Himbrimi

Himbrimi (Gavia immer)

Himbrimi á hreiðri.

Himbrimi á hreiðri.

Himbrimi er af ættbálki brúsa (Gaviiformes) en þeim ættbálki tilheyra aðeins fimm tegundir og tvær þeirra lifa hér á landi. Lómurinn er hinn brúsinn sem hér á heima.

Himbrimi gólar!

Himbrimi gólar!

Útlit og atferli

Himbrimi er stór, sterklegur og rennilegur vatnafugl, einn af einkennisfuglum íslenskra heiðavatna. Á sumrin er hann með gljásvart höfuð og háls, á hálsi er ljós kragi með svörtum langrákum og sama litamynstur á bringuhliðum. Hann er svartur að ofan, alsettur hvítum tíglum eða dílum sem eru mest áberandi á axlafjöðrum. Bringa og kviður eru hvít, vængir dökkir að ofan en hvítir að neðan. Á veturna er hann grábrúnn að ofan, með dekkri koll og afturháls, hvítur á vöngum, framhálsi og að neðan. Ungfugl er svipaður en ljósari fjaðrajaðrar mynda daufa tígla að ofan. Kynin eru eins. Goggurinn er svartur og gildur og minnir á rýting. Hann lýsist á vetrum. Fætur eru dökkbrúnir og augu dökkrauð.

Himbrimi er svipaður lómi á veturna en dekkri, stærri og þreknari en hann, með breiðari gogg sem veit beint fram; þeir frændur minna jafnframt nokkuð á skarfa og fiskiendur á sundi.

Hljóð himbrimans eru langdregin vein og köll. Hann er hávær á varptíma, sérstaklega á nóttunni, en þögull ella.

Himbrimi á flugi.

Himbrimi á flugi.

Himbrimi magalendir.

Himbrimi magalendir.

Himbriminn flýgur með kraftmiklum vængjatökum. Á flugi er hálsinn niðursveigður og fæturnir skaga aftur fyrir stélið. Hann er fimur sundfugl, mikill kafari og fremur djúpsyndur, þungur til flugs og lendir á maganum en ber ekki fæturna fyrir sig eins og flestir fuglar. Brúsar geta ekki gengið vegna þess hve fæturnir eru aftarlega á búknum. Þeir koma ekki á land nema til að verpa og skríða þá á maganum til og frá hreiðrinu. Eru venjulega stakir, í pörum eða litlum hópum.

Lífshættir

Himbrimi er fiskiæta. Á ferskvatni er silungur aðalfæðan en litlir ungar fá hornsíli. Á sjó veiðir hann m.a. marhnút, ufsa, þorsk, skera og trjónukrabba.

Hann verpur við vötn og tjarnir með silungi, frá sjávarmáli upp í 600 m hæð. Hreiðrið er stór en grunn laut á vatnsbakka eða í litlum hólma og myndast vel troðin slóð milli hreiðurs og vatns. Ungarnir fara á vatn um leið og þeir verða þurrir. Foreldrarnir fæða þá þangað til þeir geta farið að veiða sjálfir. Himbrimi er mjög heimaríkur og líður ekki önnur himbrimahreiður nærri sínu. Það er aðeins á stærstu vötnum, sem finna má fleira en eitt par. Á Þingvallavatni eru oftast 4-5 pör og 1-2 á Úlfljótsvatni.

Himbrimapar með nýklakinn unga.

Himbrimapar með nýklakinn unga.

Nýklakinn ungir mataður.

Nýklakinn ungir mataður.

Himbrimi með unga á baki.

Himbrimi með unga á baki.

Himbrimapar með hálfstálpaða unga.

Himbrimapar með hálfstálpaða unga.

Á haustin safnast þeir stundum í hópa og er hópurinn á Þingvallavatni þekktastur, þar hafa sést yfir 200 himbrimar í október. Fuglar geta dvalið fram yfir áramót, en vatnið leggur venjulega í janúar.

Himbrimar dvelja annars á veturna við strendur og geldfugl er aðallega á sjó á sumrin.

Útbreiðsla og ferðir

Himbriminn er að nokkru farfugl. Staðfuglar hafa vetursetu við ströndina en farfuglar eru við Bretlandseyjar og Vestur-Evrópu. Ísland er eini varpstaður þessa vesturheimsfugls í Evrópu en hann er algengur á meginlandi Norður-Ameríku og á Grænlandi.

Himbrimi í vertrarklæðum.

Himbrimi í vertrarklæðum.

Þjóðtrú og sagnir

Himbrimans er helst getið í þjóðtrúnni sem veðurspáfugls:
„Brúsinn eða himbriminn, er einhver með allra fegurstu og stærstu sundfuglum hér og hefur þótt góður spáfugl. Hann hefur og fagra rödd og mikla. Þegar hann gólar á vatni segja menn, að hann „taki í löppina“, og þyki það vita á vætu. En fljúgi hann um loftið með miklum gólum, veit hann veður og vind í stél sér. “
Íslenskar þjóðsögur og –sagnir. Sigfús Sigfússon.

Sömuleiðis nefnir Jónas Jónasson frá Hrafnagili himbrimann sem veðurspáfugl.

Kveðskapur

Himbrimi
á djúpu
vatni
fjallsins
bláa
fjarlægur
söngur
dimmur
fagur
sumar
nætur
hljóðar
lofar
lífið
góða
snertir
landið
hreina
eina

Eftir Ferdinand Jónsson, úr ljóðabókinni Innsævi.

Himbrimi stígur dans á Kaldbakstjörn við Húsavík.

Himbrimi stígur dans á Kaldbakstjörn við Húsavík.


Himbriminn kallast
á við kyrrðina og kveðst
á við sólina

Úr ljóðinu Myndir af Melrakkasléttu eftir Andra Snæ Magnason.


Og vinur minn himbrimi af vatninu til mín kallar:
Velkominn hingað í bláheima, drengur minn!
Ég svara af bragði: Ég veit hvar frúsla þín verpir,
og vandlega skal ég þegja um bústað þinn!

Úr ljóðinu Að Skálabrekku eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Helsingi

Helsingi (Branta leucopsis)

Helsingjahjón, kvenfuglinn (t.h.) safnar kviðfitu sem orku fyrir farflug og varp. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahjón, kvenfuglinn (t.h.) safnar kviðfitu sem orku fyrir farflug og varp.
Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Útlit og atferli

Helsinginn er önnur tveggja „svartra“ gæsa sem fara um landið, hin er margæs. Þó hefur í auknum mæli orðið vart við ættingja þeirra, kanadagæsina, á síðustu árum.

Helsingi er meðalstór gæs, á stærð við heiðagæs og blesgæs. Hann verður best greindur á áberandi skörpum skilum dökka litarins að ofan og hvíta litarins að neðan, svo og hvítu andliti, kverkum og vanga. Hann hefur misáberandi svarta augnrák, er svartur á kolli, hnakka, hálsi og bringu, og bak og yfirvængir eru blágrá með hvítjöðruðum svörtum þverrákum. Vængir virðast gráir að ofan á flugi, dökkir að neðanverðu. Fuglinn er ljósgrár að neðan, með hvítar stélþökur og svart stél. Fullorðinn helsingi og ungfugl eru mjög líkir. Kynin eru eins, en karlfuglinn ívið stærri. Goggurinn er stuttur og svartur, fætur svartir og augu brún. Gefur frá sér hvellt gjamm sem minnir á hundgá.

Helsingjar við Jökulsárlón. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjar við Jökulsárlón. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjar á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjar á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingi flýgur sjaldnar í oddaflugi en aðrar gæsir, sem sjást hér reglulega, en er oft í óskipulegum, þéttum hópum eða löngum reinum. Er stærri en margæs og með hægari vængjatök.

Lífshættir

Helsinginn er grasbítur, hann sækir talsvert í tún á vorin, en einnig í úthaga og votlendi.  Varpfuglar ala unga sína við ár og jökullón.  Fæða þeirra er væntanlega kornsúra, starir og sef.  Ber eru mikilvæg fæða á haustin ásamt kornsúrurótum og stararfræjum. Helsingi nýtir sér mýrar og tún nærri ströndinni á vorin, auk þess gróið land á hálendinu og lyngmóa á haustin.

Helsingjar að vorlagi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjar að vorlagi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahópur í Langadal. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahópur í Langadal. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Gæsir parast til langframa, kvenfuglinn ungar út eggjunum meðan karlinn stendur vörð og hjónin sjá saman um að ala önn fyrir ungunum. Ungar andfugla eru bráðgerir, þeir yfirgefa hreiðrið strax og þeir verða fleygir. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Flugfjaðrir í vexti (líka nefndar blóðfjaðrir) eru mjög blóðríkar og blæðir úr þeim ef fuglarnir verða fyrir einhverju hnjaski. Því er talað um að fuglarnir séu í sárum eða særist á þessum tíma. Fullorðnu fuglarnir verða oft fleygir að nýju um svipað leyti og ungarnir verða fleygir.

Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Útbreiðsla og far

Helsingjar eru fyrst og fremst fargestir hér á landi. Varpstofn í Norðaustur-Grænlandi. hefur viðkomu hér á ferð sinni til og frá vetrarstöðvum á Bretlandseyjum. Helstu viðkomustaðirnir á vorin eru í Húnavatnssýslum og Skagafirði, þar sem hátt í 70% af Austur-Grænlandsstofninum dvelur í 3-4 vikur. Á haustin staldra helsingjarnir aftur á móti við á sunnanverðu miðhálendinu og í Skaftafellssýslum. Utan Grænlands verpa helsingjar á Svalbarða og Novaja Zemlja. Á þessum norðlægu slóðum verpa helsingjarnir aðallega í klettum.

Helsingjar á Jökulsárlóni. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjar á Jökulsárlóni. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Fyrsta bókfærða varp helsingja hér á landi var í Hörgárdal 1927. Reglulegt varp hófst í Breiðafirði árið 1964. Helsingjar urpu þar í eyjum um 20 ára skeið. Árið 1988 fundust helsingjar á hreiðrum í hólmum á jökullóni í Austur-Skaftafellssýslu. Síðan hefur þetta varp vaxið og dafnað og helsingjar numið land á nokkrum öðrum stöðum í Skaftafellssýslum, m.a. við Hólmsá í Vestursýslunni, þar sem þeir urpu fyrst 1999. Helsingjar hafa orpið í Seley við Reyðarfjörð undanfarin ár, á Snæfellsnesi um þriggja ára skeið og víðar um land. Sumarið 2014 var talið að stofninn teldi rúmlega 700 varppör og á annað þúsund gelfugla. Heildarstærð íslenska varpstofnsins að hausti, með ungum, gæti því verið 4-5000 fuglar.

Helsingjar á Hestgerðislóni síðsumars. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjar síðsumars á Hestgerðislóni í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Þetta landnám helsingja er sérstakt og vöxtur stofnsins hraður. Helsingjar hafa væntanlega komið hér við í þúsundir ára á ferðum sínum milli varp- og vetrarstöðva, en afhverju hefja þeir varp nú? Afhverju hafa ekki fleiri umferðarfuglar eða fargestir farið að verpa hér, eins og margæs og blesgæs, svo og vaðfuglarnir rauðbrystingur, sanderla og sérstaklega tildra. Eini fargesturinn fyrir utan helsingja, sem hefur numið land, er fjallkjói. Báðir þessir fuglar verpa á norðlægum slóðum og fara því í „öfuga átt”, miðað við hlýnun jarðar.

Nákvæmlega er fylgst með stofnstærð gæsa og álftar á vetrarstöðvum þeirra á Bretlandseyjum og hérlendis, eftir því sem við á.  Því eru stofnstærðir og stofnsveiflur þessara fugla betur þekkt en margra annarra. Talningar eru einnig gerðar á meginlandi Evrópu. Stofn helsingja hefur stækkað, allt frá sjöunda áratuginum, þó með smá niðursveiflu á þeim áttunda. Árið 1959 var stofninn 8300 fuglar, en árið 2013 var hann 80.700 fuglar, árunum 2008 til 2013 var heildaraukningin 14%. Þessi aukning er talin eiga rætur í lægri dánartíðni m.a. vegna þess að veiðum hefur verið hætt á Grænlandi, fremur en því að varpárangur hafi batnað.

Helsingjafjölskylda við Jökulsárlón, ungarnir eru fullvaxnir. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjafjölskylda við Jökulsárlón, ungarnir eru fullvaxnir. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Þjóðtrú og sagnir

Forðum vissu íslendingar ekki hvað varð af helsingjanum á milli þess sem hann kom við á vorin og síðan aftur á haustin. Þá varð til sú þjóðsaga að helsinginn dveldi þess á milli í sjónum. Hrúðurkarlategund, sem ber heitið helsingjanef (Lepas anatifera), ber þjóðtrúnni vitni. Helsingjanef er frábrugðið fjörukörlum, hinum hefðbundnu hrúðurkörlum. Ólíkt þeim festa þau sig við undirlagið með nokkurs konar stilki. Skelin er einnig nokkuð frábrugðin en hún minnir á fuglsgogg. Algengast er að helsingjanef komi sér fyrir á talsverðu dýpi, en það þekkist þó að þau festi sig á einhverju rekaldi og geta þá borist með því langar leiðir og upp í fjöru.

Helsingjanef á netakúlu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjanef á netakúlu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Rauðhöfði

Rauðhöfðaönd (Anas penelope)

Raudhofdi14b

 

Útlit og atferli

Rauðhöfðaönd er meðalstór önd, nokkru minni en stokkönd, með hnöttótt höfuð, stuttan háls, lítinn gogg, fleyglaga stél og langa, mjóa vængi.

Karlfuglinn, steggurinn, er með rauðbrúnt höfuð og rjómagula blesu frá goggrótum aftur á kollinn og grængljáandi rák aftan augna. Hann er rauðbleikur á bringu, gráyrjóttur að ofan og á síðum, stél svart með gráum jöðrum, áberandi hvítur blettur milli stéls og síðu. Axlafjaðrir eru svartar með hvítum bryddingum. Fullorðinn steggur er með hvítan áberandi blett á framvæng, sem myndar hvítt band meðfram síðum á aðfelldum væng.  Ársgamall steggur er án þessa einkennis.

Rauðhöfðasteggir.

Rauðhöfðasteggir. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Rauðhöfðapar.

Rauðhöfðapar.

Í felubúningi er steggurinn dekkri en kolla, oft rauðbrúnni og vængbletturinn sjáanlegur. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá svonefndan felubúning sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi eftir að þeir verða fleygir að nýju.

Kvenfuglinn, kollan, er grá eða dökkrauðbrún, flikrótt að ofan með jafnlitari síður og bringu. Framhluti vængs er grár. Bæði kyn hafa hvítan kvið og dökkgræna vængspegla, steggirnir eru með svarta jaðra en á kollunum eru speglarnir dauflitari og með hvíta jaðra. Goggurinn er mjór og blágrár með svörtum broddi, fætur blágráir eða brúnir með dekkri fitjum, augu brún.

Rauðhöfðapar nærri Stokkseyri.

Rauðhöfðapar nærri Stokkseyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Rauðhöfðaönd flýgur hratt með örum vængjatökum. Hún virðist fremur framþung og er oft með inndreginn háls á sundi. Sést oft á beit á landi. Hún er félagslynd utan varpstöðva og mynda steggir í felli oft stóra hópa. Hljóð fuglsins eru blístur hjá steggnum en lágt malandi urr hjá kollunni.

Lífshættir

Rauðhöfðinn er mestur grasbítur meðal anda, bítur jafnt í vatni sem á landi. Þráðnykra, mýrelfting og gras eru mikilvægar fæðutegundir. Hann notfærir sér gróður sem álftir og kafendur róta upp á yfirborðið. Etur grænþörunga og marhálm í sjávarfjörum.

Á sumrin og á fartíma er kjörlendið grunn lífrík vötn og tjarnir, óshólmar og stararflóð. Fuglinn verpur í mýrum og móum; hreiður er vel falið milli þúfna, í lyngi eða runnum, fóðrað með dúni. Staðfuglar dvelja á lygnum víkum og vogum og lítils háttar á auðum vötnum, tjörnum og ám inn til landsins.

Rauðhöfðasteggir í felli. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Rauðhöfðasteggir í felli. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og ferðir

Rauðhöfði verpur á láglendi um land allt en er algengastur á N- og NA-landi. Stærstur hluti stofnsins hefur vetursetu á Bretlandseyjum, aðallega í Skotlandi. Íslenskir rauðhöfðar flakka þó víða, nokkrir hafa fundist í N-Ameríku, austur í Síberíu og suður að Miðjarðarhafi. Kollur sem  hafa vetursetu í N-Ameríku parast stundum þarlendum ljóshöfðasteggjum og fylgja steggirnir kollunum hingað á varpstöðvarnar. Eftir varp rofna paratengslin. Sumir steggjana dvelja hér langdvölum á sama svæðinu.

Rauðhöfðahreiður í friðlandi í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Rauðhöfðahreiður í friðlandi í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Rauðhöfðakolla með unga.

Rauðhöfðakolla með unga.

Nýfleygur rauðhöfðaungi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Nýfleygur rauðhöfðaungi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Milli 2000 og 4000 fuglar hafa hér vetursetu og sjást þeir um land allt, þó mest á S- og SV-landi. Varpheimkynnin eru um norðanverða Evrópu og Asíu austur að Kyrrahafi.

Þjóðtrú og sagnir

Afar lítið er um rauðhöfðann í íslenskri þjóðtrú og á hann það sammerkt með öðrum öndum. Yfirleitt er talað um endur sem heild í þjóðtrú annarra landa.

Rauðhöfðar á Opnum í Ölfusi að vetri.

Rauðhöfðar á Opnum í Ölfusi að vetri.

Hópur rauðhöfða að vetri við Stokkseyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Hópur rauðhöfða að vetri við Stokkseyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þú bíður

Ég veit þú bíður mín
handan við dyrnar
hljóður og þungbúinn
en ég er að hlusta
á söng sumargesta minna
úr tjarnarsefinu.
Þeir spegla sig í lygnunni
engin vindhviða gárar vatnið
og sólin gengur seint til viðar,
rauðhöfðaönd og álft
óðinshani og lómur
og duggöndin fagra
segja mér drauma sína.
Hví skyldi ég haska mér
um dyr þínar?
Ég veit að haustið kemur
með myrkur í fanginu
en þangað til hlusta ég á sönginn
á nið árinnar,
tala við sólina og hafið
um tímann
og það sem er handan við dyrnar.

Eftir Rögnvald Finnbogason.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Þúfutittlingur

Þúfutittlingur (Anthus pratensis)

Þúfutittlingur 13

Þúfutittlingur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

 

Útlit og atferli

Þúfutittlingur er algengasti spörfugl landsins. Hann er stundum nefndur grátittlingur eða jafnvel götutittlingur. Hann er einn af okkar bestu söngfuglum og minnir söngflug hans á hinn rómaða lævirkja.

Þúfutittlingur er minni en snjótittlingur, hálsstuttur, með breiða, stutta vængi og fremur kubbslegur. Hann er einkennasnauður fugl, grágrænn, grábrúnn eða gulbrúnn að ofan. Hann er svartrákóttur að ofan, á bringu og síðum, ljósari á kverk og að neðan. Á höfði er hann með ljósa brúnarák og skeggrák og dauf vængbelti, hvítir stéljaðrar eru greinilegir á flugi. Á haustin eru ungfugl og fullorðinn fugl rákóttari að ofan og gulari á síðum.

Goggur er dökkur, grannur og stuttur. Fætur ljósir, bleikbrúnir og augu dökkbrún. Fótur spörfugla er svonefndur setfótur, en goggurinn er lagaður að fæðunni. Skordýraætur (t.d. maríuerla, þúfutittlingur, músarrindill og þrestir) hafa grannan gogg. Fræætur (t.d. snjótittlingur og auðnutittlingur) eru keilunefir, með stuttan og þykkan gogg.

Thufutittl14a

Fljúgandi þúfutittlingur. Söngflug þúfutittlinga minnir á söngflug lævirkja. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Flug þúfutittlings er reikult og flöktandi. Hann flýgur stundum beint upp í loftið, lætur sig falla niður aftur á svifflugi og syngur um leið hraðan, dillandi söng. Gefur annars frá sér mjóróma tíst. Hann flögrar mikið um og tyllir sér á þúfur eða í tré þess á milli, er félagslyndur utan varptíma.

Lífshættir

Þúfutittlingur er dýraæta, etur margs kyns smádýr, bæði fullvaxin og á lirfu- og púpustigi. Etur stundum fræ og smávaxin skeldýr.

Þúfutittlingur í Hofi í Öræfum. Þúfutittlingar eru skordýraætur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Varpkjörlendið er margvíslegt; mýrar, lyngheiðar, grasmóar, kjarr- og skóglendi, gróin hraun o.fl. á láglendi og sums staðar á hálendinu. Hann gerir sér vandaða hreiðurkörfu, vel falda utan í þúfu eða öðrum gróðri. Verpur oft tvisvar á sumri. Hann sækir í fjörur, mýrar og jafnvel húsagarða utan varptíma.

Eyrarbakki líkl.

Hreiður þúfutittlings. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og ferðir

Þúfutittlingurinn er alger farfugl og útbreiddur um land allt, þar sem búsvæði hans er að finna, og er hann talinn algengasti landfuglinn okkar, með stofnstærð á milli 500.000 og 1.000.000 varppör. Stöku sinnum sjást fuglar hér að vetrarlagi. Hann hefur vetursetu frá SA-Englandi, suður um Vestur-Frakkland og Spán, suður til NV-Afríku. Þúfutittlingur er annars algengur varpfugl í Evrópu og austur til Síberíu.

Þjóðtrú og sagnir

Í íslenskri þjóðtrú þótti það vísa á gott ef smáfugl hljóp á veginum á undan lestarmanni, eins og siður er þúfutittlinga. Þó var ekki öll þjóðtrú jafn jákvæð í garð þúfutittlingsins. Hann hefur þótt valda undirflogum (júgurmeinum) af líkum orsökum og steindepill. Hann er sagður fljúga aftan í örninn og bíta sig þar fastan. Sumir sögðu hann flygi út um munninn og dræpi báða (Íslenskar þjóðsögur og sagnir VI, Sigfús Sigfússon).

Thufutittl09a

Þúfutittlingur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grátittlingurinn

Kalinn drengur í kælu
á kalt svell, og ljúft fellur,
lagðist niður og lagði
lítinn munn á væng þunnan.
 
Þíddi allvel og eyddi
illum dróma með stilli
sem að frostnóttin fyrsta
festi með væng á gesti.

Lítill fugl skaust úr lautu,
lofaði guð mér ofar,
sjálfur sat eg í lautu
sárglaður og með tárum.
 
Felldur em eg við foldu
frosinn og má ei losast;
andi guðs á mig andi,
ugglaust mun eg þá huggast.

Jónas Hallgrímsson

Tittlingur í mýri

Tittlingar í mýri
tína strá og ber,
lifa og leika sér
og eignast ævintýri.

Bærinn hola í barði.
Búskapurinn vex,
eggin urðu sex,
líkust lambasparði.

Tittlingur í mýri
tínir berin blá,
kemur hann heim á kvöldin
og kúrir mér hjá.

Örn Arnarson

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Stuttnefja

Stuttnefja (Uria lomvia)

Stuttnefja.

Stuttnefja.

Útlit og atferli

Stuttnefjan er fremur stór svartfugl sem svipar mjög til langvíu. Á sumrin er hún svört að ofan en hvít að neðan, síður eru hvítar án ráka. Hvítir jaðrar armflugfjaðra mynda ljósa rák á aðfelldum væng. Á veturna teygist hvítur litur bringunnar upp á kverk. Goggur er svartur, oddhvass með hvítri rönd á jaðri efra skolts, röndin helst á veturna. Grunnlitur fóta er svartur og augu svört. Gefur frá skvaldrandi hljóð, rofið af rámu gargi um varptímann.

Svipar í mörgu til álku og langvíu. Höfuðlag er þó annað, stuttnefja er auk þess hálslengri og stélstyttri en álka. Hún flýgur með kýttan háls. Á erfitt um gang, situr á ristinni. Auðgreindust frá langvíu á hvítum síðum, dekkri lit að ofan, styttri og þykkari goggi með hvítri goggrönd, brattara enni og kantaðri kolli, á veturna á svörtum vöngum. Höfuðlag er annað en á álku, auk þess er stuttnefja hálslengri og stélstyttri. Hún flýgur með kýttan háls og er fimur kafari. Er afar félagslynd.

Stuttnefja til vinstri og langvía (Urea aalge) til hægri.

Stuttnefja til vinstri og langvía (Urea aalge) til hægri.

Vetrarfugl við Þorlákshöfn. Ljósmynd: Óli Jóhann Hilmarsson.

Stuttnefja í vetrarbúningi við Þorlákshöfn. Ljósmynd: Óli Jóhann Hilmarsson.

Lífshættir

Stuttnefja kafar eftir fæðunni og knýr sig áfram með vængjunum neðansjávar líkt og aðrir svartfuglar. Aðalfæðan er loðna, en hún tekur einnig síli, síld, annan smáfisk, ljósátu og marflær.

Stuttnefja verpur í stórum byggðum í fuglabjörgum. Hún verpur aðeins einu eggi og er því orpið á berar syllur, hreiðurgerð er engin. Stuttnefja verpur á mjórri syllum en langvía og stundum í stökum pörum. Er á sjó utan varptíma og er meiri úthafsfugl en langvía. Ungi yfirgefur varpsyllu löngu áður en hann er fleygur, um þriggja vikna gamall, um miðjan júlí. Þá kastar hann sér fram af varpsyllunni, veifandi vængstubbunum og reynir að elta annað foreldrið út á sjó. Stundum eru þeir óheppnir, lenda í urðum undir björgunum eða í tófukjafti, ef þeir ná ekki til sjávar. Björgin tæmast venjulega síðla júlímánaðar.

Stuttnefjur á sundi.

Stuttnefjur á sundi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og ferðir

Mjög stór hluti íslenska stofnsins verpur í stóru vestfirsku björgunum, Látra-, Hælavíkur- og Hornbjargi. Stuttnefju fækkaði um 44% á árunum milli 1983 og 2008 og er hún nú á válista. Fækkunin er sums staðar enn meiri. Í Skoruvíkurbjargi á Langanesi fækkaði henni um 82% á árunum 1986-2014. Stuttnefjan er hér á suðurmörkum útbreiðslu sinnar og er fækkun hennar rakin til hlýnunar sjávar og gróðurhúsaáhrifa; veiðar Grænlendinga eru taldar hafa slæm áhrif á minnkandi stofninn. Örlög hennar verða kannski þau sömu og haftyrðilsins.

Vetrarstöðvar íslenskra fugla eru norður af landinu, undan NA-landi. Það eru þó að einhverju leiti fuglar frá Bjarnarey og Svalbarða, sem þar hafa vetursetu. Eitthvað af íslenskum fuglum er út af Scorebysundi á Austur-Grænlandi. Aðalvetrarstöðvarnar eru þó líklega við Suðuvestur- og Suður-Grænland og teygja þær stöðvar sig á átt að Reykjanesskaga í NA og Nýfundnaland í SV. Þessar upplýsingar hafa fengist á allrasíðustu árum með notkun gagnarita; það er agnarlítið tæki, sem fest er á fót fuglsins. Frekari rannsóknir eiga væntanlega eftir að leiða enn frekar í ljós ferðir stuttnefjunnar.

Stuttnefjur í bjargi.

Stuttnefjur í bjargi.

Friðun stuttnefju við Grænland

Snemma í mars sendi Fuglavernd eftirfarandi áskorun til grænlenskra stjórnvalda um friðun stuttnefju, en íslenskir fuglar eru mikið veiddir við strendur landsins:

Fuglavernd skorar á Grænlensk stjórnvöld að hlífa stuttnefjunni. Það hefur vakið athygli umheimsins að grænlenska landsstjórnin hefur heykst á að friða stuttnefjuna, þrátt fyrir að fjöldi aðvörunarbjalla hafi hringt undanfarin ár um að hún stæði á barmi útrýmingar. Fuglavernd ásamt fuglaverndarsamtökum í Danmörku, Noregi, Bandaríkjunum og Alþjóðasamtökum BirdLife International hafa skorað á grænlensku landsstjórnina að stöðva alla veiði á stuttnefju. Það stefnir í að veiðar útrými tegundinni sem varpfugli í Grænlandi á fáum árum en gríðarlegt veiðiálag er á fugla við Vesturströnd Grænlands. Stuttnefjum sem verpa hér við land hefur fækkað mikið á síðustu árum og er talsvert af þeim drepið á vetrarstöðvum vestur af Suður-Grænlandi. Þar eru bæði mikilvægar varpstöðvar grænlenskra stuttnefja og vetrarstöðvar íslenskra. Fuglaverndarsamtökin skora á landsstjórnina að nýta náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt.

Þjóðtrú og sagnir

Lítið er að finna um stuttnefjuna sjálfa í íslenskri þjóðtrú, en hún er tekin með öðrum svartfuglum. Þeir eiga að vita fyrir óveður og fljúga að landi 2-3 dögum á undan norðanstormum. Svartfuglarnir áttu líka að vita fyrir góðan afla.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Óðinshani

Óðinshani  (Phalaropus lobatus)

Óðinshani 12

Óðinshani, kvenfugl.                                                                       Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útlit og atferli

Óðinshani er með allra síðustu farfuglunum sem birtist hér á norðurhjara. Hann er smávaxinn og fínlegur fugl á stærð við lóuþræl. Óðinshaninn er gráleitur að ofan, fremur dökkur á sumrin en ljósari á vetrum og ljós að neðan. Í sumarbúningi hefur hann breiðan, rauðgulan kraga um hálsinn og hvítan blett í kverkinni. Höfuð, afturháls og bringa eru annars grá. Bakið er dökkt með gulleitum langrákum. Litur kvenfuglsins er skærari en karlfuglsins. Hann er hvítur að neðan og með ljós vængbelti, gumpurinn er hvítur með svartri miðrönd sem nær út á grátt stélið. Síðsumars og á veturna er fuglinn ljósblágrár að ofan en hvítur að neðan, með dökka augnrák. Ungfugl er svipaður en dekkri á kolli, hnakka og afturhálsi; á baki svipaður og fullorðinn fugl í sumarbúningi. Svartur goggurinn er grannur og fíngerður og augun dökk. Fætur eru dökkgráir með sundblöðkum.

Óðinshani í vetrarbúningi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Óðinshani í vetrarbúningi.

Óðinshaninn flýgur hratt og flöktir mikið. Oftast sést hann á sundi. Hann liggur hátt í vatninu og skoppar á vatnsborðinu. Óðinshani er spakur fugl og félagslyndur utan varptíma.

Óðinshani 20

Óðinshanahjón á góðri stundu.                                                    Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Í tilhugalífinu á kvenfuglinn frumkvæðið og það er karlfuglinn sem sér um álegu og ungauppeldi, en kerlan lætur sig hverfa strax eftir varpið og getur stundum verið í tygjum við fleiri en einn karl (fjölveri). Dömurnar safnast saman í hópa og frílista sig meðan karlarnir streða við uppeldið. Þessi femínismi er líka við lýði hjá hinum sundhönunum: þórshana og freyshana.

Nýklakinn óðinshanaungi.

Nýklakinn óðinshanaungi.                                                              Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Femínismi í framkvæmd: þrjár dömur elta einn herra.

Femínismi í framkvæmd: Þrjár dömur elta einn herra.            Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Óðinshani hringsnýst á sundi og þyrlar upp fæðu, dýfir gogginum ótt og títt í vatnið og tínir upp smádýr eins og rykmý, brunnklukkur, smákrabbadýr, tínir einnig rykmý af tjarnarbökkum og landi.  Úti á sjó etur hann svif.

Algengur um land allt, einkum á láglendi, en finnst einnig víða á hálendinu. Uppáhaldsbúsvæði hans eru lífrík votlendi, t.d. gulstararflóð með tjörnum og kílum, og er þéttbýli mikið, t.d. í Mývatnssveit. Hreiðrið er dæld í þúfu, mosa eða sinu, ávallt vel falið. Er utan varptíma einkum við ströndina á sjávarlónum og tjörnum, en stórir hópar sjást einnig á sjó við landið. Hann hefur hér skamma viðdvöl. Úthafsfugl á veturna.

Fugl með gagnarita (ljósrita). Hann er innan við gramm að þyngd, fuglinn ekki nema 40g.

Óðinshani með gagnarita (ljósrita). Ritinn er innan við gramm að þyngd og fuglinn um 40 grömm. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Vetrarstöðvar óðinshana voru hjúpaðar leynd þar til í fyrra, en þá endurheimtist fugl norður í Aðaldal, sem bar agnarlítinn gagnarita eða ljósrita. Hann gat sagt okkur að vetrarstöðvarnar væru útaf ströndum Perú og suðaustur af Galapagos eyjum. Ótrúlegt hvernig þessi litli fugl getur lagt slíkar vegalengdir að baki. Varpheimkynni hans eru víða um norðanvert norðurhvelið.

Þjóðtrú og sagnir

Lítil þjóðtrú virðist fylgja óðinshananum. Tvö önnur nöfn vekja athygli, hann er sums staðar kallaður skrifari vegna þess hvernig hann hringsnýst á pollum og tjörnum og virðist skrifa á vatnsborðið með goggnum. Nafnið torfgrafarálft er ögn langsóttara, þó hann hafi verið algengur á torfgröfum (mógröfum).

Óðinshanahópur á sjó.

Óðinshanahópur á sjó. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Óðinshaninn

Mín vegferð er vanrímað kvæði!
En í vatnsins spegilró
týnast óðar öll mín fræði,
svo ótt sem ég skrifa þó –
og þó – og þó?

Eftir Þorstein Valdimarsson


Og litlu neðar, einnig út við Sog,
býr Óðinshani, lítill heimsspekingur,
sem ég þarf helzt að hitta í góðu næði.

II

Hvað er að frétta, heillavinur minn?
—Hér hef ég komið forðum mörgu sinni,
og öll mín fyrstu óðinshanakynni
áttu sér stað við græna bakkann þinn.
 
Þá bjuggu hérna önnur heiðurshjón,
háttvís og prúð, og það er lítill vafi,
að hjónin voru amma þín og afi.
En hvað þið getið verið lík í sjón.
 
Já, gott er ungum fugli að festa tryggð
við feðra sinna vík og mega hlýða
bernskunnar söng, sem foss í fjarlægð þrumar.
 
Og megi gæfan blessa þína byggð
og börnum þínum helga vatnið fríða,
fugl eftir fugl og sumar eftir sumar.

Hluti af Þremur ljóðum um lítinn fugl eftir Tómas Guðmundsson.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Heiðlóa

Heiðlóa, lóa (Pluvialis apricaria)

Heidlo37at

Heiðlóa, karlfugl í sumarbúningi. Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson.

Lóan er komin að kveða burt snjóinn,
að kveða burt leiðindin, það getur hún.
Hún hefur sagt mér, að senn komi spóinn,
sólskin í dali og blómstur í tún.
Hún hefir sagt mér til syndanna minna,
ég sofi of mikið og vinni ekki hót.
Hún hefir sagt mér að vakna og vinna
og vonglaður taka nú sumrinu mót.

Eftir Pál Ólafsson.

Vorboðinn

Apríl er mánuður vorboðanna, farfuglanna, sem koma langan veg til að sinna kalli náttúrunnar í hinu bjarta, norræna sumri, sumir halda meira að segja áfram enn lengra í norður með stuttri viðkomu hér á landi. Lóan á sérstakan sess í hugum þjóðarinnar sem vorboði og jafnframt er hinn angurværi söngur hennar eitt af einkennishljóðum íslenska sumarsins.

Útlit og atferli

Heiðlóa, sem jafnan er nefnd lóa, er einkennisfugl íslenskra móa. Hún er meðalstór vaðfugl, töluvert minni en spói, allþéttvaxin og hálsstutt. Vængirnir eru fremur langir. Fullorðin lóa í sumarbúningi er svört að framan og neðan en gul- og dökkflikrótt að ofan. Svarti liturinn nær ofan frá augum aftur fyrir fætur. Á milli hans og gulflikrótta litarins á bakinu er hvít rönd. Hún hverfur á haustin eins og svarti liturinn og lóan verður þá ljósleit að framan og á kviðnum. Ungfuglar eru svipaðir. Vængir eru hvítir að neðan. Goggur er svartur, mun styttri en á flestum öðrum vaðfuglum. Fætur eru dökkgráir og augu dökk.

Heiðlóa 35

Lóa í vetrarbúningi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Heiðlóa í vetrarbúningi baðar sig. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Heiðlóa í vetrarbúningi baðar sig. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Heidlo22b

Heiðlóur á flugi. Lóan er hraðfleygur fugl. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lóan er hraðfleyg og hana ber einnig hratt yfir þegar hún hleypur um á jörðu niðri. Biðilsflug með hægum, djúpum vængjatökum og söng er einkennandi. Sé reynt að nálgast hreiður eða unga lóunnar þykist hún vera vængbrotin til að draga að sér athyglina og lokka óvininn burt. Það er kallað að hún barmi sér.  Hún er félagslynd utan varptíma. Þekktustu hljóð lóunnar eru söngurinn á varptímanum, „dírrin-dí“ eða „dýrðin-dýrðin“, sem hún syngur bæði sitjandi og á flugi.

Heiðlóa 33

Lóa afvegaleiðir óvin frá hreiði. Það kallast að hún barmi sér. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Lóan etur skordýr, t.d. bjöllur, áttfætlur, þangflugur, orma, snigla, skeldýr og eins ber á haustin. Hleypur ítrekað stutta spretti í ætisleit og grípur bráðina.

Heidlo40

Karllóa með ánamaðk. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Kvenfugl með nýklakinn unga. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Kvenfugl með nýskriðinn unga. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lóa verpur einkum á þurrum stöðum, t.d. í mólendi af ýmsum toga og grónum hraunum, bæði á láglendi og hálendi. Hreiðrið er opin laut milli þúfna eða á berangri, klætt með stráum. Lóan er utan varptíma aðallega í fjörum, lyngmóum og á túnum. Að áliðnu sumri fara lóurnar að safnast í hópa og búa sig undir brottför til vetrarheimkynnanna í V-Evrópu, aðallega á Írlandi, en einnig í Frakklandi, á Spáni og í Portúgal, þar sem þær dvelja við strendur og árósa. Lóan fer seint og kemur snemma, fyrstu lóurnar sjást venjulega í lok mars, þó aðalkomutíminn sé í apríl. Eitthvað af fuglum sést venjulega í fjörum fram í nóvember. Lóur sjást hér stöku sinnum á veturna. Lóan verpur einnig á Bretlandseyjum, Norðurlöndum og í Rússlandi.

Þjóðtrú og sagnir

Lóan er forspá um veður, hún gerist þögul á undan illviðrum á vorin, en syngur tveimur röddum, ef von er á sól og blíðu. Ef lóur hópa sig í fjörum, er það fyrir votviðri, en leiti þær til fjalla, er kuldi í vændum. Ef margar lóur hópa sig á haustin, er það fyrir hret.

Fólk leitaði lengi skýringa á því, af hverju farfuglarnir hyrfu á haustin og dúkkuðu svo aftur upp á vorin. Því var trúað, að þegar hausthret steðjuðu að, legðust lóurnar í dvala og svæfu allt til vors. Eru til sögur um að þær hafi fundist sofandi í klettagjótum og hellum, en vaknað ef þær voru bornar inn í hús. Sagt er að þær sofi með ungan birkikvist eða víðikvist í nefinu, sumir segja laufblað, og sé þetta tekið úr nefi þeirra, geti þær ekki vaknað aftur.

Heiðlóuhópur að hausti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Heiðlóuhópur að hausti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lóan var ekki meðal þeirra fugla sem skapaðir voru í öndverðu. Þegar Kristur var barn, lék hann sér eins og önnur börn, og eitt sinn hafði hann það sér til gamans að búa til fugla úr leir. Þetta var á helgidegi. Þá bar að Sadúsea nokkurn. Hann ávítaði drenginn harðlega fyrir þetta, því að það væri helgidagsbrot og ætlaði síðan að brjóta allar leirmyndirnar. Þá brá Kristur hönd yfir þær og um leið lifnuðu allir fuglarnir.

Heylóarvísa

Snemma lóan litla í
lofti bláu „dírrindí“
undir sólu syngur:
„lofið gæsku gjafarans –
grænar eru sveitir lands,
fagur himinhringur.

     Eftir Jónas Hallgrímsson.

Dirrindí

Með krús í hendi ég sat eitt sinn;
þá settist lóa við gluggann minn.
Í hennar augum var háð og spott,
og á hennar nefi var lóuglott
Hún söng dirrindí, dirrindirrindí,
bara dirrindí, dirrindirrindí.
En þó hún syngi bara dirrindí,
fannst mér vera þó nokkuð vit í því.

     Úr Dirrindí eftir Jónas Árnason.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Sílamáfur

Sílamáfur (Larus fuscus)

Silamafur17a

Fullorðinn sílamáfur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útliti og atferli

Sílamáfur líkist svartbaki en er allmiklu minni og nettari, enda var hann kallaður litli-svartbakur fyrr á árum. Fullorðinn sílamáfur er dökkgrár á baki og yfirvængjum, með áberandi dekkri vængbrodda, svarta með hvítum doppum. Er að öðru leyti hvítur á fiður. Ungfugl á fyrsta hausti er allur dökkflikróttur, dekkstur stóru máfanna, líkist silfurmáfi en handflugfjaðrir og stórþökur eru dekkri (enginn „spegill“ eins og á silfurmáfi), stélbandið er breiðara og gumpurinn hlutfallslega ljósari en á silfurmáfi. Búningaskipti á öðru og þriðja ári eru svipuð og hjá silfurmáfi og svartbaki, þeir lýsast að neðan og dökkna að ofan og fá fullan búning á fjórða ári. Kynin eru eins útlits, en karlfuglinn er oftast heldur stærri.

Sílamáfur á 2. sumri.

Sílamáfur á öðru sumri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Fætur fullorðins sílamáfs eru gulir en ekki bleikir eins og á svartbaki. Goggur er gulur með rauðum bletti, augu ljósgul með rauðum augnhring. Ungfuglar á fyrsta ári eru með dökkbrúnan gogg og bleiklita fætur, á þriðja ári eru fætur ljósgulir.

Búningaskipti máfa, frá því að þeir skrýðast fyrsta ungfuglabúning og uns kynþroska er náð, eru afar flókin og er greining ungra máfa eitt erfiðasta verkefnið sem fuglaskoðarar standa frammi fyrir. Grámáfur er samheiti yfir unga, stóra máfa, en á ekki við neina eina tegund. Máfar skipta að hluta um fjaðurham á fyrsta hausti. Þá fella þeir höfuð- og bolfjaðrir. Eftir það skipta þeir um fjaðrir tvisvar á ári, á haustin (ágúst−október) fella þeir allt fiður, en höfuð- og bolfiður síðla vetrar (febrúar−apríl).

Fullorðinn sílamáfur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Fullorðinn sílamáfur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Vængir sílamáfs eru mjórri og odddregnari en svartbaks og ná lengra aftur fyrir stélið þegar hann fellir þá að búknum. Hann er léttur á sundi. Sílamáfur er félagslyndur og algengur í þéttbýli, hann er spakari en svartbakur. Hann sækir meira í skordýr en aðrir stórir máfar. Röddin er hærri en svartbaks, en dýpri en silfurmáfs.

Lífshættir

Sílamáfur er með fjölbreyttan matseðil, en sandsíli og annar smáfiskur er þar ofarlega á lista. Leitar meira ætis á landi en aðrir stórir máfar, tekur þá m.a. skordýr og orma og fer í berjamó á haustin. Önnur fæða er t.d. hræ, úrgangur, egg og fuglsungar.

Hann verpur í mólendi og graslendi, á áreyrum, holtum, söndum og uppi á fjöllum, oftast við ströndina, en einnig inn til landsins, stundum í félagsskap við svartbak og silfurmáf. Hreiðrið er gert úr mosa, sinu og öðrum gróðri, oft staðsett milli steina eða þúfna.

Varpland sílamáfs. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Varpland sílamáfs. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sílamáfapar. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sílamáfapar. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Hreiður sílamáfs. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Hreiður sílamáfs. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Nýfleygur sílamáfsungi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Nýfleygur sílamáfsungi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Varp sílamáfs hefst hérlendis í maí og verpur hann yfirleitt þremur eggjum. Ungarnir eru nokkuð sjálfbjarga þegar þeir klekjast og yfirgefa hreiðrið innan nokkurra daga en halda sig yfirleitt í grennd við það. Þeir verða fleygir á 30-40 dögum. Sílamáfar hefja varp að meðaltali fjögurra ára gamlir en geta orpið þriggja ára.

Heimkynni og ferðir

Sílamáfur er nýr landnemi á Íslandi Talið er að hann hafi fyrst orpið hér á landi á árunum upp úr 1920, en varp við sunnanverðan Faxaflóa hófst upp úr 1950. Nú finnst sílamáfur um allt land og fer honum fjölgandi, sums staðar á kostnað svartbaks að því er virðist. Stærsta varpið er á Miðnesheiði á Rosmhvalanesi, aðallega innan girðingar Keflavíkurflugvallar. Það náði 36.600 pörum árið 2004, en hefur væntanlega minnkað síðan vegna ætisskorts. Afkoma sílamáfs, eins og flestra annarra sjófugla á Suður- og Vesturlandi, hefur verið léleg undanfarinn áratug vegna skorts á sandsíli.

Sílamáfur er eini máfurinn sem er alger farfugl. Hann dvelur við strendur Pýreneaskaga og NV-Afríku á veturna. Heimkynni hans eru annars í V- og N-Evrópu, austur til Síberíu.

Sílamáfur í ætisleit. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sílamáfur í ætisleit. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Vorboðinn hrjúfi

Sílamáfurinn er venjulega fyrstur farfugla til að koma til landsins og er það oftast nær á góunni, meðalkomutími fyrstu fugla 1998-2013 var 25. febrúar. Hann er því fyrsti fleygi vorboðinn og hefur fengið viðurnefið vorboðinn hrjúfi. Þegar þessi orð voru sett á blað, 25. febrúar 2016, bárust fregnir af fyrsta sílamáfinum frá Helguvík á Suðurnesjum! Þetta sýnir hversu stundvísir og vanafastir fuglar geta verið.

Þjóðtrú og kveðskapur

Sílamáfurinn er svo nýr landnemi, að engin sérstök þjóðtrú hefur myndast um hann, ef undan er skilin sú óbeit sem margir hafa á þessum fallega fugli, vegna nálægðar hans við manninn. Sílamáfar eiga það til að ná í auðfengna fæðu, sem ekki er beint ætluð þeim: kjöt af grillum, brauð á Tjörninni, sorp á víðavangi, hangandi fisk … Hungrið gerir ekki „mannamun“.

Sílamáfur í ölduróti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sílamáfur í ölduróti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Fuglinn í fjörunni

Fuglinn í fjörunni
hann heitir már.
Silkibleik er húfan hans
og gult undir hár.
Er sá fuglinn ekki smár,
bæði digur og fótahár,
á bakinu svartur, á bringunni grár.
Bröltir hann oft í snörunni,
fuglinn í fjörunni.

Theódóra Thoroddsen.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Æður – Æðarfugl

Æður – Æðarfugl (Somateria mollissima)

Aedur41at

Útlit og atferli

Æðarfugl er stór kafönd sem heldur sig nær eingöngu á og við sjó og er algengasta önd landsins. Æður er breiðvaxin með stórt aflangt höfuð og stutt stél. Fullorðinn bliki er auðþekktur, hvítur að ofan og svartur að neðan, með svarta kollhettu, ljósgræna flekki á hnakka og roðalitaða bringu. Vængir eru svartir með hvítum framjöðrum og löngum hvítum axlafjöðrum. Hvítur blettur er á hliðum undirgumps. Bliki á fyrsta vetri er dökkbrúnn með ljósari bringu og axlafjaðrir, lýsist síðan smátt og smátt á höfði og að ofan, kallast hann ¬„veturliði“. Æðarbliki á öðrum vetri eins og flekkóttur fullorðinn fugl. Í felubúningi er blikinn svipaður og ungfugl en allur dekkri, nær svartur, líka á bringu. Fullorðin kolla er dökkrauðbrún, þverrákótt að neðan en dökkflikrótt að ofan, fínrákótt á höfði og hálsi og er þetta eina öndin með þess konar litamynstur. Vængspeglar eru ógreinilegir, fjólubláir með hvítum jaðri. Ung kolla er mun dekkri og jafnlitari.

Æður 47

Goggur á æðarfugli er fremur stuttur og hár, þríhyrningslaga séður frá hlið, gulgrænn á blika en grár á kollu. Bæði kyn hafa grágræna fætur og brún augu.

Æður 12

Æðarfugl er fremur þungur á sér á flugi og flýgur beint, hratt og lágt yfir ölduföldum. Þarf að taka tilhlaup til að ná sér á flug. Hann er afbragðs kafari. Æðarfugl gengur reistur og vaggandi. Hann er ávallt félagslyndur og oftast spakur. Hljóðið blikans er þýtt og milt „úúú“ en hljóð kollunnar eru dýpri.

Lífshættir

Æður neita fjölbreyttrar fæðu úr dýraríkinu sem fuglinn kafar eftir á grunnsævi. Kræklingur er mikið étinn, einnig aðrar samlokur, sæsniglar, burstaormar, krossfiskar og krabbadýr. Þegar loðnu er landað sækja fuglarnir í hrognin í höfnum og einnig í annan fiskúrgang.

Æður 61

Æðarkolla með krossfisk.

Æður 55

Æðarfuglinn er sjófugl, einnig á varptíma, en slæðingur verpur við ár og vötn allt að 20 km frá sjó. Hann verpur í þéttum byggðum, oft í hólmum og eyjum en einnig á fastalandinu þar sem nýtur verndar. Hreiðrið er opið, fóðrað með hinum verðmæta dúni og oftast staðsett við einhverja mishæð eða í manngerðum varphólfum. Ungarnir eru bráðgerir, fara á stjá um leið og þeir eru orðnir þurrir. Fuglinn fer að verpa 3 – 5 ára og verður líklega að jafnaði 15 – 20 ára gamall.

Æður 01

Æður 14

Aedur_hreidur

Æðarhreiður.

Karlfuglinn er ávallt stærri en kvenfuglinn hjá andfuglum, og hjá öndum er hann yfirleitt mun skrautlegri. Kollan sér ein um útungun og ungauppeldi, en steggirnir (blikarnir) safnast í hópa til að fella flugfjaðrir. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Flugfjaðrir í vexti (líka nefndar blóðfjaðrir) eru mjög blóðríkar og blæðir úr þeim ef fuglarnir verða fyrir einhverju hnjaski. Því er talað um að fuglarnir séu í sárum eða særist á þessum tíma. Fullorðnu fuglarnir verða oft fleygir að nýju um svipað leyti og ungarnir verða fleygir. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá svonefndan felubúning sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi eftir að þeir verða fleygir að nýju.

Heimkynni og ferðir

Æðarfuglinn verpur meðfram ströndinni um land allt, þó minnst meðfram suðurströndinni. Er oft í stórum hópum, t.d. fella 1−200.000 blikar við Faxaflóa og stórir hópar fylgja loðnugöngum á útmánuðum. Hér við land eru auk þess vetrarstöðvar og fellistöðvar fugla frá A-Grænlandi. Æðarfugl verpur annars við strendur landanna umhverfis norðurheimskautið.

Dúntekja

Æðardúnninn er einstakt efni til einangrunar og er mikið notaður í sængur og föt. Æðurin tekur vernd og öllum aðgerðum mannsins til að hlú að henni afar vel, en hún var alfriðuð 1849. Þetta hafa íslenskir bændur hagnýtt sér og skapað friðlönd fyrir fuglinn og sinna þar um hann, þannig að einstakt er í heiminum þegar villt dýrategund á í hlut. Eini gallinn við þetta annars ágæta fyrirkomulag er, að sumir æðarbændur hafa horn í síðu arnarins og fleiri sjaldgæfra fugla, sem þeir líta á sem keppinauta. Þegar friður kemst á, verður æðarræktin dæmi um fullkomið samspil manns og náttúru, báðum til hagsbóta.

Æður 51

Rúmlega 400 jarðir á landinu eru með eitthvert æðarvarp og eru þær dreifðar um mestallt land, þó er engin varpjörð í Rangárvallasýslu og aðeins ein í Vestur – Skaftafellssýslu. Árleg dúntekja síðari ára er um 3000 kg af fullhreinsuðum æðardúni. Þótt æðardúnn hafi afar lengi verið verðmæt útflutningsvara, þá sveiflast verðlag á honum verulega, en þegar best lætur þá þarf ekki nema dún úr 5-6 hreiðrum til þess að gefa sama nettóarð til bóndans eins og ein vetrarfóðruð kind.

Þó svo að æðarbændum sé mjög í nöp við tófuna, á hún þó stóran þátt í því að æðarrækt er arðbær atvinnugrein. Tófan þéttir vörpin, heldur fuglinum í eyjum, hólmum og töngum, þar sem hún nær ekki til eða auðvelt er að vernda fuglinn fyrir henni. Það hefur verið sannreynt með tilraunum, að þar sem engar tófur eru, dreifist fuglinn um allar koppagrundir, svo mun erfiðara og tímafrekara er að nýta varpið. Tófan er því einn af bestu vinum æðarbænda, þó svo að þeir muni seint viðurkenna það.

Æður 48

Þjóðtrú

Íslensk þjóðtrú virðist ekki geyma margt um æðina, fremur en aðrar andategundir, þrátt fyrir það hversu verðmæt hún er. En þeim mun meira hefur verið ort.

Skrautlegur ættingi

Æðarkóngur (Somateria spectabilis) er skrautlegur ættingi æðarinnar og kemur hingað frá Grænlandi og Svalbarða. Fullorðinn bliki, kóngurinn, er með skrautlegan rauðgulan hnúð framaná gráu höfðinu og með svart bak, kollan, drottningin, er svipuð æðarkollu, en þekkist best frá henni á höfuðlagi og ryðbrúnni lit og hreisturmynstruðum síðum og bringu. Æðarkóngur sést hér allt árið, en er algengastur seinni hluta vetrar. Blikar paraðir íslenskum æðarkollum eru árvissir í vörpum og kynblendingar, blikar, sjást flest ár. „Æðardrottningar“ eru sjaldséðar á sumrin, en stöku sinnum hafa sést pör á vorin.

Aedarkongur17v

Æðarkóngur.

 

Vorvísa 1854

Vorið er komið og grundirnar gróa,
gilin og lækirnir fossa af brún.
Syngur í runni og senn kemur lóa,
svanur á tjarnir og þröstur í tún.
Nú tekur að hýrna um hólma og sker,
hreiðra sig blikinn og æðurin fer.
Hæðirnar brosa og hlíðarnar dala,
hóar þar smali og rekur á ból.
Lömbin sér una um blómgaða bala,
börnin sér leika að skeljum á hól.

Jón Thoroddsen.

Hér snýr skáldið kynhlutverkunum við, væntanlega af bragfræðilegum ástæðum.

 

Vor í varplandi

Manstu vor í varplandi

Græn strá gægðust úr sinu
Leysingavatn fyllti lautir

Síðan komu sóleyjar og hrafnaklukkur
körfur hvannanna sendu frá sér angan

Víðirinn stóðst vorhretin
vatnið gat orðið að spegli

Þetta vor kom æðarkóngurinn í varpið

Þóra Jónsdóttir frá Laxamýri.

 

Stoltur bliki

Mörgum kær er minning sú;
mönnum léttir sporin,
þegar hreykið ómar ú – ú
æðarfugls á vorin.       

Ungar í hreiðri

Meðan kroppinn vantar væng
og vit í ríkum mæli,
er gott að eiga gráa sæng
og góðan dún í bæli.      
Einmana æður

Hausta tekur, magnast mein,
myrkur, sorg og nauðir.
Hnípin sit ég eftir ein
– ungarnir mínir dauðir.

Eysteinn G. Gíslason í Skáleyjum.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

 

Haftyrðill

Haftyrðill (Alle alle)

Haftyrðill í vetrarbúningi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Haftyrðill í vetrarbúningi.

Útlit og atferli

Haftyrðill er smæstur svartfugla og einn af minnstu sjófuglunum. Hann er þybbinn, hálsstuttur og mjög kubbslegur, á stærð við stara. Vængirnir eru stuttir. Á sumrin er hann svartur að ofan, niður á bringu, og hvítur að neðan. Hvítar rákir eru um axlir. Á veturna verður hann hvítur á bringu, kverk og upp á vanga. Stuttur, keilulaga goggurinn er svartur eins og fæturnir, augu eru dökk.

Haftyrdill10

Haftyrðlar á varpstöðvum á Svalbarða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Haftyrðillinn flýgur með hröðum vængjatökum eins og lundi og er ekki ósvipaður honum á flugi. Þó eru vængir hans styttri og undirvængir dökkir. Fuglinn virðist hálslaus á sundi og flugi. Hann er venjulega fremur djúpsyndur, með stélið lítið eitt uppsveigt og kafar ótt og títt en flýtur hátt í hvíld. Kvikari í hreyfingum en aðrir svartfuglar. Á varpstöðvunum fljúga fuglarnir um í hópum og kalla mikið. Utan varptíma er hann þögull.

Haftyrdill13a

Haftyrðlar á varpstöðvum við Svalbarða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Haftyrðill kafar eftir æti eins og aðrir svartfuglar, aðalfæðan eru svifdýr og smákrabbadýr: ljósáta, marflær og þanglýs.

Hann verpur í urðum og skriðum undir klettum og sjávarbjörgum eða í klettasprungum og rifum. Dvelur á veturna aðallega við hafísröndina og leitar lítið að landi nema á varptíma.

Haftyrdill14a

Haftyrðlar á flugi að sumri til. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Heimkynni og útbreiðsla

Haftyrðill er heimskautafugl sem varp áður á nokkrum stöðum við norðanvert landið. Um aldamótin 1900 urpu nokkur hundruð pör í Grímsey, á Langanesi og e.t.v. í Kolbeinsey, honum fækkaði síðan mjög, vegna hlýnandi veðurfars að því talið er. Hann er því fyrsti fuglinn sem við missum af völdum gróðurhúsaáhrifa, en væntanlega ekki sá síðasti.

Til skamms tíma urpu fáein pör í Grímsey, þar sem fuglinn var stranglega friðaður, en hann er nú alveg horfinn þaðan. Haftyrðill er mjög algengur í löndum norðan við okkur, t.d. á Grænlandi, Jan Mayen og Svalbarða, austur til Franz-Jósefslands. Árlega sést talsvert af honum hér á veturna, sérstaklega eftir norðanáttir og hann fylgir oft hafís. Þá getur haftyrðla hrakið langt inn á land í stórviðrum.

Haftyrðill 06

Haftyrðill í vetrarbúningi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú og sagnir

Fyrrum vakti það furðu þegar haftyrðlar fundust á veturna, dauðir eða lifandi, og vissu menn ekki hvaðan þessi furðufugl var kominn. Talið var að þetta væri þjóðsagnafuglinn halkíon. Hann átti samkvæmt grískum þjóðsögum að verpa úti á rúmsjó:

Einn fugl, sem heitir halkíon

Einn fugl, sem heitir halkíon
á hafinu blá,
búinn af Drottni
bústað á.

Um hávetur sér hreiður
úti á hafinu býr,
þá drjúg er nótt
en dagur rýr.

Haftyrðill var sagður fyrirboði um illviðri, en annars er lítið í þjóðtrúnni um fuglinn, fyrir utan söguna um halkíon. Litlar sagnir eru af nýtingu haftyrðils hér á landi, aftur á móti kæsa grænlendingar fuglinn og þykir herramannsmatur.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.