Ríkisstjórnin og sér í lagi mennta- og menningarmálaráðherra á hrós skilið fyrir að höggva á ríflega 100 ára gamlan hnút í húsnæðismálum og rekstri safnsins. Það er nú eða aldrei.“

 

Hér má lesa GREINARGERÐ starfshópsins

Nes er ysta jörðin á Seltjarnarnesi og þekkt fyrir fjölbreytt náttúrufar. Horft til vesturs. Gróttuviti til hægri í friðlandinu Gróttu og  friðlandið Bakkatjörn til vinstri. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

FYLGISKJÖL með greinargerðinni:

Fskj. nr. 1. Minnisblað safnstjóra höfuðsafnanna þriggja, afhent mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 1. maí 2019.

Fskj. nr 2. Skipunarbréf mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 18. september 2019.

Fskj. nr. 3. NÁTTÚRUHÚS. Náttúruminjasafn Íslands – höfuðsafn í náttúrufræðum. – Lýsing á þörfum Náttúruminjasafns Íslands fyrir húsnæði, starfsemi og mannafla með hliðsjón af þingsályktun nr. 70/145. Drög nr. 1, 8. mars 2017. 7 bls.

 

Fskj. nr. 4. Bréf bæjarráðs Seltjarnarness, dags. 12. desember 2019. 

Fskj. nr. 5. Framkvæmdasýsla ríkisins. minnisblað. Lækningaminjasafn Seltjarnarnesi – athugun fyrir Náttúruminjasafn Íslands, dags. 13. desember 2019. 

Fskj. nr. 6. Yrki Arkitektar – V001 Safn//Náttúruhús, dags. 8. nóvember 2019.

 

Þingvallahefti til heiðurs dr. Pétri M. Jónassyni

Þingvallahefti til heiðurs dr. Pétri M. Jónassyni

Út er komið þemahefti Náttúrufræðingsins um Þingvallavatn. Heftið er gefið út til heiðurs dr. Pétri M. Jónassyni, sem verður eitt hundrað ára gamall n.k. fimmtudag, 18. júní, en Pétur hóf viðamiklar vistfræðirannsóknir á vatninu með 59 vísindamönnum frá mörgum löndum 1974 og stóðu þær fram til ársins 1992, þegar aðrir, margir hverjir nemendur og samstarfsmenn Péturs, tóku við keflinu.

Pétur M. Jónasson verður 100 ára 18. júní n.k. Þessi mynd var tekin 2015 á heimili hans í Danmörku. Ljósm. ÁI.

Þingvallaheftið segir einmitt frá nýjustu rannsóknum á þessu stærsta náttúrulega stöðuvatni Íslands, Vatninu bjarta, eins og Hilmar J. Malmquist nefnir það í leiðara. Þar kennir ýmissa grasa enda eru rannsóknir á Þingvallavatni fjölbreyttar m.a. í atferlisfræði, efnafræði, þróunarfræði, þroskunarfræði, tegundagreiningu, hitaferlum og fæðu seiða. Þar er einnig sagt frá vísindarannsóknum Péturs M. Jónassonar, en sjálfur ritar hann grein í heftið.

Fjölbreyttar rannsóknir

Höfundar í Þingvallaheftinu eru margir: Árni Hjartarson og Snorri Zophóníasson skrifa um Öxará; Snæbjörn Pálsson, Ragnhildur Guðmundsdóttir og Bjarni K. Kristjánsson um Líf í grunnvatni í hraunalindum Íslands; Finnur Ingimarsson, Haraldur Rafn Ingvason, Þóra Hrafnsdóttir, Stefán Már Stefánsson og Kristín Harðardóttir greina frá niðurstöðum í Vöktun svifdýra í Þingvallavatni 2007–2016; Gísli Már Gíslason, Hilmar J. Malmquist og Sigurður S. Snorrason segja frá Vatnavistfræðingnum og frumkvöðlinum Pétri M. Jónassyni; Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir segir frá Hreiðurgerð og hrygningaratferli hornsíla í Þingvallavatni; Gunnar Steinn Jónsson og Kesera Anamthawat-Jónsson skrifa um Notkun rafeindasmásjár við tegundagreiningu svifþörunga í Þingvallavatni; Eydís S. Eiríksdóttir og Sigurður Reynir Gíslason um Efnabúskap Þingvallavatns; Hilmar J. Malmquist, Finnur Ingimarsson, Haraldur R. Ingvason, Stefán Már Stefánsson  og Þóra Hrafnsdóttir um Hlýnun Þingvallavatns og hitaferla í vatninu; Magnús Jóhannsson og Benóný Jónsson segja frá Fæðu laxfiskaseiða í Sogi; Tryggvi Felixson segir frá baráttu Péturs M. Jónassonar og Landverndar gegn veginum yfir Lyngdalsheiði í greininni Þingvallavatn og baráttan um veginn; Skúli Skúlason og Sigurður S. Snorrason fjalla um Fjölbreytni og þróun bleikjunnar í Þingvallavatni og loks ritar Pétur M. Jónasson grein sem nefnist: Þingvallavatn og Mývatn – gróðurvinjar á flekaskilum.

Náttúrufræðingurinn í 90 ár

Með þessu hefti hefur Náttúrufræðingurinn 90. árgang sinn en heftið hefur komið samfellt út frá 1930. Heftið er 140 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir.

Hér má nálgast efnisyfirlit heftisins. 
Hægt er að gerast áskrifandi hér.

15 sumarstörf í boði á Náttúruminjasafninu

15 sumarstörf í boði á Náttúruminjasafninu


Náttúruminjasafn Íslands auglýsir í samstarfi við Vinnumálastofnun eftir 15 námsmönnum til að sinna fjölbreyttum verkefnum í sumar. Störfin tengjast rannsóknavinnu safnsins og gagnaskráningu. Nokkur starfanna eru úti á landi og sumum má sinna í gegnum netið hvar sem er á landinu svo fremi að gott netsamband sé fyrir hendi.

Námsmenn á háskólastigi með viðeigandi menntun eru hvattir til að sækja um. Umsóknir fara í gegnum vef Vinnumálastofnunar.

Hér er skrá yfir verkefnin og störfin á Náttúruminjasafni Íslands sem auglýst eru:

Steinasafn Björns Björgvinssonar – flokkun og skráning á Breiðdalsvík
– 2 jarðfræðinemar

Landafræði handrita – gagnasafn um ritunarstaði handrita, tengsl við staðhætti, náttúrufar og landafræði
– 2 nemar í íslenskum fræðum

Líffræðileg fjölbreytni náttúru á Íslandi – ný stafræn gagnagátt, heimildavinna
– 3 nemar í líffræði eða skyldum greinum

Úrvinnsla vatnalíffræðisýna – vistfræðilegur gagnagrunnur á landsvísu
– 2 nemar í líffræði eða skyldum greinum

Krumminn á skjánum – náttúrufræðilegur og menningarlegur fróðleikur um hrafninn
– 2 nemar, í hugvísindum og líffræði

Frágangur í skjala- og munageymslu Náttúruminjasafnsins – flokkun, röðun og skráning
– 2 nemar í bókasafns- og upplýsingafræði eða önnur menntun sem nýtist í starfi

Stafræn vísindamiðlun til almennings
– 1 nemi í grafískri hönnun

Gagnaskráning og tilfallandi störf fyrir NMSÍ
– 1 nemi í bókasafns- og upplýsingafræði

…að á Íslandi eru þekktir yfir 1200 fossar. Margir bera ekkert nafn og nokkuð er um að fossar beri sömu nöfn, t.d. eru sjö Gullfossar á landinu. Selfoss er algengasta fossanafnið. Þeir eru 13 talsins.

Náttúrufræðingurinn mættur!

Náttúrufræðingurinn mættur!


Hestar í haga, síldin sem hvarf, talningar mófugla, rykmyndun og gervigígar. Allt þetta og meira til er umfjöllunarefni í nýjum Náttúrufræðingi, 3.–4. hefti 89. árgangs sem kominn er út. 

Hestar eru félagslyndar skepnur og mynda mismikil tengsl við aðra og óskylda hesta. Þeir kljást og þeir slást – en af hverju? Hrefna Sigurjónsdóttir og Sandra Granquist hafa tekið saman niðurstöður 15 ára rannsókna á félagshegðun 426 hesta í 20 hópum. Niðurstöður sýna að samsetning hópsins hefur mikil áhrif á það hversu árásargjörn hrossin eru.

Silfur hafsins.

50 ár eru liðin frá því ofveiði leiddi til hruns í þremur síldarstofnum við landið í lok 7. áratugar síðustu aldar. Sumargotssíldin tók við sér nokkrum árum síðar og norsk-íslenski vorgotssíldarstofninn tók að vaxa tæpum tveimur áratugum eftir hrunið. Íslenski vorgotssíldarstofninn hefur hins vegar enn ekki náð sér á strik. Guðmundur J. Óskarsson greinir frá rannsóknum á stöðu og afdrifum þessa áður mikilvæga stofns á árunum 1962–2016.

Hljóðaklettar og Rauðhólar í Jökulsárgljúfrum hafa til þessa verið taldir leifar af gossprungu frá nútíma. Ásta Rut Hjartardóttir og Páll Einarsson telja ýmislegt benda til þess að svo sé ekki, heldur séu þessar myndanir gervigígar og hraunstrúktúrar sem myndast hafi við samspil vatns og flæðandi hrauns skömmu eftir að ísaldarjökla leysti á svæðinu.

Þröstur minn góði …

Skógarþresti virtist fjölga nokkuð samkvæmt vöktun á mófuglum í Rangárvallasýslu 2011–2018 en þar hafa fuglarnir verið taldir árlega á 63 stöðum. Aðrar breytingar voru óverulegar á þessu tímabili. Tómas Grétar Gunnarsson og Böðvar Þórisson greina frá rannsóknunum en Íslendingar bera sérstaka ábyrgð á nokkrum stofnum mófugla, sem eru einkennisdýr hérlendis og af heimsstofni sem verpur á Íslandi að stórum hluta.

Uppfok frá Dyngjusandi barst í Loðmundarfjörð í ágúst 2012.

Rykmyndun á Íslandi er með því mesta sem þekkist í heiminum og nemur milljónum eða tugmilljónum tonna ár hvert. Rykið mótar öll vistkerfi á Íslandi og leggur til áfokið sem er móðurefni jarðvegs á Íslandi. Rykið hindrar endurkast sólarljóss og getur aukið bráðnun á yfirborði snævar, sem hvort tveggja hraðar loftslagsbreytingum á norðurslóðum. Ólafur Arnalds, Pavla Dagsson-Waldhauserová og Sigmundur Helgi Brink fjalla um sandfok, ryk og áfok á Íslandi í síðari grein af tveimur um Sandauðnir, sandfok og ryk á Íslandi.

Af öðru efni í ritinu má nefna ritrýni um tvær bækur. Þær eru: Hvítabirnir á Íslandi eftir Rósu Rut Þórisdóttur og Mosar á Íslandi eftir Ágúst H. Bjarnason. Þá eru birt eftirmæli um Pál Hersteinsson dýrafræðing sem lést fyrir aldur fram á árinu 2011 auk greina Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúrufræðinginn. Félagið er 130 ára á árinu 2019 og tímaritið nírætt 2020 og eru með elstu félagasamtökum og tímaritum á landinu.

Þetta er 3.–4. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 92 bls. að stærð. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir líffræðingur. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.

Efnisyfirlit 3.–4. heftis Náttúrufræðingsins, 89. árgangs.