Opið er fyrir bókanir skólahópa

fyrir veturinn 2021-2022

 

 

Safnkennsla

Náttúruminjasafn Íslands býður skólahópum og kennurum í heimsókn með leiðsögn og fræðslu á sýninguna Vatnið í náttúru Íslands. Sýningin er nútímaleg og fjölbreytt og býður upp á margvísleg viðfangsefni í náttúrufræðum. Fræðsla fyrir skólahópa er ókeypis.

 

Leikskólar

Safnkennarar taka á móti hópum og leiða nemendur um sýninguna. Fjallað er um hringrás vatns og lífverurnar sem finnast í fersku vatni á Íslandi.

Grunnskólar

Yngsta stig: Safnkennarar taka á móti hópum og fræða nemendur um sýninguna. Fjallað er sérstaklega um lífverur í fersku vatni á Íslandi og komið inná líffræðilegan fjölbreytileika í ferskvatni. Vatnskötturinn, sem er lirfa vatnabjöllunnar, er í lykilhlutverki og leiðir nemendur um sýninguna.

Miðstig: Safnkennarar taka á móti hópum og fræða nemendur um valið efni. Við bókun geta kennarar valið þema en boðið er uppá eftirfarandi: Vatn sem auðlind, Ár og vötn, Líf í fersku vatni, Líffræðilegur fjölbreytileiki, Votlendi og Veður og loftslag.

Unglingastig: Safnkennarar taka á móti hópum og fræða nemendur um valið efni. Við bókun geta kennarar valið þema en boðið er uppá eftirfarandi: Vatn sem auðlind, Ár og vötn, Líf í fersku vatni, Líffræðilegur fjölbreytileiki, Votlendi og Veður og loftslag.

Framhaldsskólar

Kennarar geta haft samband við safnkennara (kennsla@nmsi.is) og fengið leiðsögn á sýningunni fyrir nemendahópa en efni sýningarinnar má nýta til kennslu í til dæmis líffræði, jarðfræði, landafræði, umhverfisfræði, þróunarfræði og jafnvel heimspeki. Við viljum endilega heyra í kennurum ef spurningar vakna því sýningin getur verið vettvangur og uppspretta fjölbreyttra verkefna.

Háskólar

Kennarar geta haft samband við safnkennara (kennsla@nmsi.is) og fengið leiðsögn á sýningunni fyrir nemendahópa og fræðslu um náttúru Íslands.

Fullorðinn rauðbrystingur í vorbúningi á Patreksfirði.

Móttaka

Tekið er á móti skólahópum alla virka daga frá kl. 9 til 14. Miðað er við að hver heimsókn taki um 45 mínútur og að hver hópur sé að hámarki 25 nemendur.

Safnkennarar taka á móti nemendum í anddyri sýningarinnar á 2. hæð. Nemendur fá þar kynningu og námsgögn og upplifa sýninguna samhliða verkefnavinnu.

Kennarar eru hvattir til að taka virkan þátt í heimsókninni og undirbúa hana vel svo hún gagnist nemendum og skólastarfinu sem best.

Bókanir

Bóka skal heimsóknir skólahópa hér.

BÓKANIR

Ef óskað er eftir öðrum tímasetningum, hafið samband í gegnum netfangið kennsla@nmsi.is.

Óheimilt er að taka drykki eða mat inn á sýninguna og því miður er ekki nestisaðstaða í Perlunni. Mælst er til að töskur og önnur verðmæti séu skilin eftir í skólanum.

 

Viðfangsefni

LÍF Í FERSKVATNI – Allar lífverur eru háðar vatni á einhvern hátt, við fjöllum um þessar tengingar auk þess að skoða uppruna flóru og fánu Íslands. Í ferskvatni býr urmull skemmtilegra lífvera sem áhugavert er að fræðast um. Sumar eiga heima á botni stöðuvatna og straumvatna og aðrar eru svo litlar að við sjáum þær ekki með berum augum. Við fjöllum um lífsferla þeirra og atferli. Vatnskötturinn, lirfa vatnabjöllunnar, er í lykilhlutverki og leiðir yngri nemendur um sýninguna.

LÍFFRÆÐILEG FJÖLBREYTNI – Líffræðileg fjölbreytni er hugtak sem nær til breytileika innan og milli tegunda og meðal vistkerfa. Þessi breytileiki er gjarnan notaður sem mælikvarði á heilbrigði vistkerfa. Fjallað er um mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni í ólíkum vistgerðum á Íslandi og helstu ógnir sem steðja að lífríkinu. Einnig er fjallað um sérstöðu íslenskrar náttúru í þessu tilliti.

VOTLENDI – Votlendi er samheiti yfir fjölbreyttar og misblautar vistgerðir. Í votlendi eiga heimkynni ýmsar tegundir plantna og fugla sem eru friðaðar og sem við á Íslandi berum ábyrgð á vegna sérstöðu náttúrunnar. Dæmi um votlendi eru mýrar en þær fóstra fjölbreytt dýra- og plöntulíf. Við tökum fyrir brokflóa, rústamýri og gulstararmýri og veltum fyrir okkur tilgangi þess að þurrka upp mýrar og hvers vegna við mokum nú aftur ofan í skurði til að endurheimta votlendið og hvernig það getur hjálpað í baráttunni við loftslagsbreytingar.

ÁR OG VÖTN – Hringrás vatns er undirstaða lífs á jörðinni. Birtingarmynd vatns í þessari hringrás er margþætt. Við fjöllum um ólíkan uppruna straumvatna og stöðuvatna, rennsli, hitastig og árstíðabundnar sveiflur. Við skoðum hvernig ár og fallvötn hafa mótað landið og fræðumst um mismunandi eiginleika yngri og eldri berggrunns á Íslandi. Einnig fjöllum við um jökla og mikilvæg efni og orku sem straumvötn bera til sjávar.

VEÐUR OG LOFTSLAG – Hver er munurinn á veðri og loftslagi og hvernig tengjast loftslagsbreytingar veðrinu? Á sýningunni er sagt frá lengstu reglubundnu veðurathugunum í heiminum en þær eru frá Stykkishólmi. Hægt er að rýna í veðurtengdar náttúruhamfarir og hnattræna hlýnun. Við veltum fyrir okkur veðurtáknum og  úr hvaða átt vindurinn blæs þann daginn. Gott er að hópurinn sé búinn að kynna sér veðurspána fyrir heimsóknina.

VATN SEM AUÐLIND – Vatn er óvenju áberandi hluti af náttúru Íslands. Við fjöllum um hvernig við nýtum ferskvatnið, heitt og kalt. Nemendur fræðast um grunnvatn sem neysluvatn og nýtingu vatns og jarðvarma til raforkuframleiðslu, húshitunar og heilsubótar. Við ræðum einnig um umsvif mannsins og áhrifin sem þessi nýting hefur á náttúruna.