Frá opnun sýningarinnar Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni 1. desember 2018.

Um NMSÍ

Náttúruminjasafn Íslands er eign íslenska ríkisins, höfuðsafn á sviði náttúrufræða og heyrir til menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Menningar- og viðskiptaráðherra fer með yfirstjórn stofnunarinnar.

Náttúruminjasafnið var stofnsett með lögum árið 2007 en rætur stofnunarinnar má rekja aftur a.m.k. til ársins 1889 þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað. Eitt meginmarkmið félagsins frá upphafi hefur verið að koma upp náttúrufræðisafni í höfuðborginni sem gagnist landi og þjóð.

Hlutverk Náttúruminjasafns Íslands eru skilgreind í lögum um Náttúruminjasafn Íslands nr. 35/2007 og Safnalögum nr. 141/2011. Náttúruminjasafnið er fræðslu- og vísindastofnun sem er ætlað að gegna miðlægu hlutverki við miðlun þekkingar og upplýsinga um náttúrufræðileg efni og vera ráðgefandi gagnvart öðrum söfnum landsins sem sýsla með náttúruna. Stofnunin byggir starfsemi sína á rannsóknum og gagnaöflun á eigin vegum og í samstarfi við aðra, miðlun þekkingar og upplýsinga með staf- og rafrænni útgáfu, ráðgjöf, fyrirlestrum og sýningahaldi.

Náttúruminjasafnið hefur aðsetur á Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. Þar eru skrifstofur stofnunarinnar.

Forstöðumaður Náttúruminjasafnsins frá 1. september 2013 er dr. Hilmar J. Malmquist.