Toppskarfur (Phalacrocorax aristotelis)


Skarfar eru stórir dökkir sjófuglar. Hérlendis eru tvær skarfategundir, dílaskarfur og toppskarfur. Þeir eru báðir staðfuglar og er varpútbreiðsla beggja að mestu bundin við Faxaflóa og Breiðafjörð. Skarfar tilheyra ættbálki árfætla (hafa sundfit milli allra fjögurra tánna) eða pelíkanfugla (Pelicaniformes) eins og súlur, freigátufuglar o.fl.

Toppskarfur í varpskrúða á Breiðafirði.

Toppskarfur með tvo stálpaða unga á Breiðafirði.

Toppskarfur í varpskrúða á Breiðafirði.

Toppskarfshjón í varpskrúða á Breiðafirði.

Ungur toppskarfur á flugi í Kolgrafarfirði.

Útlit og atferli

Toppskarfur er nokkru minni og grennri en dílaskarfur. Hálsinn er styttri og grennri og höfuðið minna, en annars getur verið erfitt að greina þessa fugla sundur eftir stærð og vexti nema sjá þá saman. Höfuð toppskarfs er hnöttóttara, enni brattara og goggur áberandi grennri en á dílaskarfi. Í varpbúningi er toppskarfur alsvartur með grænleitri slikju. Hann virðist hreistraður að ofan vegna dökkra fjaðrajaðra. 

Uppsveigður fjaðratoppur á höfði er einkenni fullorðinna fugla frá því í janúar fram á vor, þeir missa hann að mestu í maí. Ungfugl er dökkbrúnn, með ljósan framháls, en ekki ljósleitur á bringu og kviði eins og ungir dílaskarfar. Goggur er dökkgrár, neðri skoltur ljósari, brúnni á ungfugli. Goggvik eru gul, sérstaklega á vorin. Fætur eru dökkgráir, augu gul (ungfugl) eða græn (fullorðinn).

Toppskarfur er djúpsyndur og ber höfuðið hátt á sundi eins og dílaskarfur. Eftir köfun þarf fuglinn að þurrka vængina og situr þá oft og blakar þeim, „messar“ eins og dílaskarfur, en breiðir ekki jafnmikið úr vængjunum. Hann er fremur klaufalegur þegar hann hefur sig á loft, flýgur með hraðari vængjatökum en dílaskarfur og teygir hálsinn og gogginn síður upp en hann, flýgur fremur lágt. Er venjulega félagslyndur.

Toppskarfur gefur oftast frá sér hátt, hrjúft garg á varpstöðvum.

 

 

Toppskarfar í varpskrúða í Kolgrafarfirði.

Toppskarfshreiður á Breiðafirði.

Toppskarfur á hreiðri á Breiðafirði.

Ungur toppskarfur í Hafnarfirði.

Lífshættir

Toppskarfurinn er fiskiæta, hann kafar eftir bráðinni, fangar m.a. sandsíli, síld, marhnút, þorsk, ufsa, kola og sprettfisk. Stingur sér á sundi og kafar með fótunum.

Toppskarfur heldur sig við strendur og sést nær aldrei inn til landsins, andstætt við dílaskarfinn. Verpur í byggðum, er algengastur á lágum eyjum eða hólmum í Breiðafirði og Faxaflóa. Er einnig í lágum klettum, stundum í fuglabjörgum eða í stórgrýtisurðum. Hreiðrið er hraukur úr þangi, fóðrað með fjöðrum og grasi. Urptin er oftast 3 (1–6) egg, álegutíminn er mánuður og ungarnir verða fleygir á um 8 vikum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Toppskarfur er staðfugl, sem sést víða um vestanvert landið á veturna. Hann hefur breiðst út um Strandir á undanförnum árum og er nú farinn að verpa í Papey. Hann verpur við strendur Evrópu, frá Kólaskaga suður í Miðjarðarhaf og til Marokkó. Stofnstærðin hérlendis var um 4.700 varppör (21.300 einstaklingar) 2019, en hún sveiflast nokkuð. Hnignun sandsílastofnsins olli fækkun niður í 3.700 pör. Sandsíli er mikilvægasta fæða flestra sjófugla við Suður- og Vesturland.  En sandsílið er að braggast og skörfunum að fjölga aftur. Langflestir verpa í Breiðafjarðareyjum, en nokkuð varp er við norðanverðan Faxaflóa og smávegis í björgum eins og Krýsuvíkurbergi, við Arnarstapa, í Skálasnagabjargi og Látrabjargi. Toppskarfur er á válista sem tegund í nokkurri hættu (VU), þó eru enn stundaðar veiðar á honum.

Þjóðtrú og sagnir

Lítil þjóðtrú fylgir toppskarfinum, en stundum fylgir sameiginleg trú þeim frændum, díla- og toppskarfi. Skarfar þóttu vísa á fisk og þeir voru líka veðurvitar og réðu menn í veður af flugi þeirra eða hátterni. Talið er að skarfar sjái vel, en heyri illa. Þeir munu vera hræddir við tunglið og sérstaklega þegar það veður í skýjum og þeir dvelja á náttstað. Þá er einn hafður á vakt til að hafa auga með hinu ærslafulla tungli og sjálfsagt öðrum aðsteðjandi hættum í leiðinni.

Og þegar Skarfurinn setur vængina niður
hvísla öldurnar amen
og ungi sleppur undan væng Grágæsarinnar.
Á Vigri brýtur goggur gat á heiminn og
skáldkonan gengur um
með hugann við sprungur
í himninum

Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.

og stígur
á einn lítinn.

 

Fjaðrir og fiður eftir Bjarneyju Gísladóttur, lokaerindi.

Þúsund ár, hefur skarfurinn þurrkað sinn væng
Og þvaðrað við Sendling og Tjald sem í þaranum tifa
Selurinn blundað á sinni votu sæng
Í sólskini þegar öllum finnst gaman að lifa.

Úr Kolbeinshaus eftir Þórhall Gauta Bárðarson.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson