Vísindasafn

Samkvæmt lögum um Náttúruminjasafn Íslands er Náttúrufræðistofnun Íslands vísindalegur bakhjarl Náttúruminjasafnsins og mynda vísindasöfn Náttúrufræðistofnunar grunninn að fræðslu- og sýningarstarfsemi Náttúruminjasafnsins.

Vísindaleg gögn og upplýsingar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands sem lúta að starfsemi Náttúruminjasafnsins er einkum að finna á Vistfræðideild og Safna- og flokunarfræðideild stofnunarinnar, en síðarnefnda deildin er einnig til húsa á Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar Íslands. Deildirnar tvær skiptast í fjögur svið: Grasafræðisvið, Dýrafræðisvið, Jarðfræðisvið og Vistfræðisvið.

Vísindalegur safnkostur í fórum Náttúruminjasafnsins sem starfsfólk stofnunarinnar hefur unnið að og skráð er skipt í þrjú svið: 1) Sögusvið (gagnagrunnar um vísindasýni og sýningagripi Hins íslenska náttúrufræðifélags), 2) Jarðfræðisvið (gagnagrunnar um berg- og steindasýni og steingervinga) og, 3) Líffræðisvið (gagnagrunnar um fiska, fugla, lindýr og aðra hryggleysingja).

Í gagnagrunnum Náttúruminjasafnsin á jarð- og líffræðisviði eru nú (mars 2014) alls um 5000 færslur yfir stök aðföng. Hvert aðfang getur verið annaðhvort stakur gripur (t.d. eitt eintak af dýra- eða steindategund) eða tvö eða fleiri eintök af sömu tegund. Stærstu aðfangaskrárnar taka til lindýra (um 2700 færslur) og fiska (um 1000 færslur). Nærri lætur að heildarfjöldi gripa eða eintaka í fórum Náttúruminjasafnsins sé um 100.000 talsins og helgast það aðallega af miklum eintakafjölda lindýra í gjafasöfnum Jóns Bogasonar og Jóhanns Jóns Þorvaldssonar.

Í aðfangaskrá Náttúruminjasafnsins á sögusviði yfir sýni sem Hið íslenska náttúrufræðifélag færði ríkinu árið 1947 eru um 3670 færslur og taka þær til gripa og annarra aðfanga sem félagið eignaðist á árunum 1889–1947. Aðfangaskráin er unnin upp úr handrituðum frumskrám og prentuðum skýrslum. Á þessu stigi er ekki vitað hve stór hluti safnkostsins hefur rýrnað vegna skemmda og grisjunar í kjölfarið. Brýnt er að yfirfara safnkostinn sem fyrst með hliðsjón af aðfangaskránni.

Stefnt er að því að hafa lýsigagnagrunna á framangreindum þremur sviðum aðgengilega almenningi innan tíðar.

Safnkostur Náttúruminjasafns Íslands mun þegar fram líða stundir einnig byggjast á aðgangi stofnunarinnar að safneign og gagnagrunnum annarra vísinda- og rannsóknastofnana á vegum ríkisins og fleiri aðila sem sýsla með náttúru landsins.

Nær allir sýningamunir Náttúruminjasafns Íslands sem ekki eru til útláns, ásamt flestöllum vísindasýnum, eru hýst hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í Garðabæ við bestu fáanleg skilyrði í landinu m.t.t. varðveislu náttúrugripa af hvaða tagi sem er (þurrsýni, votsýni, hamir o.fl.).