Náttúruminjasafnið á Vísindavöku

Náttúruminjasafnið á Vísindavöku

Náttúruminjasafnið á Vísindavöku

Náttúruminjasafn Íslands og Náttúrufræðistofnun kynntu spennandi heim vatnsins fyrir gestum og gangandi á Vísindavöku Rannís laugardaginn 27. september.

Á sameiginlegum bás okkar fengu gestir litlar litabækur og tattúlímmiða með myndum af margs konar smásæjum vatnalífverum sem vöktu mikla lukku. Úrval úr safnkosti Náttúruminjasafnsins var til sýnis og hægt að rýna í örlitla kuðunga með stækkunarglerum og skoða lifandi rykmýslirfur, fullorðið rykmý og örvistkerfi í gegnum víðsjár. Þá var Kortagluggi Íslands, hin glænýja og efnismikla kortasjá Náttúrufræðistofnunar til kynnis.

Stofnanirnar tvær eru báðar þátttakendur í verkefninu Icewater sem er stórt og metnaðarfullt verkefni sem miðar að því að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Verkefnið er leitt af Umhverfis- og orkustofnun og er unnið í nánu samstarfi við fjölbreyttan hóp íslenskra samstarfsaðila á borð við fagstofnanir ríkisins, sveitarfélög, opinber fyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki. Icewater verkefnið er styrkt af LIFE áætluninni og er þetta jafnframt einn stærsti styrkur sem Ísland hefur fengið úr samkeppnissjóðum ESB.

Frú Halla Tómasdóttir sækir Náttúruminjasafn Íslands heim

Frú Halla Tómasdóttir sækir Náttúruminjasafn Íslands heim

Frú Halla Tómasdóttir sækir Náttúruminjasafn Íslands heim

Frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, heimsótti Náttúruminjasafn Íslands á degi íslenskrar náttúru þann 16. september síðastliðinn.

Forsetinn skoðaði nýjar framtíðarhöfuðstöðvar Náttúruminjasafnsins, Náttúruhús í Nesi, en framkvæmdir við húsið hafa staðið yfir síðastliðin misseri og er áætlað að húsnæðið verði tilbúið um næstu áramót. Þar kynnti starfsfólkið nýja og afar metnaðarfulla grunnsýningu safnsins fyrir forsetanum en sýningin mun snúast um hafið í allri sinni dýrð, með sérstaka áherslu á Norður-Atlantshafið, vistkerfi hafsins og líffræðilega fjölbreytni þess.

Þá var farið í Nesstofu ásamt Auði Hauksdóttur og Ágústu Kristófersdóttur en þar er undirbúningur hafinn að sýningu um Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Sýningin er samstarfsverkefni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Þjóðminjasafns Íslands og Náttúruminjasafns Íslands. Til stendur að tileinka Nesstofu dansk-íslensku vísindasamstarfi og er fyrirhuguð sýning hluti af átaksverkefni íslenskra stjórnvalda til að efla það samstarf en hægt er að lesa um verkefnið hér.

Starfsfólk Náttúruminjasafns Íslands tók á móti forseta Íslands í nýjum höfuðstöðvum safnsins, Náttúruhúsi í Nesi. Frá vinstri: Viðar Hreinsson, Rannveig Magnúsdóttir, Ragnhildur Guðmundsdóttir, frú Halla Tómasdóttir, Helga Aradóttir, Þóra Björg Andrésdóttir, Örn Jónasson, Snæbjörn Guðmundsson, Anna Katrín Guðmundsdóttir og Margrét Rósa Jochumsdóttir.

Í tilefni dagsins voru Höllu færðar bækurnar Sigurður Þórarinsson – mynd af manni eftir Sigrúnu Helgadóttur, sem gefin var út af Náttúruminjasafninu árið 2021, og Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson en Náttúruminjasafnið kom að útgáfu bókarinnar árið 2016. Einnig fékk frú Halla eintök af tímaritinu Náttúrufræðingnum en Náttúruminjasafnið stendur að útgáfu þess ásamt Hinu íslenska náttúrufræðifélagi.

Starfsfólk Náttúruminjasafns Íslands færir Frú Höllu Tómasdóttur kærar þakkir fyrir að sækja safnið heim á þessum hátíðlega degi sem tileinkaður er íslenskri náttúru.

Hilmar J. Malmquist lætur af störfum

Hilmar J. Malmquist lætur af störfum

Hilmar J. Malmquist lætur af störfum

Þann 1. september 2025 lét Hilmar J. Malmquist af störfum sem forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands. Hann var skipaður forstöðumaður safnsins frá 1. september 2013 af þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra og hefur því farið fyrir safninu og starfsemi þess í tólf ár.

Hilmari eru færðar kærar þakkir fyrir elju sína og störf í þágu Náttúruminjasafnsins.

 

Ný tegund sæsnigils í Atlantshafi

Ný tegund sæsnigils í Atlantshafi

 Ný tegund sæsnigils í Atlantshafi

Í nýjustu grein Náttúrufræðingsins er sagt frá mjög athyglisverðum fyrsta fundi sæsnigilsins svartserks (Melanochlamys diomedea) í Atlantshafi. Snigillinn fannst fyrst við strendur Íslands í júní 2020.

 Sagt er frá ferlinu frá því að hann sást fyrst í fjöru við Ísland þar til staðfest tegundagreining fékkst. Þá er greint frá þekktri útbreiðslu og fjallað um mikilvægi þess að fylgst sé vel með nýrri framandi tegund og framvindu hennar.

Greinina má finna hér á vef Náttúrufræðingsins: Ný tegund sæsnigils í Atlantshafi

 

Nordic Biodiversity Framework

Nordic Biodiversity Framework

Nordic Biodiversity Framework

Lokaskýrsla verkefnisins Nordic Biodiversity Framework – Laying the foundation for Nordic synergy regarding the Global Biodiversity Framework var gefin út í byrjun júní 2025. Biodice leiddi verkefnið sem kannaði stöðu og aðferðir Íslands, Danmerkur og Finnlands til að innleiða Kunming-Montréal samkomulagið um líffræðilega fjölbreytni: Global Biodiversity Framework – GBF. Með því að bera saman rannsóknir og stefnur þvert á norrænu ríkin geta þjóðirnar lært hver af annarri.

Greinargerð í kjölfar vinnustofu Biodice um líffræðilega fjölbreytni var gefin út í maí 2025 en þessi vinnustofa, sem haldin var á Íslandi, var sú fyrsta af þremur í Nordic Biodiversity Framework verkefninu. Fulltrúar níu ráðuneyta, tíu ríkisstofnana og átta tengdra aðila tóku þátt. Fram kom að líffræðileg fjölbreytni fær takmarkaða athygli í stjórnsýslunni. Þátttakendur lögðu áherslu á mikilvægi samráðs, samstarfs og samþættingar líffræðilegrar fjölbreytni í stefnumótun, auk þess að þörf sé á að tryggja að loftslags- og skipulagsmál styðji við líffræðilega fjölbreytni. Kallað var m.a. eftir aukinni fræðslu, fjármögnun og stofnun fagráðs um líffræðilega fjölbreytni.

Tvær vinnustofur voru haldnar í viðbót, í Finnlandi og Danmörku, sem leiddu í ljós mismunandi áskoranir. Sameiginlegar áskoranir eru meðal annars samkeppni milli náttúruverndar og atvinnu-/öryggishagsmuna, takmarkaður skilningur á lykilhugtökum og ófullnægjandi stefnur og fjármögnun. Líffræðileg fjölbreytni hefur almennt ekki verið nægilega samþætt í íslensk lög og stefnur. Ekki er vitað hver staðan er varðandi innleiðingu markmiða GBF, en ljóst er að Ísland er langt frá því að ná þeim. Þrátt fyrir þetta eru jákvæð teikn á lofti og vaxandi vitund um málefnið, bæði hjá almenningi og stjórnvöldum.