Stuttnefja (Uria lomvia)

Stuttnefja.

Stuttnefja.

Útlit og atferli

Stuttnefjan er fremur stór svartfugl sem svipar mjög til langvíu. Á sumrin er hún svört að ofan en hvít að neðan, síður eru hvítar án ráka. Hvítir jaðrar armflugfjaðra mynda ljósa rák á aðfelldum væng. Á veturna teygist hvítur litur bringunnar upp á kverk. Goggur er svartur, oddhvass með hvítri rönd á jaðri efra skolts, röndin helst á veturna. Grunnlitur fóta er svartur og augu svört. Gefur frá skvaldrandi hljóð, rofið af rámu gargi um varptímann.

Svipar í mörgu til álku og langvíu. Höfuðlag er þó annað, stuttnefja er auk þess hálslengri og stélstyttri en álka. Hún flýgur með kýttan háls. Á erfitt um gang, situr á ristinni. Auðgreindust frá langvíu á hvítum síðum, dekkri lit að ofan, styttri og þykkari goggi með hvítri goggrönd, brattara enni og kantaðri kolli, á veturna á svörtum vöngum. Höfuðlag er annað en á álku, auk þess er stuttnefja hálslengri og stélstyttri. Hún flýgur með kýttan háls og er fimur kafari. Er afar félagslynd.

Stuttnefja til vinstri og langvía (Urea aalge) til hægri.

Stuttnefja til vinstri og langvía (Urea aalge) til hægri.

Vetrarfugl við Þorlákshöfn. Ljósmynd: Óli Jóhann Hilmarsson.

Stuttnefja í vetrarbúningi við Þorlákshöfn. Ljósmynd: Óli Jóhann Hilmarsson.

Lífshættir

Stuttnefja kafar eftir fæðunni og knýr sig áfram með vængjunum neðansjávar líkt og aðrir svartfuglar. Aðalfæðan er loðna, en hún tekur einnig síli, síld, annan smáfisk, ljósátu og marflær.

Stuttnefja verpur í stórum byggðum í fuglabjörgum. Hún verpur aðeins einu eggi og er því orpið á berar syllur, hreiðurgerð er engin. Stuttnefja verpur á mjórri syllum en langvía og stundum í stökum pörum. Er á sjó utan varptíma og er meiri úthafsfugl en langvía. Ungi yfirgefur varpsyllu löngu áður en hann er fleygur, um þriggja vikna gamall, um miðjan júlí. Þá kastar hann sér fram af varpsyllunni, veifandi vængstubbunum og reynir að elta annað foreldrið út á sjó. Stundum eru þeir óheppnir, lenda í urðum undir björgunum eða í tófukjafti, ef þeir ná ekki til sjávar. Björgin tæmast venjulega síðla júlímánaðar.

Stuttnefjur á sundi.

Stuttnefjur á sundi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og ferðir

Mjög stór hluti íslenska stofnsins verpur í stóru vestfirsku björgunum, Látra-, Hælavíkur- og Hornbjargi. Stuttnefju fækkaði um 44% á árunum milli 1983 og 2008 og er hún nú á válista. Fækkunin er sums staðar enn meiri. Í Skoruvíkurbjargi á Langanesi fækkaði henni um 82% á árunum 1986-2014. Stuttnefjan er hér á suðurmörkum útbreiðslu sinnar og er fækkun hennar rakin til hlýnunar sjávar og gróðurhúsaáhrifa; veiðar Grænlendinga eru taldar hafa slæm áhrif á minnkandi stofninn. Örlög hennar verða kannski þau sömu og haftyrðilsins.

Vetrarstöðvar íslenskra fugla eru norður af landinu, undan NA-landi. Það eru þó að einhverju leiti fuglar frá Bjarnarey og Svalbarða, sem þar hafa vetursetu. Eitthvað af íslenskum fuglum er út af Scorebysundi á Austur-Grænlandi. Aðalvetrarstöðvarnar eru þó líklega við Suðuvestur- og Suður-Grænland og teygja þær stöðvar sig á átt að Reykjanesskaga í NA og Nýfundnaland í SV. Þessar upplýsingar hafa fengist á allrasíðustu árum með notkun gagnarita; það er agnarlítið tæki, sem fest er á fót fuglsins. Frekari rannsóknir eiga væntanlega eftir að leiða enn frekar í ljós ferðir stuttnefjunnar.

Stuttnefjur í bjargi.

Stuttnefjur í bjargi.

Friðun stuttnefju við Grænland

Snemma í mars sendi Fuglavernd eftirfarandi áskorun til grænlenskra stjórnvalda um friðun stuttnefju, en íslenskir fuglar eru mikið veiddir við strendur landsins:

Fuglavernd skorar á Grænlensk stjórnvöld að hlífa stuttnefjunni. Það hefur vakið athygli umheimsins að grænlenska landsstjórnin hefur heykst á að friða stuttnefjuna, þrátt fyrir að fjöldi aðvörunarbjalla hafi hringt undanfarin ár um að hún stæði á barmi útrýmingar. Fuglavernd ásamt fuglaverndarsamtökum í Danmörku, Noregi, Bandaríkjunum og Alþjóðasamtökum BirdLife International hafa skorað á grænlensku landsstjórnina að stöðva alla veiði á stuttnefju. Það stefnir í að veiðar útrými tegundinni sem varpfugli í Grænlandi á fáum árum en gríðarlegt veiðiálag er á fugla við Vesturströnd Grænlands. Stuttnefjum sem verpa hér við land hefur fækkað mikið á síðustu árum og er talsvert af þeim drepið á vetrarstöðvum vestur af Suður-Grænlandi. Þar eru bæði mikilvægar varpstöðvar grænlenskra stuttnefja og vetrarstöðvar íslenskra. Fuglaverndarsamtökin skora á landsstjórnina að nýta náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt.

Þjóðtrú og sagnir

Lítið er að finna um stuttnefjuna sjálfa í íslenskri þjóðtrú, en hún er tekin með öðrum svartfuglum. Þeir eiga að vita fyrir óveður og fljúga að landi 2-3 dögum á undan norðanstormum. Svartfuglarnir áttu líka að vita fyrir góðan afla.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.