Rita (Rissa tridactyla)


Ritan er einkennismáfur fuglabjarga og úthafsins. Rita er á stærð við stormmáf, fullorðin fugl er blágrár á baki og yfirvængjum, með alsvarta vængbrodda en að öðru leyti hvítur á fiður. Á veturna eru hnakki og afturháls gráir, svartar kámur eru á hlustarþökum (aftan við augun). Ungfugl og fuglar á fyrsta vetri eru eins og fullorðnir fuglar í vetrarbúningi til höfuðsins en auk þess með svartan hálfkraga á afturhálsi. Bak, axlafjaðrir og smáþökur eru eins og á fullorðnum ritum, ofan á vængjum eru svartir V-laga bekkir, innri handflugfjaðrir og armflugfjaðrir eru hvítar. Svört rák er á stéljaðri, stélið lítið eitt sýlt. Á fyrsta sumri hverfur svarta stélbandið og tveggja ára fuglar eru svipaðir fullorðnum. Goggur er gulur á fullorðinni ritu, svartur á ungfugli. Stuttir fæturnir eru ávallt svartir og augun dökk með rauðum augnhring.

Gefur frá sér skært nefhljóð á varpstöðvum, er annars þögul.

Rituhjón á Svalbarða.

Ritufjöldi við vitann í Grímsey.

Rita baðar sig í ferskvatni á Arnarstapa.

 Ung rita í Grímsey.

Lífshættir

Lifir á sjávarfangi: fiski, aðallega sandsíli og loðnu, smokkfiski, rækju, burstaormum og fiskúrgangi. Tekur fæðuna á yfirborði eða kafar grunnt.

Ritan er mikill sjófugl sem sést oft á hafi úti fjarri landi en sjaldan inn til landsins, nema helst á baðstöðum, henni finnst gott að baða sig í ferskvatni og getur þá farið góðan spöl til að komast í það. Hún er ákaflega létt og lipur á flugi, hringsólar oft kringum fiskibáta og steypir sér eftir æti eins og kría. Afar félagslynd.

Verpur í sjávarhömrum, oft í stórum byggðum með öðrum sjófuglum, einnig í lágum klettaeyjum og skerjum. Hreiðrið er gert úr sinu, gróðurleifum og þangi og límt saman og fest á klettinn með driti og leir. Eggin eru oftast 2 (1-3), útungunartíminn er fjórar vikur og ungarnir verða fleygir á um 6 vikum.

Rituhreiður í Skrúðnum.

Rita með dúnunga í hreiðri á Arnarstapa.

Útbreiðsla og stofnstærð

Ritu fjölgaði mjög á síðustu öld og er hún hvarvetna algeng í fuglabjörgum. Um ¾ hlutar stofnsins byggja 12 stærstu vörpin. Ritustofninn taldi um 580 þúsund pör á árunum 2005−2009. Langstærsta byggðin er í björgunum við Hornvík en einnig eru stór vörp á Langanesi, í Grímsey, Vestmannaeyjum, Krýsuvíkurbergi og Látrabjargi. Ritu hefur þó fækkað í óáran þeirri sem gengið hefur yfir sjófugla á undanförnum árum, í heild um 12% frá fyrri talningu (1983−1985) og þá mest í Langanesbjörgum og Grímsey en fjölgað að sama skapi í Vestmannaeyjum og Krýsuvíkurbergi. Ritan er nú á válista sem fugl í nokkurri hættu (VU).

Ritan er að mestu farfugl, slæðingur hefur vetursetu við ströndina, en meirihlutinn leitar á haf út. Íslenskar ritur hafa vetursetu á hinu lífríka hafasvæði sunnan Grænlands og austan Nýfundnalands og jafnframt hafa merktir fuglar endurheimst í Evrópu frá Kólaskaga við Hvítahaf suður til Gíbraltar. Varpheimkynni eru við strendur á norðurslóðum, bæði við Kyrrahaf og Atlantshaf, þar sem ritan verpur Evrópumegin frá Franz Jósefslandi og Svalbarða suður til Portúgals.

 

Þjóðtrú og sagnir

Ritunni fylgdi hefðbundin trú á að henni fylgdi fiskisæld, eins og títt var um sjófugla. Hún sagði líka til um veður. Ýmis rituörnefni benda til að hún hafi lengi verið nýtt til matar. Fréttabréf á Langanesi og nágrenni (Kelduhverfi – Bakkafjörður) ber nafnið Skeglan = rita.

… Víða var fertugt, sumstaðar áreiðanlega sextugt. Þessi kolsvörtu björg voru einsog fannbarin, svo þraungt sat hvítur fuglinn í næturhúminu. Á syllu sem var ekki stærri en lófi manns bjuggu margar familíur. Þetta er skeglubygð.

Jafnvel um miðnóttina er skeglubygð sjaldan hljóð á þessum tíma árs; að minstakosti ekki leingi í senn. Þó allir virðist vera búnir að lesa bænirnar sínar, þá veit einginn fyr til en einhver hefst uppúr einsmannshljóði í skrækri falsettu einsog hríngt sé eldklukku. Stundum er röddin snögg og sár og einsog ýlfur í hundi sem vaknar við að stigið er á skottið á honum. Stundum einsog þegar hvítvoðúngur fer að hrína felmtsfullur uppúr fastasvefni, vakinn af orðlausum draumi sem kom í hæsta lagi af smávegis óþægindum fyrir hjarta. Skeglubygðin glaðvaknar og tekur undir dálitla stund uns fólkið kemur sér saman um að fara með faðirvorið aftur og bíða næsta vekjara …

Úr Kristnihaldi undir Jökli eftir Halldór Kiljan Laxnes.

Ritubyggð í Skrúðnum.

Rituhjón með fullvaxinn unga í hreiðri í Flatey.

Fullorðin rita á flugi á Arnarstapa.

Rituhópur við baðstað á Langanesi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson