Náttúrufræðingurinn

Náttúrufræðingurinn er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags. Í febrúar 2014 gerðu félagið og Náttúruminjasafn Íslands með sér samning um ritstjórn og útgáfu á Náttúrufræðingnum. Frá og með 1. hefti í 84. árgangi er Náttúrufræðingurinn gefinn út í nafni félagsins og safnsins.

Náttúrufræðingurinn er alþýðlegt fræðslurit þar sem birtar eru greinar um náttúrufræði, jafnt fræðilegar greinar í bland við almennan fróðleik. Margar greinar í ritinu fjalla um rannsóknaniðurstöður á íslenskri náttúru sem eru hvergi birtar annars staðar. Leitast er við að gera efninu skil á aðgengilegan hátt þannig að áhugasamir leikmenn sem og fræðimenn geti haft bæði gagn og gaman af, þó án þess að slakað sé á í kröfum um gæði og áreiðanleika.

Í hverjum árgangi eru a.m.k. fjögur hefti sem ýmist eru gefin út stök eða fleir saman. Áskrift að tímaritinu er innifalin í félagsgjaldi. Ritið er auk þess keypt af ýmsum stofnunum og nálgast má Náttúrufræðinginn á öllum helstu bókasöfnum landsins. Aðgang að rafrænni útgáfu Náttúrufræðingsins má nálgast á vefsíðunni tímarit.is sem er í umsjá Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Útgáfa Náttúrufræðingsins hófst árið 1931 og hefur verið samfelld í rúma sjö áratugi. Enn eru fáanlegir eldri árgangar Náttúrufræðingsins frá og með 46. árgangi 1976 og örfá eldri hefti. Hægt er að kaupa eldri hefti í lausasölu. Verð Náttúrufræðingsins í lausasölu er eftirfarandi (kr. pr. hefti): árg. 30.–70., 100 kr.; árg. 71.–73. 400 kr.; árg. 74.–79. 750 kr. og; 80. árg og yngri, 1.772 kr.

Á árunum 1996-2006 hafði Náttúrufræðistofnun Íslands umsjón með ritstjórn og útgáfu Náttúrufræðingsins samkvæmt þar að lútandi verktökusamningi við félagið. Ritstjóri tímaritsins þá var Álfheiður Ingadóttir, útgáfustjóri Náttúrufræðistofnunar. Á tímabilinu 2006-2010 hafði Náttúrufræðistofa Kópavogs umsjón með ritstjórn og útgáfu tímaritsins samkvæmt verktökusamningi við félagið. Ritstjóri var Hrefna B. Ingólfsdóttir. Samningurinn við Náttúrufræðistofuna rann út 1. maí 2010, en ritstjórinn hafði áfram aðstöðu á Náttúrufræðistofunni. Hrefna tók sér hlé frá ritstjórn á tímabilinu desember 2012 til október 2013 er hún tók við á ný.

Í febrúar 2014 gerðu Náttúruminjasafn Íslands og Hið íslenska náttúrufræðifélag með sér samning um ritstjórn og útgáfu á Náttúrufræðingnum. Frá og með 1. hefti í 84. árgangi hefur Náttúrufræðingurinn verið gefinn út í nafni félagsins og safnsins í samræmi við samninginn. Ritstjórinn er starfsmaður Náttúruminjasafnsins og félagsins sem skipta með sér til helminga launakostnaðinum, kostnaði við prófarkalestur, prentkostnaði og kostnaði við dreifingu á Náttúrufræðingnum. Margrét Rósa Jochumsdóttir tók við starfi ritstjóra í janúar 2022.

Afgreiðsla Náttúrufræðingsins er í húsakynnum Náttúruminjasafns Íslands að Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. Netfang ritstjórans er ritstjori@hin.is og margret@nmsi.is. Síminn er 848 9936

Ritstjórn

Hlutverk ritstjórnar er að velja efni til birtingar í Náttúrufræðingnum og tryggja að kröfum um gæði og framsetningu efnisins sé fylgt. Allt efni sem berst til ritstjórnar er lesið yfir af a.m.k. tveimur óháðum aðilum. Þeir geta gert athugasemdir og ábendingar um úrbætur sem höfundar eru beðnir að taka afstöðu til og lagfæra eftir þörfum áður en efnið fæst að endingu samþykkt til birtingar. Í ritstjórn situr fjölbreyttur hópur sjálfboðaliða sem valinn er af stjórn félagsins.

Ritstjórn Náttúrufræðingsins:

Margrét Rósa Jochumsdóttir þróunar- og sagnfræðingur, ritstjóri

Sveinn Kári Valdimarsson líffræðingur, formaður ritstjórnar

Gróa Valgerður Ingimundardóttir, grasafræðingur

Hlynur Óskarsson, vistfræðingur

Ragnhildur Guðmundsdóttir, líffræðingur

Ríkey Júlíusdóttir, jarðfræðingur

Sindri Gíslason, sjávarlíffræðingur

Tómas Grétar Gunnarsson, dýravistfræðingur

Þóroddur F. Þóroddsson, jarðfræðingur

Leiðbeiningar

Náttúrufræðingurinn birtir efni um öll svið náttúrufræða sem skipta má í þrjá flokka en almennt er óskað eftir því að greinar séu stuttar og hnitmiðaðar en nánari leiðbeiningar er að finna hér að neðan.

I Ritrýndar greinar sem miðla nýrri þekkingu um íslenska náttúru

  • Rannsóknargrein – hefðbundin grein um rannsóknir og niðurstöður þeirra sem ekki hafa birst á íslensku.
  • Yfirlitsgrein – viðamikil grein um eitthvert af hinum mörgum sviðum náttúrufræðinnar.

II Óritrýnt efni

  • Ritstýrðar greinar – stuttar greinar um náttúrufræðileg efni, til dæmis a) um áhugaverð fyrirbæri, b) efni byggt á óbirtum rannsóknarskýrslum, c) frásögn um niðurstöður ritrýndra greina sem birst hafa í erlendum tímaritum.
  • Gagnrýni og ritfregnir – um útgefið efni um náttúru Íslands; um bækur, heimildamyndir, vefsíður, smáforrit o.fl.
  • Eftirmæli – eftirmæli um náttúrufræðinga.
  • Ljósmyndir – ljósmyndir, auk skýringartexta, sem sýna íslenska náttúru og náttúrufyrirbæri.
  • „Ungi náttúrufræðingurinn“ – náttúrufræðilegt efni fyrir nemendur á grunnskólaaldri og/eða hugmyndir að námsefni.

III Efni á vefsetri

  • Aðsendar athugasemdir um efni Náttúrufræðingsins og áframhaldandi umræða.
  • Ítarefni sem styður við efni greina í ritinu, svo sem viðaukar og fleira efni, svo sem myndbönd, hlaðvörp, vefsíður, smáforrit o.fl.
  • Almennt efni sem tengist tímabundnum málefnum sem tengjast náttúrufræði og náttúru- og umhverfismálum.
  • Viðtöl við náttúrufræðinga o.fl.
  • „Ungi náttúrufræðingurinn“ – margvíslegt efni fyrir nemendur og kennara og vettvangur til skoðanaskipta.

Handrit sendist til ritstjórans, Margrétar Rósu Jochumsdóttur, (margret.r.jochumsdottir@nmsi.is), sem hefur aðsetur á Náttúruminjasafni Íslands, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík, alla virka daga milli kl. 8:30 og 15. Hér má nálgast leiðbeiningar til höfunda og ritrýna.