Frábær þátttaka í málþingi um vistkerfisnálgun

Matvælaráðuneytið og BIODICE stóðu fyrir málþingi um vistkerfisnálgun í umgengni við og nýtingu náttúru Íslands þann 21. september síðastliðinn.

Málþingið var haldið á Hilton Reykjavík Nordica og mættu um 60 manns á staðinn en tæplega 300 fylgdust með í streymi. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ávarpaði málþingið í upphafi en á eftir fylgdu erindi, fyrst frá fagaðilum BIODICE um hugtakið vistkerfisnálgun og svo frá hagaðilum þar sem staða vistkerfisnálgunar var metin fyrir landbúnað, sjávarútveg og náttúruvernd.

Hægt er að nálgast upptöku af viðburðinum hér: https://vimeo.com/event/3710420 og hægt er að skoða dagskrána nánar á https://biodice.is/2023/09/20/malthing-um-vistkerfisnalgun-i-umgengni-vid-og-nytingu-natturu-islands/

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra

Markmið málþingsins var að vekja athygli á hugtakinu vistkerfisnálgun, og hlutverki þess í stefnumörkun matvælaráðuneytisins. Efni málþingsins mun nýtast í aðgerðaáætlunum ráðuneytisins en samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni til 2030 er gert ráð fyrir að stefna um aðgerðir verði innleidd hjá aðildarríkjum samningsins með vistkerfisnálgun.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs var fundarstjóri

Í kjölfar málþingsins mun BIODICE taka saman skýrslu fyrir ráðuneytið þar sem staða málaflokkanna og helstu áskoranir varðandi innleiðinguna munu verðar reifaðar. Svo raddir sem flestra hagaðila heyrist verður hægt að senda inn svör við tveimur spurningum er varðar málið inná www.nmsi.is/malthing fram til 2. október. 

Spurningarnar tvær sem um ræðir eru:

1) Hver eru sjónarmið þín til vistkerfisnálgunar á auðlindanýtingu lands og sjávar?

2) Hvað þarf til að ná árangri í þessu málaflokki til framtíðar?

Aðrar athugasemdir og ábendingar er hægt að senda á biodice@nmsi.is.