Hlutverk

LÖG

Náttúruminjasafn Íslands er eitt þriggja höfuðsafna landsins auk Listasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands og starfar samkvæmt lögum um Náttúruminjasafn Íslands nr. 35/2007 og Safnalögum nr. 141/2011.

Náttúruminjasafnslög

Í Náttúruminjasafnslögunum eru markmið og hlutverk stofnunarinnar skilgreind í  fyrsta kafla laganna, 2. gr:

„Hlutverk Náttúruminjasafns Íslands er að varpa ljósi á náttúru Íslands, náttúrusögu landsins, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd, auk þess að varpa ljósi á samspil manns og náttúru og á náttúru landsins í alþjóðlegu samhengi.

Náttúruminjasafnið safnar munum sem henta starfsemi þess, skráir þá og varðveitir. Safnið aflar upplýsinga sem veita yfirlit yfir náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda innan lands og utan og annast kynningu með sýningum og annarri fræðslustarfsemi með það að markmiði að veita sem víðtækasta sýn á íslenska náttúru. Safnið skal miðla fræðslu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings. Safnið annast rannsóknir á starfssviði sínu.

Náttúruminjasafn Íslands veitir öðrum náttúruminjasöfnum ráðgjöf, stuðlar að samvinnu þeirra hér á landi og vinnur að samræmdri safnastefnu á sviði náttúrufræða.

Náttúruminjasafnið skal eiga samstarf við vísinda- og rannsóknastofnanir á sviði náttúrufræða á vegum ríkisins og annarra aðila.“

Safnalög

Í Safnalögunum er kveðið á um skipulag safnastarfs í þeim tilgangi að efla starfsemi safna við varðveislu menningar- og náttúruarfs Íslands og tryggja að honum verði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Jafnframt eiga lögin að veita fólki aðgang að menningar- og náttúruarfinum og stuðla að aukinni þekkingu á þessari arfleifð og skilningi á tengslum hennar við umheiminn.

Ennfremur segir í Safnalögunum að söfn séu í skilningi Safnalaganna …„varanlegar stofnanir sem starfa í þágu almennings og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Þau skulu vera opin almenningi.“

Jafnframt kemur fram í Safnalögunum að:

„Með söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknum, sýningum og annarri miðlun er það hlutverk safna að tryggja menningar- og náttúruarf Íslands, varpa ljósi á menningar-, náttúru- og listasögu landsins, styrkja safnkost og heimildasöfnun innan síns sérsviðs og gera safnkost sinn og heimildasöfn aðgengileg almenningi og fræðimönnum. Í starfi sínu skulu söfn hafa að leiðarljósi að auka lífsgæði manna með því að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda.“

Í 8. gr. Safnalaganna er eftirfarandi kveðið á um höfuðsöfnin:

„Höfuðsöfn eru þrjú: Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Þau eru öðrum söfnum til ráðgjafar og skulu stuðla að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu hvert á sínu sviði.

Höfuðsöfn skulu hafa forustu í málefnum safna á sínu sviði, stuðla að eflingu og samræmi í safnastarfi og leiða faglegt samstarf safna og annarra aðila. Höfuðsöfn skulu leitast við að efla og auka þekkingu og færni starfsfólks safna.

Höfuðsöfn skulu annast kynningu á sérsviði sínu innan lands og utan.

Safnkostur höfuðsafna skal vera undirstaða fræðslu- og sýningarstarfs þeirra. Hann skal jafnframt vera aðgengilegur til rannsókna.

Höfuðsöfn mega ekki taka við gjöfum sem kvaðir fylgja. Ráðherra getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstök rök mæla með því.”