Hrafnsönd (Melanitta nigra)
Goggur er svartur, steggurinn er með gulrauðan blett ofan á efra skolti, sem stundum vottar fyrir á kollunni. Ofan við blettinn hefur steggurinn dálítinn hnúð. Fætur eru dökkir, svo og augu.
Hrafnsönd er sterklega vaxin, fremur stygg, með fleyglaga stél og hnöttótt höfuð. Flug hennar er þróttmikið og flöktandi með hröðum vængjatökum sem mynda flautandi hljóð. Hún er létt á sundi og sperrir þá oft stélið og hálsinn. Hrafnsönd er fimur kafari en léleg til gangs. Félagslynd.
Steggur gefur frá sér þýtt kurr eða flaut, kolla hrjúfari hljóð. Er venjulega hávær á varpstöðvum á vorin og þá oft að næturlagi, annars þögul.
Lífshættir
Dýraæta eins og aðrar kafendur, sækir mest í krabbadýr og mýlirfur á ferskvatni, en einnig í grænþörunga. Á sjó lifir hún á marflóm, kræklingi og jafnvel smáfiski.
Verpur við lífauðug vötn og tjarnir. Hreiður er venjulega vel falið í runnum eða öðrum gróðri í mýrlendi, gert úr mosa, laufi og öðrum gróðri, fóðrað með dúni. Eggin eru 7-10, álegan tekur mánuð og ungarnir verða fleygir á um 7 vikum. Er á sjó utan varptíma. Fljótlega eftir að kollan hefur orpið hverfur steggurinn til sjávar og fellir fjaðrir þar.
Útbreiðsla og stofnstærð
Hrafnsöndin er hvergi algeng nema á Mývatni og nokkrum öðrum þingeyskum vötnum. Stofninn er talinn vera 400-600 pör. Hún er að mestu farfugl og sést víða á sjó á fartíma við austanvert landið. Steggjahópar eru frá miðju sumri og fram á haust við Hvalsnes- og Þvottárskriður, allt að 1500 fuglar. Þar hefur lítill hópur stundum vetursetu og einnig fáeinar á Skjálfanda. Íslenskar hrafnsendur hafa vetursetu á sjó við V-Evrópu og ein hefur fundist á Azóreyjum. Verpur í Evrópu og Asíu. Hrafnsönd er alfriðuð.
Skyldar tegundir
Hrafnsönd telst til svartanda og eru nokkrar aðrar svartendur mistíðir gestir hér á landi. Svartendur eru sjóendur og því sjást þessir gestir oftast á sjó, gjarnan með hrafnsöndum eða æðarfuglum. Frá Ameríku koma krákönd (Melanitta perspicillata), krummönd (Melanitta americana) og kolönd (Melanitta deglandi), meðan frá Evrasíu koma korpönd (Melanitta fusca) og surtönd (Melanitta stejnegeri). Sumir þessara gesta dvelja oft langdvölum á sömu slóðum eða sjást í hinum stóra hrafnsandarhópi við SA-land. Kolöndin á myndinni hefur haldið til í Keflavík og Ytri-Njarðvík síðan 2010 og sést helst á veturna, gjarnan í fylgd æðarfugla.
Kolandarsteggur í Ytri-Njarðvík.