Sýningin Eldur, ís og mjúkur mosi stendur til 6. maí 2024 í sýningarrými Náttúruminjasafns Íslands á 2. hæð Perlunnar

Eldur, ís og mjúkur mosi

Náttúruminjasafn Íslands og Vatnajökulsþjóðgarður tóku þátt í Barnamenningarhátíð og Hönnunarmars í ár með sýningunni Eldur, ís og mjúkur mosi. Sýningin er afrakstur samstarfs stofnananna við sex grunn- og leikskóla í nágrenni þjóðgarðsins auk eins á höfuðborgarsvæðinu, og breiðs hóps hönnuða og listafólks í heimabyggð skólanna. 

Sýningin sem stendur yfir 23. apríl 6. maí í sýningarrými Náttúruminjasafns Íslands á 2. hæð Perlunnar er samsýning nemenda í Egilsstaðaskóla, Grunnskóla Hornafjarðar, Grunn- og leikskólans í Hofgarði, Kirkjubæjarskóla á Síðu, Reykjahlíðarskóla, Urriðaholtsskóla og Öxarfjarðarskóla.  Hægt er að skoða verk allra þátttökuskólanna á Fróðleiksbrunninum, fræðslusíðu Náttúruminjasafnsins

Verkefnið hlaut styrk frá Barnamenningarsjóði Íslands og síðastliðinn vetur hafa verið haldnar skapandi og fjölbreyttar smiðjur í grunn- og leikskólum í nágrenni Vatnajökulsþjóðgarðs og á höfuðborgarsvæðinu. Nemendur skólanna þróuðu síðan  verkefnin sín í samvinnu við listafólk og kennara í allan vetur. Verkefnið miðaði að því að beisla sköpunarkraft barnanna, sem fengu vettvang til að túlka náttúru garðsins, verndargildi hans og sögu með aðstoð hönnuða og listafólks í fremstu röð. Í gegnum listræn ferli sköpuðust dýrmætar tengingar milli barnanna og Vatnajökulsþjóðgarðs, sem auka á meðvitund framtíðarkynslóðanna um þá sameign þjóðarinnar sem þjóðgarðurinn er. 

Listafólkið sem tók þátt í verkefninu með nemendum voru Brynhildur Kristinsdóttir, Eva Bjarnadóttir, Hanna Dís Whitehead, Íris Lind Sævarsdóttir, Jennifer Patricia Please, Sigríður Sunna Reynisdóttir í ÞYKJÓ, Sóley Stefánsdóttir, Una Margrét Árnadóttir og Örn Alexander Ámundason. Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs og Náttúruminjasafnsins voru í virku samtali við skóla og listafólk meðan á verkefninu stóð, ýmist buðu stofnanirnar nemendum í heimsókn á gestastofur og sýningar eða komu í skólana og kynntu þjóðgarðinn. 

Á opnun sýningarinnar 23. apríl sögðu nokkrir nemendur Urriðaholtsskóla frá verkum sínum og lagið Eldur, ís og mjúkur mosi sem þau sömdu og fluttu var spilað í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 sama dag.

Gestir hlusta á kynningu á verkinu Tökum höndum saman hjá nemanda í 8. bekk í Urriðaholtsskóla.

Í tilefni sýningarinnar og hátíðanna beggja var blásið til fjölskylduviðburðar laugardaginn 27. apríl í sýningarrými Náttúruminjasafnsins. Hanna Dís Whitehead, hönnuður sem vann í vetur með Grunnskóla Hornafjarðar í verkefninu, stóð fyrir skapandi hönnunarsmiðju þar sem börn og fjölskyldur bjuggu til fugla sem tókust á loft. Leikið var með vikur, ís og vatn og mosi skoðaður í víðsjám. Fjöldi gesta litu við í Perlunni til að taka þátt í viðburðinum og skoða glæsilega listasýningu barnanna sem túlkuðu náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs á framúrskarandi hátt. 

Starfsfólk Náttúruminjasafn Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs vill nýta tækifærið og þakka nemendum, listafólki og kennurum kærlega fyrir samstarfið og við hvetjum ykkur öll til að gera ykkur ferð á sýninguna í Perlunni! 

Smiðjan var innblásin af verkinu Yfir eftir nemendur í Grunnskóla Hornafjarðar. Í verkinu skoðum við umhverfi okkar út frá sjónarhorni fugla.

Við skoðuðum líka mosa í víðsjá. 

Leikið var með vikur og ís í vatni. 

Hanna Dís Whitehead sem vann að verkefninu Eldur, ís og mjúkur mosi með Grunnskóla Hornafjarðar leiddi smiðjuna.

Viðburðurinn var hluti af Barnamenningarhátíð og Hönnunarmars.