Grágæs (Anser anser)

Grágæsin etur mýragróður stuttu fyrir varp. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Svanir, gæsir og endur heyra til andfuglum (Anseriformes), teljast reyndar til sömu ættarinnar, andaættar (Anatidae). Álftin er eini svanurinn sem verpur hér á landi. Gæsirnar eru fimm, þar af eru tvær eingöngu fargestir (blesgæs og margæs) og tvær reglulegir varpfuglar (grágæs og heiðagæs), þriðji fargesturinn, helsingi, er jafnframt nýr varpfugl.

Útlit og atferli

Grágæs er stærst þeirra gæsa sem verpa eða hafa viðdvöl á Íslandi. Hún er ljósari, þéttvaxnari og höfuðstærri en aðrar gæsir. Kynin eru eins að lit en gassinn er sjónarmun stærri. Grágæs er öll grábrún, dökk að ofan og á hálsi, ljós að neðan nema síðurnar eru dökkar, hún er stundum með dökka flekki á bringu og kviði. Grágæs er eins og aðrar gráar gæsir með hvítan undirgump, undirstél- og yfirstélþökur. Ljósgráir framvængir og gumpur eru áberandi á flugi. Fullorðinn fugl og ungfugl eru svipaðir, í návígi sést að sá fullorðni er með ljósa fjaðrajaðra á þverstýfðum vængþökum en vængþökur eru dekkri og yddari á ungfugli. Goggur er stór og rauðgulur, dökk nögl á goggi ungfugls en ljós á fullorðnum, fætur grábleikir. Augu eru dökk með gulrauðan augnhring. Hljóð grágæsar eru breytileg, aðallega hátt og nefkveðið skvaldurhljóð.

Grágæsapar í Friðlandi í Flóa. Gassinn til vinstri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grágæsir halda sig oftast í hópum nema pör á varptíma. Á flugi raða einstaklingarnir sér upp í v-laga reinar, fljúga oddaflug og skiptast á um að hafa forystu. Flugið er beint og kraftmikið. Þær eru mest á ferli í dögun og rökkurbyrjun. Pörin halda saman árið um kring og annast uppeldi unga í sameiningu, gæsin ungar út meðan gassinn er á verði. Geldfuglar hópa sig nærri varpstöðvum.

Grágæsir í oddaflugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Grágæs er grasbítur og er fæðan ýmiss grænn gróður, starir og grös yfir sumarið og síðsumars og á haustin taka þær m.a. ber. Etur forðarætur kornsúru á vorin, rífur upp gras til að ná í græna plöntuhluta og sækir í  korn frá fyrra hausti.

Hún verpur aðallega neðan 300 m hæðarlínu, í mýrum, hólmum og grónum eyjum, á ár- og vatnsbökkum eða í kjarri og lyngmóum, oft í dreifðum byggðum, alltaf í nánd við vatn þar sem gæsirnar geta leitað athvarfs með ófleyga unga og þegar þær eru í sárum. Hreiðrið er dæld í gróður, fóðrað með dúni, oft falið í runna eða sinubrúski. Urptin er 4-7 egg sem klekjast á fjórum vikum og eru ungarnir um tvo mánuði að verða fleygir.

Grágæsapar stuttu fyrir varp. Gassinn t.v. Gæsin safnar kviðfitu sem orku fyrir varpið, en hún etur lítið meðan á varpi og álegu stendur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grágæsarhreiður með sjö eggjum. Einn ungi er byrjaður að brjóta á einu egginu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grágæs með unga í friðlandinu í Vatnsmýri, Reykjavík. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grágæsahjón með unga. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Flugfjaðrir í vexti (líka nefndar blóðfjaðrir) eru mjög blóðríkar og blæðir úr þeim ef fuglarnir verða fyrir einhverju hnjaski. Því er talað um að fuglarnir séu í sárum eða særist á þessum tíma. Fullorðnu fuglarnir verða oft fleygir að nýju um svipað leyti og ungarnir verða fleygir.

Grágæsir eru utan varptíma gjarnan í ræktuðu landi, t.d. túnum, ökrum og kartöflugörðum (etur smælki sem orðið hefur eftir), en einnig í votlendi. Náttar sig á tjörnum, vötnum og stórám.

Útbreiðsla og ferðir

Grágæs og heiðagæs skipta með sér landinu. Heiðagæsin er á hálendi og grágæs á láglendi, þótt heiðagæsin hafi á síðari árum seilst nokkuð inn á yfirráðasvæði grágæsarinnar og verpa þær nú alveg niður undir sjávarmál.

Grágæs hefur vetursetu á Bretlandseyjum, aðallega í Skotlandi, en minna á N-Írlandi og N-Englandi. Íslenskir fuglar hafa fundist á meginlandinu, bæði í Noregi og Hollandi. Á síðustu árum hefur veturseta aukist mjög hérlendis, einkum á Suðurlandi og tengist væntanlega aukinni kornrækt og hlýnandi veðráttu. Staðfuglarnir geta skipt þúsundum (7100 fundust í vetrartalningum Náttúrufræðistofnunnar snemma í janúar 2017). Fram til þessa voru nokkur hundruð fuglar viðloðandi Reykjavíkurtjörn á veturna, þeir fuglar sáust víða á Innnesjum og Suðurnesjum. Farfuglarnir koma snemma. Meðalkomutími fyrstu fugla 2002-2012 var 14. mars. Þær fara líka seint, í október-nóvember.

Varpheimkynnin eru víða í N- og Mið-Evrópu og austur um Asíu. Íslenski varpstofninn er á milli 20.000 og 30.000 pör. Fuglarnir eru taldir á haustin á vetrarstöðvunum og var hann 95.400 fuglar haustið 2015. Hann hefur verið nokkuð stöðugur undanfarin hálfan annan áratug, sveiflast á bilinu 80.000-110.000 fuglar. Grágæs hefur löngum verið nýtt hér á landi, egg, fugl sem og dúnn.

Grágæsahópur á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grágæsahópur undir Eyjafjöllum að hausti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú og fleira

Ekki er mikið um grágæs í íslenskri þjóðtrú. Þær eiga þó að vita óveður í rassinn á sér. Hvæs þeirra á vera skaðlegt, þeim sem fyrir verður.

Elstu lög þjóðveldisaldar voru kennd við grágæs, lagaskráin og lögskýringarritið Grágás. Hún var undanfari Járnsíðu og síðan Jónsbókar.

Ljáðu mér vængi

„Grágæsa móðir!
ljáðu mér vængi“,
svo ég geti svifið
suður yfir höf.
Bliknuð hallast blóm í gröf,
byrgja ljósið skugga tröf;
ein ég hlýt að eiga töf
eftir á köldum ströndum,
ein ég stend á auðum sumarströndum.
Langt í burt ég líða vil,
ljá mér samfylgd þína!
Enga vængi á ég til
utan löngun mína,
utan þrá og æskulöngun mína.
Lof mér við þitt létta fley
lítið far að binda;
brimhvít höf ég óttast ei
eða stóra vinda.
Okkar bíður blómleg ey
bak við sund og tinda,
bak við sæ og silfurhvíta tinda.
Eftir mér hún ekki beið, –
yst við drangann háa
sá ég hvar hún leið og leið
langt í geiminn bláa,
langt í geiminn vegalausa, bláa.

Eftir Huldu (Unni Benediktsdóttur Bjarklind).

Flýg ég heim í föðurtún

Gæsin, gæsin gráa,
gef mér vænginn fráa,
beint í loftið bláa.
Flýg eg heim í föðurtún,
finn þar allt í blóma,
og svanasöng óma.
Þar spretta laukar,
þar gala gaukar.
Þar situr lítið barn,
lítil snót, hún leikur að gullepli.

Eftir Margréti Jónsdóttur.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.