Nýtt safn – ný sýning 2027
Náttúruminjasafn Íslands flytur í Náttúruhús á Seltjarnarnesi og opnar nýja grunnsýningu árið 2027.
Með flutningunum rætist margra áratuga draumur um að safnið fái loks eigið heimili þar sem íslensk náttúra og náttúrufræði njóta sín í nútímalegu, aðgengilegu og lifandi umhverfi. Þetta er stór áfangi í sögu safnsins og miðlunar náttúrufræða til framtíðar.
Hafið – líffræðileg fjölbreytni og loftslag í brennidepli
Grunnsýning safnsins fjallar um hafið og leiðir gesti í ferðalag þar sem líffræðileg fjölbreytni, vistkerfi og tengsl hafsins við loftslag og framtíð jarðar eru í forgrunni. Hverjum þætti hafsins er gerð skil með frásögn mismunandi lífvera og lífveruhópa – allt frá örsmáu svifi til stórhvela, sem segja frá sögu hafsins, búsvæðum þess, kröftum og leyndardómum.
Markmið sýningarinnar er að opna augu gesta fyrir mikilvægi hafsins. Gestir munu upplifa undur náttúrunnar, finna kyrrð, kraft, litadýrð og framtíðarsýn – allt í senn.
Hönnuðir sýningarinnar eru hollenska hönnunarstofan Kossmanndejong sem vann hönnunarsamkeppni sem haldin var um verkefnið.
Hér má sjá þrívíddarmyndband sem Náttúruminjasafnið lét gera af sýningunni.
Stöðvar sýningarinnar
Þari – Hafið verndar
Hafið er mesta vatnsforðabúr jarðar. Varmi og lofttegundir flæða stöðugt milli lofts og hafs, og það viðheldur bæði rakastigi í andrúmsloftinu og efnajafnvægi þess. Höfin drekka í sig aukinn koltvísýring og varma frá lofthjúpnum og með því milda þau loftslagsbreytingar og draga úr öfgakenndum sveiflum í veðurfari. Því má segja að hafið myndi verndarhjúp um líf jarðar.
Lífkerfi sjávar leika einnig sitt hlutverk. Þari og aðrir þörungar ljóstillífa, binda koltvísýring og mynda súrefni. Úti fyrir ströndum leynast mikilfenglegir þaraskógar. Þeir draga úr ágangi sjávar við strandlengjuna og hýsa um leið hvers kyns lífverur sem dafna í skjóli þarans.
Plöntusvif – Hafið er upphafið
Efst í sjónum svífa um örlitlir smáþörungar, baðaðir geislum sólar. Þetta er plöntusvifið sem rekur um efri lög hafsins þar sem sólarljóssins nýtur. Plöntusvifið nýtir orku sólarinnar með ljóstillífun og býr með því til sína eigin næringu. Plöntusvifið er svo agnarsmátt að mannsaugað greinir það varla. Í einni teskeið af sjó geta rúmast upp undir milljón þörunga.
Plöntusvifið lætur ekki mikið yfir sér en samt er það undirstaða lífsins í hafinu. Fjöldi annarra lífvera nærist á því og því má kalla plöntusvifið aflvakann í fæðuvef hafsins.
Árfætlur – Hafið er órofa heild
Hafið er gríðarstór samfelld víðátta. Úthöfin tengjast með straumum sem flytja geysilegt magn af hlýjum yfirborðssjó og köldum djúpsjó heimshorna á milli, nánast eins og á færibandi. Það sem knýr þessa eilífu hringrás er mismunur sjávarhita og sjávarseltu á milli pólsvæðanna og hitabeltisins.
Víða á jörðinni háttar þannig til að kaldur og næringarríkur sjór rís upp í yfirborðslög hafsins. Á þeim svæðum er vöxtur plöntusvifs meiri en annars staðar í heimshöfunum. Þar blómstra ríkuleg sjávarvistkerfi með mergð svifdýra á borð við krabbaflær, sem fiskar og önnur sjávardýr ofar í fæðuvefnum lifa á.
Götungar – Hafið og djúptíminn
Höfin taka sífelldum breytingum. Sumar eru skyndilegar en aðrar taka milljónir ára eða milljarða. Í árdaga jarðar voru höfin líflaus en með tímanum kviknaði þar líf sem breiddist út um alla jörð. Þróun lífvera, tilurð tegundahópa og útdauði – allt þetta hefur skilið eftir sig spor í jarðlögunum. En því lengra sem litið er aftur í hinn mikla djúptíma jarðsögunnar, þeim mun óskýrari verða ummerkin.
Rannsóknir á lífveruhópum eins og götungum, sem hafa lifað af sífelldar loftslagsbreytingar í gegnum jarðsöguna, skerpa skilning okkar á þróun lífsins og sýna hvernig því vindur fram í takt við breytingarnar í hafinu.
Íslandssléttbakur – Hafið er víðáttumikið
Víðáttur úthafanna virðast takmarkalausar. Sjávarhiti, selta og þrýstingur skapa þó þröskulda sem afmarka útbreiðslusvæði margra tegunda. Engu að síður ferðast fjöldi þeirra um óravíddir hafanna, frá yfirborði niður í undirdjúpin, sem og heimshorna á milli.
Ýmsar hvalategundir fara reglulega á milli kaldari og hlýrri hafsvæða til að nærast, hitta aðra einstaklinga sinnar tegundar, maka sig og ala afkvæmi. Hvalir gegna mikilvægu hlutverki í fæðuvefnum og í samspili innan vistkerfa hafsins. Maðurinn hefur hins vegar gengið svo nærri þessum mikilfenglegu dýrum að margar hvalategundir eru á barmi útrýmingar. Þeirra von felst í breyttu hugarfari og aukinni virðingu mannsins fyrir náttúrunni og ferlum hennar.
Geirfuglinn – Til minningar um geirfuglinn
Útdauði er náttúrulegt ferli. Þegar síðasti einstaklingur tegundar deyr hverfur hún af sjónarsviðinu. Útdauði er hinstu örlög allra tegunda, en í sögu jarðar hafa komið tímabil þar sem óvenjumargar tegundir lífvera hafa horfið í nánast einu vetfangi, og er þá talað um útdauðahrinu. Í jarðsögunni er þetta talið hafa gerst fimm sinnum. Síðasta hrinan varð fyrir um 66 milljónum ára þegar risaeðlurnar dóu út, að undanskildum fuglum.
Ný hrina er nú hafin og á sér rót í umsvifum mannkyns. Þessi hvelfing er til minningar um geirfuglinn og aðrar tegundir sem eru í hættu eða hafa dáið út síðustu áratugi og aldir.
Lundinn – Hafið nærir landið – landið nærir hafið
Tengsl þurrlendisvistkerfa við hafið eru órofa og gagnkvæm. Við strendur gjöfulla hafsvæða berast steinefni til hafs með straumvötnum og lífverur hafsins taka við þeim sér til vaxtar og viðhalds. Á móti bera sjávarspendýr og sjófuglar lífræn efni á land, og þau efni eru tekin upp og nýtt í vistkerfum þurrlendisins.
Lundinn ver vetrinum úti á ballarhafi en flytur yfir sumarið síli í pysjur sínar í jarðvegsholum hátt á klettabrúnum. Hafið og landið sameinast á margvíslegan hátt í einu samfelldu vistkerfi með flóknum fæðuvef þar sem næringarefni hreyfast í sífellu milli hafs og lands.
Kuðungakrabbi – Hafið hefur hrynjandi
Fjaran er þar sem hafið kyssir landið. Andstæður eru áberandi í fjörunni, og þar blasa við plöntum og dýrum margs konar áskoranir. Lífverur fjörunnar hafa því þróað með sér mikla aðlögunarhæfni. Sjávarföll og vindafar valda stöðugum breytingum í takt við gang himintungla og duttlunga veðurkerfa.
Fjörulífverur hafa lagað sig að sífelldum umskiptum. Stundum er væta, stundum þurrt. Hrúðurkarlar, þang og hvers kyns smádýr eiga sinn sess í fjöruvistkerfunum. Kuðungakrabbar eru einkar vel lagaðir að síbreytilegu umhverfi fjörunnar og dafna þar hvað sem á dynur. Á háfjöru má sjá þá í felum undir þangdyngjum eða skjótast á milli polla.
Kóralar – Hafið er heimili
Allar lífverur eiga sitt kjörbúsvæði, heimkynni sem þeim henta. Búsvæðin eru fjölbreytt og vistkerfi þeirra ólík. Hvert þeirra hefur sérstök einkenni sem mismunandi tegundir sækja í, eftir því sem þeim gagnast. Margar lífverur hópast saman en aðrar vilja lifa út af fyrir sig. Sumir einfarar dyljast, til að verjast rándýrum eða veita bráð sinni fyrirsát.
Búsvæði eru misjafnlega margbrotin. Kóralrif eru með þeim margslungnari og ákaflega tegundarík. Þar þykir mörgum lífverum gott að búa, enda víða auðvelt að fela sig og mikla fæðu að finna. Kóralrifin sjálf eru gott dæmi um samlífi, þar sem kóraldýr vaxa saman og byggja upp rifið.
Loðna – Hafið leitar jafnvægis
Vistkerfi sjávar taka sífelldum breytingum í samspili við umhverfisaðstæður. Lífverur bregðast við umhverfi sínu innan þess sem þolmörk þeirra leyfa. Ef einn hlekkur í fæðuvef brotnar getur jafnvægi alls vistkerfisins raskast. Slíkt atvik getur hrundið af stað keðjuverkun með afdrifaríkum afleiðingum fyrir aðrar tegundir. Sérhver tegund fæðuvefjarins skiptir því máli fyrir heildina.
Sumar tegundir hafa mikinn sveigjanleika, aðrar minni. Loðnan er lykiltegund í vistkerfi sjávar við Ísland en hún er viðkvæm fyrir breytingum á sjávarhita. Vegna hlýnunar hefur útbreiðsla hennar breyst síðustu ár. Áhrifin eru ennþá óljós en vegna mikilvægis loðnunnar fyrir þorsk og ámóta tegundir gætu breytingarnar reynst miklar fyrir lífríkið kringum Ísland.
Lúða – Hafið hýsir fjölbreytni
Líffræðileg fjölbreytni er undirstaða og forsenda þróunar. Hún er þrenns konar – fjölbreytni vistkerfa, fjölbreytni milli tegunda og fjölbreytni innan tegunda. Án fjölbreytninnar væri lífríkið einsleitt og þess vegna viðkvæmt fyrir áföllum. Fjölbreytni tryggir nefnilega seiglu í vistkerfunum. Hún auðveldar lífverum að lifa af breytingar á heimkynnum sínum. Líffræðileg fjölbreytni er nauðsynleg fyrir viðhald lífs á jörðinni.
Fjölbreytni birtist í ólíkum formum, stærðum, litum og hegðun. Hún endurspeglar aðlögun lífveranna að ólíkum aðstæðum og búsvæðum. Lúðan er gott dæmi. Sem flatfiskur fellur hún vel að búsvæði sínu á sendnum hafsbotninum, flöt og dökkleit á hliðinni sem snýr upp, eins og botninn.
Kjaftagelgja – Hafið er leyndardómsfullt
Úthöfin þekja um tvo þriðju af yfirborði jarðar. Þrátt fyrir það eru undirdjúp þeirra okkur mikið til hulin. Stundum er sagt að við höfum kannað betur yfirborð tunglsins en botn úthafanna. Enda eru aðstæður til rannsókna djúpt í höfunum afar erfiðar og kostnaðarsamar.
Hafdjúpin eru okkur mönnunum framandi og harðskeytt en þar búa lífverur af öllum stærðum og gerðum og hafa aðlagast ljósleysi og gríðarmiklum þrýstingi. Kjaftagelgjur eru gott dæmi um undraverða aðlögunarhæfni djúpsjávarfiska. Dökkar á lit í niðamyrkri bera þær framan á sér stöng með ljósfæri og með henni lokka þær til sín bráðina.