Nýlega birtist í alþjóðlegu fagtímariti, Acta Chiropterologica, yfirlitsgrein um fund leðurblaka á eyjum við Norðaustanvert Atlantshaf og Norðursjó. Ísland er þar á meðal og fyrsti höfundur greinarinnar er Ævar Petersen, helsti sérfræðingur landsins í leðurblökum og fleiri fljúgandi hryggdýrum.

Pipistrellus_nathusii

Trítilblaka (Pipistrellus nathusii) er alengasti flækingur leðurblaka á Íslandi.

Fram kemur í greininni að alls hafa átta tegundir af leðurblökum fundist á Íslandi með vissu fram til loka ársins 2012. Ekki eru fundirnir tíðir, um 40 tilfelli, en virðist fara fjölgandi á síðastliðnum þremur áratugum eða svo. Um ástæður fjölgunarinnar er ekki vitað með vissu.

Nær allir fundir leðurblakanna eru á suðvesturhorni landsins, einkum í Reykjavík og þar í kring, sem og á vestanverðu Suðurlandi. Flestir fundirnir eru um borð í vöruflutningaskipum á leið til lands og í höfnum, sem og í gámum og vörugeymslum á landi. Leðurblökurnar virðast því oftast flækjast hingað með aðstoð farartækja.

Leðurblökurnar flokkast sem sárasjaldgæfir flækingar hér á landi enda er Ísland langt utan helstu heimkynna og farleiða þessara spendýra. Meginheimkynni flestra tegunda eru í kringum miðbaug. Nokkrar tegundir eru staðbundnar á meginlandi Evrópu, þar á meðal sú tegund sem oftast hefur flækst hingað, trítilblakan (Pipistrellus nathusii). Hrímblaka (Lasiurus cinereus) er næstalgengsti flækingurinn hér á landi, en aðalheimkynni hennar eru um miðbik Ameríku.

Leðurblökur (Chiroptera) eru sérstakur ættbálkur meðal spendýra og telja um 1000 tegundir alls sem er býsna mikið og um fjórðungur af öllum tegundafjölda spendýra. Þær gegna mikilvægu hlutverki í vistkerfi Jarðar við frjóvgun plantna og át á skordýrum. Þær eru einnig heillandi spendýr um margt og þau einu sem kunna að fljúga. Þær eru annaálaðar fyrir órfríðleika og geysimikla ratvísi í náttmyrkvi.

Frekari fróðleik um leðurblökur á Íslandi má finna hér:

Ævar Petersen. 1994. Leðurblökur á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 64: 3–12.

Ævar Petersen. 1993. Leðurblökukomur til Íslands. Bls. 347–351. Í: Villt íslensk spendýr (Páll Hersteinsson og Guðmundur Sigbjarnarson ritstjórar). Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd, Reykjavík.

Finnur Guðmundsson. 1957. Leðurblaka handsömuð í Selvogi. Náttúrufræðingurinn 27: 143–144.