CAP-SHARE verkefnið hlaut viðurkenningu Norðurslóðaáætlunarinnar í flokknum Nýir straumar

Verkefnið CAP-SHARE: Byggjum brýr á milli vísindafólks, stefnumótenda og samfélaga (CAP-SHARE: Building Bridges of Shared Capacity between Scientists, Policymakers, and Communities) hlaut á dögunum viðurkenningu Norðurslóðaáætlunar Evrópusambandsins (Interreg Northern Periphery and Arctic) í flokknum Nýir straumar (Emerging Trends). Í þeim flokki er athygli beint að fjölþjóðlegum verkefnum þar sem lagðar eru fram nýjar hugmyndir og hugmyndafræði sem getur haft afgerandi áhrif á þróun samfélags til framtíðar.

CAP-SHARE verkefnið hlaut viðurkenninguna vegna framúrskarandi gildis þess sem brautryðjendaverkefnis þar sem tekist er á við lykiláskoranir tengt verndun líffræðilegrar fjölbreytni og aðgerða í loftslagsmálum í gegnum þverfaglegt samstarf samfélaga, vísindafólks og stefnumótenda.

Teymið á bak við CAP-SHARE verkefnið.

Raddir ungmenna og frumbyggja í forgrunni

 Ungt fólk og samfélag Sámi þjóðarinnar eru þungamiðja CAP-SHARE verkefnisins. Með verkefninu gefst tækifæri til að skapa tengsl, næra samtal milli kynslóða og auka þannig sameiginlegan skilning í gegnum bæði þjóðlega og vísindalega þekkingu á líffræðilegri fjölbreytni. Verkefnið er til þriggja ára (2024–2027) og er leitt af Náttúruminjasafni Íslands í samstarfi við meðal annarra Háskóla Lapplands í Finnlandi og samtökin Arctic Frontiers í Noregi.

Í CAP-SHARE verkefninu sést hvernig safn sem okkar getur starfað sem aðgengilegur samstarfs- og umræðuvettvangur fyrir samfélagið allt, hvort sem litið er til hins almenna borgara, vísindaheimsins eða stjórnvalda og stefnumótenda. Samstarfið milli þessara hópa í verkefninu byggir á því grunntrausti sem söfn njóta í samfélaginu. Byggt á því trausti tekst að skapa grundvöll fyrir samtali ungmenna og eldri kynslóða sem og annarra hópa í verkefninu – raddir allra fá að heyrast og frumbyggjaþekking nýtist samhliða vísindalegri þekkingu. Söfn sanna þannig gildi sitt sem mikilvægur hluti samfélagsins þar sem sameiginlegu ljósi er varpað á þær áskoranir sem blasa við, svo sem þegar litið er til þeirrar krísu sem líffræðileg fjölbreytni stendur frammi fyrir“, segir verkefnisstjóri og settur forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, Ragnhildur Guðmundsdóttir.

Með verkefninu tengjum við sjónarhorn kennslufræða og náttúruvísinda við þjóðlega þekkingu á norðurslóðum og innan samfélags Sama. Með því að styrkja stöðu staðbundinnar þekkingar innan vísindaheimsins, í samvinnu við finnska LUMA þekkingarsetrið, sköpum við ný og mikilvæg hugrenningartengsl“, útskýrir verkefnastjóri Háskóla Lapplands, Pigga Keskitalo.

Þetta verkefni er framúrskarandi dæmi um hvernig samstarf hagaðila getur aukið þekkingu, samfélagslega getu og áhuga á málefnum á sviði líffræðilegrar fjölbreytni“ bætir Jenny Turton við en hún er verkefnastjóri norska samstarfsaðilans Arctic Frontiers.

Dr. Jessica Faustini Aquino við Háskólann á Hólum tekur við viðurkenningu Norðurslóðaáætlunarinnar.

Litið fram á veg

Á komandi árum verður boðað til viðburða á vegum CAP-SHARE verkefnisins á Íslandi, í Finnlandi og Noregi (2025–2026). Viðburðirnir munu víkka út samstarfið, styrkja ólíkar raddir í samfélaginu og dýpka umræðu um líffræðilega fjölbreytni, sjálfbærni og græn umskipti.

Þessi viðurkenning er ekki einungis virðingarvottur fyrir CAP-SHARE heldur hið sameiginlega átak allra sem vinna að því að byggja brýr á Norðurslóðum“, áréttar verkefnisstjórnin.

Frekari upplýsingar: