Barnamosi
Vissir þú að á Íslandi finnast tæplega þrjátíu tegundir barnamosa? Heitið er gamalt í málinu og er til komið vegna þess þurrkaður barnamosi dregur í sig margfalda þyngd sína af vökva og var þurr mosinn lagður í vöggur ungabarna. Bleytuburi er algengasti barnamosinn en allar tegundirnar bera íslensk nöfn með endinguna buri sem dregið er af orðinu bur sem þýðir sonur.
Erlendis vex barnamosi víða í stórum samfelldum breiðum og myndar þykkar mómýrar, t.d. í Finnlandi og Eystrasaltslöndunum. Fyrr á árum var stunduð mótekja úr þessum mýrum til þess að verða sér út um eldsneyti en undanfarna áratugi hefur mórinn verið nýttur sem ræktunarefni í garðyrkju og skógrækt. Þessi mold er ýmist kölluð svarðmold, mómosamold eða sphagnum-mold og hentar til ræktunar því að hún heldur vel vatni og næringarefnum auk þess að vera loftmikil og laus í sér. Á hverju ári er flutt inn til Íslands umtalsvert magn af svarðmold og er hún uppistaðan í þeirri mold sem boðin er til sölu í garðyrkjuverslunum.
Í Evrópu hefur verið gengið svo hart fram í mótekju að víða eru mómýrar uppurnar eða farnar að láta á sjá. Endurheimt þeirra tekur marga áratugi og af þeim sökum eru nú gerðar auknar kröfur um sjálfbærni við vinnslu á svarðmold sem gæti dregið úr framleiðslu og notkun hennar sem ræktunarefnis í framtíðinni.
Ljósmyndir Hörður Kristinsson (floraislands.is).