Rannsóknir og ráðgjöf

Náttúruminjasafn Íslands skal lögum samkvæmt sinna rannsóknum á starfssviði sínu sem hverfist um miðlun fróðleiks og upplýsinga um náttúru landsins, náttúrusögu, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd. Miðluninni skal meðal annars sinnt með sýningahaldi, prentaðri og rafrænni útgáfu, fyrirlestrum og erindum.

Náttúruminjasafnið safnar munum sem henta starfsemi þess, rannsakar þá, skráir og varðveitir.

Í lögum Náttúruminjasafnsins er rík áhersla lögð á samstarf við aðrar rannsóknastofnanir. Í samræmi við þetta leitast Náttúruminjasafnið við að byggja rannsóknir á samstarfi við aðra. Dæmi um slíkt eru rannsóknir í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Hólum.

Í 3.gr. Náttúruminjasafnslaga er kveðið á um að Náttúrufræðistofnun Íslands skuli vera …„vísindalegur og faglegur bakhjarl Náttúruminjasafnsins.“ og að stofnanirnar skuli …„hafa með sér náið samstarf sem skal grundvallast á sérstöku samkomulagi milli þeirra.“ Samkomulag milli stofnananna um hið síðastnefnda var undirritað haustið 2012: Samkomulag um samstarf NMSÍ og NI. 22.10.2012.

Í 3.gr. Náttúruminjasafnslaga segir ennfremur að …„Safnkostur Náttúruminjasafns Íslands er ásamt vísindasöfnum Náttúrufræðistofnunar undirstaða fræðslu- og sýningarstarfsemi safnsins og rannsókna þess.