Krossnefur (Loxia curvirostra)


Spörfuglar (Passeriformes) eru langstærsti ættbálkur fugla. Um 60% hinna rúmlega 9700 fuglategunda sem þekktar eru í heiminum tilheyra honum. Af þeim eru þó aðeins 12 tegundir spörfugla sem verpa hér á landi að staðaldri og fáeinar til viðbótar eru sjaldgæfir eða óreglulegir varpfuglar. Einangrun landsins, skógleysi og vætusöm veðrátta eru taldar helstu ástæður fyrir þessum rýra hlut spörfugla í íslenskri fuglafánu.

Með aukinni skógrækt hefur þeim fuglum fjölgað sem reyna hér varp. Hin torsótta farleið til og frá landinu, 800 km yfir opið haf, veldur því m.a. að litlir stofnar farfugla eiga erfitt uppdráttar. Það eru vafalaust mikil afföll í hafi af þeim fuglum sem ekki geta sest á sjó til að hvíla sig, eins og spörfuglum og smávöxnum vaðfuglum. Stofnar gamalgróinna íslenskra farfugla í smærri kantinum eru stórir og sterkir og þola því nokkur afföll. Þeir fuglar sem hafa numið hér land undanfarin hundrað ár eða svo og eru jafnframt farfuglar, eru aðallega sundfuglar og geta sest á sjó. Smærri landnemar, eins og stari, glókollur, svartþröstur og krossnefur, eru að hluta til eða öllu leyti staðfuglar.

Krossnefskarl á Selfossi.

Krossnefskerla tekur flugið í Heiðmörk.

Ungur krossnefur, líklega kvenfugl, á Selfossi.

Útlit og atferli

Krossnefur er sérkennileg, stór finka með stóran gogg, skoltarnir ganga á misvíxl og ber fuglinn nafn sitt af því. Goggurinn er sérhæfður til að ná fræjum úr könglum. Karlfuglinn er oftast hárauður með dekkri vængi, en getur einnig verið appelsínugulur eða jafnvel grænn. Kvenfuglinn er grágrænn með gulgrænan gump og ungfugl er sterkrákóttur, grábrúnn eða mógrænn. Augu eru svört, fætur gráir eða grábrúnir og goggur eru dökk, en neðri skolturinn er oft ljósari.

Krossnefur er félagslyndur utan varptíma. Hóparnir fljúga milli könglabúnta í trjátoppum og hafa hátt á flugi, en eru hljóðlátir þegar þeir eta. Flugið er bylgjótt.

Krossnefskarl með gulu ívafi í Grímsnesi.

Krossnefskarl með gulu ívafi í Grímsnesi.

Nýfleygur krossnefsungi nartar í birkifetalirfur á Hofi í Öræfum.

Krossnefskerling í Grímsnesi.

Krossnefsungi etur sólblómafræ í Grímsnesi. Hann er aðeins farinn að taka lit.

Lífshættir

Aðalfæða krossnefs er grenifræ, en einnig furu- og lerkifræ, sem hann nær úr könglum með „sérhönnuðum“ goggnum. Einnig smádýr, t.d. skordýralirfur. Krossnefir koma stundum í fræ sérstaklega sólblómafræ, þar sem fuglum er gefið.

Kjörlendi krossnefs er greniskógar, en hann finnst einnig í furu- og lerkiskógum. Lítið er vitað um varphætti hans hér á landi. Varptími er sérstakur en hann fylgir þroska grenifræja og fuglarnir geta orpið árið um kring. Hérlendis virðist aðalvarptími krossnefs vera frá útmánuðum og fram á haust en jafnframt eitthvað yfir háveturinn. Hann gerir sér hreiður á grein í barrtré, venjulega í nokkurri hæð. Hreiðrið er karfa, gróf yst, og fóðruð með fínna efni. Eggin eru 3–5 og tekur útungun 14–15 daga. Ungarnir eru 20–25 daga í hreiðrinu áður en þeir verða fleygir. Krossnefur verpur nokkrum sinnum yfir árið.

Útbreiðsla og ferðir

Krossnefur er staðfugl hérlendis. Hann varp hér fyrst í desember 1994 og aftur sumarið 2006, stök pör í bæði skiptin. Næst er vitað um varp veturinn 2008 til 2009 en þá urpu mörg pör og víða um land (Hérað, Suðurland, Suðvesturland og Vesturland). Varpið hefur haldið áfram síðan og hefur Norðurland bæst við útbreiðslusvæðið. Stofninn er talinn vera 200–500 varppör og má telja að krossnefur hafi öðlast fullan þegnrétt í íslenskri náttúru.

Fuglarnir eiga það til að leggjast í flakk að loknu varpi og fara þá langt út fyrir heimkynni sín og m.a. til Íslands. Þeir koma stundum í stórum hópum og sjást víða um land. Þetta er kallað rásfar.

Uppruni krossnefs er í barrskógabelti Evrasíu og Norður-Ameríku, en hann hefur numið land í barrskógum víða um heim í kjölfar rásfars.

Þjóðtrú og sagnir

Þar sem krossnefurinn er einn af okkar yngstu landnemum finnst hann ekki í þjóðtrúnni og engin skáld hafa ort um hann – enn sem komið er.

Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson