Ábúendur í Langholti ásamt vísindamönnunum: Frá vinstri:

Ábúendur á Ytri-Görðum ásamt vísindamönnunum: Frá vinstri: Dr. Jan Heinemeier, dr. Hilmar J. Malmquist, dr.  Hreggviður Norðdahl, Svava Svandís Guðmundsdóttir, bóndi, dr. Árný Erla Sveinbjörnsdóttir og Símon Sigurmonsson bóndi.

Föstudaginn 25. september s.l. fór hópur vísindamanna frá Náttúruminjasafninu og Háskóla Íslands vestur á Snæfellsnes til að taka sýni úr hauskúpu af rostungi sem fannst Garðafjöru í lok ágúst. Í hópnum voru auk forstöðumanns Náttúruminjasafnsins, Hilmars J. Malmquists, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir og Hreggviður Norðdahl jarðfræðingar við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Jan Heinemeier, eðlisfræðingur frá Árósarháskóla.

 

Þó talsvert sé til af beinaleifum rostunga sem fundist hafa í jarðlögum á Íslandi, bæði smíðisgripum og náttúrulegum beinum, hafa munirnir nær ekkert verið rannsakaðir með óyggjandi hætti m.t.t. aldurs þeirra. Beinaleifar úr aðeins fimm rostungum hafa verið aldursgreindar til þessa með geislakolsaðferð (C-14), þ.e. nýverið í rannsókn Náttúruminjasafnsins og samstarfsaðila á beinum fjögurra rostunga frá Barðastöðum á Snæfellsnesi, og í rannsókn Páls Imslands jarðfræðings á rostungstönn sem fannst fyrir liðlega tíu árum í jökulurð við Hoffellssand á suðausturhorni landsins.

Samstarf um rannsóknirnar

Forsagan að ferðinni í Garðafjöru er að á árinu 2008 rak þrjá vel tennta rostungshausa og nokkrar stakar skögultennur upp í fjöru við Barðastaði í Staðarsveit. Einn hausinn rataði til Náttúruminjasafns Íslands þegar Guðmundur G. Þórarinsson færði safninu hann að gjöf. Varð það kveikjan að samstarfi Náttúruminjasafnsins við vísindamenn og –stofnanir um rannsókn á fornlíffræði rostunga hér við land. Markmiðið með rannsóknunum er að grafast fyrir um aldur og kyn dýranna, skyldleika við aðra rostungsstofna í norðanverðu Atlantshafi og ástæður þessara beinafunda á sunnanverðu Snæfellsnesi. Að rannsókninni standa auk Náttúruminjasafnsins, Líffræðistofa Háskóla Íslands, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Fornleifafræðistofan. Með rannsóknunum er vonast til að varpa ljósi á fornvistfræði dýranna og kringumstæður í náttúru landsins til forna, sem og að skýra þátt rostunga í menningarsögulegu samhengi fyrir þjóðina fyrr á öldum. Fundurinn við Barðastaði er talinn renna stoðum undir kenningar um að rostungar hafi haft hér fasta viðveru áður fyrr og jafnvel haft látur og kæpt. Til rannsóknar eru einnig leifar um 50 annarra rostunga sem fundist hafa hér við land allt frá 1884 og varðveittar eru hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Þetta reyndist vera heillegur haus af fullorðnu dýri, um tíu kiló að þyngd, og báðar skögultennurnar heilar. Árný Sveinbjörnsdóttir jarðfræðingur segir í viðtali við Ríkisútvarpið að beinin séu óvenju vel varðveitt og sýnatakan eyðileggi þau ekki á neinn hátt.

Árný Erla Sveinbjörnsdóttir jarðfræðingur og  Jan Heinemeier eðlisfræðingur undirbúa sýnatöku í stofunni á Ytri-Görðum.

Beinin frá Barðastöðum reyndust við C-14 aldursgreiningu vera 2100-2200 ára gömul, eða frá því einni eða tveimur öldum fyrir Krists burð. Búast má við að rostungshausinn sem fannst í sumar í Garðafjöru sé álíka gamall, enda svipar honum mjög til hinna hausanna. Þetta er heillegur haus af fullorðnu dýri, um 10 kg að þyngd, og báðar skögultennurnar heilar. Árný Erla Sveinbjörnsdóttir jarðfræðingur segir í viðtali við Ríkisútvarpið að beinin séu óvenju vel varðveitt og að sýnatakan skaði þau ekki.

Hvaðan koma rostungsbeinin?

Rostungar (Odobenus rosmarus) eru meðal stærstu hreifadýra jarðar og skiptast í tvær deilitegundir, kenndar við Atlantshaf og Kyrrahaf. Atlantshafsbrimlarnir verða um 3 metrar á lengd og vega 800 til 1000 kg, urturnar eru um 2,5 metrar og vega 600 til 800 kg. Kyrrahafsdeilitegundin verður nokkuð stærri.

Skögultennur og aðrar leifar rostunga finnast nokkuð oft í fjörum hér við land, aðallega eftir mikið brim og einnig við dýpkunaraðgerðir í höfnum og ósum eins og heyra má í RÚV í viðtali við Bjarna F. Einarsson fornleifafræðing við Fornleifafræðistofuna. Flestir fundir af þessu tagi eru á vestanverðu landinu en þar er líka að finna örnefni eins og Hvallátur í Breiðafirði og norðan Látrabjargs, Hvallátradal við innanverðan Dýrafjörð og Rosmhvalanes á Reykjanesi. Þessi örnefni benda til þess að rostungar, eða rosmhvalir eins og þeir voru einnig nefndir fyrr á öldum, hafi kæpt hér við land, jafnvel á landnámsöld því Hvallátur í Breiðafirði er landnámsjörð. Engar beinar sannanir um rostungslátur eru þó til og margir telja að við landnám hafi verið of hlýtt fyrir rostungana hér á landi.

Í seinni tíð hafa rostungar slæðst til landsins nokkrum sinnum, nú síðast í sumar og þykir ávallt fréttnæmt. Á síðustu öld er vitað um rúmlega 20 skipti þar sem lifandi rostungur sást við strendur landsins. Athyglisvert er að útbreiðsla lifandi rostunga er allt önnur en fundur á beinaleifum þeirra. Lifandi rostungar hafa fyrst og fremst sést við Vestfirði, Norðurland og Austfirði.

Rostungsleifar hafa einnig fundist við fornleifauppgröft í mannvistarleifum eins og fjallað er um í grein Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings við Fornleifafræðistofuna: Róum við í selin. Skögultennur rostunga voru verðmæt útflutningsvara frá Grænlandi á þjóðveldisöld og sagnir eru til um haganlega útskorna smíðagripi, jafnvel konungsgersemar, sem kunna að hafa verið skornir út hér á landi.

Stöndum vörð um beinin

Það voru þýskir ferðamenn sem fundu rostungshausinn í Langaholtsfjöru í sumar en fullyrt hefur verið að ferðamenn hafi í gegnum tíðina flutt rostungstennur og -bein úr landi. Áhöld eru um hvort beinafundirnir á sunnanverðu Snæfellsnesi falli undir náttúruverndaralög nr. 44/1999 (40.gr., ákvæði um vernd steingervinga) eða lög nr. 80/2012 um verndun menningarverðmæta (45. gr., töluliður nr. 12) og þá hvort ekki sé óheimilt að hirða náttúruminjarnar og flytja úr landi án leyfis. Agnes Stefánsdóttir, fornleifafræðingur hjá Minjastofnun Íslands, ræddi þessi mál á RÚV fyrir skömmu.

Miklu máli skiptir að finnendur náttúruminja af því tagi sem hér um ræðir geri Náttúruminjasafninu og Náttúrufræðistofnun viðvart og tilkynni um fundi. Upplýsingar um fundarstað og tíma skipta grundvallarmáli fyrir vísindin og jafnframt gefst tækifæri til að sinna mælingum og sýnatöku á gripunum.

Valdar heimildir um rostunga:

Bjarni Sæmundsson. 1897. Om hvalrossens forekomst ved Island i ældre og nyere tid. Zoologiske meddelelser fra Island. Viden. Medd. Nat. Foren. 49: 201-210.

Bjarni Sæmundsson. 1932. Rostungsheimsóknir síðari árin. Náttúrufræðingurinn, 2. árg., bls. 37-40.

Vilmundur Jónsson. 1932. Rostungar á Hornströndum, Náttúrufræðingurinn, 2. árg., bls. 155-156.

Björn Guðmundsson. 1937. Rostungsheimsókn. Náttúrufræðingurinn, 7. árg., bls. 4-5.

Ævar Petersen. 1993. Rostungar við Ísland að fornu og nýju. Bls. 214-216. Í: Villt íslensk spendýr (Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson ritstjórar). Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd. Reykjavík. 351. bls.

Páll Imsland. 2004. Landsig og landris i Hornafirði. Áhrif litlu-ísaldar á náttúrufar og mannlíf. Bls. 92-123. Í: Jöklaveröld. Náttúra og mannlíf (Helgi Björnsson ritstjóri). Skrudda, Reykjavík. 408 bls.

Páll Hersteinsson (ritstj. og aðalhöfundur). 2004. Íslensk spendýr. Með vatnslitamyndum og skýringarmyndum eftir Jón Baldur Hlíðberg. Vaka-Helgafell, Reykjavík. 344 bls.

Bjarni F. Einarsson. 2011. Róum við í selin. Bls. 31-52. Í: Fjöruskeljar. Afmælisrit til heiðurs Jónínu Hafsteinsdóttur sjötugri. 29. mars 2011. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Rit 81. Reykjavík.