Sandlóa (Charadrius hiaticula)

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Þó einkenni margra þeirra sé langur goggur, háls og langir fætur, eru nokkrir með stutta fætur og gogg, þar á meðal fuglar sem tilheyra lóuættinni, sem hér á landi eru sandlóa og heiðlóa. Þeir sækja meira í þurrlendi heldur en margir vaðfuglar með lengri gogg. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök. Ungarnir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum.

Útlit og atferli

Sandlóa er með minnstu vaðfuglum hér, álíka stór og sendlingur og lóuþræll, og er hálsstutt og fremur kubbslega vaxin. Hún er grábrún að ofan en hvít að neðan, á sumrin með hvítan kraga um hálsinn og svart belti þar fyrir neðan, einnig svarta grímu um augu en er hvít á enni. Karlinn er ögn litsterkari en kerlan. Sandlóa hefur hvít vængbelti sem sjást vel á flugi. Stél og gumpur eru dökk með hvítum jöðrum. Ungfugl og fullorðin sandlóa í vetrarbúningi eru litdaufari, ungfuglar eru með ljósum fjaðrajöðrum að ofan („hreistraðir“), bæði með grábrúna grímu og bringubelti.

Rauðgulur goggurinn er stuttur og svartur í oddinn, alsvartur á ungfugli. Fætur eru einnig rauðgulir en augun dökk. Röddin er hljómþýð, söngurinn endurtekið vell.

Sandlóuhjón í í Eyrarbakkafjöru, karlinn nær.

Sandlóukarlar í erjum í Eyrarbakkafjöru.

Sandlóuerjur í Eyrarbakkafjöru. Þær eru að slást um besta fæðusvæðið.

Lífshættir

Þessi litli fugl er fjörlegur og kvikur. Hann er vænglangur og flýgur yfirleitt hratt og lágt og með reglulegu vængjablaki. Sé reynt að nálgast hreiður eða unga sandlóunnar, barmar hún sér og þykist vera vængbrotin, til að draga að sér athyglina og lokka óvininn burt. Fremur félagslyndur utan varptíma.

Sandlóa tínir skordýr, krabbadýr, orma og lindýr af jörðinni eða úr fjörum, t.d. þangflugulirfur, doppur, mýlirfur og marflær. Við fæðunám er hún mjög kvik, hleypur um og skimar eftir æti, stoppar, hremmir bráðina og er svo rokin af stað aftur.

Sandlóa heldur sig einkum á sendnu landi og í möl, bæði við sjó og á melum og áreyrum inn til landsins. Hreiðrið er dæld í möl eða sand, óhulið, fóðrað með smásteinum og skeljabrotum. Eggin eru venjulega fjögur eins og hjá flestum vaðfuglum. Útungunartíminn er um 24 dagar og ungarnir eru álíka lengi að verða fleygir. Utan varptíma dvelur sandlóan á leirum og í sandfjörum.

Sandlóa á hreiðri á Stokkseyri.

Sandlóuhreiður á Stokkseyri.

Sandlóa barmar sér við hreiður í Breiðavík.

Sandlóuungi í Kollafirði á Ströndum.

Ung sandlóa í Eyrarbakkafjöru.

Útbreiðsla og stofnstærð

Sandlóa er alger farfugl. Hún verpur dreift um land allt, en er algengust við sjávarsíðuna. Hún er einn útbreiddasti fugl landsins, en er alls staðar fremur strjál. Stórir hópar fugla sem verpa á Grænlandi fara hér um vor og haust. Vetrarstöðvar eru með ströndum fram á Bretlandseyjum, í Vestur og Suðvestur-Evrópu (Frakklandi og Pýreneaskaga) og Vestur-Afríku, frá Marokkó suður til Gambíu. Sandlóan verpur auk þess í N-Evrópu og Síberíu, allt austur að Beringssundi og NA-Kanada. Talið er að um 20-30% af heimsstofni sandlóu verpi hér á landi og er hún því íslensk ábyrgðartegund.

Kveðskapur

Sandló lipur fótafim,
fyrirglepur eggjavörgum.
Hleypur tifur harða rim,
Hennar svipur þekkt er mörgum.

Eftir Þorstein Díómedesson.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson