Sýning okkar í Perlunni, Vatnið í náttúru Íslands,

er opin alla daga frá kl. 10 – 18.

 

Safnkennsla

Safnkennarar Náttúruminjasafns Íslands bjóða skólahópum og kennurum í heimsókn með leiðsögn og fræðslu á sýninguna Vatnið í náttúru Íslands. Sýningin er nútímaleg og fjölbreytt og býður upp á margvísleg viðfangsefni í náttúrufræðum. Fræðsla fyrir skólahópa er ókeypis.

Náttúruminjasafnið vill með þessu móti styðja við náttúrufræðikennslu í skólakerfinu á lifandi og hvetjandi hátt og jafnframt kynna spennandi heim vísindanna fyrir nemendum.

Hver heimsókn tekur um 45 mínútur og er tekið á móti skólahópum alla virka daga frá kl. 9 til 14. Miðað er við að hver hópur sé að hámarki 25 nemendur.

Fullorðinn rauðbrystingur í vorbúningi á Patreksfirði.
Fullorðinn rauðbrystingur í vorbúningi á Patreksfirði.

Móttaka

Safnkennari tekur á móti nemendum í anddyri sýningarinnar á 2. hæð. Nemendur fá þar örfyrirlestur og námsgögn. Nemendur vinna verkefni yfirleitt tveir og tveir saman og njóta sýningarinnar samhliða verkefnavinnunni.

Tilvalið er að að nýta heimsókn eldri nemenda fyrir stærri verkefni þar sem þau afla sér upplýsinga um mismunandi umfjöllunarefni og nýta það áfram í skólastarfinu.

Kennarar eru hvattir til að undirbúa heimsóknina vel svo hún gagnist nemendum og skólastarfinu sem best.

 

 

Bókanir

Heimsóknir skólahópa skal bóka í gegnum eftirfarandi bókunarform:

Bókið hér!

 

Ef óskað er eftir öðrum tímasetningum, hafið samband í gegnum netfangið kennsla@nmsi.is.

Mælst er til að töskur og önnur verðmæti séu skilin eftir í skólanum. Óheimilt er taka drykki eða mat inn á sýninguna.

Kennarar taka virkan þátt í heimsókninni og eru safnkennurum Náttúruminjasafnsins innan handar.

Viðfangsefni

VATNIÐ – Fjallað er um vatnið sem er uppspretta alls lífs, margvíslega vistþjónustu sem það veitir og um straumvötnin sem bera mikilvæg efni og orku til sjávar. Einnig er fjallað um neysluvatn og nýtingu vatns og jarðvarma til raforkuframleiðslu, húshitunar og heilsubótar.

ÁR OG ÁRGERÐIR – Á Íslandi eru þrjár megingerðir straum- vatna: dragár, lindár og jökulár. Fjallað er um uppruna þeirra, mismunandi rennsli, vatnshita og árstíðabundnar sveiflur. Fylgst er með rauntímarennsli í 18 ám á landinu og sýnd söguleg flóð og þurrðir.

VEÐUR OG LOFTSLAG – Lengstu samfelldu veðurathuganir í heiminum eru frá Stykkishólmi; á lofthita og loftþrýstingi frá 1845 og úrkomu 1856, og sýna glöggt mismunandi tímabil í hita og úrkomu. Rýnt er í veðurtengdar náttúruhamfarir og hnattræna hlýnun. Gott er að vera búin að hlusta á eða skoða veðurspár fyrir heimsóknina.

VOTLENDI – Mýrar eru margs konar og fóstra fjölbreytt dýralíf og plöntur. Kafað er í vistkerfi brokflóa, rústamýra og gulstararflóa. Hvar má helst finna mýrar á landinu og hvað gerist ef þær eru þurrkaðar upp?

LÍF Í FERSKVATNI – Urmull lífvera býr í fersku vatni á Íslandi. Með yngri börnum er fjallað um lífsferil brunnklukku og er lirfa hennar, vatnskötturinn, skoðuð sérstaklega. Eldri börn fá ítarlegri umfjöllun um líf í mýrum, ám og stöðuvötnum.

LÍFFRÆÐILEGUR FJÖLBREYTILEIKI – Líffræðilegur fjölbreytileiki er gjarnan notaður sem mælikvarði á heilbrigði vistkerfa og er fjölbreytileiki innan tegunda mikilvægur fyrir þróun tegunda. Fjallað er um mikilvægi líffræðilegs fjölbreytileika í ólíkum vistkerfum á Íslandi og helstu ógnir sem steðja að lífríkinu.