Grunnrannsóknir
Rannsóknir á vegum Náttúruminjasafnsins byggjast að svo komnu að miklu leyti á samstarfsverkefnum við aðra aðila sem fást við rannsóknir á sviði Náttúruminjasafnsins. Gerðir hafa verið samningar um slík verkefni við stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga, þ. á m. Líffræðistofu Háskóla Íslands, Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, Háskólann á Hólum og rannsókna- og ráðgjafafyrirtækið RORUM ehf.
Eftirfarandi samstarfsverkefnum hefur verið komið á milli Náttúruminjasafnsins og annarra rannsóknaaðila:
LÍFFRÆÐILEGUR FJÖLBREYTILEIKI Á ÍSLANDI – samstarf við Háskólann á Hólum
Rannsókn sem felur í sér samantekt og greiningu á fyrirliggjandi gögnum sem lúta að líffræðilegum fjölbreytileika meðal helstu lífveruhópa í landinu með áherslu á hryggdýr, einkum fiska, fugla og spendýr. Um er að ræða samstarfsverkefni við Háskólann á Hólum og er prófessor Skúli Skúlason verkefnisstjóri. Fræðimenn Hólsaskóla hafa aðstöðu hjá Náttúruminjasafninu. Verkefnið hófst í janúar 2014 og áætluð verklok eru um áramótin 2017-2018.
Rammasamkomulag við Hólaskóla. 05.09.2014.
Verkefnasamkomulag við Háskólann á Hólum. 04.12.2014.
FORNLÍFFRÆÐI ROSTUNGA VIÐ ÍSLAND – samstarf við Líffræðistofu H.Í.
Meginmarkmið rannsóknarinnar, sem felur m.a. í sér aldursgreiningu beina, svipfarsgreiningu þeirra og erfðagreiningu, er að varpa ljósi á fornlíffræði rostunganna hér við land, útskýra aldur þeirra, jarðsögulega stöðu, líffræði og hugsanleg tengsl við rostungsstofna annars staðar í norðanverðu Atlantshafi. Gagnasafnið sem liggur til grundvallar rannsókninni nær til beinaleifa um 50 rostunga sem fundist hafa hér við land á undaförnum 100 árum eða svo.
Að verkefninu koma meðal annars sérfræðingar á Líffræðistofu Háskóla Íslands, dr. Arnar Pálsson dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild og prófessor Snæbjörn Pálsson við sömu deild, ásamt dr. Bjarna Einarssyni fornleifafræðingi.
Samstarfssamkomulag við Líffræðistofu H.Í. um rannsóknir á rostungum. 23.01.2015.
RANNSÓKNIR Á SVIÐI SAFNAFRÆÐA – samstarf við Félagsvísindasvið H.Í.
Um er að ræða almennt rammasamkomulag um rannsóknasamstarf á sviði safntengdrar náttúrufræði. Gerðir verða sérsamningar um afmörkuð verkefni. Eitt meistaraverkefni er hafið og felst í könnun á samræmdu skráningakerfi fyrir náttúrumuni á landsvísu. Umsjónarmaður er prófessor Sigurjón Baldur Hafsteinsson.
Samstarfssamkomulag við Félagsvísindasvið H.Í. 08.06.2015.
RANNSÓKNIR Á SVIÐI NÁTTÚRU- OG SAFNFRÆÐA – samstarf við Rorum ehf.
Um er að ræða almennt rammasamkomulag um rannsóknasamstarf á sviði náttúru- og safnfræða. Rorum (Rannsóknir og ráðgjöf í umhverfismálum) er einkahlutafélag sem sinnir rannsóknum og ráðgjöf á sviði náttúrufræða og umhverfismála. Fyrirtækið hefur aðstöðu hjá Náttúruminjasafninu. Gerðir verða sérsamningar um afmörkuð verkefni. Einu sérverkefni er lokið sem fólst í rannsókn á fjölbreytni náttúru og menningarminja og áhrif virkjana á náttúru og menningarminjar (sbr. tvær þar að lútandi skýrslur).