Merki safnsins

Einkennismerki Náttúruminjasafnsins er hannað af Stefáni Einarssyni, grafískum hönnuði hjá Hvíta húsinu. Merkið var valið úr 122 tillögum sem bárust í opinni samkeppni sem Hönnunarmiðstöð Íslands og Náttúrminjasafnið stóðu fyrir.

Merki í 300 punkta upplausn.

 

Merki NMSÍ

Lýsing á merkinu

Merkið fellur mjög vel að hlutverki Náttúruminjasafnsins. Helstu kostir merkisins eru að saman fer stílhreinn einfaldleiki og margvísleg táknræn skírskotun í náttúruna. Gott samræmi er milli lögunar og stærðar merkisins og leturgerðar í heiti safnsins. Leturgerðin (Akzidenz-Grotesk) er sígild og tímalaus.

Í merkinu er tvinnað saman tilvísun í jurtaríkið, dýraríkið, steinaríkið og vistfræðina sem tengir náttúruna saman og heldur utan hana. Grænn litur merkisins vísar til hins ljóstillífandi þáttar náttúrunnar og er sóttur í verk eftir listamanninn Birgi Andrésson og heitir Pantone Icelandic 5757. Úr lögun og lit merkisins má einnig lesa blóm.

Tilvísun í dýrafræðina felst í spírallögun merkisins, þ.e. snið kuðungs sem vindur sig utan um snigil inni í skelinni (húsinu). Sniglar tilheyra lindýrum, stærstu fylkingu núlifandi hryggleysingja í sjó jafnt hér við land sem annars staðar. Jafnframt tengjast sniglar jarðfræðinni sterkum böndum sem steingervingar. Jarðfræðileg skírskotun merkisins felst einnig í grábrúnum lit letursins og vísar til jarðvegsins. Liturinn er sóttur í smiðju Birgis Andréssonar líkt og græni liturinn og nefnist Pantone 418.

Spírallinn hefur einnig stærðfræðilega skírskotun og vísar til Fibonacci-talnarununnar og gullinsniðs sem koma víða fyrir í náttúrunni.

Tilvísun í vistfræði felst í kuðungslaginu og hinni bogadregnu hurð í miðju merkisins. Hér er hús sem á forngrísku heitir oikos og er rótin að heiti þeirrar vísindagreinar sem fæst við tengsl og samspil í náttúrunni ‒ vistfræðinnar.

Húsið getur líka táknað safn sem varðveitir og verndar náttúruna. Þá vísar merkið í bókstafinn „n“ sem hvort tveggja er upphafsstafur í heiti safnsins og hugtaksins „náttúra“. Verði Perlan valin sem safnahús getur hvelllaga merkið vísað í hana.