Íslenski safnadagurinn í ár verður haldinn hátíðlegur víða um land sunnudaginn 13. júlí 2014. Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) heldur utan um dagskrá safna þennan dag og hér má lesa dagskrána eins og hún lítur út í dag (7. júlí 2014).

Náttúruminjasafn Íslands stendur ekki að sýningahaldi enn sem komið er, en í undirbúningi er grunnsýning á náttúru Íslands á vegum safnsins og samstarfsaðila í Perlunni. Vonir standa til að sýningahald i Perlunni verði hafið innan tveggja ára. Þá er í burðarliðnum samsýning með fimm öðrum menningarstofnunum í Safnahúsinu þar sem fjallað verður um íslenska listasögu og sjónrænan menningararf. Sú sýning gengur undir heitinu Sjónarhorn og verður að vonum opnuð nú síðsumars.

Íslenski safnadagurinn var fyrst haldinn árið 1997 að frumkvæði safnmanna sjálfra. Markmiðið með deginum er að benda á mikilvægi faglegrar varðveislu og miðlunar sameiginlegra verðmæta þjóðarinnar og þá einstöku leið til lifandi þekkingaröflunar og skemmtunar sem finna má á söfnum.